Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2020

2997 - Tvær sögur

Nú er ég orðinn svo ruglaður í ríminu að ég verð sennilega að hafa tvær sögur í þessu bloggi. Hélt nefnilega endilega að ég hefði verið búinn að setja upp söguna um ugluna og nunnuna en svo virðist ekki vera. Ekki þurfti nú mikið til að ég ruglaðist algerlega. Ég virðist vera alvarlega dottinn í þessa sögugerð þó þær séu óttalega vitlausar. Einhvern vegin verð ég að losna við þessar sögunefnur. Annars þarf ég að halda áfram að hugsa um þær og það er satt að segja ekki þægileg tilhugsun. Með þessu móti á ég líka auðveldara með að blogga dálítið ört, jafnvel daglega.

Þá eru það sögurnar:

Sú fyrri fjallar um byssusmiðinn og nunnuna.

Einu sinni bjuggu í ofurlitlu rjóðri í skóginum gamall fyrrum byssusmiður og fyrrverandi nunna. Þetta með nunnuna var dálítið sögulegt, því hún hafði verið rekin úr nunnuklaustrinu sem hún var í vegna þess að hún hélt við manninn sem kom vikulega og sótti óhreina þvottinn til þeirra og skilaði að sjálfsögðu þeim hreina í sömu ferðinni. Þessi blessaða nunna hafði aldrei verið við karlmann kennd þegar þessi  maður kom í fyrsta skipti til að sækja óhreina þvottinn til þeirra í nunnuklaustrinu. Mannauminginn ætlaði að vera voðalega fyndinn og sagði þegar hann kom:

„Ég er víst kominn til að sækja nærbuxurnar ykkar“. Nunnan okkar sem við skulum kalla Guðrúnu flýtti sér þá úr nærbuxunum sínum og fékk honum þær. Þetta var upphafið af nánum kynnum þeirra sem við skulum ekkert fara nánar útí.

Byssusmiðurinn hét náttúrulega Smith og Guðrún og hann komu sér nú saman um að kominn væri tími til þess að byggja við litla húsið í skógarrjóðrinu. Þau báðu þess vegna ugluna, sem var gáfaðasta dýrið í skóginum að fara á stúfana og reyna að útvega sér mótatimbur og sement. Í lækjafarvegi sem var í nágrenninu töldu þau sig geta fegið sér nóg af möl og sandi.

Uglan flaug samstundis af stað og sagðist ætla að reyna þetta. Hún kom fljótlega til baka með helling af mótatimbri í gogginum, en sementið var í pokaskjatta sem hún dró á eftir sér.

Gömlu hjónin, sem voru eiginlega ekkert sérstaklega gömul, fóru nú að hræra steypuna og slá upp fyrir veggjunum. Fyrr en varði var komin myndarleg viðbygging. Það sem áður hafð verið lítið hús með tveimur litlum herbergjum var nú orðið hið eigulegasta hundrað fermetra einbýlishús. Uglan taldi að hún ætti rétt á því að búa með þeim, því að hún hafði útvegað mótatimbrið og sementið. Þau Smith og Guðrún vildu ekki heyra á það minnst og sögðust ekki vilja gera húsið sitt að einhverjum fuglakofa. Uglan fór þá í fýlu og fór og talaði við hrafnana og sagði þeim alla sólarsöguna.

Þeir fóru til mávanna og fleiri fugla og saman gerðu þeir aðsúg að gömlu hjónunum, sem voru ekkert sérstaklega gjömul. Þau neyddust þá til að flýja úr húsinu sínu fína og þannig stendur á því að húsið er enn þann dagi í dag í rjóðrinu við árbakkann.

Seinni sagan fjallar um Pétur flugkappa:

Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu. Þau áttu sér kálf. Þá er sagan hálf. Hann hljóp út um víðan völl. Nei, annars. þetta er ekkert fyndið. Einu sinni hélt maður að allar sögur byrjuðu svona.

Satt að segja langaði Pétur ekkert til að fara í flugvélina. Pabbi hans hafði samt sagt honum að það væri voða skemmtilegt. Að fara svona einsamall til útlanda var ekki vitund gaman. Hvað ef flugvélin hrapaði nú og hann týndi lífinu. Ekki væri það nú skemmtilegt. Auðvitað væri gaman að vera sá eini sem kæmist lifs af. Hann var alveg sannfærður um að hann kæmist lifandi úr flakinu ef flugvélin færist. Pétur var alveg ákveðinn í því að láta flugvélina farast. Hann var svosem ekki alveg búinn að ákveða hvernig hann færi að því, en það var eiginlega aðalástæðan fyrir því að hann lét sig hafa það að fara upp í flugvélina. Hann var alveg búinn að ákveða að hún færist á leiðinni. Annað mundi valda honum sárum vonbrigðum. Pétur fékk svolítið „trukk undir taglið“ þegar flugvélin fór á loft. Honum fannst samt ekkert mikið til hraðans koma enda var ekki um neinn samanburð að ræða. Á loft fór flugvélin samt eins og ekkert væri og nú tók við svokölluð „flugfreyjusýning“ þar sem auk flugfreyjanna voru sýnd allskonar neyðarapparöt fyrir þá sem leiddist að horfa á flugfreyjurnar í áttugasta og þriðja sinn.

Hvernig sem á því stóð þróskaðist flugvélin við að bila. Pétur var samt búinn að ákveða að það mundi gerast fljótlega eftir flugtak. Hann sætti sig samt alveg við að fresta því svolítið enda fóru freyjurnar og þjónarnir fljótlega að færa farþegunum matarbakka. „Kannski maður bíði svolítið með að láta flugvélina bila“, hugsaði Pétur. Þegar búið var að safna bökkunum saman aftur ákvað hann að ekki væri eftir neinu að bíða lengur. En það var sama hvað hann rembdist við, ekki bilaði flugvélarskömmin. Að lokum ákvað hann að grípa til örþrifaráða. Hann kallaði á aðstoð með þartilgerðum hnappi og þegar flugfreyjan kom rétti hann úr einum putta í vasanum á jakkanum sínum og sagðist vera með byssu og að hún yrði að fara með hann til flugstjórans því hann þyrfti að tala svolítið við hann. Freyjuræfillinn þorði ekki annað en hlýða Pétri og hélt með hann á eftir sér fram í vélina. Þegar í flugstjórnarklefann kom sagði hann flugstjóranum að láta flugvélina hrapa núna samstundis, annars mundi hann skjóta úr byssunni sem hann þóttist vera með og miðaði á flugstjórann. Flugstjórinn hló bara og sló létt á ímyndað byssuhlaupið, sem við það bognaði og réttist samstundis við aftur. Enginn kom hvellurinn svo flugstjórinn stóð upp og sló Pétur á kjammann. Við þessa óvæntu árás hrataði hann aftur á bak og datt endilangur á bakið. Þannig lauk fyrstu tilraun Péturs til flugráns og endum við frásögnina því hér með.

IMG 5543Einhver mynd.


2996 - Enn ein sagan og svolítið meira

Ég hef að mestu haldið mig við svokallað „intermittent fasting“ frá síðustu áramótum. Sem megrunarráð er þetta þó lítils virði. Að vísu léttist ég talsvert til að byrja með, en það hefur að miklu leyti stöðvast núna. Ég er farinn að halda að til þess að ná einhverjum verulegum árangri í léttingu þurfi maður að sætta sig við að vera svangur í talsverðan tíma. Það kann að vera óeðlilega erfitt fyrir suma, en aðrir ættu alveg að geta sætt sig við það. Ekkert er mér vitanlega óhollt við það að vera svangur. Jafnvel langtímum saman. Líka skiptir kannski máli hve mikið er étið hverju sinni. Ef borðað er til þess að sem allra lengst verði þangað til maður verði svangur aftur er maður á hættulegri braut. Einnig virðist skipta miklu máli hvað borðað er. Brauð og kökur ættu alveg að vera bannvara. Ef hinsvegar er bara borðað þar til hungurtilfinningin hverfur ætti það í flestum tilfellum að vera nægilegt. Nóg um megrunaraðgerðir að sinni.

Nú er ég eiginlega dottinn í það að semja allskyns söguvitleysur og kannski ég noti bloggið mitt til að losna við þær. Hér er sú nýjasta:

EGILL Í KRÓKI

Þannig var að þó Sigurjón á Brekku væri hreppstjóri sveitarinnar, var hann ekki viss um hvað hann ætti að gera í málefnum fjölskyldunnar í Króki. Ekki var hægt að senda þau hreppaflutningum suður í sína heimasveit. Til þess voru þau alltof erfið í umgengni. Hann minntist þess að þegar þau komu í sveitina upphaflega voru þau bæði ákveðin í því að láta sér takast að verða þar sveitföst. Nú voru þau búin að eiga heima þarna í bráðum tíu ár og vantaði aðeins svona eins og eina viku eða einn mánuð til þess að ekki væri hægt lengur að reka þau í burtu.

Upphaflega voru þau bara tvö, en svo fóru þau að hlaða niður börnum. Líklega voru þau ein sex núorðið. Sigurjón vissi það ekki almennilega. En allavega var ómögulegt að láta þau, með alla þessa ómegð verða sveiföst í sveitinni hans Sigurjóns.

Meðan hann velti þessu fyrir sér á alla kanta, hélt hann áfram að moka skítnum. Furðulegt hvað rollurnar gátu skitið mikið. Á hverju ári þurfti að moka undan þeim. Sigurjón átti uppundir 100 fjár og var ákaflega stoltur að séraguðmundarkyninu sínu. Hann hafði lengi velt því fyrir sér hvernig hægt væri á fá kindurnar til að skíta minna, svo ekki þyrfti að moka undan þeim nema annað hvert ár í mesta lagi. Best væri auðvitað að ekki þyrfti að gera það nema þriðja hvert ár.

Til þess að minnka skituna úr fénu hafði hann látið sér detta ýmislegt í hug. Vel mætti hugsa sér að hafa fjárhúsin reisulegri og hærra undir loft. Því mundu samt fylgja ýmsir ókostir. Taðið yrði bara meira og jafnvel þyrfti að moka mun lengur. Annar möguleiki væri að gefa minna hey. Sigurjón hafði aldrei gefið fénu fóðurbæti svo ekki þurfti hann að spara þá gjöf. Nú datt honum í hug snjallræði. Hann gæti náttúrulega fækkað fénu. Auðvitað mundu þá minnka tekjurnar af fjárbúskapnum með því að dilkarnir yrðu færri á haustin.

Hann var samt allsekki búinn að gleyma hinu vandamálinu sem hann þurfti að fást við. Allt í einu sá hann að hægt væri að ráða bót á þessum vandamálum með sama ráðinu. Það var einmitt að koma haust og sláturtiðin að byrja. Hvernig væri að ræna öllum dilkunum frá þeim í Króki og leggja þær inn á sínu nafni. Hann gæti bara sagt að ærnar hefðu verið óvenju frjósamar þetta árið, ef einhverjum þætti dilkarnir furðanlega margir.

Hann hugsaði sig ekki lengi um heldur hentist heim að Króki og rak alla dilkan þaðan, sem svo vel vildi til að voru á beit í túninu, heim í vélageymsluna. Þegar hann var að reka þá síðustu inn þurfti Jón á Stóra-Hóli endilega að koma blaðskellandi fyrir húshornið. „Hvað skyldi karlkvölina vanta núna“ hugsaði Sigurjón, en sagði bara:

  • Sæll vertu. Hvaða ferðalag er á þér?
  • Ég var nú eiginlega bara að svipast um eftir henni Mjallhvíti minni.
  • Nú, er hún nú einu sinni enn farin að heiman?
  • Já, en hún getur nú ekki hafa farið langi, eins og hún er nú orðin fótafúin.
  • Það er aldrei að vita hverju þessar rolluskjátur geta fundið upp á, þega sá gállinn er á þeim.
  • Æ, ég veit ekki. En er það sem mér sýnist að þú ætlir að reka til slátrunar dilkana hans Egils í Króki. Ég sá ekki betur en þú værir að reka þá inn í vélageymsluna þína.
  • Ég er nú ekki viss um að þetta séu dilkarnir hans Egils.
  • Nú, mér fannst ég þekkja þá. Má ég kannski sjá mörkin á þeim.
  • Ha? Einmitt það já. Mörkin já. Svoleiðis já. Ég var eiginlega alveg búinn að gleyma því.

Og þannig vildi það til að Sigurjón gat ekki stolið dilkunum hans Egils í Króki. Auðvitað tókst honum að ljúga sig útúr vandaræðunum sem hann var kominn í, en Egill karlinn í Króki varð sveitfastur í hreppnum hans Sigurjóns.

IMG 5545Einhver mynd.


2995 - Oft er mínum innri strák

Ég held , svei mér, að fésbókin sé í andarslitrunum. Kannski eru aðdáendur hennar samt nægilega margir til þess að hún geti starfað eitthvað áfram. Aftur á móti hlýtur fjölgunin samt að stöðvast núna. Sé ekki betur en þeir séu að gjörbreyta öllu, bara til þess að breyta. Yfileitt kann slíkt ekki góðri lukku að stýra. Hef ekki farið þangað oft að undanförnu, og ekki eykst áhugi minn við þetta. Það er samt skaði ef hún er að missa tökin, vegna þess að ekki er því að neita að hún hefur, á undanförnum árum, stórlega aukið áhuga almennings á internetinu. Sem samskiptamiðill er hún einnig óviðjafnanleg.

Ekki veit ég af hverju það er, en núna hljómar í sífelli fyrir mínum innri eyrum vísan:

Oft er mínum innri strák
ofraun þar af sprottin.
Í mér tefla einatt skák
andskotinn og drottinn.

Kannski er það vegna þess að Tinna og Bjarni ásamt Áslaugu voru eitthvað að fjölyrða um trúmál í gærkvöldi og þar að auki tefldum við Bjarni eins skák sem Tinna skrifaði niður og endurskapaði á skáborðinu á eftir. Auðvitað tapaði ég þessari skák, en vel getur verið að þetta sé fyrsta skákin sem Tinna skrifar niður. Helena er í heimsókn. Benni og Angela komu með hana í gær og núna seinni partinn förum við til Hafnarfjarðar með hana. Meðal annars þessvegna komu Bjarni og Tinna líka í heimsókn í gærkvöldi. Skömmu áður fórum við með Helenu þangað, meðal annars til að sjá rauða húsið.

Annars var ég réttáðan að semja svolítið sögukríli. Kannski ég setji það bara hérna svo ég þurfi ekki að hafa af því áhyggjur meira. Þeir sem ekki vilja lesa þessar smá- eða örsögur, sem ég er öðru hvoru að demba yfir lesendur mína geta semsagt bara hætt hér.

Bókasafnið.

Það var undarlegt með þetta bókasafn. Þar var hægt að gera hvað sem maður vildi. Jafnvel að vera í fýlu. Enginn tók eftir því. Það með var orðið alveg marklaust að vera í fýlu. Einnig var hægt að hafa hátt þar. Maður gat öskrað eins og mann lysti. Enginn tók mark á því. Þar með var orðið alveg marklaust að öskra. Sömuleiðið var hægt að hlæja eins og vitleysingur. Enginn vildi fá að vita að hverju maður væri að hlæja. Það með var vitatilgangslaust að hlæja. Já, Þetta var stóreinkennilegt bókasafn. Þar voru engar bækur. Hvernig vissi maður þá að þetta var bókasafn? Nú, það stóð skrifað með stórum stöfum fyrir ofan innganginn. Þessvegna fór Jósep þar inn. Það olli honum að vísu nokkrum vonbrigðum að engar bækur var neinsstaðar að sjá. Hann einsetti sér að spurja um þetta við fyrsta tækifæri. Gallinn var bara sá að hann sá hvergi nokkurn mann sem líklegur væri til að vera starfsmaður þarna. Samt var þarna talsverður slæðingur af fólki. Allir virtust vera að leita að bókum eins og hann.

Þegar hann var orðinn úrkula vonar um að finna nokkrar bækur rakst hann skyndilega á litla bókahillu úti í horni. Í henni voru talsvert margar bækur. Hann fór og skoðaði þær. Svo undarlega vildi til að þarna var einmitt að finna þær bækur sem hann langaði mest til að lesa. Svo hann fór að lesa. Las og las þangað til ekki komst meira fyrir í heilanum á honum. Hann var nefnilega með einskonar ljósmyndaminni. Hann var að vísu með svolítið takmarkað pláss. Hann mundi út í hörgul hvað hann hafði lesið og á hvaða blaðsíðu þar var. Þurfi semsagt að setja það sem hann hafði lesið úr skammtímaminninu í langtímaminnið. Sá diskur hafði ótakmarkað pláss en ekki var hægt að setja úr skammtímaminniu á hann nema daginn eftir.

Hann fór nú að leita að útganginum en fann hann hvergi. Allt í einu birtist hurð sem virtist liggja að útganginum. Hann fór rakleiðis þangað og út um hurðina. Nú var hann staddur á engi. Það virtist vera endalaust og ná í allar áttir. Hann leit á bakvið sig og sá enga byggingu eins hann bjóst við að bókasafnið hlyti að vera í. Ekkert var þar að sjá nema endalaust engi. Þó grasið væri vel sprottið var hvergi nokkra skepnu að sjá. Heldur engar vélar til að slá engið. Hann ákvað nú að fara í þá átt sem honum þótti líklegast að byggð væri að finna. Hann gekk lengi lengi og koma að lokum að girðigu sem virtist vera umhverfis engið. En hinum megin við girðinguna virtist engið halda áfram út í það óendanlega. Hvernig gat staðið á þessu? Einhvern tilgang hlaut girðingin að hafa. Hann gekk nú lengi dags meðfram girðingunni en sá hvergi fyrir endann á henni eða að húna beygði nokkurntíma. Að lokum var hann orðinn svo þreyttur í fótunum að hann komst ekki lengra. Þá lagðist hann niður og fór að sofa.

Þegar hann vaknaði var allt með sömu ummerkjum og fyrr. Meira að segja hafði sólin ekki fært sig merkjanlega úr stað. Samt var hann allur endurnærður og til í að fara að ganga aftur meðfram girðingunni. Þá kom honum skyndilega í hug að sólin hafði ekki fært sig neitt úr stað á göngunni löngu daginn áður. Eða var kannski alltaf sami dagurinn þarna? Í því vaknaði hann og mundi allan drauminn en gat ekki með nokkru móti ráðið hann og var alveg búinn að gleyma hvað stóð í bókunum í litlu hillunni. Hann ákvað því í skyndi að gleyma draumnum með öllu sem fyrst. Þess vegna get ég ekki haldið áfram með söguna.

IMG 5546Einhver mynd.


2994 - Ráðherrann af Skaganum

Sennilega er það Þórólfur sóttvarnalæknir sem ræður næstum öllu hér á landi hvað kórónuveiruna snertir. Og þar með ræður hann töluvert miklu. Hvort sem hann vill eða vill ekki. Ríkisstjórnin er eins og hver annar kjaftaklúbbur og veit ekkert í hvern (eða hvorn) fótinn hún á að stíga. Mottó hennar hingað til hefur verið að gera sem allra minnst og hver veit nema það sé farsælast þegar til lengdar lætur. Mér segir svo hugur um að hún ætli sér samt að styrkja íslenska flugfélagið eins og þörf er á. Það heitir víst ensku nafni eins og er. Þar að auki óttast ég að til standi að reyna að fá sem flesta til að gleyma Samherja og Namibíu og kannski tekst það.

Mikið er rætt um upplýsingaóreiðu og ákvarðanaóreiðu eða -fælni eins og hingað til hefur verið látið nægja. Meðan Kári og Þórólfur eru að mestu sammála um hvað gera skuli í þessum veirumálum, hef ég litlar áhyggjur af hinni svokölluðu ríkisstjórn í þeim málum. Þó mælt sé með ýmsum lyfjum við veirunni, er það samkvæmt minni hugsun ekki nein lausn. Held að sú lausn komi ekki fyrr en í fyrsta lagi um jól og verði í formi bóluefnis. Venjulegt flesnubóluefni hugsa ég að komi fyrr. Sennilega í október, og ekki er rétt að rugla því saman við Covid-bóluefni, sem líklega verður allsekki fáanlegt svo snemma.

Margar vitleysur held ég að hafi verið gerðar í kórónu-bardaganum. Fyrir það fyrsta hagræðir Þórólfum sannleikanum ansi mikið og oft í sinni umfjöllun og þjónkun við ríkisstjórnarplebbana, Víðir er orðinn eins og biluð plata og hamrar sífellt á því sama aftur og aftur. Þrátt fyrir mærðina er Alma eiginlega sú skásta af þríeykinu. Þetta hefur ekki mátt segja að undanförnu því miðdegisþáttur þeirra hefur verið svo vinsæll. Steininn tók þó úr þegar Þórólfur fór að afsaka og fyrirgefa ráðherra ferðamála. Þó hún líti nokkuð vel út og hafi eflaust staðið sig sæmilega í skóla gerði hún afdrifaríka vitleysu þegar hún fór út að skemmta sér með æskuvinkonum sínum, að hún sagði. Gallinn er bara sá að vel getur verið að fleiri eigi æskuvinkonur. Ef hún fær ekki a.m.k. áminningu fljótlega mun þetta verða ríkisstjórninni dýrkeypt í næstu kosningum. Og svo tók Katrín að sér að mæla henni bót í Kastljósi kvöldsin en Kata er nú bara Kata.

Í öllum þeim fjölbreyttu og margbrotnu myndum,
sem mannlífið birtist oss Jörðinni á
sú gleðin er stærst sem að gerist í syndum
og gamanið mest er að fara uppá.

Þessa vísu gerði ég fyrir langa löngu. Man ekkert hvenær það var. Hún rifjaðist upp fyrir mér núna rétt áðan. Ekki hef ég hugmynd um hversvegna hún gerði það. Þessi vísa hefur mér ekki komið í hug í fjöldamörg ár. Fyrr en núna áðan. Ekki er það nein furða þó mér hafi komið í hug síðasta vísuorðið fyrst og svo hafi ég rakið mig uppeftir vísunni. Sennilega er hún ekki sem verst.

IMG 5552Einhver mynd.


2993 - Maurar

Las í Fréttablaðinu áðan um árekstur þeirra skákmannanna Guðmundar Kjartanssonar og Héðins Steingrímssonar. Ekki virðist vera neitt um þetta mál á mbl.is og þessvegna er kannski ekki ástæða til að fjalla um það hér á Moggablogginu. Það er samt umhugsarvert að þetta er það sem vandaðir (sic) fjölmiðlar hafa mestan áhuga á núorðið í sambandi við skákina. Ekki er fyrir það að synja að almenningur tekur mikið mark á því sem stendur í blöðum eins og Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Skákin hefur að miklu leyti vikið úr fréttum á kostnað vinsælli íþrótta. Ef íþróttum eru gerð einhver skil í sjónvarpi koma blöðin á eftir. T.d. var NBA alls ekkert þekkt hér á landi fyrr en Stöð 2 fór að sýna leiki þaðan. Svipað má segja um Formúlu eitt og vafalaust fleiri íþróttagreinar.

Enginn vafi er á því að skák nýtur talsverðra vinsælda hér á landi. Einkum er það frá gamalli tíð, þegar Íslendingar stóðu sig vel í þeirri íþrótt. Vegna deilna og þess háttar í skákheiminum og vegna þess að ekki hefur verið gætt að því að gera skákina sjónvarpsvæna hefur hún þokað mikið úr almennum fréttum og færst yfir á Netið. Þetta verður síðan til þess að peningar (sem því miður stjórna flestu) hafa horfið úr skákinni. Sú tíð, að Slater ,auðmaðurinn breski, bjóðist til að tvöfalda verðlaunaféð í heimsmeistaraeinvíginu eina og sanna, sem haldið var í Reykjavík árið 1972 sællar minningar, kemur aldrei aftur.

Brauð og leikar sögðu Rómverjar til forna að þyrfti til að hafa pöpulinn rólegan og leiðitaman. Í nútímanum mætti ef til vill segja að hægt væri að nota orðin matur og fótbolti til að ná svipuðum áhrifum.

Las í gær bók eftir Svetozar Gligoric þar sem hann fjallaði um Fischer Random Skák, sem reyndar heitir víst eitthvað annað núna. Þessi bók er skrifuð og gefin út að ég held í kringum síðustu aldamót. Þó klukkurnar með incrementinu sem kenndar eru við Fischer hafi náð mikilli útbreiðslu er ekki það sama hægt að segja um random skákina sem hann fann eigilega upp ásamt mörgum öðrum. Segja má að hann hafi a.m.k. á vissan hátt fullkomnað það skákafbrigði og Gligoric og aðrir barist fyrir því að það yrði tekið upp. Skiljanlegt er að þeir skákmenn sem eytt hafa miklum tíma í að fullkomna byrjanir sínar séu ekkert ginkeyptir fyrir því að taka þetta afbrigði upp í stað hefðbundinnar skákar. Eiginlega má segja að þetta afbrigði (FRC) líkist það mikið venjulegri skák að vel megi stunda það við hliðina á hinni klassísku skák. Úr því sem komið er getur varla orðið úr því að það taki yfir.

Ég sagði áðan að mistekist hafi að gera skákina nægilega sjónvarpsvæna. Hana vantar hraðann og snerpuna. Golfíþróttin, sem allsekki er sjónvarpsvæn í sjálfu sér, er orðin það núna fyrst og fremst vegna framfara í sjónvarpstækni, þó ég skilji allsekki hvað áhorfendur eru að gera á golfmótum. Kannski eru þeir bara að horfa á þessa frægu menn, sem bara eru frægir fyrir það hve margir vilja horfa á þá. Þar að auki er golfíþróttin mikið stunduð í heiminum. Sumir vilja halda því fram að skákin sé hinsvegar dauð. Eiginlega er hún það hvað útbreidda fjölmiðla snertir. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún nái sínum fyrri vinsældum aftur. Ég man vel þá tíð að skákfréttir voru forsíðuefni blaða. A.m.k. var svo hér á landi þegar Friðrik Ólafsson var og hét.

Á Amazon eru margar bækur um maura og að undanförnu hef ég verið að kynna mér þær svolítið. Ekki er því að neita að háttalag þeirra og iðni er mjög athyglisverð. Ekki er ég þó að mæla með því að menn fari almennt að kynna sér maurafræði. Margt er þar samt sem hægt væri að taka sér til fyrirmyndar. T.d. er lítill vafi á því að einstaklinshyggja fyrirfinnst ekki hjá þeim. Ef mannkynið deyr einhverntíma út, sem það auðvitað gerir áður en yfir lýkur, væru maurarnir vísir til að taka við. Til þess þyrfti þó einhver ættbálkur þeirra að ná völdum á kostnað annarra. Kannski yrðu heimsstyrjaldir ekkert sjaldgæfari þó svo yrði.

IMG 5560Einhver mynd.


2992 - Fuglar himinsins

Í baráttunni við Covid-19 veiruna legg ég til að knattspyrnu allri verði hætt með öllu. Öruggt er að þessu verður ekki farið eftir. Ríkisstjórnin og margir fleiri líta svo á að fótbolti sé mikilvægari en flest annað. Til vara legg ég til að túristaveiðar verði bannaðar. Þetta hefur þegar verið gert að nokkru og reynt er að gera ferðamönnum og allri túrhestaútgerð eins erfitt fyrir og mögulegt er. Til þrautavara, eins og lögfræðingar og dómarar segja, legg ég til að kindakjötsframleiðsla verði með öllu aflögð. Þetta væri hægt að gera með því að steinhætta að semja við þessa fáu bændur sem enn stunda þessa frístundaskemmtun. Útrýma þarf þeim alveg. Væntanlega eru þeir sárafáir sem stunda knattspyrnu og fást við túristaveiðar og kindakjötsframleiðslu jafnframt. Þessvegna ætti þetta að vera útlátalítið fyrir ríkisstjórnina.

Eiginlega finnst mér ekki hægt að fjalla um Covid-19 veiruna nema í svolitlum hálfkæringi og ég vona að engir taki þetta alvarlega. Vitanlega væri hægt að fjalla um þær efnahagslegu tillögur sem komið hafa fram á venjulegan rifrildislegan pólitískan hátt, en mér finnst ekki að slíkt eigi að gera í þessu tilfelli. Frekar ætti að reyna að auka samstarfið og samstöðuna eins og Víðir segir. Allt mitt vit um sóttvarnir hef ég úr hinum daglegu fréttaþáttum þríeykisins. Sumar gerðir sem farið hefur verið í mætti kannski gagnrýna, en það hefur aldrei gefist vel að skipta um hest í miðri á.

Um daginn var ég andvaka og kíkti á hve marga ég hefði fengið inná mitt blogg eftir miðnætti. Þeir voru 5. Nokkru seinna eftir að hafa bloggað um stund gáði ég aftur. Þá voru þeir 8. Sennilega hafa þá verið þrír andvaka eins og ég. Svo setti ég bloggið upp og athugaði enn og aftur. Þá voru þeir 13 eða 36 man ekki hvort. Svo fór ég í morgungönguna mína og var í henni næstum klukkutíma. (Að henni lokinni voru þeir sennilega 36) Um hádegið voru þeir orðnir 126. Þessar tölur hef ég skrifað á blað allar saman. Síðan hætti ég þessari naflaskoðun, þetta sýnir að nokkuð vinsælt, á minn mælikvarða, hefur þetta blogg verið.

Á morgungöngum mínum hef ég þráfaldlega orðið var við tvennskonar fuglahópa. Stundum blandast þeir saman og virðist vera ágætis samkomulag með þeim. Einhverskonar smádýr eða korn virðast þeir kroppa úr grasinu. Þegar þeir flúja upp halda tegundirnar saman. Þ.e. þó samkomulagið og samstarfið á jörðu niðri sé gott hópast tegundirar saman í flugi og stærð þeirra og flughæfni er líka ólík. Þeir stærri eru greinilega tjaldar, þó mér hafi í fyrstu fundist þeir full-litlir til þess. Ungfuglar hafa þetta sennilega verið og ég hef aldrei séð svona stóra hópa af þeim hér áður. Kannski hefur varpið bara tekist vel hjá þeim. Þeir minni eru sennilega starrar þó ég hafi ekki sýnst þeir vera með rauðan gogg. Það er samt ekki að marka því ég sé svo illa. Mávarnir hafa sennilega öðrum hnöppum að hneppa því þeir eru heldur fáir og krían er hugsanlega farin. A.m.k. sé ég ekkert af henni. Hrafna sé ég ekki heldur. Þá eru upptaldir þeir fuglar sem mikið er af hér um slóðir.

Fór áðan í morgungöngu þrátt fyrir rok og rigningu og segi kannski frá því í næsta bloggi og því sem ég hef verið að lesa að undanförnu.

IMG 5566Einhver mynd.


2991 - Rithöfundar og lygimál

Ég er afskaplega ósáttur við þann ósið margra rithöfunda að reyna að blekkja lesendur sína. Ég veit að þetta eru stór orð, en mér finnst ekki verða hjá því komist. Allmargir höfundar virðast liggja á því lúalagi að reyna að telja lesendum sínum trú um að það sem þeir skrifa og segja sé satt og rétt, þegar það er argasta lygi.

Auðvitað er það svo, að ekki er hægt að búast við því að allt sem skrifað er sé sannleikanum samkvæmt. Skáldsögur eru að sjálfsögðu öllum heimilar og ég veit líka að sínum augum lítur hver á silfrið. En ef menn nota alla sína þekkingu til þess að telja mönnum trú um að svart sé hvítt eða öfugt, án þess að gefa nokkurn staðar til kynna að um skáldskap sé að ræða finnst mér það vera auðvirðileg blekking.

Ég vil helst ekki nefna nein nöfn í þessu sambandi, en mun ekki hika við að gera það ef mér finnst þess þurfa. Að fara á þennan hátt með söguna er í meira lagi óvísindalegt. Viðkomandi höfundar hafa ekki hugmynd um hvernig þessum sögum þeirra verður tekið í framtíðinni. Nú orðið er hægt að ljúga með ljósmyndum og hefur lengi verið gert. Sérfræðingar hafa þó lengst af getað greint á milli sannra ljósmynda og falsaðra. Nú skilst mér að það sé orðið mun erfiðara. Með digital tækni geti svotil allir gert þetta. Meira að segja eru seld forrit eða öpp sem gera þetta afar auðvelt.

Vitanlega segja margir höfundar að þeir séu að þessu vegna þess að þeir treysti lesendum sínum, en sú viðleitni að ljá frásögninni sem vísindalegast yfirbragð og nota alla sína þekkingu til að villa eins mikið og mögulegt er um fyrir lesendum sínum, er fyrirlitlegt í meira lagi. Mig hefur lengi langað til að skrifa um þetta því ég hef sjálfur orðið fyrir því að trúa slíkri falssögu. Það getur vel orðið vandratað um rétt og rangt í þessu efni og auðvitað eru ekki allir rithöfundar undir þessa sök seldir. Sömuleiðis geta þeir ekki alltaf gengið út frá því að lesendur séu allir eins. Í þessu efni gildir að gera það sem hverjum og einum finnst réttast.

Mismunur skáldskapar og veruleika hefur lengi verið mannskepnunni hugleikinn. Ef einn hópur listamanna (ljósmyndarar) má ljúga eins og þeir eru langir til, hversvegn þarf að amast við því að annar hópur geri það sama? Vissulega má halda því fram, að með þessu sé sagnfræðingum framtíðarinna fengið verðugt verkefni. Með þessu geti þeir tætt viðurkennda listamenn í sig á sannfærandi hátt. Vorkunnsemi í garð þessara sagnfræðinga er allsekki úr vegi því vitanlega verða þeir að vega og meta allar þær ljósmyndir og upplýsingar sem nútíminn hugsanlega færir þeim í hendur.

Nú hef ég skrifað langloku um eitt og sama efnið, en það er einmitt það sem ég hef hingað til reynt að forðast. Ekki held ég samt að þetta ætti að verða til þess að ég slaufi þessu bloggi. Þvert á móti er ég einmitt að hugsa um að senda þetta frá mér því ég var svo heppinn að verða andvaka einmitt núna.

IMG 5579Einhver mynd.


2990 - Hvað ætti ég að kalla þetta blogg?

Þó Kóvítinn liggi allstaðar í leyni er það einhvern vegin svo að ég er ekki nærri því eins hræddur við hann núna, eins og ég var í vetur. Ekki eins hræddur við hurðarhúna og lyftuhnappa, semsagt. Auk þess fer ég sjálfur í Bónus og Áslaug var með Kófsýninguna á vinnustofunni sinni þrátt fyrir allt, en nú er henni semsagt lokið. Ég passa samt uppá allt sem þríeykið er sífellt að predika yfir manni. Mannamót forðast ég eins og pestina (pun intended). Reyni að flýta mér sem mest í Bónus og meira en ég er veirulaust vanur. Horfi andagtugur á hinar daglegu útsendingar um Covid-19 o.s.frv. Kæruleysi held ég að sé helsta ástæðan fyrir því að faraldurinn sé að gjósa upp aftur. Vorkenni mikið þeim sem verða fyrir sýkingu núna. Jafnvel meira en Beirutbúum. Minna þeim sem missa spón úr aski sínum, eða tapa kannski af einhverjum gróða. Hjá sumum er jafnvel meira að gera en venjulega. Lítil ástæða er til að vorkenna þeim. Ríkisstjórnin er sennilega líkleg til að horfa of mikið á fjárhagslegar hliðar faraldursins. Allir hafa þó nóg að borða hér á ísa köldu landi.

Tromparinn þarf svolítið að flýta sér, að búa til nýjan óvin fyrir kosningarnar í byrjun nóvember. Það er samt greinilega það sem hann er að gera. Kína er ágætur kandidat til þess. Ekki er mikil hætta á að Biden verði ósammála honum í því efni. Mannréttindi eru á lágu stigi í Kína miðað við Bandaríkin og Evrópu. Kosningaréttur allra er ekki í heiðri hafður, eins og víðast á Vesturlöndum. Lýðræði er þar ekkert, eftir þvi sem okkur í Vestrinu er sagt og auðvitað trúum við því. Að þeir hafi viljandi sett kórónu-faraldurinn af stað er þó hugsanlega of langt gengið. Annars gætu þessar kosningar orðið nokkuð spennandi. Lítil hætta er á því að Repúblikanaflokkurinn og Trump gefi þumlung eftir. Trump þyrfti samt að fara að vinna á í skoðanakönnunum fljótlega ef hann á að hafa minnstu möguleika á því að sigra. Vitanlega vinnast kosningar ekki í skoðanakönnunum, samt sem áður standa Bandaríkjamenn framarlega í slíku eða það held ég a.m.k.. (Er ekki réttast að hafa tvo punkta þarna?). Einhvern vegin svona var þó staðan fyrir fjórum árum síðan. Allir bjuggust við að Clinton mundi sigra. En alveg óvart var það Trump sem gerði svo. Ekki þýðir að halda því fram að Clinton hafi fengið fleiri atkvæði. Kosningakerfið er bara svona þarna eins og miklu víðar.

Miklvægasta heimspekilega spurningin finnst mér vera þessi: Er fólk fífl? Ég þekki fáa heimspekinga en hefur oft fundist að þeir leggi mest uppúr orðhengilshætti og naflaskoðun. Vissulega er oft þörf á því að skilgreina merkingu orða sem allra best og nákvæmast. Ef spurningin, sem ég nefndi hér í upphafi er skoðuð með gagnrýnum huga er ekki hægt að komast hjá því að álíta að já-svar beri með sér svolítinn keim af rasisma. Aftur á móti mundi nei-svar hugsanlega bera vott um einfeldni. Kannski er bara best að svara þessu með „kannski eða ef til vill.“ Annars er ég alls enginn heimspekingur, en finnst hún stundum vera svolítið fjarlæg venjulegri hugsun. Sumir leikmenn eru ágætis heimspekingar en þekkja ekki allt það jargon sem virðist þurfa að tileinka sér til að vera gjaldgengur þar.

IMG 5702Einhver mynd.


2989 - Matur og næring

Talandi um sjálfmiðsku. Þetta er semsagt orð sem ég er nýbúinn að búa til. Segi ekki að ég sé eins snjall við það og sumir aðrir. T.d. Jónas Hallgrímsson og Hallgrímur Helgason. Auðvitað mætti eins segja sjálfmiðun í staðinn fyrir sjálfmiðsku, en það er ekki eins flott. Og þar að auki allsekki eftir mig. Sjálfmiðaður er ég samt. Leyni því ekki. Mér finnst einhvern veginn að allir ættu að vera það. Ef maður hefur ekki álit á sjálfum sér er engin von til þess að aðrir geri það. Konan mín er t.d. svolítið sjálfmiðuð og hefur alveg efni á því. Auðvitað segi ég henni það ekki. En hún er greinilega listamaður af Guðs náð. Teiknar eins og engill, málar og vatnslitar þar að auki ásamt mörgu öðru. Ekki get ég teiknað neitt og í tónlist er ég alger analfabeti. Orð eru mitt sérefni eða súrefni og þó engir eða a.m.k. fáir aðrir séu sömu skoðunar og ég hvað það snertir verð ég sjálfur að álíta að svo sé. Dóttir mín, sem er sko enginn ættleri leitar stundum til mín varðandi orðalag. Aðrir gera það ekki. Kosturinn við það að viðurkenna ekki einu sinni hæfleika sína fyrir sjálfum sér fyrr en farið er að nálgast æfilok er sá að þá gera færri kröfur til manns. Svo kom helvítis Kóvítinn og spillti öllu. Einmitt þegar ég ætlaði að fara að skrifa ævisöguna.

Eitt er það sem ég er farinn að gera í auknum mæli er það að ég læt það standa sem ég hef einu sinni skrifað og fara út í eterinn á blogginu mínu, þó það sé í rauninni of persónulegt til að útvarpa því. T.d. er ég ekki vanur að hrósa neinum mikið því það gæti misskilist. Ef ég gerði of mikið af því, yrði það e.t.v. fyrir einskonar gengisfellingu. Þetta er hugsun sem hægt væri að halda áfram við. Geri það samt ekki, því þá yrði þetta sennilega of langt. Legg það ekki á nokkurn mann, að lesa langhunda eftir mig. Attention span flestra er orðið svo lítið.

Einhvernstaðar sá ég áðan minnst á bókina „Kjarnorka á komandi tímum“. Hún er þýdd (held ég) af Ágústi H. Bjarnasyni prófessor og gefin út árið 1947. Alnafni hans og afkomandi var eitt sinn bloggari hér á Moggablogginu og einn af mínum uppáhalds. Minnir að nú sé hann kominn með sérstaka heimasíðu. Já, ég gleymdi að geta þess að hann er verkfræðingur og spekingur hinn mesti. Held að það hafi verið í beinu framhaldi af annaðhvort bloggi hans eða einkasíðu sem ég sá umfjöllun og eftirmæli um Bjarna í Kaupfélaginu. Hann var sonur Sigurðar Greipssonar í Haukadal. Held að hann hafi alltaf verið kallaður Bjarni í Kaupfélaginu meðan hann bjó í Hveragerði. Ég kynntist Bjarna vel og margar eru þær sögurnar af honum sem ég hef sagt hér á blogginu. Ekki ætla ég að endurtaka þær en get ósköp vel tekið undir það sem sagt var í minningargrein um hann. Þar var um að ræða sérlega eftirminnilegan mann. Eitt sinn sagði hann mér að hann hrykki stundum upp við það um miðjar nætur að hann væri svo hræddur við að deyja.

Mér finnst of mikil áhersla lögð á mat og matargerð í öllum fjölmiðlum. Það verður varla þverfótað fyrir góðum mat. Hann er alls staðar. Myndir af mat, svo ég tali nú ekki um vídeómyndir, eru mikið í tísku. Og svo allir þessir næringarfræðingar sem sprottið hafa upp eins og gorkúlur á haug á undanförnum árum. Þeir hljóta allir sem einn að verða a.m.k. 140 ára gamlir. Samt er ekki hægt að vera án þeirra. Sykur, kjöt og unnið hveiti eru eins og hver önnur eiturlyf. Lifa grænmetisætur annars lengur en aðrir? Mér finnst aldrei hafa komið almennilegt svar við því. Næringarfræðingar nútímans svara vísindalegum spurningum gjarnan eins og aðrir gervivísindamenn. Slíkar spurningar leiða næstum alltaf til tilvísunar í það sem aðrir (eða sömu) vísindamenn sömu skoðunar hafa haldið fram. Aldrei eða sjaldan er hægt að vísa í óumdeildar staðreyndir, eða prófa hugmyndirnar eftirá.

IMG 5707Einhver mynd.


2988 - Kanarí-Hundaeyjar segja sumir

Öllu mögulegu er nú frestað eða það fellt niður vegna Covid-19. Ekki sýnist mér að ég fari á mis við neitt þó svo sé gert. Kannski ber það þess vott að ég eða réttara sagt við hjónin förum ekki margt og skemmtum okkur lítið. Samt er þessi veira hundleiðinleg. Allt er gert til að létta ferðaiðnaðinum róðurinn. Og er það e.t.v. að vonum. Þessvegna kemur það svolítið á óvart að innan við 10 hafa sótt um lán hjá Ferðaábyrgðasjóði eftir því sem sagt er í Fréttablaðinu. Kannski er þetta vegna þess að stjórnvöld hafa gætt þess að hafa þessi lán ekki mjög aðgengileg. Hinn möguleikinn er sá að ferðamannaiðnaðurinn eða lundaveislan sé ekki eins illa á vegi stödd og stundum er látið í veðri vaka. Hugsanlega er ástæðan blanda af þessu og mörgu öðru.

Eitt er það sem ég ætti hugsanlega að gera meira af. Það er að lúslesa mbl.is, linka í það og leggja eitthvað útaf því í blogginu minu. Þetta gera sumir og þó ég hafi eitt sinn stundað það að linka í fréttir á mbl.is sótti ég mér aldrei hugmyndir þangað. Reyndi frekar að finna eitthvað sem passaði sæmilega við eitthvað af því sem ég skrifaði. Úr því að ég er að blogga á Moggablogginu á annað borð, væri kannski réttast að sækja sér hugmyndir þangað og leggja útaf ýmsu sem þar er sagt. T.d. til þess að sýnast voða gáfaður eða að reyna að vera ógeðslega fyndinn með því að vera nógu orðljótur og klámfenginn. „Ég fer um borð og borða um borð fyrst borðað er um borð á annað borð“, var einu sinni sagt. Vel getur verið að með því mætti auka vinsældir míns bloggs, en svo er líka á það að líta að vel er hugsanlegt að ávinningur af auknum vinsældum sé enginn.

Í Covid-19 fréttum er það einna helst að stjórnvöld á Kanaríeyjum hafa lýst því yfir að allir túristar þar verði tryggðir fyrir kostnaði vegna veirusýkingarinnar Covid-19. Ekki held ég að þeir sem drepast úr þessari veiki fái lífið aftur, en allan kostnað vegna þessa ættu þeir að geta fengið endurgreiddan. Kanaríeyjar, Gran Canary, Tenerife og fleiri eyjar, eru hluti af Spáni og ferðamálayfirvöld þar eru afskaplega ósátt við þá ákvörðum Breta að setja alla sem þaðan koma í tveggja vikna sóttkví. Hvernig gengur að fá þennan kostnað endurgreiddan á Kanaríeyjum veit ég ekkert um. Tryggingarskilmálarnir eru vafalaust flóknir.

IMG 5708Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband