26.8.2021 | 11:12
3094 - Enn um Talibana
Moggabloggið virðist hafa gefist upp á fésbókinni. Í gær skrifaði ég dálítið um Talibana og ætlaði að auglýsa það á fésbókinni eins og ég er vanur. Fann ekki þann hnapp sem ég geri það oftast með og þar af leiðandi geri ég ráð fyrir að stjórnendur Moggabloggsins hafi gefist upp á fésbókinni. Nú, jæja ég get þó bloggað á Moggablogginu ennþá. Kannski þetta verði til þess að ég taki fésbókina aftur í sátt. Flestir virðast nota hana töluvert mikið.
Það er afleitt að utankjörfundaratkvæðagreisla skuli vera hafin áður en öll framboð eru fram komin. Þetta er klúður og Alþingismenn hljóta að bera ábyrgð á þessu. Eiginlega er það ekki ásættanlegt að allskonar klúður og mistök skuli vera jafn algeng þarna og raun ber vitni. Það þing sem kosið verður núna í september þarf endilega að ráða bót á þessu. Alþingismenn eru ekkert of góðir til þess að lesa vel yfir það sem þeir samþykkja. Hefðir og venjur eru alltof ráðandi þarna.
Varðandi lagaskilning er það orðið alltof algengt að sú skoðun sé almenningseign að hægt sé að skjóta ágreiningi við hæstarétt til erlendra dómstóla. Til dæmis til Mannréttindadómstólsins. Svo er ekki. Úrskurðir hæstaréttar eru endanlegir. Álit annarra dómsóla og erlendra kann að skipta máli, en um endanlegan dóm er alls ekki að ræða. Hugsanlega er þetta vegna ruglinslegra laga frá Alþingi.
Af hverju er sjálfsagt og eðlilegt að hjálpa Afgönum, en allt í lagi virðist vera þó herinn í Myanmar (Burma) drepi alla sem þeim er illa við? Talibanarnir segjast a.m.k. ætla að vera til friðs. Held ekki að um sömu eða samskonar menn sé að ræða og fyrir rúmum 20 árum. Hver veit nema þeir séu skárri núna. Miklar breytingar hafa orðið. Ekki síður i Afganistan en annarsstaðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.8.2021 | 15:35
3093 - Talibanar
Öll ofsatrú er til bölvunar. Ekki síst er hægt að heimfæra þetta á Talibanana í Afganistan þessa dagana. Auk þess eru þeir Íslamstrúar svo engin furða er þó þeir séu fordæmdir hér á Vesturlöndum. Ósamræmi er samt í því að annarsvegar er a.m.k. hálf þjóðin þar sögð í hættu (kvenkynið sérstaklega) og hinsvegar að NATO-þjóðirnar segjast ætla að bjarga öllum þaðan sem á annað borð vilja fara. Afganir eru sagðir vera næstum 40 milljónir talsins.
Samkvæmt fréttum má ekki bera blak af Talibönum þessa dagana. Það gerir samt Bjarni frændi minn Harðarson í Fréttablaðinu í dag. Einhvers staðar sá ég haft í hótunum við þá sem það voguðu sér. Auðvitað veit ég ósköp vel að fáir hugsa á þann veg en umræðan um Afganistan hefur verið ákaflega einlit síðustu daga.
Ekki er því að neita að ýmislegt angrar Afgani þessar vikurnar. Ekki aðeins hefur geysað stríð þar í allmarga áratugi, heldur eru það núna Talibanar, þurrkar, og Covid-19 sem þeir þurfa að óttast. Takið eftir því að kóvítinn er ekki efstur á lista þarna þó hann sé það víða. Lýðræði tíðkast ekki í Afganistan. Ekki heldur í Kína. Það er sagt vera til staðar í Rússlandi meðal annars, en kannski er það einskonar föðurlandsást sem grasserar þar. Margir telja að lýðræðið sé æðsta og merkasta stjórnskipulagið og heimili þess og varnarþing sé í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ef dollarinn mundi yfirgefa USA yrði sennilega lítið eftir þar. Ofsatrúin og samsæriskenningarnar ásamt fáfræðinni um heiminn utan Bandaríkjanna eru áberandi í bandarísku þjóðlífi. Og ekki er hægt þar fyrir fylkin að hætta að vera memm. Völd og áhrif alríkisins eru alltof mikil þar.
Lagaflækjur í Bandaríkjunum eru eins miklar og í Njálu. Ef lagaflækjum og ættartölum væri sleppt í Brennu-Njáls sögu gæfi hún nútíma glæpasögum ekkert eftir. Jafnvel ekki í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2021 | 16:06
3092 - Þjóðlegur fróðleikur
Sennilega er kominn tími til að ég bloggi pínulítið. Covid-19 og talibanafréttir læt ég eiga sig að sinni, þó flestum þyki það merkilegustu fréttirnar núumstundir. Það eru svo margir sem sjá patent-lausnir á þeim málum að ekki er á það bætandi. Auðvitað hef ég mínar skoðanir á þeim málum öllum saman og hvernig þau tengjast þeim málum sem ég þó skrifa um.
Loftslagsmál og kosningar falla eiginlega alveg í skuggann í fréttum á Íslandi að þessu sinni. Ekki ætla ég að fjölyrða mikið um þau mál. Að minnsta kosti ekki núna. Margir verða víst til þess á næstunni. Persónuleg mál er ekki líklegt að verði mikið til umræðu á blogginu og þaðan af síður vísnagerð og þjóðlegur fróðleikur þó það séu þau mál sem ég hef mestan áhuga á þessi dægrin.
Hef að undanförnu verið að lesa bækur eftir Sverri Krisjánsson og Tómas Guðmundsson, en eins og kunnugt er lögðu þeir saman og skrifuðu afar vinsælar bækur undir sameigilega heitinu Íslenzkir örlagaþættir á árunum 1964 til 1972 eða lengur. Núna er ég að lesa bókina Íslenzkt mannlíf eftir Jón Helgason. Sú bók er gefin út árið 1962 og sögð vera númer 4.
Ekki ætla ég mér þá dul að endursegja sögurnar sem frá þessum listamönnum eru komnar en vil bara benda mönnum á að lesa þær hafi þeir einhvern áhuga á þjóðlegum fróðleik eða sagnfræði. Þessar bækur allar eru fengnar fyrir lítinn pening á mörkuðum ýmiss konar. Sannorðir hafa sagt mér að bókum sé í stórum stíl hent nútildags hér á Íslandi og eru það ekki meðmæli með sjálfri bókaþjóðinni. Ekki þykir lengur fínt að hafa bókahillur upp um alla veggi einsog einu sinni var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2021 | 10:22
3091 - Þekktu sjálfan þig
Mikilvægasta lexían sem ég hef lært á langri ævi er Þekktu sjálfan þig. Já, ég get sagt á langri ævi vegna þess að ég er að verða áttræður. Þetta með að þekkja sjálfan sig á bæði við um líkamlegt og andlegt ástand. Þekktu sjálfan þig, sögðu Grikkir til forna, eða voru það kannski Rómverjar. Varla getur það skipt miklu máli. Ef megrunarkúr er málið þá skiptir viljastyrkurinn kannski mestu. Þetta datt mér í hug í gær þegar ég var að lýsa nýjasta megrunarkúr mínum og var að lýsa því að ég væri í svelti fyrri hluta dags. Þá gæti ég bara drukkið vatn og kaffi. Einhver spurði hvort ég settí þá mjólk út í kaffið. Kannski er í þessu einmitt fólginn leyndardómurinn varðandi megrunarkúrana. Árangur næst ekki nema með því að neita sér um mat. Um að gera að setja samt sjálfur þær reglur sem eiga að gilda, en festa sig ekki í því sem aðrir segja. Fer meira að segja sársvangur út í Bónus þó það sé í blóra við flestar ráðleggingar. Ég nota líka að sjálfsögðu mjólk úti kaffið og segi ýmist að það sé til þess að fá á það réttan lit eða rétta bragðið, en af því ég á auðveldara með að neita mér um mat á morgana en á kvöldin þá hef ég sniðið megrunarkúrinn eftir mínum þörfum. Læt ég svo útrætt um megrunarkúra allskonar að sinni, þó margt megi að sjálfsögðu um þá segja.
Vel er gerlegt að komast hátt á vinsældalista Moggablossins, ef það er markmiðið. Kannski er þá best að skrifa um pólitík og þykjast vita allt betur en aðrir. Líka er mikilvægt að skrifa oft. Helst daglega. Þar getur maður valið sér umræðuefnið og það er mikilvægt. Með bloggi eða langlokum á félagslegum miðlum getur maður þóst vera voða gáfaður og sagt allan fjandann. Ekki þarf maður að berjast við að fá orðið. Hvað þá að standa við það sem sagt er. Alltaf er hægt að finna einhverjar afsakanir, ef maður talar af sér. Ef einhverjir lesa snilldina á annað borð er vonandi erfitt að hætta. En umfram allt verður það að vera stuttaralegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2021 | 21:26
3090 - Cyberspace og kjötheimar
Einu sinni lifði ég mestmegnis í cyberspace. Það var um og fyrir 1990. Þá voru þar fáir. Mjög fáir. Nú finnst mörgum mest af lífinu fara þar fram. Kjötheimar eru að komast úr tísku. Partur af lífinu fer þar fram samt sem áður. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Allskonar spjall (þó ekki tölvuspjall) fór þar fram áður fyrr. Nú eru tölvurnar að taka völdin. Heimsóknum allskonar fer mjög fækkandi. Flestir eru meira og minna uppteknir af félagslegum miðlum allan liðlangan daginn. Gamla fólkið, sem ekki sættir sig að öllu leyti við þetta, má bara eiga sig.
Auðvitað þýðir þetta stórbætt aðgengi að flestöllum hlutum. Að kunna að haga sér í cyberspace er mikilvægara en allskyns etiketta var áður fyrr. Þeir sem vilja komast í kjötheima aftur er gert sem erfiðast fyrir. Það eru tölvurnar sem ráða.
Auðvitað skiptir litlu mál hvað aðrir segja. Maður lifir meira og minna í sínum eigin heimi. Ekki dettur mér í hug að taka mark á því sem öðrum finnst. Sumir hugsa í myndum, sumir í orðum og enn aðrir í hugmyndum. Sennilega er ekki frumleg hugsun til í heiminum. Það að breyta myndum í orð, orðum í hugmyndir o.s.frv. er sennilega list með einföldu i-i. Upsilon lyst er allt annað. Þó ég sé sérfræðingur í málfarslegum aðfinnslum er mér ýmislegt annað til lista lagt. T.d. er ég sérfræðingur í að raða í uppþvottavél. En förum ekki nánar útí það að sinni.
Það var Nanna Rögnvaldardóttir sem var ein af þeim sem kenndi mér að blogga (konan sem kyndir ofninn sinn) Hún skrifaði talsvert um Sauðargæruna, sem hefur líklega verið ömmubarn hennar eða eitthvað þessháttar og kannski heitið Úlfur. Það sem hún skrifaði um Sauðargæruna var yfirleitt ansi krúttlegt. Þessi Úlfur er sennilega orðinn fullorðinn núna eða a.m.k. eldri og finnst það kannski ekkert krúttlegt, sem um Sauðargæruna hefur verið skrifað. En allt sem skrifað er geymir Netið. Ljósvakalæðan er líka eftirminnileg. Gurrí Haralds. bloggar einnig af mikilli snilld núumstundir.
Ekki vissi ég að Gúgli lægi á því lúalagi að uppnefna fólk. Þar stóð, sem ég er lifandi, Nanna Rögnvaldardóttir rauðkál. Það veit sá sem allt veit, sagði amma oft. Gúgli veit næstum allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2021 | 09:27
3089 - Um aðfinnslur og fleira
Ég, og við bæði hjónin reyndar, erum sennilega með þeim síðustu sem fylgjumst með línulegri dagskrá rúvsins. Reyndar horfum við einkum á fréttir, bæði covid-fréttir og ólympíu-samskonar. Enda væri sennilega erfitt að streyma mánaðarskammti af þeim. Er annars fleira að gerast? Jú, einu sinni var minnst á loftslag og svo verða kannski kosningar einhverntíma seinna. Hugsanlegt er að ríkisstjónin fari loksins að stjórna og hætti að láta Þórólf ráða öllu. Enda virðist hann vera orðinn leiður á því.
Veit semsagt ekki hvernig þetta endar alltsaman. Kannski Jóhannes skírari fái sínu framgengt og blessaðir túrhestarnir komi aftur. Hvort þeir verða með veirur í farangrinum eða ekki verður bara að ráðast. Sennilega hef ég lesið yfir mig af dystópískum framtíðarsögum. Þar held ég endilega að ekki hafi yfirleitt verið reikað með að plágur stæðu í mörg ár. Samt er alltaf að hitna, segja margir. Sennilega verða síðusu jarðarbúarnir í endanlegri dystópíu að verjast vondum veirum á ísjaka skammt frá Norðurpólnum eftir svo og svo mörg ár.
Annars er mér sagt að vera ekki að mála skrattann á vegginn í sífellu. Hann er samt þarna. Veggurinn meina ég. Um skrattann veit ég ekki. Einhverntíma deyja víst allir. Svo er sagt a.m.k. Skilst að Sólin muni halda áfram að skína enn um sinn. Eru það ekki veirur og bakteríur sem munu landið erfa. Því er haldið fram að þær hafi lagt undir sig geiminn. Helgi Hóseasson hafði að ég held talsverðan áhuga á veirum og þessháttar ófögnuði. Gudda reyndar líka. Spurði hvort hann hefði líka skapað veirur. Og til hvers?
Ekki er nóg með að hægt sé að hespa hinsegin dögum af á einum degi (sá það í Fréttablaðinu) heldur stendur Menningarnótt allan liðlangann daginn (og nóttina líka, vonandi). Einu sinni var tímatal eins og nótt og dagur notað á annan hátt í íslensku. Allt breytist þó og sjálfur er ég hugsanlega að daga upp með þessar sífelldu málfarslegu aðfinnslur mínar. Annars er ég sérfræðingur í að finna að öllu mögulegu. Held því meira að segja fram að segja eigi Stratford upon eivon, en ekki upon avon eins og sagt er í dagskrártreiler sem mikið er notaður. Sjálfur Jón Múli hikstaði einu sinni alvarlega á Hi C. Einu sinni voru nefnilega allar auglýsingar lesnar en ekki leiknar á ríkisfjölmiðlinum. Svo finnst mér líka (sem sérfræðingi) treilerar of mikið notaðir í dagskrárkynningum núna á þessum olympísku covidtímum í línulegri dagskrá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2021 | 07:00
3088 - Litast um á pokasvæðinu
Sé að ég hef gleymt einu litlu a-i í fyrirsögninni á síðasta bloggi. Kannski er fyrirsögnin ekkert lakari fyrir það. Nenni að minnsta kosti ekki að leiðrétta þetta. Nú er ég semsagt kannski búinn að fá einhverja til þess að lesa vandlegar það sem ég skrifa og þá er ekki til einskis barist. Annars er það undarlegt með mig að ég skuli oftast vera í mesta bloggstuðinu um leið og ég set það síðasta á sinn stað.
Kosningarnar er sagt að verði í september. Ætli ég kjósi ekki Píratana eins og venjulega. Annars er ekkert venjulegt í þessu sambandi, því að Píratagreyin hafa ekki verið til sem flokkur mjög lengi og ekki haft sömu tækifæri og aðrir til svindilbrasks. A.m.k. var það mamma hennar Birgittu sem átti heima vesturfrá þegar brann heima og ég var svona 9 ára gamall og Bergþóra jafnvel yngri.
Kannski kosningunum verði frestað vegna Covid eins og svo mörgu öðru. Covidið gæti svo sannarlega breytt miklu varðandi kosningarnar. Ætli það sé ekki öll stjórn farin á þessari super-flensu sem grasserað hefur bæði hér og annarsstaðar að undanförnu. Hugsanlega verða það einvörðungu stóru lyfjafyritækin sem græða á þessu öllu saman. Og auðvitað stórveldin Kína og Bandaríkin. Eru annars fleiri stórveldi til? Hver veit nema Kata og Bjarni ákveði að hætta með öllu við þessar ónauðsynlegu kosningar og taki bara Trump-inn á þetta.
Nú er ég einu sinni enn byrjaður á intermittent fasting. Það reyndist nokkuð vel í fyrra. Í byrjun Covid, en ég hætti um síðustu áramót og fór að éta eins og svín. Að þessu sinni breytti ég svolítið tímasetningum frá því sem áður var, en það ætti ekki að valda stórkostlegum vandræðum. Á jafnvel von á að léttast talsvert.
Þó ég versli oft við Bónus hér á Akranesi reyni ég alltaf að sneiða hjá pokasvæðunum. Ég er nefnilega svo gamall að mér finnst betra að láta starfsfólkið vinna vinnuna sína. Auðvitað er ekki sjálfsagt að starfsfólkið fái ekkert að hvíla sig. En er sjálfsagðara að eigendur búðarinnar græði sem allra mest? Kannski eru allar aukakrónurnar notaðar í það að hafa vörurnar sem ódýrastar. Þetta er, sýnist mér, heimspekilegt vandamál, sem gott væri að fá ráðningu á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2021 | 07:35
3087 - Verslunarmannhelgi
Verslunarmannahelgarböll freista mín ekki núorðið. Þessvegna ætti ég að geta notað tímann til að blogga. Gæti vel trúað að ég verði fljótur á 50-listann aftur. Hins vegar hugnast mér ekki gauragangurinn og lætin á fésbókinni. Þó hef ég farið þangað nokkrum sinnum að undanförnu. Einkum til að láta vísnaljós mitt skína. Þ.e.a.s. ég hef sett eina og eina vísu á boðnarmjöðinn. Ég lendi nefnilega í því stundum að gera vísur sem mér finnst eiga erindi þangað. Sjaldan að vísu en..... Ég nenni samt ekki að taka þátt í umræðunum þar (á fésbókinni altsvo) og fylgist ekki einu sinni með því sem gerist þar um slóðir .
Ég ætti kannski að gera þetta blogg mitt persónulegra með því að segja frá því sem gerist í fjölskyldunni. Já, og meðal annarra orða. Roger er dauður. Hann var nú bara naggrís, að ég held svo kannski er eftirsjáin ekki svo mikil allsstaðar. Sums staðar kannski, en fráleitt er sú tilfinning almenn. Það minnir mig á annað. Í gær, á sjálfum aðfangadegi verslunarmannahelgarinnar keypti ég kjöt í Bónus og á kassakvittuninni var það kalla eitt stykki s.g. eldaður grísasni sem e.t.v. er svipaðrar merkingar og asnafolald. Annars held ég að þarna hafi átt að standa grísasnitsel eða eitthvað þessháttar. Bragðið var a.m.k. þesskonar.
Sennilega set ég þetta blogg upp í fyrrmálið. Þ.e. 1. ágúst. Og ætti það að vera sæmileg byrjun á þeim mánuði.
Bókin sem ég er að lesa um þessar mundir heitir 30. marz 1949 og ætti það varla að vefjast fyrir þeim sem eru með snefil af sagnfræðiáhuga að vita hverskonar bók það er. Að sumu leyti er þar um að ræða einskonar mótvægi við gamla kommúnistann sem ég ræddi um í síðasta bloggi.
Ein helsta trúarhátíð Íslendinga stendur nú sem hæst. Þarna ætlaði ég að reyna að vera fyndinn. Verst hvað ég skrifa hægt og hugsa hægt. Þetta er orðið alveg ófyndið þegar ég loksins er búinn að skrifa það. Vont þegar hugsunin (þó hæg sé) fer langar leiðir framúr skriftarhraðanum. Kannsi væri réttast að kalla þetta blogghraða eða blogghugsun, ég veit það ekki. Sko. Þarna fór hugsunin framúr skrifunum með þeim afleiðingum að...... Sleppum því annars. Ég þarf að koma þessu á bloggið mitt, enda er klukkan farin að ganga átta. Bless í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2021 | 13:44
3086 - Gunnar og Guðmundur
Undanfarið hef ég verið dálítið upptekinn af Gunnari Benediktssyni. Reyndar var ég bara að lesa bók eftir hann sem heitir Að leikslokum. Undirtitillinn er Áhugaefni og ástríður. Gefin út árið 1978 og hægt er að kalla þetta ævisöguþætti. Mest má segja að það fjalli um pólitísk afskipti hans af hinu og þessu. Afar fróðleg bók og ég man eftir að hafa lesið eitthvað fleira eftir hann. Man samt ekki hvaða bækur. Hann er með minnisstæðustu kennurum sem ég hef haft. Vissi ekki einu sínni að hann hefði skrifað svona margar bækur eins og hann minnist á þarna. Líklega hefur það verið bókin Stungið niður stílvopni, sem ég hef áður lesið. Minnir að Guðmundur Ólafsson háskólakennari hafi látið ýms hrósyrði falla í hans garð.
Nú er ég að komast í bloggstuð og ekki ber að forsóma það. Margt get ég sennilega skrifað um frá langri ævi. Ég er að verða áttræður og hef ýmislegt reynt. Ekki finnst mér ég vera alveg að drepast samt. Finn mun á mér með hverju árinu sem líður. Er á margan hátt orðinn hundleiður á þessu sífellda Covid-kjaftæði.
Gunnar Benediktsson og Guðmundur Steingrímsson eru mér minnisstæðastir akkúrat í augnablikinu. Las einhverja hugleiðingu eftir Guðmund nýlega þar sem hann líkir stjórnmálamönnum við bilaðar og gagnslausar loftkælingar. Bæði tilfellin hávær og þýðingarlaus og hann lagði útaf því. Stjórnmálamenn hafa einmitt komið mér oft þannig fyrir sjónir að þeir leggi mesta áherslu á sjálfa sig og að láta taka eftir sér. Samt finnst mér ekki að Gunnar Ben. hafi verið þannig. Man samt vel að hann gat ekki látið hjá líða að minnast á Breta og Frakka þegar hann var að kenna okkur og skorað var á okkur og fleiri að minnast Ungverja með tveggja mínútna (eða einnar) þögn. Þetta hefur verið árið 1956.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2021 | 22:16
3085 - Júlí-skrif
3085 Júlí-skrif
Í mínu ungdæmi tíðkaðist að spila á jólunum. Þó mátti ekki spila á aðfangadag, því hann var svo heilagur. Eftir miðnætti mátti það þó. Kannski er ég að rugla þarna saman Jóladegi og Aðfangadegi. Okkur krökkunum þótti aðfangadagur nefnlega mun merkilegri, því þá fengum við gjafirnar. Ólán nokkurt þótti okkur að þurfa að fara niður á Hótel í messu seint á aðfangadagskvöldi, en við því var ekkert að gera.
Af hverju er ég að tala um þetta núna. Kannski er það vegna þess að Covid-þokunni er að létta mikið og því fylgir einskonar jólatilhlökkun.
Í dag er mánudagur og nákvæmlega ein vika síðan við komum úr ferðinni miklu. Um hana ætla ég ekki að fjalla mikið, en kannski geri ég það seinna.
Ekki komum við við í Hveró á heimleiðinni eins og við höfðum þó ætlað okkur. Kannski var það útaf heimfýsi og kannski útaf einhverju öðru. Hef ekki gert mér nákvæma grein fyrir því. Sennilega hefðum við þó tafist nokkuð þar.
Við höfum nóg að gera eftir ferðina. Keyptum tvo stóla (svarta) og eigum eftir að koma þeim endanlega fyrir. Svo keyptum við líka flísar á svalirnar og erum að koma þeim fyrir. Ekki erum við alveg eins fljót að ýmsu og fyrrum, enda erum við að verða áttræð. Kannski höldum við eitthvað uppá það þegar þar að kemur. Veit það ekki.
Þetta sem hér er fyrir ofan var ég tilbúinn til að láta á bloggið mitt fyrir nokkru, en þótti það frekar snautlegt. Nú er svo komið að ég þarf eiginlega að setja eitthvað þangað til að mánuðurinn verði ekki tómur. Ef ég læt hjá líða að senda þetta þangað er hætt við að tilkall mitt til fjöldamets í bloggskrifum verði heldur innantómt. Ég er semsagt ekki dauður enn þó ég bloggi æ sjaldnar. Ekki þýðir fyrir mig að lofa uppí ermina á mér að ég skuli verða duglegri við bloggið héðan í frá. Sennilega tekur enginn mark á því. Þar að auki er alls ekki víst að mikil eftirspurn sé eftir mínum bloggum. A.m.k hef ég ekki úr mjög háum söðli þar að detta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)