Færsluflokkur: Bloggar

3089 - Um aðfinnslur og fleira

Ég, og við bæði hjónin reyndar, erum sennilega með þeim síðustu sem fylgjumst með línulegri dagskrá rúvsins. Reyndar horfum við einkum á fréttir, bæði covid-fréttir og ólympíu-samskonar. Enda væri sennilega erfitt að streyma mánaðarskammti af þeim. Er annars fleira að gerast? Jú, einu sinni var minnst á loftslag og svo verða kannski kosningar einhverntíma seinna. Hugsanlegt er að ríkisstjónin fari loksins að stjórna og hætti að láta Þórólf ráða öllu. Enda virðist hann vera orðinn leiður á því.

Veit semsagt ekki hvernig þetta endar alltsaman. Kannski Jóhannes skírari fái sínu framgengt og blessaðir túrhestarnir komi aftur. Hvort þeir verða með veirur í farangrinum eða ekki verður bara að ráðast. Sennilega hef ég lesið yfir mig af dystópískum framtíðarsögum. Þar held ég endilega að ekki hafi yfirleitt verið reikað með að plágur stæðu í mörg ár. Samt er alltaf að hitna, segja margir. Sennilega verða síðusu jarðarbúarnir í endanlegri dystópíu að verjast vondum veirum á ísjaka skammt frá Norðurpólnum eftir svo og svo mörg ár.

Annars er mér sagt að vera ekki að mála skrattann á vegginn í sífellu. Hann er samt þarna. Veggurinn meina ég. Um skrattann veit ég ekki. Einhverntíma deyja víst allir. Svo er sagt a.m.k. Skilst að Sólin muni halda áfram að skína enn um sinn. Eru það ekki veirur og bakteríur sem munu landið erfa. Því er haldið fram að þær hafi lagt undir sig geiminn. Helgi Hóseasson hafði að ég held talsverðan áhuga á veirum og þessháttar ófögnuði. Gudda reyndar líka. Spurði hvort hann hefði líka skapað veirur. Og til hvers?

Ekki er nóg með að hægt sé að hespa „hinsegin dögum“ af á einum degi (sá það í Fréttablaðinu) heldur stendur „Menningarnótt“ allan liðlangann daginn (og nóttina líka, vonandi). Einu sinni var tímatal eins og nótt og dagur notað á annan hátt í íslensku. Allt breytist þó og sjálfur er ég hugsanlega að daga upp með þessar sífelldu málfarslegu aðfinnslur mínar. Annars er ég sérfræðingur í að finna að öllu mögulegu. Held því meira að segja fram að segja eigi „Stratford upon eivon“, en ekki upon „avon“ eins og sagt er í dagskrártreiler sem mikið er notaður. Sjálfur Jón Múli hikstaði einu sinni alvarlega á „Hi C“. Einu sinni voru nefnilega allar auglýsingar „lesnar“ en ekki „leiknar“ á ríkisfjölmiðlinum. Svo finnst mér líka (sem sérfræðingi) treilerar of mikið notaðir í dagskrárkynningum núna á þessum olympísku covidtímum í línulegri dagskrá.  

IMG 4634Einhver mynd


3088 - Litast um á pokasvæðinu

Sé að ég hef gleymt einu litlu a-i í fyrirsögninni á síðasta bloggi. Kannski er fyrirsögnin ekkert lakari fyrir það. Nenni að minnsta kosti ekki að leiðrétta þetta. Nú er ég semsagt kannski búinn að fá einhverja til þess að lesa vandlegar það sem ég skrifa og þá er ekki til einskis barist. Annars er það undarlegt með mig að ég skuli oftast vera í mesta bloggstuðinu um leið og ég set það síðasta á sinn stað.

Kosningarnar er sagt að verði í september. Ætli ég kjósi ekki Píratana eins og venjulega. Annars er ekkert venjulegt í þessu sambandi, því að Píratagreyin hafa ekki verið til sem flokkur mjög lengi og ekki haft sömu tækifæri og aðrir til svindilbrasks. A.m.k. var það mamma hennar Birgittu sem átti heima vesturfrá þegar brann heima og ég var svona 9 ára gamall og Bergþóra jafnvel yngri.

Kannski kosningunum verði frestað vegna Covid eins og svo mörgu öðru. Covidið gæti svo sannarlega breytt miklu varðandi kosningarnar. Ætli það sé ekki öll stjórn farin á þessari super-flensu sem grasserað hefur bæði hér og annarsstaðar að undanförnu. Hugsanlega verða það einvörðungu stóru lyfjafyritækin sem græða á þessu öllu saman. Og auðvitað stórveldin Kína og Bandaríkin. Eru annars fleiri stórveldi til? Hver veit nema Kata og Bjarni ákveði að hætta með öllu við þessar ónauðsynlegu kosningar og taki bara Trump-inn á þetta.

Nú er ég einu sinni enn byrjaður á „intermittent fasting“. Það reyndist nokkuð vel í fyrra. Í byrjun Covid, en ég hætti um síðustu áramót og fór að éta eins og svín. Að þessu sinni breytti ég svolítið tímasetningum frá því sem áður var, en það ætti ekki að valda stórkostlegum vandræðum. Á jafnvel von á að léttast talsvert.

Þó ég versli oft við Bónus hér á Akranesi reyni ég alltaf að sneiða hjá pokasvæðunum. Ég er nefnilega svo gamall að mér finnst betra að láta starfsfólkið vinna vinnuna sína. Auðvitað er ekki sjálfsagt að starfsfólkið fái ekkert að hvíla sig. En er sjálfsagðara að eigendur búðarinnar græði sem allra mest? Kannski eru allar aukakrónurnar notaðar í það að hafa vörurnar sem ódýrastar. Þetta er, sýnist mér, heimspekilegt vandamál, sem gott væri að fá ráðningu á.

IMG 4647Einhver mynd.


3087 - Verslunarmannhelgi

Verslunarmannahelgarböll freista mín ekki núorðið. Þessvegna ætti ég að geta notað tímann til að blogga. Gæti vel trúað að ég verði fljótur á 50-listann aftur. Hins vegar hugnast mér ekki gauragangurinn og lætin á fésbókinni. Þó hef ég farið þangað nokkrum sinnum að undanförnu. Einkum til að láta vísnaljós mitt skína. Þ.e.a.s. ég hef sett eina og eina vísu á boðnarmjöðinn. Ég lendi nefnilega í því stundum að gera vísur sem mér finnst eiga erindi þangað. Sjaldan að vísu en..... Ég nenni samt ekki að taka þátt í umræðunum þar (á fésbókinni altsvo) og fylgist ekki einu sinni með því sem gerist þar um slóðir .

Ég ætti kannski að gera þetta blogg mitt persónulegra með því að segja frá því sem gerist í fjölskyldunni. Já, og meðal annarra orða. Roger er dauður. Hann var nú bara naggrís, að ég held svo kannski er eftirsjáin ekki svo mikil allsstaðar. Sums staðar kannski, en fráleitt er sú tilfinning almenn. Það minnir mig á annað. Í gær, á sjálfum aðfangadegi verslunarmannahelgarinnar keypti ég kjöt í Bónus og á kassakvittuninni var það kalla eitt stykki s.g. eldaður grísasni sem e.t.v. er svipaðrar merkingar og asnafolald. Annars held ég að þarna hafi átt að standa grísasnitsel eða eitthvað þessháttar. Bragðið var a.m.k. þesskonar.

Sennilega set ég þetta blogg upp í fyrrmálið. Þ.e. 1. ágúst. Og ætti það að vera sæmileg byrjun á þeim mánuði.

Bókin sem ég er að lesa um þessar mundir heitir 30. marz 1949 og ætti það varla að vefjast fyrir þeim sem eru með snefil af sagnfræðiáhuga að vita hverskonar bók það er. Að sumu leyti er þar um að ræða einskonar mótvægi við gamla kommúnistann sem ég ræddi um í síðasta bloggi.

Ein helsta trúarhátíð Íslendinga stendur nú sem hæst. Þarna ætlaði ég að reyna að vera fyndinn. Verst hvað ég skrifa hægt og hugsa hægt. Þetta er orðið alveg ófyndið þegar ég loksins er búinn að skrifa það. Vont þegar hugsunin (þó hæg sé) fer langar leiðir framúr skriftarhraðanum. Kannsi væri réttast að kalla þetta blogghraða eða blogghugsun, ég veit það ekki. Sko. Þarna fór hugsunin framúr skrifunum með þeim afleiðingum að...... Sleppum því annars. Ég þarf að koma þessu á bloggið mitt, enda er klukkan farin að ganga átta. Bless í bili.

IMG 4654Einhver mynd.


3086 - Gunnar og Guðmundur

Undanfarið hef ég verið dálítið upptekinn af Gunnari Benediktssyni. Reyndar var ég bara að lesa bók eftir hann sem heitir „Að leikslokum“. Undirtitillinn er „Áhugaefni og ástríður“. Gefin út árið 1978 og hægt er að kalla þetta ævisöguþætti. Mest má segja að það fjalli um pólitísk afskipti hans af hinu og þessu. Afar fróðleg bók og ég man eftir að hafa lesið eitthvað fleira eftir hann. Man samt ekki hvaða bækur. Hann er með minnisstæðustu kennurum sem ég hef haft. Vissi ekki einu sínni að hann hefði skrifað svona margar bækur eins og hann minnist á þarna. Líklega hefur það verið bókin „Stungið niður stílvopni“, sem ég hef áður lesið. Minnir að Guðmundur Ólafsson háskólakennari hafi látið ýms hrósyrði falla í hans garð.

Nú er ég að komast í bloggstuð og ekki ber að forsóma það. Margt get ég sennilega skrifað um frá langri ævi. Ég er að verða áttræður og hef ýmislegt reynt. Ekki finnst mér ég vera alveg að drepast samt. Finn mun á mér með hverju árinu sem líður. Er á margan hátt orðinn hundleiður á þessu sífellda Covid-kjaftæði.

Gunnar Benediktsson og Guðmundur Steingrímsson eru mér minnisstæðastir akkúrat í augnablikinu. Las einhverja hugleiðingu eftir Guðmund nýlega þar sem hann líkir stjórnmálamönnum við bilaðar og gagnslausar loftkælingar. Bæði tilfellin hávær og þýðingarlaus og hann lagði útaf því. Stjórnmálamenn hafa einmitt komið mér oft þannig fyrir sjónir að þeir leggi mesta áherslu á sjálfa sig og að láta taka eftir sér. Samt finnst mér ekki að Gunnar Ben. hafi verið þannig. Man samt vel að hann gat ekki látið hjá líða að minnast á Breta og Frakka þegar hann var að kenna okkur og skorað var á okkur og fleiri að minnast Ungverja með tveggja mínútna (eða einnar) þögn. Þetta hefur verið árið 1956.

IMG 4666Einhver mynd.


3085 - Júlí-skrif

3085 –  Júlí-skrif

Í mínu ungdæmi tíðkaðist að spila á jólunum. Þó mátti ekki spila á aðfangadag, því hann var svo heilagur. Eftir miðnætti mátti það þó. Kannski er ég að rugla þarna saman Jóladegi og Aðfangadegi. Okkur krökkunum þótti aðfangadagur nefnlega mun merkilegri, því þá fengum við gjafirnar. Ólán nokkurt þótti okkur að þurfa að fara niður á Hótel í messu seint á aðfangadagskvöldi, en við því var ekkert að gera.

Af hverju er ég að tala um þetta núna. Kannski er það vegna þess að Covid-þokunni er að létta mikið og því fylgir einskonar jólatilhlökkun.

Í dag er mánudagur og nákvæmlega ein vika síðan við komum úr ferðinni miklu. Um hana ætla ég ekki að fjalla mikið, en kannski geri ég það seinna.

Ekki komum við við í Hveró á heimleiðinni eins og við höfðum þó ætlað okkur. Kannski var það útaf heimfýsi og kannski útaf einhverju öðru. Hef ekki gert mér nákvæma grein fyrir því. Sennilega hefðum við þó tafist nokkuð þar.

Við höfum nóg að gera eftir ferðina. Keyptum tvo stóla (svarta) og eigum eftir að koma þeim endanlega fyrir. Svo keyptum við líka flísar á svalirnar og erum að koma þeim fyrir. Ekki erum við alveg eins fljót að ýmsu og fyrrum, enda erum við að verða áttræð. Kannski höldum við eitthvað uppá það þegar þar að kemur. Veit það ekki.

 

Þetta sem hér er fyrir ofan var ég tilbúinn til að láta á bloggið mitt fyrir nokkru, en þótti það frekar snautlegt. Nú er svo komið að ég þarf eiginlega að setja eitthvað þangað til að mánuðurinn verði ekki tómur. Ef ég læt hjá líða að senda þetta þangað er hætt við að tilkall mitt til fjöldamets í bloggskrifum verði heldur innantómt. Ég er semsagt ekki dauður enn þó ég bloggi æ sjaldnar. Ekki þýðir fyrir mig að lofa uppí ermina á mér að ég skuli verða duglegri við bloggið héðan í frá. Sennilega tekur enginn mark á því. Þar að auki er alls ekki víst að mikil eftirspurn sé eftir mínum bloggum. A.m.k hef ég ekki úr mjög háum söðli þar að detta.

Einhver mynd.IMG 4676


3084 - Houdini

Það eru fremur fáir sem lesa þetta blogg. En mér er alveg sama. Ég vil frekar skrifa mínar hugleiðingar hér á Moggabloggið en á fésbókina. Mér finnst hún of ágeng og lætin eru svo mikil þar að mann sundlar næstum því. Allir hamast við að sýna bestu útgáfuna af sjálfum sér og satt að segja gæti maður haldið að allir væru gallalausir. Þetta er svosem svipað annars staðar t.d. á blogginu og ég áfellist alls ekki þá sem nota þennan samskiptamiðil. Það er samt einum of mikið að þessi stóru alþjóðlegu fyrirtæki í tækniþjónustu, sem eiga þess miðla, séu farin að segja ríkisstjórnum og heilu stórþjóðunum fyrir verkum. Líka selja þau flest þær upplýsingar sem þeim tekst að klófesta.

Gagnrýni á fésbókina og önnur svipuð forrit fer vaxandi. Atli Harðarson, frændi minn og heimspekingur, skrifaði um daginn á „Þjóðmál“ um þrjár bækur sem fjalla um svokallaða félagslega fjölmiðla, en þar held ég að fésbókin standi fremst hér á Íslandi. Ég vil gjarnan benda þeim sem áhuga hafa á þessum málum að skoða þessa grein. Þetta tímarit er að því er ég best veit ritstýrt og jafnvel útgefið líka af Sjálfstæðisflokknum en er ekkert verra fyrir það. Greinarnar þar eru oft mjög athyglisverðar.

Á sínum tíma og fyrir langalöngu las ég ævisögu Harrys Houdinis og er eiginlega bólusettur og ákaflega tortrygginn á allskyns loforð og fagurgala. Einkum varð ég fyrir miklum áhrifum af því sem þar er skrifað um hvers kyns handanheimarugl og miðla, en þeir voru í mikilli tísku á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Ég tók eftir því á „Þjóðmálum“ að nýjasta greinin þar var einmitt um Harry Houdini og hver veit nema ég lesi hana fljótlega.

Það er mikið um að vera í prófkjörum þessa dagana. Áberandi er að sitjandi þingmenn fá margir hverjir hörmulega útreið. Prófkjör ættu að vera sameiginlega hjá öllum flokkunum og um allt land á sama tíma. Þeir sem á annað borð gæfu kost á sér væru skyldugir til að bjóða sig fram í öll sætin og allir mættu gera slíkt. Kannski þyrfti að takmarka þátttöku með einhverju hætti. Það mætti auðveldlega gera með málefnalegum hætti. Kannski yrði þá eitthvað að marka prófkjörin. Eins og nú er eru menn bara að mæla hve þekktir menn eru og hve miklum peningum stuðningsmenn þeirra hafa yfir að ráða. Til hvers er fólk annars að bjóða fram krafta sína, en bjóða sig bara fram í ákveðin sæti? Jú jú, þeir vilja ekki styggja þá sem eru vanir að vera í efstu sætunum. Einmitt útaf þessu var prófkjör Sjálfstæðismanna hér að Vesturlandi athyglisvert, en hættir alveg að vera það ef Haraldur gengur á bak orða sinna.

IMG 4724Einhver mynd.


3083 - Katla

Fyrir allmörgum árum síðan fóru tveir ungir menn á fund Sigurðar A. Magússonar með handrit að ljóðabók sem þeir höfðu soðið saman á einni kvöldstund. Sigurður var einn af helstu menningarpáfum landsins þegar þetta var. Hann tók þeim vel og hrósaði mikið ljóðunum. Sennilega var annar ungu mannanna Geirlaugur nokkur Magnússon, sem seinna varð allþekkt skáld. Þetta minnir mig bara og kannski er þetta tóm vitleysa. Ljóðin eða úrval þeirra var seinna birt í Vikunni. Ástæða væri til að rifja þessa sögu upp með ítarlegri staðreyndum. En hvað sem um það er að segja lærði ég eitt ljóðið og þó ég muni ekki hvað það var kallað var það svona:

Þetta eru ekki góðar tvíbökur.

Öðru sinni hefur Katrín Jakobsdóttir ákveðið að drepa í fæðingu breytingar á stjórnarskránni. Fosetinn var óánægður með það þó hann segði ekki mikið. Auðvitað kann að vera að aðrar ástæður en ótti við BB hafi ráðið þessari gjörð hennar. Engu held ég að hefði verið tapað þó umræður um stjórnarskrána hefðu farið fram í ágúst. Andstaða Sjálfstæðisflokksins var allsekki örugg. Vel held ég að gera hefði mátt ráð fyrir að æstustu fylgismenn breytinga hefðu sætt sig við lagfæringar. (Jafnvel tiltölulega litlar). Nú held ég að VG hafi misst af tækifæri til að auka stærð sína umtalsvert. Fyrir mér var það augljóst að hugur fylgdi ekki máli þegar Katrín ákvað að flytja sína eigin tillögu.

Trump þykist vera vinsælli en Biden nú um stundir. Þetta er augljóslega hin mesta vitleysa og líklegast er að hann nái ekki einu sinni að komast í framboð fyrir Republikanaflokkinn í næstu forsetakosningum. Það eru allir orðnir leiðir á honum og æstustu fylgismönnum hans. Sennilegast er að Biden sigri aftur þá.

Ekki fór ég út að ganga í morgun. Veit ekki annað en hátíðahöld hafi farið sæmilega fram hér á Akranesi. Fjölmenni á útisamkomum virtist þó ekki mikið.

Reyndi að horfa á Kötlu-myndina á Netflix í kvöld. Þótti hún fremur léleg að flestu leyti. Margt var þó mjög fagmannlegt við gerð hennar. Þegar strákurinn fór að sparka í og tala við dauða rollu var mér nóg boðið og hætti að horfa. Baltasar Kormákur er orðinn einum of amerískur í hugsunarhætti fyrir minn smekk. Vel getur samt verið að þessi sería verði vinsæl vegna Íslands-forvitninnar hjá mörgum.

IMG 4745Einhver mynd.


3082 - Vertu trúr yfir litlu

Þó ég hafi fremur lítið álit á stjórnmálum er ég að hugsa um að setja hér á blað eftirmæli ríkisstjórnarinnar. Já, hún er á útleið þó henni hafi tekist að framlengja líf sitt til haustsins. Alveg frá upphafi var það fyrirséð að þessi ríkisstjórn mundi gera sem allra minnst. Ekki er hægt að bera á móti því að hún hafi lent í ófyrirséðum hremmingum þar sem Covid-faraldurinn er. Einmitt þar hefur hún staðið sig einna best. Einkum með því að gera sem allra minnst og velta sem mestu af ábyrgðinni á þríeykið margfræga, einkum þó á Þórólf sóttvarnarlækni sem segja má að hafi verið nánast einvaldur í kófinu öllu sem vonandi er að ljúka.

Að öðru leyti hefur ríkisstjórnin staðið sig fremur illa. Engum stórmálum hefur verið komið í gegn, enda eru flokkarnir sem að henni standa heldur ósamstæðir. Segja má að það hafi verið einn stærsti sigur hennar að hafa lafað þetta lengi við völd. Einkennilegt er að þó hefur hún notið allmikils trausts og ekki er laust við að forsætisráðherra eigi skilið prik fyrir að hafa haldið henni saman.

Fjölmiðlar hafa haft sig mikið í frammi að undanförnu. Eiga þó í mestu vandræðum með að fjármagna sig þar sem auglýsingar eru að stórum hluta á leið úr landinu. Samfélagslegu fjölmiðlarnir eru óvandaðir mjög og segja má að kjaftasögur af öllu tagi hafi fengið vængi og séu það sem smjattað er á. Þó veita þeir mikið aðhald og ekki ber að vanmeta þá. Segja má að miðlun öll svosem blöð, bækur, símar, tölvur og fleira hafi aukist mjög að undanförnu og ekki minnkar vandi þeirra fjölmiðla sem gjarnan vilja ná til allra landsmanna við það.

„Vertu trúr yfir litlu og þá verður þú yfir mikið settur.“ Þegar ég fór í mín morgungöngu um sjöleytið núna áðan kom mér þessi setning í hug og er búin að vera þar síðan. Þetta kemur eins og í stað hinnar daglegu vísu sem ég hef áður minnst á. Þetta gæti verið spakmæli úr biblíunni eða til þess gert af atvinnurekendum og auðmönnum að hafa stjórn á pöplinum.

IMG 4750Einhver mynd.


3081 - Er sumarið komið?

Héðan er fátt að frétta. Helena er í heimsókn. Kom með Áslaugu og Hafdísi sem fóru í bæinn, en þar er fólk ekki alveg búið að átta sig á því að Covid er eiginlega búið. Nennir ekki í bólusetningu fyrr en eftir hádegi þegar degi tekur að halla. Siestunni lokið og kominn tími til að fara á fætur. Einkennilegt að fylgjast með því að í hádegisfréttum er kvartað yfir því að fáir mæti til bólusetningar, en svo myndast fljótlega mörg hundruð metra biðröð. Fer fólk virkilega ekki á fætur í þessu ástandi fyrr en seinni partinn?

Kannski gerum við eitthvað skemmtilegt og frásagnarvert seinna í dag, en annars eru þessi dagbókarskrif heldur fábrotin. Þetta er hálfgerð gúrkutíð. Veðrið fer þó ögn skánandi. Á sunnudaginn er þó spáð rigningu. Eldgosinu fer sennilega að ljúka. Kannski koma ferðamennirnir. Búast má við köldu en sólríku sumri og að svalaveður verði semsagt gott.

Scan71Einhver mynd.


3080 - Er Covidið búið?

Nú er orðið kvöldsett hér á Akranesi eins og annars staðar á landinu. Setti blogg upp í morgun og geri ekki ráð fyrir að ég setji þetta upp fyrr enn á mogun í fyrsta lagi. Ég er orðinn syfjaður núna enda fór ég snemma á fætur í morgun, þriðjudag. Þrátt fyrir að ég hafði talað illa um knattspyrnu horfði ég áðan á seinni hálfleik í landsleik Íslands og Póllands í sjónvarpinu. Ekki er því að neita að leikurinn var nokkuð spennandi. Mesta spennan var að sjálfsögðu sú hvort Íslendingum tækist að halda forystunni.

Vonandi er Covidið að verða búið. Auðvitað er það skandall hvernig ríku þjóðirnar (Ísland þar á meðal) hafa hagað sér í sambandi við dreifingu á bóluefni við þessum vírusi. Vitanlega er líka hægt að segja að mannfjöldi í heiminum sé alltof mikill. Á það hefur lengi verið bent að flest vandamál heimsins stafi af því, en lítið sem ekkert verið gert í því sambandi, enda erfitt. Að sjálfsögðu ætti að jafna lifskjör allra íbúa heimsins sem mest. Með því móti mundu flest vandamál heimsins batna stórlega. Vitanlega geri ég mér grein fyrir að það er hægara sagt en gert að draga úr fjölguninni. Pólitískar stefnur sem ætlað hefur verið að laga þetta í einu vetfangi hafa yfirleitt mistekist. Hægfara þróun er heppilegri. Mér finnst skilningur fólks vera að þróast í rétta átt hér á Vesturlöndum. Afurkippur í formi þjóðernisstefnu kemur samt alltaf öðru hvoru.

Er ég að reyna að sýnast gáfaður með þessu skrifum? Kannski. Ekki er von til þess að ég breyti neinu. Jafnvel þó allir sem þetta lesa tileinki sér þessar skoðanir. Allar skoðanir má gera pólitískar og pólitíkin gin yfir öllu. Ekkert er fréttnæmt nema það hafi ekki gerst áður eða geti valdið stjórmálalegum átökum.

Scan77Einhver mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband