Færsluflokkur: Bloggar
6.9.2021 | 15:19
3099 - Gengilbeinur aflagðar
Næsta stig í sjáfvirkni (eftir pokasvæðið alræmda) verður liklega að gengilbeinur verða með öllu aflagðar og þjónar jafnvel líka. Reyndar hefur það lengi tíðkast á ódýrari veitingastöðum að láta viðskiptavinina (les: þrælana) ná í matinn sinn sjálfir og borga hann jafnvel fyrirfram. Hvers vegna skyldu aðrir veitingastaðir ekki taka upp á þessu sama. Er nokkur hemja að vera að borga þeim laun sem gera lítið.
Las um daginn söguna Kórvilla á Vestfjörðum sem ku vera eftir Halldór Kiljan Laxness. Sennilega hef ég lesið hana fyrir ævatöngu, en ekki skilið hana almennilega þá. Satt að segja er þessi saga algjör snilld og hægt að segja að hann lýsi vel ruglinu í gamalli kerlingu. Það er engin tilviljun að hún skuli vera eftir sjálft Nóbelsskáldið. Hef löngum haft horn í síðu Halldórs Laxness. Það er að segja mér hefur fundist stóru skáldsögurnar hans virkilega góðar en það sem hann hefur skrifað eftir Brekkukotsannál vera óttalegt bull og sjálfsupphafning. Einkum hefur mér fundist leikritin hans afspyrnu léleg. Og kristihald undir Jökli mestan part óttalegt bull.
Hver er munurinn á Sunni og Shia? Þessu hef ég velt fyrir mér dálítið að undanförnu án þess að komast að niðurstöðu. Mín helsta niðurstaða er sú að þegar trúarbrögð (tala nú ekki um öfgafull trúarbrögð) hafa mikil áhrif á stjónarfar séu þau alltaf til bölvunar. Alveg sama hvort um er að ræða Sunni, Shia, Kaþólsku eða Mótmælendatrú. Best hlýtur að vera að láta iðkendur trúarbragða sem mest í friði. Að minnsta kosti meðan þeir drepa ekki hvern annan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2021 | 14:17
3098 - USA og EBE
Ég er stuðningsmaður aðildar Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Andstæðingar þeirrar aðildar hafa mikið að segja um ættjarðarást og þessháttar, sem ég er að mestu leyti ósammála.
Í þessu stutta bloggi ætla ég samt ekki að gera það að umtalsefni, heldur ætla ég að gera, að gefnu tilefni samanburð á Bandaríkjum Norður-Ameríku og Efnahagsbandalaginu hvað sumt annað áhrærir eins og það kemur mér fyrir sjónir nákvæmlega í dag.
Andstæðingar aðildar hafa mjög haldið því á lofti að Efnahagsbandalagið stefni ákveðið að stórríki og stórveldi á sama eða svipaðan hátt og tíðkast í Bandaríkjunum. Þetta er rangt eins og ég mun leitast við að sýna hér á eftir.
Þó löggjöf ríkja í USA varðandi þungunarrof eða fóstureyðingarmál og ýmislegt fleira sé ákaflega mismunandi í þar og í Efnahagsbandalaginu er ekki þar með sagt að þau stefni að samskonar markmiðum.
Utanríkismál eru alfarið á könnu alríkissjórnarinnar i USA, auk þess sem sameiginleg lögregla þar er afar valdamikil. Sömuleiðis er Hæstiréttur Bandaríkjanna æðri öðrum dómstólum þar. Svo er ekki í EBE.
Þá er ég kominn að því efni sem einkum aðskilur Efnahagsbandalagið og USA, en það eru ákvæðin um úrsögn. Í USA geta ríkin yfirleitt allsekki sagt skilið við alríkið og er Þrælastriðið sem sumir nefna svo, en aðrir allt annað, gleggsta dæmið um slíkt. Brexit sem svo hefur verið kallað og flestir eru orðnir hundleiðir á, sannar svo ekki verður um villst að þessu er ekki eins varið í Efnahagsbandalaginu. Sameiginlegt tungumál gerir þennan mismun eðlilegan í USA en miklu síður í Evrópu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2021 | 10:41
3097 - Kosningar
Í dag telst mér til að sextíu og þrjú á séu síðan Íslendinar færðu landhelgi sína út í tólf mílur. (Af hverju er miðað við mílur en ekki kílómetra?) Ég hef væntanlega verið sextán ára gamall þá. Man eftir að þegar þetta var, þá var ég að vinna hjá Gunnari í Álfafelli. Var sennilega að þvo kalkskyggingu af heima- og elstu gróðurhúsablokkinni hjá honum. Eftirminnilegur dagur. Íslendingar æstir úr hófi fram og miklir Bretaandstæðingar.
Þó ég muni eftir ýmsu úr landhelgisstríðunum er ekki ástæða til að fjölyrða um það hér og nú. Knattspyrna sem alltaf var kölluð fótbolti í denn, virðist vera mál málanna nú um þessar mundir. Mér finnst fótboltinn ekki einu sinni vera merkilegasta íþróttin á Íslandi. Útbreidd er hún að vísu. Því er ekki nokkur leið að mótmæla.
Fylgdist svolítið með stjórnmálaumræðunum í gærkvöldi. Finnst leiðtogar flokkanna forðast of mikil að tala um vinstri og hægri stefnur í þessu sambandi. Margir kjósa í samræmi við þau stefnumál. Of mikil einföldum felst í því að gera ráð fyrir að þeir merkimiðar tákni eingöngu mikil eða lítil ríkisafskipti. Margt fleira getur falist í þessum stefnuskilgreiningum. Kjósendur gerðu kannski réttast í því að skilgreina með sjálfum sér hvort stefna tiltekinna flokka er meira hægri eða vinstri sinnuð. Talsmenn þeirra vita það greinilega ekki og kjósendur upp og ofan hafa mun meira vit á þessu en þeir.
Sjálfur hneigist ég meira til vinstri, að því er mér finnst, og mun meðal annars líklega kjósa Píratana þess vegna. Já, en þeir eru ekki vitund vinstri sinnaðir kynni einhver að segja. Því er til að svara að hver og einn ætti að ákveða hvort honum finnst flokkur vera hægri eða vinstri-sinnaður. Jafvel er hægt að ímynda sér að einhverjir álíti Sjálfstæðisflokkinn vinstri sinnaðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.8.2021 | 14:17
3096 - Ofbeldi
Ekki er það ætlunin að skrifa á hverjum degi um Talibana og þessháttar. Greinilega vekur það samt nokkra athygli. Kannski veldur það því að fleiri lesa þetta blogg en annars mundu gera það. Attention span fjölmiðlafólks er fremur lítið. Sagnfræðinga sömuleiðis. Covid fréttir og Talibanasögur tröllríða öllu nú um þessar mundir.
Stjórnendur RUV virðast treysta næsta mikið á að áðurnefnt span útvarpshlustenda og sjónvarpsglápara sé afar lítið. Annars mundu þeir varla endurflytja svona mikið af efni á aðalrás Sjónvarpsins og Rás eitt. Ekki dugir að fjasa um að það sé sumar og þessvegna sé þetta svona. Vandræðalaust ætti að vera að koma sér upp svolitlum lager af efni. Kannski er ódýrara að hafa þetta svona, en þá ætti að vera hægt að búa til fjáröflunarleiðir. Nógu mikið borgum við sauðsvartur almúginn fyrir þessi ósköp. Annars eru líklega flestir hættir að horfa á línulega dagskrá og sleppa þannig við álnarlanga auglýsingatíma og horfa bara á það sem þeir hafa áhuga fyrir. Auglýsingapeningar eru þar að auki á hraðri leið úr landinu.
Þó næstum öll tónlist sé fyrst og fremst hávaði, er hún líka afskaplega endurtekningasöm. Hugsanlega er áhugi á henni fyrst og fremst arfur frá frumbernsku þar sem máttur endurtekningarinnar birtist einkum í sjónvarpsauglýsingum.
Stjórn KSÍ er um þessar mundir á löngum ofbeldisfundi. Sú menning sem viðgengist hefur í knattspyrnuheiminum er vissulega ofbeldisfull. Landslið karla í fótbolta hefur miklu hlutverki að gegna þarna, því þeir eru fyrirmyndir margra sem yngri eru.
Nú er nóg komið af svartagallsrausi og rétt að taka upp léttara hjal. Verst hvað ég er hrikalega lélegur í svoleiðis löguðu. Allavega get ég reynt. Nei, þetta er vonlaust og eins gott að hætta meðan hægt er. Bjarni frændi minn, bóksali, fyrrverandi alþingismaður og rithöfundur á Selfossi sagði eitt sinn að Íslenzk fyndni væri stórskrítin og hann væri svona skrýtinn af því að hann hefði ásamt pabba lesið yfir sig af þesskonar bókmenntum. Gott ef íslenskir uppistandarar eru ekki sama markinu brenndir. Sá eitt slíkt Eldjárn á Netflix um daginn og entist því miður ekki til að horfa á það allt. Dósahlátur er samt ágætur stundum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2021 | 12:13
3095 - Ýmislegt
Í gær skrifaði ég svolítið um Talibana. Sennilega er ég talinn hægri sinnaður og draga taum þessara ofbeldismanna og vera þar að auki efasemdarmaður í loftslagsmálum. En mér er alveg sama. Mér finnst ég þurfa að skrifa um alþjóðastjórnmál, frekar en eitthvað annað. Íslensk stjórnmál þykja mér vera smáskitleg. Með þessu er ég að sjálfsögðu að setja mig á háan hest, sennilega án þess að hafa efni á því. Það er samt ágætt að geta fabúlerað óáreittur og þó fáir leggi í að svara þessu rugli í mér eru samt ótrúlega margir sem leggjast svo lágt að lesa þessi ósköp.
Enn og aftur eru amerískir (les: bandarískir) fjölmiðlar teknir að hampa Trump. Eðlilegt er að gagnrýna Biden bandaríkjaforseta, en satt að segja er mér alveg sama hvernig fólk er drepið. Hvort sem hermenn eru drepnir eða saklausir borgarar með sprengjum og aðgerðin kölluð stríð, eða að sjálfsmorðssprengjufólk og Talibanar vaði uppi álít ég að um morð sé að ræða ef fólk er drepið á þennan hátt, og geri ekki ráð fyrir að þeir sem fyrir þessu verða, greini þar á milli. Gagnrýnin á Biden beinist fyrst og fremst að því að fólk hafi ekki verið drepið á réttan hátt. Eðlilegra er talið að drepa fólk öðruvísi. Afskiptasemi um innanríkismál hefur oft verið fordæmd. Ef meirihluti Afgana vill að ofsatrúarmenn stjórni á að leyfa þeim það. Öfgamenn í trúmálum og ýmsu öðru eru víða við völd.
Kosningalög eru stórgölluð hér á Íslandi. Ekki nóg með það að kosningarétturinn sé misjafn eftir því hvar búið er, heldur borga flokkarnir sjálfum sér fyrir að vera til. Þeir stærstu fá jafnan mest. Með öllum þessum smáflokkum gætu líka 25 til 30 prósent þeirra sem þó greiða atkvæði orðið algerlega áhrifalausir. (Til hvers er annars að greiða atkvæði?) Fleira mætti telja svipaðs eðlis. En svona vilja stóru flokkarnir hafa þetta og erfitt er að gera öllum til hæfis í þessu sem öðru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2021 | 11:12
3094 - Enn um Talibana
Moggabloggið virðist hafa gefist upp á fésbókinni. Í gær skrifaði ég dálítið um Talibana og ætlaði að auglýsa það á fésbókinni eins og ég er vanur. Fann ekki þann hnapp sem ég geri það oftast með og þar af leiðandi geri ég ráð fyrir að stjórnendur Moggabloggsins hafi gefist upp á fésbókinni. Nú, jæja ég get þó bloggað á Moggablogginu ennþá. Kannski þetta verði til þess að ég taki fésbókina aftur í sátt. Flestir virðast nota hana töluvert mikið.
Það er afleitt að utankjörfundaratkvæðagreisla skuli vera hafin áður en öll framboð eru fram komin. Þetta er klúður og Alþingismenn hljóta að bera ábyrgð á þessu. Eiginlega er það ekki ásættanlegt að allskonar klúður og mistök skuli vera jafn algeng þarna og raun ber vitni. Það þing sem kosið verður núna í september þarf endilega að ráða bót á þessu. Alþingismenn eru ekkert of góðir til þess að lesa vel yfir það sem þeir samþykkja. Hefðir og venjur eru alltof ráðandi þarna.
Varðandi lagaskilning er það orðið alltof algengt að sú skoðun sé almenningseign að hægt sé að skjóta ágreiningi við hæstarétt til erlendra dómstóla. Til dæmis til Mannréttindadómstólsins. Svo er ekki. Úrskurðir hæstaréttar eru endanlegir. Álit annarra dómsóla og erlendra kann að skipta máli, en um endanlegan dóm er alls ekki að ræða. Hugsanlega er þetta vegna ruglinslegra laga frá Alþingi.
Af hverju er sjálfsagt og eðlilegt að hjálpa Afgönum, en allt í lagi virðist vera þó herinn í Myanmar (Burma) drepi alla sem þeim er illa við? Talibanarnir segjast a.m.k. ætla að vera til friðs. Held ekki að um sömu eða samskonar menn sé að ræða og fyrir rúmum 20 árum. Hver veit nema þeir séu skárri núna. Miklar breytingar hafa orðið. Ekki síður i Afganistan en annarsstaðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.8.2021 | 15:35
3093 - Talibanar
Öll ofsatrú er til bölvunar. Ekki síst er hægt að heimfæra þetta á Talibanana í Afganistan þessa dagana. Auk þess eru þeir Íslamstrúar svo engin furða er þó þeir séu fordæmdir hér á Vesturlöndum. Ósamræmi er samt í því að annarsvegar er a.m.k. hálf þjóðin þar sögð í hættu (kvenkynið sérstaklega) og hinsvegar að NATO-þjóðirnar segjast ætla að bjarga öllum þaðan sem á annað borð vilja fara. Afganir eru sagðir vera næstum 40 milljónir talsins.
Samkvæmt fréttum má ekki bera blak af Talibönum þessa dagana. Það gerir samt Bjarni frændi minn Harðarson í Fréttablaðinu í dag. Einhvers staðar sá ég haft í hótunum við þá sem það voguðu sér. Auðvitað veit ég ósköp vel að fáir hugsa á þann veg en umræðan um Afganistan hefur verið ákaflega einlit síðustu daga.
Ekki er því að neita að ýmislegt angrar Afgani þessar vikurnar. Ekki aðeins hefur geysað stríð þar í allmarga áratugi, heldur eru það núna Talibanar, þurrkar, og Covid-19 sem þeir þurfa að óttast. Takið eftir því að kóvítinn er ekki efstur á lista þarna þó hann sé það víða. Lýðræði tíðkast ekki í Afganistan. Ekki heldur í Kína. Það er sagt vera til staðar í Rússlandi meðal annars, en kannski er það einskonar föðurlandsást sem grasserar þar. Margir telja að lýðræðið sé æðsta og merkasta stjórnskipulagið og heimili þess og varnarþing sé í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ef dollarinn mundi yfirgefa USA yrði sennilega lítið eftir þar. Ofsatrúin og samsæriskenningarnar ásamt fáfræðinni um heiminn utan Bandaríkjanna eru áberandi í bandarísku þjóðlífi. Og ekki er hægt þar fyrir fylkin að hætta að vera memm. Völd og áhrif alríkisins eru alltof mikil þar.
Lagaflækjur í Bandaríkjunum eru eins miklar og í Njálu. Ef lagaflækjum og ættartölum væri sleppt í Brennu-Njáls sögu gæfi hún nútíma glæpasögum ekkert eftir. Jafnvel ekki í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2021 | 16:06
3092 - Þjóðlegur fróðleikur
Sennilega er kominn tími til að ég bloggi pínulítið. Covid-19 og talibanafréttir læt ég eiga sig að sinni, þó flestum þyki það merkilegustu fréttirnar núumstundir. Það eru svo margir sem sjá patent-lausnir á þeim málum að ekki er á það bætandi. Auðvitað hef ég mínar skoðanir á þeim málum öllum saman og hvernig þau tengjast þeim málum sem ég þó skrifa um.
Loftslagsmál og kosningar falla eiginlega alveg í skuggann í fréttum á Íslandi að þessu sinni. Ekki ætla ég að fjölyrða mikið um þau mál. Að minnsta kosti ekki núna. Margir verða víst til þess á næstunni. Persónuleg mál er ekki líklegt að verði mikið til umræðu á blogginu og þaðan af síður vísnagerð og þjóðlegur fróðleikur þó það séu þau mál sem ég hef mestan áhuga á þessi dægrin.
Hef að undanförnu verið að lesa bækur eftir Sverri Krisjánsson og Tómas Guðmundsson, en eins og kunnugt er lögðu þeir saman og skrifuðu afar vinsælar bækur undir sameigilega heitinu Íslenzkir örlagaþættir á árunum 1964 til 1972 eða lengur. Núna er ég að lesa bókina Íslenzkt mannlíf eftir Jón Helgason. Sú bók er gefin út árið 1962 og sögð vera númer 4.
Ekki ætla ég mér þá dul að endursegja sögurnar sem frá þessum listamönnum eru komnar en vil bara benda mönnum á að lesa þær hafi þeir einhvern áhuga á þjóðlegum fróðleik eða sagnfræði. Þessar bækur allar eru fengnar fyrir lítinn pening á mörkuðum ýmiss konar. Sannorðir hafa sagt mér að bókum sé í stórum stíl hent nútildags hér á Íslandi og eru það ekki meðmæli með sjálfri bókaþjóðinni. Ekki þykir lengur fínt að hafa bókahillur upp um alla veggi einsog einu sinni var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2021 | 10:22
3091 - Þekktu sjálfan þig
Mikilvægasta lexían sem ég hef lært á langri ævi er Þekktu sjálfan þig. Já, ég get sagt á langri ævi vegna þess að ég er að verða áttræður. Þetta með að þekkja sjálfan sig á bæði við um líkamlegt og andlegt ástand. Þekktu sjálfan þig, sögðu Grikkir til forna, eða voru það kannski Rómverjar. Varla getur það skipt miklu máli. Ef megrunarkúr er málið þá skiptir viljastyrkurinn kannski mestu. Þetta datt mér í hug í gær þegar ég var að lýsa nýjasta megrunarkúr mínum og var að lýsa því að ég væri í svelti fyrri hluta dags. Þá gæti ég bara drukkið vatn og kaffi. Einhver spurði hvort ég settí þá mjólk út í kaffið. Kannski er í þessu einmitt fólginn leyndardómurinn varðandi megrunarkúrana. Árangur næst ekki nema með því að neita sér um mat. Um að gera að setja samt sjálfur þær reglur sem eiga að gilda, en festa sig ekki í því sem aðrir segja. Fer meira að segja sársvangur út í Bónus þó það sé í blóra við flestar ráðleggingar. Ég nota líka að sjálfsögðu mjólk úti kaffið og segi ýmist að það sé til þess að fá á það réttan lit eða rétta bragðið, en af því ég á auðveldara með að neita mér um mat á morgana en á kvöldin þá hef ég sniðið megrunarkúrinn eftir mínum þörfum. Læt ég svo útrætt um megrunarkúra allskonar að sinni, þó margt megi að sjálfsögðu um þá segja.
Vel er gerlegt að komast hátt á vinsældalista Moggablossins, ef það er markmiðið. Kannski er þá best að skrifa um pólitík og þykjast vita allt betur en aðrir. Líka er mikilvægt að skrifa oft. Helst daglega. Þar getur maður valið sér umræðuefnið og það er mikilvægt. Með bloggi eða langlokum á félagslegum miðlum getur maður þóst vera voða gáfaður og sagt allan fjandann. Ekki þarf maður að berjast við að fá orðið. Hvað þá að standa við það sem sagt er. Alltaf er hægt að finna einhverjar afsakanir, ef maður talar af sér. Ef einhverjir lesa snilldina á annað borð er vonandi erfitt að hætta. En umfram allt verður það að vera stuttaralegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2021 | 21:26
3090 - Cyberspace og kjötheimar
Einu sinni lifði ég mestmegnis í cyberspace. Það var um og fyrir 1990. Þá voru þar fáir. Mjög fáir. Nú finnst mörgum mest af lífinu fara þar fram. Kjötheimar eru að komast úr tísku. Partur af lífinu fer þar fram samt sem áður. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Allskonar spjall (þó ekki tölvuspjall) fór þar fram áður fyrr. Nú eru tölvurnar að taka völdin. Heimsóknum allskonar fer mjög fækkandi. Flestir eru meira og minna uppteknir af félagslegum miðlum allan liðlangan daginn. Gamla fólkið, sem ekki sættir sig að öllu leyti við þetta, má bara eiga sig.
Auðvitað þýðir þetta stórbætt aðgengi að flestöllum hlutum. Að kunna að haga sér í cyberspace er mikilvægara en allskyns etiketta var áður fyrr. Þeir sem vilja komast í kjötheima aftur er gert sem erfiðast fyrir. Það eru tölvurnar sem ráða.
Auðvitað skiptir litlu mál hvað aðrir segja. Maður lifir meira og minna í sínum eigin heimi. Ekki dettur mér í hug að taka mark á því sem öðrum finnst. Sumir hugsa í myndum, sumir í orðum og enn aðrir í hugmyndum. Sennilega er ekki frumleg hugsun til í heiminum. Það að breyta myndum í orð, orðum í hugmyndir o.s.frv. er sennilega list með einföldu i-i. Upsilon lyst er allt annað. Þó ég sé sérfræðingur í málfarslegum aðfinnslum er mér ýmislegt annað til lista lagt. T.d. er ég sérfræðingur í að raða í uppþvottavél. En förum ekki nánar útí það að sinni.
Það var Nanna Rögnvaldardóttir sem var ein af þeim sem kenndi mér að blogga (konan sem kyndir ofninn sinn) Hún skrifaði talsvert um Sauðargæruna, sem hefur líklega verið ömmubarn hennar eða eitthvað þessháttar og kannski heitið Úlfur. Það sem hún skrifaði um Sauðargæruna var yfirleitt ansi krúttlegt. Þessi Úlfur er sennilega orðinn fullorðinn núna eða a.m.k. eldri og finnst það kannski ekkert krúttlegt, sem um Sauðargæruna hefur verið skrifað. En allt sem skrifað er geymir Netið. Ljósvakalæðan er líka eftirminnileg. Gurrí Haralds. bloggar einnig af mikilli snilld núumstundir.
Ekki vissi ég að Gúgli lægi á því lúalagi að uppnefna fólk. Þar stóð, sem ég er lifandi, Nanna Rögnvaldardóttir rauðkál. Það veit sá sem allt veit, sagði amma oft. Gúgli veit næstum allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)