20.6.2021 | 23:58
3084 - Houdini
Það eru fremur fáir sem lesa þetta blogg. En mér er alveg sama. Ég vil frekar skrifa mínar hugleiðingar hér á Moggabloggið en á fésbókina. Mér finnst hún of ágeng og lætin eru svo mikil þar að mann sundlar næstum því. Allir hamast við að sýna bestu útgáfuna af sjálfum sér og satt að segja gæti maður haldið að allir væru gallalausir. Þetta er svosem svipað annars staðar t.d. á blogginu og ég áfellist alls ekki þá sem nota þennan samskiptamiðil. Það er samt einum of mikið að þessi stóru alþjóðlegu fyrirtæki í tækniþjónustu, sem eiga þess miðla, séu farin að segja ríkisstjórnum og heilu stórþjóðunum fyrir verkum. Líka selja þau flest þær upplýsingar sem þeim tekst að klófesta.
Gagnrýni á fésbókina og önnur svipuð forrit fer vaxandi. Atli Harðarson, frændi minn og heimspekingur, skrifaði um daginn á Þjóðmál um þrjár bækur sem fjalla um svokallaða félagslega fjölmiðla, en þar held ég að fésbókin standi fremst hér á Íslandi. Ég vil gjarnan benda þeim sem áhuga hafa á þessum málum að skoða þessa grein. Þetta tímarit er að því er ég best veit ritstýrt og jafnvel útgefið líka af Sjálfstæðisflokknum en er ekkert verra fyrir það. Greinarnar þar eru oft mjög athyglisverðar.
Á sínum tíma og fyrir langalöngu las ég ævisögu Harrys Houdinis og er eiginlega bólusettur og ákaflega tortrygginn á allskyns loforð og fagurgala. Einkum varð ég fyrir miklum áhrifum af því sem þar er skrifað um hvers kyns handanheimarugl og miðla, en þeir voru í mikilli tísku á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Ég tók eftir því á Þjóðmálum að nýjasta greinin þar var einmitt um Harry Houdini og hver veit nema ég lesi hana fljótlega.
Það er mikið um að vera í prófkjörum þessa dagana. Áberandi er að sitjandi þingmenn fá margir hverjir hörmulega útreið. Prófkjör ættu að vera sameiginlega hjá öllum flokkunum og um allt land á sama tíma. Þeir sem á annað borð gæfu kost á sér væru skyldugir til að bjóða sig fram í öll sætin og allir mættu gera slíkt. Kannski þyrfti að takmarka þátttöku með einhverju hætti. Það mætti auðveldlega gera með málefnalegum hætti. Kannski yrði þá eitthvað að marka prófkjörin. Eins og nú er eru menn bara að mæla hve þekktir menn eru og hve miklum peningum stuðningsmenn þeirra hafa yfir að ráða. Til hvers er fólk annars að bjóða fram krafta sína, en bjóða sig bara fram í ákveðin sæti? Jú jú, þeir vilja ekki styggja þá sem eru vanir að vera í efstu sætunum. Einmitt útaf þessu var prófkjör Sjálfstæðismanna hér að Vesturlandi athyglisvert, en hættir alveg að vera það ef Haraldur gengur á bak orða sinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2021 | 00:02
3083 - Katla
Fyrir allmörgum árum síðan fóru tveir ungir menn á fund Sigurðar A. Magússonar með handrit að ljóðabók sem þeir höfðu soðið saman á einni kvöldstund. Sigurður var einn af helstu menningarpáfum landsins þegar þetta var. Hann tók þeim vel og hrósaði mikið ljóðunum. Sennilega var annar ungu mannanna Geirlaugur nokkur Magnússon, sem seinna varð allþekkt skáld. Þetta minnir mig bara og kannski er þetta tóm vitleysa. Ljóðin eða úrval þeirra var seinna birt í Vikunni. Ástæða væri til að rifja þessa sögu upp með ítarlegri staðreyndum. En hvað sem um það er að segja lærði ég eitt ljóðið og þó ég muni ekki hvað það var kallað var það svona:
Þetta eru ekki góðar tvíbökur.
Öðru sinni hefur Katrín Jakobsdóttir ákveðið að drepa í fæðingu breytingar á stjórnarskránni. Fosetinn var óánægður með það þó hann segði ekki mikið. Auðvitað kann að vera að aðrar ástæður en ótti við BB hafi ráðið þessari gjörð hennar. Engu held ég að hefði verið tapað þó umræður um stjórnarskrána hefðu farið fram í ágúst. Andstaða Sjálfstæðisflokksins var allsekki örugg. Vel held ég að gera hefði mátt ráð fyrir að æstustu fylgismenn breytinga hefðu sætt sig við lagfæringar. (Jafnvel tiltölulega litlar). Nú held ég að VG hafi misst af tækifæri til að auka stærð sína umtalsvert. Fyrir mér var það augljóst að hugur fylgdi ekki máli þegar Katrín ákvað að flytja sína eigin tillögu.
Trump þykist vera vinsælli en Biden nú um stundir. Þetta er augljóslega hin mesta vitleysa og líklegast er að hann nái ekki einu sinni að komast í framboð fyrir Republikanaflokkinn í næstu forsetakosningum. Það eru allir orðnir leiðir á honum og æstustu fylgismönnum hans. Sennilegast er að Biden sigri aftur þá.
Ekki fór ég út að ganga í morgun. Veit ekki annað en hátíðahöld hafi farið sæmilega fram hér á Akranesi. Fjölmenni á útisamkomum virtist þó ekki mikið.
Reyndi að horfa á Kötlu-myndina á Netflix í kvöld. Þótti hún fremur léleg að flestu leyti. Margt var þó mjög fagmannlegt við gerð hennar. Þegar strákurinn fór að sparka í og tala við dauða rollu var mér nóg boðið og hætti að horfa. Baltasar Kormákur er orðinn einum of amerískur í hugsunarhætti fyrir minn smekk. Vel getur samt verið að þessi sería verði vinsæl vegna Íslands-forvitninnar hjá mörgum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.6.2021 | 08:28
3082 - Vertu trúr yfir litlu
Þó ég hafi fremur lítið álit á stjórnmálum er ég að hugsa um að setja hér á blað eftirmæli ríkisstjórnarinnar. Já, hún er á útleið þó henni hafi tekist að framlengja líf sitt til haustsins. Alveg frá upphafi var það fyrirséð að þessi ríkisstjórn mundi gera sem allra minnst. Ekki er hægt að bera á móti því að hún hafi lent í ófyrirséðum hremmingum þar sem Covid-faraldurinn er. Einmitt þar hefur hún staðið sig einna best. Einkum með því að gera sem allra minnst og velta sem mestu af ábyrgðinni á þríeykið margfræga, einkum þó á Þórólf sóttvarnarlækni sem segja má að hafi verið nánast einvaldur í kófinu öllu sem vonandi er að ljúka.
Að öðru leyti hefur ríkisstjórnin staðið sig fremur illa. Engum stórmálum hefur verið komið í gegn, enda eru flokkarnir sem að henni standa heldur ósamstæðir. Segja má að það hafi verið einn stærsti sigur hennar að hafa lafað þetta lengi við völd. Einkennilegt er að þó hefur hún notið allmikils trausts og ekki er laust við að forsætisráðherra eigi skilið prik fyrir að hafa haldið henni saman.
Fjölmiðlar hafa haft sig mikið í frammi að undanförnu. Eiga þó í mestu vandræðum með að fjármagna sig þar sem auglýsingar eru að stórum hluta á leið úr landinu. Samfélagslegu fjölmiðlarnir eru óvandaðir mjög og segja má að kjaftasögur af öllu tagi hafi fengið vængi og séu það sem smjattað er á. Þó veita þeir mikið aðhald og ekki ber að vanmeta þá. Segja má að miðlun öll svosem blöð, bækur, símar, tölvur og fleira hafi aukist mjög að undanförnu og ekki minnkar vandi þeirra fjölmiðla sem gjarnan vilja ná til allra landsmanna við það.
Vertu trúr yfir litlu og þá verður þú yfir mikið settur. Þegar ég fór í mín morgungöngu um sjöleytið núna áðan kom mér þessi setning í hug og er búin að vera þar síðan. Þetta kemur eins og í stað hinnar daglegu vísu sem ég hef áður minnst á. Þetta gæti verið spakmæli úr biblíunni eða til þess gert af atvinnurekendum og auðmönnum að hafa stjórn á pöplinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.6.2021 | 06:30
3081 - Er sumarið komið?
Héðan er fátt að frétta. Helena er í heimsókn. Kom með Áslaugu og Hafdísi sem fóru í bæinn, en þar er fólk ekki alveg búið að átta sig á því að Covid er eiginlega búið. Nennir ekki í bólusetningu fyrr en eftir hádegi þegar degi tekur að halla. Siestunni lokið og kominn tími til að fara á fætur. Einkennilegt að fylgjast með því að í hádegisfréttum er kvartað yfir því að fáir mæti til bólusetningar, en svo myndast fljótlega mörg hundruð metra biðröð. Fer fólk virkilega ekki á fætur í þessu ástandi fyrr en seinni partinn?
Kannski gerum við eitthvað skemmtilegt og frásagnarvert seinna í dag, en annars eru þessi dagbókarskrif heldur fábrotin. Þetta er hálfgerð gúrkutíð. Veðrið fer þó ögn skánandi. Á sunnudaginn er þó spáð rigningu. Eldgosinu fer sennilega að ljúka. Kannski koma ferðamennirnir. Búast má við köldu en sólríku sumri og að svalaveður verði semsagt gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.6.2021 | 08:12
3080 - Er Covidið búið?
Nú er orðið kvöldsett hér á Akranesi eins og annars staðar á landinu. Setti blogg upp í morgun og geri ekki ráð fyrir að ég setji þetta upp fyrr enn á mogun í fyrsta lagi. Ég er orðinn syfjaður núna enda fór ég snemma á fætur í morgun, þriðjudag. Þrátt fyrir að ég hafði talað illa um knattspyrnu horfði ég áðan á seinni hálfleik í landsleik Íslands og Póllands í sjónvarpinu. Ekki er því að neita að leikurinn var nokkuð spennandi. Mesta spennan var að sjálfsögðu sú hvort Íslendingum tækist að halda forystunni.
Vonandi er Covidið að verða búið. Auðvitað er það skandall hvernig ríku þjóðirnar (Ísland þar á meðal) hafa hagað sér í sambandi við dreifingu á bóluefni við þessum vírusi. Vitanlega er líka hægt að segja að mannfjöldi í heiminum sé alltof mikill. Á það hefur lengi verið bent að flest vandamál heimsins stafi af því, en lítið sem ekkert verið gert í því sambandi, enda erfitt. Að sjálfsögðu ætti að jafna lifskjör allra íbúa heimsins sem mest. Með því móti mundu flest vandamál heimsins batna stórlega. Vitanlega geri ég mér grein fyrir að það er hægara sagt en gert að draga úr fjölguninni. Pólitískar stefnur sem ætlað hefur verið að laga þetta í einu vetfangi hafa yfirleitt mistekist. Hægfara þróun er heppilegri. Mér finnst skilningur fólks vera að þróast í rétta átt hér á Vesturlöndum. Afurkippur í formi þjóðernisstefnu kemur samt alltaf öðru hvoru.
Er ég að reyna að sýnast gáfaður með þessu skrifum? Kannski. Ekki er von til þess að ég breyti neinu. Jafnvel þó allir sem þetta lesa tileinki sér þessar skoðanir. Allar skoðanir má gera pólitískar og pólitíkin gin yfir öllu. Ekkert er fréttnæmt nema það hafi ekki gerst áður eða geti valdið stjórmálalegum átökum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.6.2021 | 06:01
3079 - Við erum fyrir
Það eru næstum allir hættir að lesa bloggið mitt enda er það hundleiðinlegt. Engin furða þó lesendum fari fækkandi. Ekki hef ég status sem áhrifavaldur. Til þess þarf víst miklu fleiri lesendur.
Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Fáir frasar eru jafnmisnotaðir í pólitískum tilgangi og þessi. Við sem eldri erum vitum þetta ósköp vel. Samt kjósum við þessa vitleysinga aftur og aftur til þess að fara með mál okkar og annarra. Horfum bara á þetta raunsætt. Við erum fyrir. Allir vita það og okkar hlutverki er lokið. Ef hent er í okkur nógu miklu af peningum og þess gætt að hafa heilsugæsluna og þessháttar ekki alltof dýra megum við svona heildstætt séð eiga okkur.
Náttúran hefur búið þannig um hnútana að um leið og við höfum komið afkomendum okkar sæmilega til manns er okkar hlutverki lokið. Ég er ekki að efast um góðan hug allra þeirra einstaklinga sem koma að umönnun okkar. Afkomendur okkar reyna flestir af fremsta megni að aðstoða okkur við að lifa sem lengst. Tilgangurinn er samt enginn nema að fjölga ævidögunum. Sem í sjálfu sér er ágætt, en leysir engan vanda.
Lítum bara á Bretadrottningu. Sonur hennar er kominn vel yfir sjötugt og búinn að bíða lengi eftir því að taka við. Ekki má segja henni að hætta þessari vitleysu því ekki er víst að hann yrði neitt skárri. Sennilega yrði hann bara verri og sonur hans yrði að bíða ellinnar til þess að geta tekið við. Hver er tilgangurinn?
Ástæðan fyrir því að ég geri Breta að umtalsefni hér er sú að við Íslendingar lítum greinilega á Breta og þá sérstaklega Englendinga sem einhvers konar fyrirmyndir. Enski fótboltinn nýtur mikillar virðigar hér, þó hann sé fremur lélegur. Af einhverjum ástæðum eru samt miklir peningar þar og í afreksíþróttum yfirleitt. Sérstaklega boltaíþróttum eins hundleiðinlegar og þær eru nú í rauninni. Hér á Íslandi er það að minnsta kosti þannig. Nei, þá er nú skárra að vera með öllu ábyrgðarlaus. Eins og við gamlingjarnir viljum gjarnan vera.
Einskonar dagbók á þetta víst að vera. Um helgina síðustu tók Bjarni þátt í utanvegahlaupinu Hengill ultra Honun tókst ekki að ljúka sínu 50 kílómetra hlaupi. Enda var vitlaust veður og hann datt og slasaðist á hendi sem hann bar auðvitað fyrir sig. Fór úr liði og brotnaði víst á einum fingri. Þetta var greinilega erfitt hlaup. Sjálfur fór ég ásamt Áslaugu, Hafdísi og Bjössa uppað Sleggjubeinsskarði til að hvetja Bjarna og leist satt að segja ekkert á veðrið. Áður fórum við að Varmármótum og þar var veðrið alveg skaplegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.6.2021 | 08:57
3078 - Fésbók
Það er nú eiginlega of langt gengið að blogga nær daglega hér á Moggablogginu (já, ég er tekinn uppá því aftur) og vera þar að auki að flækjast á Fésbókinni. Kannski tek ég það fyrirbrigði í sátt aftur. Eyddi nefnilega aldrei aðganginum mínum og auglýsti bloggin grimmt þar. Las að vísu ekki bréf og þessháttar á þeim slóðum þó síminn væri sífellt að senda mér allskonar upplýsingar. Var nefnilega að enda við að setja vísukorn á Boðnarmjöð. Þar er margt misheppnað og sakar varla þó ég bætist í þann hóp.
Margt er mannanna bölið
og misjafnt drukkið ölið.
Var einu sinni sagt í heimsósómakvæði. Mér finnst óþarfi að rjúka upp til handa og fóta útaf svokölluðum njósnum. Vita ekki allir að stórfyrirtæki fá það sem þau vilja, í krafi auðs og áhrifa? Nei, ég er ekki að tala um Samherja, enda er það smáfyrirtæki. Þó það sé kannski stórt á íslenskan mælikvarða. Ég er að tala um alvöru alþjóðleg fyrirtæki, sem segja stórþjóðum fyrir verkum.
Nú þarf ég líklega að flýta mér að senda þetta út í eterinn, svo það verði ekki úrelt. Stutt er það að minnsta kosti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2021 | 05:25
3077- Skórinn Þorgeirs
Um daginn dreymdi mig undarlegan draum. Mér fannst við vera að flytja. Af einhverjum dularfullum ástæðum var heill haugur af skóm að aðstoða við flutninginn. Þar á meðal var nýlegur og flottur strigaskór sem Þorgeir í Holti átti. Ekki veit ég hvernig skórnir fóru að því að hjálpa til við flutninginn. En þarna voru þeir. Þetta var í kjallaraíbúð. Ég hafði farið að sofa að flutningunum loknum og vaknaði við læti í krökkunum. Þorgeir var lítill og mínir krakkar líka. Þorgeir vildi að sjálfsögðu fá skóinn sinn aftur. Ég samsinnti því og fór að leita að honum í skúffum sem skórnir höfðu verið settir í. Samt var haugur af þeim enn úti á stétt. Skórinn Þorgeirs fannst ekki og ég var búinn að sætta mig við að þurfa að borga fyrir hann nýja skó. Fór síðan áleiðis í rúmið aftur en mundi þá allt í einu eftir því að ekki höfðu allir skórnir verið settir í skúffurnar, heldur holað niður annars staðar. Verið gæti að títtnefndur skór væri þar og ég sneri samstundis við og þarmeð vaknaði ég og draumurinn varð ekki lengri. Kannski gerðist margt fleira í þessum draumi, en þetta voru aðalatriðin eða að minnsta kosti það sem ég man helst eftir.
Ég ætlaði víst að skrifa um Moggabloggsteljarann í síðasta bloggi. Verst að ég man ekki almennilega hvað ég ætlaði að skrifa. Fór í fyrsta skipti í langan tíma (held ég) niður fyrir 50 á vinsældalistanum, enda skrifaði ég afar sjaldan. Var samt nokkuð fljótur að hífa mig upp aftur þegar ég fór að skrifa næstum daglega. Flettingar voru samt oft miklu fleiri en gestirnir og það túlka ég sem svo að einhverjir séu að skoða mörg blogg hjá mér.
Á þriðjudaginn fór ég í Gamla Kaupfélagið hérna og keypti mat fyrir ferðagjöfina, sem ég hafði næstum gleymt. Á svolítið eftir af annarri, en Áslaug gaf mér sína. Fer kannski aftur í dag eða á morgun.
Aðalfundur húsfélagsins hérna var haldinn í gærkvöldi (miðvikudag) og ekki er margt um það að segja. Stjórnin var endurkjörin eins og búast mátti við. Hingað til hafa stjórnarmenn verið hálfnauðugir í þessu, en það stendur til bóta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.5.2021 | 07:44
3076 - Smávegis um stjörnufræði
3076 Smávegis um stjörnufræði
Sagt er að okkar sól sé u.þ.b. 150 milljón kílómetra í burtu. Sem er eins gott því ef hún væri mikið nær væru geislar hennar banvænir. Næsta sól eða stjarna er vist í u.þ.b. fjögurra til fimm ljósára fjarlægð. Ljósið fer ansi hratt yfir eða eina 300.000 kílómetra á sekúndu þannig að á heilu ári fer það nokkuð langt. Það geimfar sem hraðast fer nú um stundir væri u.þ.b. mínútu að fara í kringum jörðina. Með slíkum hraða yrðum við meira en 6 þúsund ár á leiðinni til þessarar stjörnu. Skv. almennu afstæðiskenningunni og miðað við gildandi átrúnað á vísindi og þess háttar er ekki hægt að komast hraðar en ljósið.
Af þessu má draga þá ályktun að ekki verði um ferðir til annarra stjarna að ræða án þess að komast hraðar. Vísindaskáldsögur hafa fyrir löngu leyst þetta vandamál með svokölluðum warpspeed eða ofurhraða, en miðað við núverandi þekkingu er hann ekki til. Með langvinnum tilraunum og allskonar heilaleikfimi hefur mönnum þó tekist að búa til svokölluð ormagöng sem sögð eru skyld svartholum, og ferðast þannig á milli stjarna og jafnvel vetrarbrauta, en ég fer ekki nánar útí það enda skil ég það allsekki.
Pláneturnar sem sveima krigum sólina má segja að séu næstu nágrannar okkar. Enn hefur okkur þó ekki tekist að komast til þeirra, en rannsóknartæki hefur okkur að sögn tekist að senda þangað. Mars er sú pláneta sem aðallega verður fyrir ásókn okkar nú um stundir og þar hefur ef til vill þróast einhverskonar líf í fyrndinni. Leikar standa semsagt nokkurnvegin 2:1 lífinu í hag akkúrat núna því líf hefur sennilega aldrei þróast á tunglinu.
Eiginlega ætlaði ég að ræða um Moggabloggsteljarann í þessu bloggi, en það verður víst að bíða betri tíma, því það er um gera, er mér sagt, að hafa bloggin stutt og hnitmiðuð til þess að nokkur nenni að lesa þau.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2021 | 09:40
3075 - Þruma hérna Þorsteinar
Er um þessar mundir að lesa bókina Háski í hafi eftir Illuga Jökulsson. Það er alveg rétt hjá honum að sundkunnáttu var ekki fyrir að fara hjá Íslendingum fram eftir síðustu öld. Sjálfur man ég vel eftir að hafa heyrt því haldið fram að sundkunnátta framlengdi bara dauðastríð þeirra sjómanna sem lentu í sjávarháska. Ein af bernskuminningum mínum er samt sem áður á þá leið að ég sá niðri á þjóðvegi skammt frá réttunum vörubíl sem var með borða festan á framstuðarann hjá sér og á honum stóð: Syndið 200 metrana. Enda fór það svo að Íslendingar sigruðu í samnorrænu sundkeppninni og framvegis þýddi ekki mikið fyrir aðrar Norðurlandaþjóðir að keppa við okkur þar.
Held ég hafi nokkrum sinnum sagt frá því að mér kemur venjulega í hug ein vísa á dag. Í dag var það þessi:
Geðið mitt hann gladdi sjúkt
gamla hressti kæru.
Hvað hann gerði það hægt og mjúkt
hafi hann þökk og æru.
Eiginlega er þetta klámvisa, en þó er óhætt að segja að hún sé ekkert dónaleg. Áðan fór ég í morgungöngu eins og ég geri oft. Á leiðinni gerði ég þessa vísu:
Þruma hérna Þorsteinar
þeigi kemur saman.
Virðast báðir Viðreisnar
voðalega er gaman.
Þetta er svosem ekkert góð vísa en hún er rétt gerð og hrynjandin er alveg í lagi. Stundum geri ég vísur eða dettur eitthvað snjallt í hug á morgungöngunni, en þó þykir mér best að hugsa ekki um neitt nema kannski gönguna sjálfa á leiðinni. Samt er ég oft í besta stuðinu snemma á morgnana til að gera eitthvað að gagni. Verst hvað ég vakna stundum seint. Þó er það greinilega ofmetið hjá mörgum að sofa út á hverjum einasta degi.
Nú var ég búinn að skrifa einhver mynd eins og lokaorðin eru oftast hjá mér en þá datt mér í hug þetta með myndirnar. Hugsunin með þeim er að skreyta bloggin smávegis. Ég er samt oft dálítið lengi að ná í þær. Þetta eru nefnilega allt saman endurbirtingar. Næstum allar hef ég tekið sjálfur svo ekki þarf ég að hafa áhyggjur af höfunarréttinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)