3090 - Cyberspace og kjötheimar

Einu sinni lifði ég mestmegnis í cyberspace. Það var um og fyrir 1990. Þá voru þar fáir. Mjög fáir. Nú finnst mörgum mest af lífinu fara þar fram. Kjötheimar eru að komast úr tísku. Partur af lífinu fer þar fram samt sem áður. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Allskonar spjall (þó ekki tölvuspjall) fór þar fram áður fyrr. Nú eru tölvurnar að taka völdin. Heimsóknum allskonar fer mjög fækkandi. Flestir eru meira og minna uppteknir af félagslegum miðlum allan liðlangan daginn. Gamla fólkið, sem ekki sættir sig að öllu leyti við þetta, má bara eiga sig.

Auðvitað þýðir þetta stórbætt aðgengi að flestöllum hlutum. Að kunna að haga sér í cyberspace er mikilvægara en allskyns etiketta var áður fyrr. Þeir sem vilja komast í kjötheima aftur er gert sem erfiðast fyrir. Það eru tölvurnar sem ráða.

Auðvitað skiptir litlu mál hvað aðrir segja. Maður lifir meira og minna í sínum eigin heimi. Ekki dettur mér í hug að taka mark á því sem öðrum finnst. Sumir hugsa í myndum, sumir í orðum og enn aðrir í hugmyndum. Sennilega er ekki frumleg hugsun til í heiminum. Það að breyta myndum í orð, orðum í hugmyndir o.s.frv. er sennilega list með einföldu i-i. Upsilon lyst er allt annað. Þó ég sé sérfræðingur í málfarslegum aðfinnslum er mér ýmislegt annað til lista lagt. T.d. er ég sérfræðingur í að raða í uppþvottavél. En förum ekki nánar útí það að sinni.

Það var Nanna Rögnvaldardóttir sem var ein af þeim sem kenndi mér að blogga (konan sem kyndir ofninn sinn) Hún skrifaði talsvert um Sauðargæruna, sem hefur líklega verið ömmubarn hennar eða eitthvað þessháttar og kannski heitið Úlfur. Það sem hún skrifaði um Sauðargæruna var yfirleitt ansi krúttlegt. Þessi Úlfur er sennilega orðinn fullorðinn núna eða a.m.k. eldri og finnst það kannski ekkert krúttlegt, sem um Sauðargæruna hefur verið skrifað. En allt sem skrifað er geymir Netið. Ljósvakalæðan er líka eftirminnileg. Gurrí Haralds. bloggar einnig af mikilli snilld núumstundir.

Ekki vissi ég að Gúgli lægi á því lúalagi að uppnefna fólk. Þar stóð, sem ég er lifandi, Nanna Rögnvaldardóttir rauðkál. Það veit sá sem allt veit, sagði amma oft. Gúgli veit næstum allt.

IMG 4590Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband