2989 - Matur og næring

Talandi um sjálfmiðsku. Þetta er semsagt orð sem ég er nýbúinn að búa til. Segi ekki að ég sé eins snjall við það og sumir aðrir. T.d. Jónas Hallgrímsson og Hallgrímur Helgason. Auðvitað mætti eins segja sjálfmiðun í staðinn fyrir sjálfmiðsku, en það er ekki eins flott. Og þar að auki allsekki eftir mig. Sjálfmiðaður er ég samt. Leyni því ekki. Mér finnst einhvern veginn að allir ættu að vera það. Ef maður hefur ekki álit á sjálfum sér er engin von til þess að aðrir geri það. Konan mín er t.d. svolítið sjálfmiðuð og hefur alveg efni á því. Auðvitað segi ég henni það ekki. En hún er greinilega listamaður af Guðs náð. Teiknar eins og engill, málar og vatnslitar þar að auki ásamt mörgu öðru. Ekki get ég teiknað neitt og í tónlist er ég alger analfabeti. Orð eru mitt sérefni eða súrefni og þó engir eða a.m.k. fáir aðrir séu sömu skoðunar og ég hvað það snertir verð ég sjálfur að álíta að svo sé. Dóttir mín, sem er sko enginn ættleri leitar stundum til mín varðandi orðalag. Aðrir gera það ekki. Kosturinn við það að viðurkenna ekki einu sinni hæfleika sína fyrir sjálfum sér fyrr en farið er að nálgast æfilok er sá að þá gera færri kröfur til manns. Svo kom helvítis Kóvítinn og spillti öllu. Einmitt þegar ég ætlaði að fara að skrifa ævisöguna.

Eitt er það sem ég er farinn að gera í auknum mæli er það að ég læt það standa sem ég hef einu sinni skrifað og fara út í eterinn á blogginu mínu, þó það sé í rauninni of persónulegt til að útvarpa því. T.d. er ég ekki vanur að hrósa neinum mikið því það gæti misskilist. Ef ég gerði of mikið af því, yrði það e.t.v. fyrir einskonar gengisfellingu. Þetta er hugsun sem hægt væri að halda áfram við. Geri það samt ekki, því þá yrði þetta sennilega of langt. Legg það ekki á nokkurn mann, að lesa langhunda eftir mig. Attention span flestra er orðið svo lítið.

Einhvernstaðar sá ég áðan minnst á bókina „Kjarnorka á komandi tímum“. Hún er þýdd (held ég) af Ágústi H. Bjarnasyni prófessor og gefin út árið 1947. Alnafni hans og afkomandi var eitt sinn bloggari hér á Moggablogginu og einn af mínum uppáhalds. Minnir að nú sé hann kominn með sérstaka heimasíðu. Já, ég gleymdi að geta þess að hann er verkfræðingur og spekingur hinn mesti. Held að það hafi verið í beinu framhaldi af annaðhvort bloggi hans eða einkasíðu sem ég sá umfjöllun og eftirmæli um Bjarna í Kaupfélaginu. Hann var sonur Sigurðar Greipssonar í Haukadal. Held að hann hafi alltaf verið kallaður Bjarni í Kaupfélaginu meðan hann bjó í Hveragerði. Ég kynntist Bjarna vel og margar eru þær sögurnar af honum sem ég hef sagt hér á blogginu. Ekki ætla ég að endurtaka þær en get ósköp vel tekið undir það sem sagt var í minningargrein um hann. Þar var um að ræða sérlega eftirminnilegan mann. Eitt sinn sagði hann mér að hann hrykki stundum upp við það um miðjar nætur að hann væri svo hræddur við að deyja.

Mér finnst of mikil áhersla lögð á mat og matargerð í öllum fjölmiðlum. Það verður varla þverfótað fyrir góðum mat. Hann er alls staðar. Myndir af mat, svo ég tali nú ekki um vídeómyndir, eru mikið í tísku. Og svo allir þessir næringarfræðingar sem sprottið hafa upp eins og gorkúlur á haug á undanförnum árum. Þeir hljóta allir sem einn að verða a.m.k. 140 ára gamlir. Samt er ekki hægt að vera án þeirra. Sykur, kjöt og unnið hveiti eru eins og hver önnur eiturlyf. Lifa grænmetisætur annars lengur en aðrir? Mér finnst aldrei hafa komið almennilegt svar við því. Næringarfræðingar nútímans svara vísindalegum spurningum gjarnan eins og aðrir gervivísindamenn. Slíkar spurningar leiða næstum alltaf til tilvísunar í það sem aðrir (eða sömu) vísindamenn sömu skoðunar hafa haldið fram. Aldrei eða sjaldan er hægt að vísa í óumdeildar staðreyndir, eða prófa hugmyndirnar eftirá.

IMG 5707Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmi rær á sjálfsins mið,
sá analfabeti,
orðin þó hans aðal svið,
afgamalt súrmeti.

Þorsteinn Briem, 7.8.2020 kl. 15:42

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alltaf Steini ergir sig
aldrei líður betur
en ef hann getur angrað mig
eins og Kóf í vetur. 

Sæmundur Bjarnason, 7.8.2020 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband