3101 - Fimbulfamb

Er að hugsa um að setja þessi ósköp á bloggið mitt. Fann þetta á tölvunni hjá mér. Sennilega hef ég einhverntíma verið að hugsa um að blogga svona. Hef samt ekki hugmynd um hvenær þetta er skrifað. Ætli það sé ekki bættur skaðinn. Þetta eru ekki merkileg skrif. Læt þetta samt flakka og lofa að skrifa eitthvað bitastæðara næst.

Ég man vel eftir því þegar ég stóð á einni tá í fyrsta sinn. Því miður var það ekki mín eigin tá því þá hefði ég fundið til. Einhvern vegin hafði ég þó komist upp á þess tá. Nú veit ég, þetta var tá á stórri styttu og ég stóð uppá henni og komst ekki lengra. Kannski verður þetta saga og kannski ekki. Ég hef ekki hugmynd um það. Skrifa bara jafnóðum það sem mér dettur í hug. Ég sem var nýbúinn að taka til í bakhöfðinu. Ótrúlegur andskoti að ég skyldi lenda í þessu. Ekki hefði mig grunað það þegar ég kíkti ofan í líkkistuna. En svona er þetta. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Og nú er ég semsagt dauður. Hvað skyldi koma næst? Alveg er ég viss um að enginn mun trúa mér þegar ég fer að segja frá þessu.

Svona get ég fimbulfambað endalaust. Spurningin er bara hvort nokkur nennir að lesa það. „Minningar með morgunkaffinu“ eru miklu skárri en þetta. Samt eru það eflaust fáir sem nenna að lesa svona minningar nema þeir tengist atburðunum með einhverjum hætti. Hveragerði er örugglega betra en Garðsauki hvað það snertir. Gæti samt skrifað miklu meira um Garðsauka og geri kannski í næsta bloggi eða svo.

Stundum ligg ég á því lúalagi að fimbulfamba fjandann ráðalausan í byrjun bloggs. Á þessu sem hér fer á eftir er hvorki upphaf né endir.

Kannski væri best að byrja samt á byrjuninni. Þetta með tána er engin vitleysa. Ég get svo guðsvarið það að þessi eina tá var á við margar venjulegar.

Svo kom í ljós að geirfuglinn hafði jafn mikið vænghaf og Geir sjálfur. Það var svosem engin furða, því veðrið fór ört kólnandi. Enginn nennti lengur að spila matador enda voru  peningarnir greinilega falsaðir.

Þetta með geirfuglinn er heldur ekki nein lygi. Þó geirfuglar geti ekki flogið þá geta þeir haft heilmikið vænghaf. Þeir eru heldur ekki útdauðir ef mann dreymir þá.

Svo komu bankaræningjarnir þjótandi með byssurnar spenntar og hrópuðu: „Við tökum enga fanga. Athugið það. Alls enga fanga.“ En það var of seint því Jórsalafarinn var kominn í keng. Honum var svo mikið mál að pissa.

Þegar kemur að bankaræningjunum versnar málið. Ég veit eiginlega ekkert hvað er á seyði. Þekki líka fáa Jórsalafara. Þarna er víst um að ræða Jerúsalem og kannski er hægt að kalla alla sem þangað hafa komið Jórsalafara.

Nú er ég kominn á grafarbakkann svo það er eiginlega ekki seinna vænna að byrja á ævisögunni. Verst ef mér tekst ekki að klára hana.

IMG 4275Einhver mynd.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband