Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2020
5.8.2020 | 09:35
2987 - Beirut og bölvuð veiran
Ég er alltof lítið áberandi á fésbókinni. Ég hef áhyggjur af þessu. Verð bara að segja það. Sennilega verður maður að skrifa eitthvað á fésbókina til að fá læk þar. Kannski nær þessi ritræpa mín ekki alla leið þangað. Ég auglýsi bloggin mín alltaf á fésbókinni, og ef áhugi væri fyrir því að fjölga lækunum hjá mér væri vel hægt að gera það þar. Ég segi semsagt frá því, ef mér verður það á að blogga. Ætti ég kannski að hætta því? Ekki klikkar það að ef ég vel að linka í bloggskrif mín á Moggablogginu, þá er alltaf orðið við því. Skyldu fésbókarvinir mínir, sem eru víst fjölmargir, vera búnir að fá leið á þessu auglýsingaflóði frá mér? Og það sem mestu máli skiptir: Er einhverjum þægð í þessu.
Svo er annað. Ég birti myndir með hverju bloggi. Þetta eru mestmegnis myndir sem ég hef tekið sjálfur og notað áður við bloggskrif. Varla taka margir eftir því. Verst hvað það er seinlegt að sækja þær. Einhverntíma verð ég að hætta þessum fjára eða byrja uppá nýtt. Svo merki ég bloggin mín alltaf með hlaupandi númerum. Er kominn næstum því uppí þrjú þúsund. Að ráðleggingum hægrisinnans Halldórs Jónssonar hef ég reynt að hafa bloggin mín í styttri kantinum að undanförnu. Það er langt blogg sem fer á aðra síðu í wordinu.
Jæja, hættum nú þessu sjálfmiðaða tuði. Ég get vel skrifað um eitthvað annað. T.d. um kórónuveiruna eða Kínaveiruna eins og Trump kallar hana. Ef lagður er trúnaður á það sem óvinir hans segja er hans helsta skemmtun að uppnefna menn. Sleepy Joe heitir eftir uppskriftinni hans helsti keppnautur í kosningunum í haust. Little Rocket Man, kallaði hann einræðisherrann í Norður-Kóreu, sem hann var að sleikja sig upp við fyrir nokkru síðan. Reyndar virðist það ekki hafa haft nein áhrif. Alveg er ég hissa á því hvað Bandaríkjamenn þola þessum manni mikið. Líklega eru menn búnir að láta hann leiða Repúblikanaflokkinn í svo miklar ógöngur að mörg ár gæti tekið að leiðrétta það. Öfgastefna sú sem hann boðar er greinilega á undanhaldi og á ekkert erindi í flokk sem treystir á fjöldafylgi.
Vigtin olli mér vonbrigðum í morgun. Ég fór út að ganga um sjöleytið þrátt fyrir rigninguna hér á Akranesi. Síðan í bað og svo á vigtina. Í staðinn fyrir að sýna 107,9 eins og ég var að vonast eftir sýndi hún bara 109,7. Ég er að hugsa um að trúa henni ekkert og halda bara mínu striki eins og ekkert hafi í skorist. Enda er ekki hægt að segja að þetta sé merkilegt mál. Sprenginguna í Beirut og úrbreiðslu veirunnar margfrægu ber hæst í fréttunum núna. Ég segi þetta bara svona til viðmiðunar ef ég skyldi einhverntíma lesa þetta aftur. Reikna samt ekki með að ég geri það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.8.2020 | 07:05
2986 - Kóvítinn enn og aftur
Það er orðið nokkuð langt síðan ég hef bloggað. Man ekki hvenær þar var síðast. Að ég skuli byrja á þennan hátt sýnir að ég hef enga mission. Það er að segja mér er ekki sérlega sýnt um að sannfæra lesendur mína um nokkurn skapaðan hlut. Ekki einu sinni um sérstaka pólitíska skoðun. Margir hafa hana og reyna að sannfæra aðra um að hún sé sú eina rétta. Hvaða erindi á ég þá við væntanlega lesendur mína? Er það kannski að sannfæra hugsanlega lesendur um að skoðun mín á heimsmálunum og á Donaldi Trump Bandaríkjaforseta hljóti að vera sú eina rétta? Ég veit ekki einu sinni sjálfur hver hún er!!
Nú er kórónuveiran að ná sér á strik aftur. Sennilega verður þessi veiruskratti til þess að hugarfar almennings breytist verulega. Þeir sem einu sinni voru ríkir og voldugir verða kannski fátæklingar morgundagsins. Ekki veit ég hvernig þetta á að gerast, en leyfilegt er að vona. Kannski minnkar vonskan í heiminum við þetta. Hún gerði það að vísu ekki þegar síðasti faraldur gekk yfir. Kannski gerir þessi það samt. Nú hljóta menn að sjá að í raun og veru eru allir jafnir. Landamæri og aðskilnaður er bara til bölvunar. Óhæf stjórnvöld verður að setja af.
Sumir segja að fjármagn leiti alltaf þangað sem fjármagn er fyrir. Það sé semsagt eins og hver önnur óværa. Kannski er það rétt. Sé svo er lítil von til þess að ástand heimsmála batni við þessi ósköp. Hver veit samt nema veiran margumtalaða og mjöghataða sannfæri menn um að skipulag heimsins sé eins og hver önnur hugsanavilla. Þurfa menn endilega að vera ríkari en nágranninn. Held ekki. Samt er það svo að ekki geta allir verið jafnir. Það hefur verið sannað. Sósíalisminn hefur verið prófaður. Hann reyndist herfilega illa. Föðurlandsást og hernaður er afturhvarf til fyrri tíma. Hvað er þá hægt að gera? Kannski er veiran að sýna okkur það.
Ruglast svolítið á hinum fjórum stóru tæknifyrirtækjunum í Bandaríkjunum. Þau eru að ég held: Facebook, Amazon, Apple og Google. Sum þeirra heita reyndar eitthvað annað núna. Hafa sennilega gleypt einhver önnur fyrirtæki. Gott ef annaðhvort Amazon eða Google eiga ekki Twitter, Youtube, SpaceEx, Microsoft og Tesla, ásamt öðrum smáfyrirtækjum eins og t.d. PayPal og Instagram. Einu sinni voru kvikmydndafyrirtækin. olíufélögin og bílaframleiðslufyrirtækin í Bandaríkjunum talin allstór. Svo er ekki lengur. Einstaka menn telja bankana og Tryggingafyritækin þar stór. Svo eru það stóru fyrirtækin í Japan, Kína og Suður-Kóreu, að ekki sé minnst á Evrópsku fyrirtækin sem einu sinni voru álitin nokkuð stór. Hvar endar þetta eiginlega. Látum ekki stóru alþjóðlegu fyrirtækin ráða öllu. Það er til bölvunar. Ekki er nóg að segja Huawei að fara í rass og rófu þó sumir haldi það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)