3110 - Játningar

 

Já, já. Ég er gamalmenni. Orðinn 79 ára. Bráðum áttræður semsagt. Því skyldi ég ekki lifa svona 20 til 30 ár í viðbót. Óþarfi að láta einhver meðaltöl hafa of mikil áhrif á sig. Eiginlega er ekkert að mér. Finn samt að ég er gamall að verða. Þreytist fljótt og fer mér afar hægt við allt sem ég geri. Jafnvægið, hægðirnar og þvaglátin gætu svosem verið betri. Sef líka oft illa og svitna mikið þá. En ekki er mikið við því að gera. Peningalega hef ég og við bæði tvö það betra en oftast áður. Við ég og konan mín lifum fremur spart. Með því að láta læknana og heilbrigðiskerfið hafa sinn skerf, börnin og barnabörnin einnig sitt, er vel hægt að draga fram lífið þó tekjurnar séu ekki miklar. Ekki held ég að það sé ríkisstjórninni né stjórnvöldum almennt að þakka.

Miklu fremur konunni minni. Hún teiknar og málar af miklum krafti, eldar mat og þvær þvotta en ég hugsa og hugsa en geri fremur lítið, reyni þó að vera til einhvers gagns. Les og skrifa og læt semsagt tímann líða. Það er helst að ég bloggi svolítið. Stundum oft og stundum sjaldnar. Þetta bloggvesen á mér er vel hægt að líta á sem einskonar dagbók. Hér skrifa ég um allt mögulegt. Minnst samt um sjálfan mig að ég held. Reyni ævinlega að vera sem gáfulegastur. Er ekki langskólagenginn. Hef enga pólitíska sannfæringu. Að minnsta kosti endist hún illa. Margir, einkum þeir sem hér skrifa, hafa þessa sannfæringu. Skrifa einkum um stjórnmál og víst er þar um margt um að skrifa. Of mikil pólitík er samt leiðinleg til lengdar.

Kannski er sagnfræði af öllu tagi áhugamál mitt. Um þau fræði öllsömul er líka endalaust hægt að skrifa. Rithöfundur gæti ég ekki verið. Skrifa og skrifa alla daga og birta það einu sinni á ári eða svo, það er ekki minn tebolli. Vanafastur og kenjóttur er ég vissulega, en mér finnst ég ekki vera tiltakanlega vitlaus.

IMG 4181Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Þú hefur margt fram yfir mig því ég er oft i vandræðum með hvað ég éigi að taka til bragðs, vantar einhvern gáfulegan tilgang í lífið enda mun eldri en þú.

Halldór Jónsson, 18.10.2021 kl. 00:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Halldór. Einu sinni sagðir þú að til þess að blogg yrðu vinsæl þyrfti að blogga oft og reglulega. Það hef ég reynt að gera, en koðna talsvert niður öðru hvoru að því leyti.

Sæmundur Bjarnason, 19.10.2021 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband