2991 - Rithöfundar og lygimál

Ég er afskaplega ósáttur við þann ósið margra rithöfunda að reyna að blekkja lesendur sína. Ég veit að þetta eru stór orð, en mér finnst ekki verða hjá því komist. Allmargir höfundar virðast liggja á því lúalagi að reyna að telja lesendum sínum trú um að það sem þeir skrifa og segja sé satt og rétt, þegar það er argasta lygi.

Auðvitað er það svo, að ekki er hægt að búast við því að allt sem skrifað er sé sannleikanum samkvæmt. Skáldsögur eru að sjálfsögðu öllum heimilar og ég veit líka að sínum augum lítur hver á silfrið. En ef menn nota alla sína þekkingu til þess að telja mönnum trú um að svart sé hvítt eða öfugt, án þess að gefa nokkurn staðar til kynna að um skáldskap sé að ræða finnst mér það vera auðvirðileg blekking.

Ég vil helst ekki nefna nein nöfn í þessu sambandi, en mun ekki hika við að gera það ef mér finnst þess þurfa. Að fara á þennan hátt með söguna er í meira lagi óvísindalegt. Viðkomandi höfundar hafa ekki hugmynd um hvernig þessum sögum þeirra verður tekið í framtíðinni. Nú orðið er hægt að ljúga með ljósmyndum og hefur lengi verið gert. Sérfræðingar hafa þó lengst af getað greint á milli sannra ljósmynda og falsaðra. Nú skilst mér að það sé orðið mun erfiðara. Með digital tækni geti svotil allir gert þetta. Meira að segja eru seld forrit eða öpp sem gera þetta afar auðvelt.

Vitanlega segja margir höfundar að þeir séu að þessu vegna þess að þeir treysti lesendum sínum, en sú viðleitni að ljá frásögninni sem vísindalegast yfirbragð og nota alla sína þekkingu til að villa eins mikið og mögulegt er um fyrir lesendum sínum, er fyrirlitlegt í meira lagi. Mig hefur lengi langað til að skrifa um þetta því ég hef sjálfur orðið fyrir því að trúa slíkri falssögu. Það getur vel orðið vandratað um rétt og rangt í þessu efni og auðvitað eru ekki allir rithöfundar undir þessa sök seldir. Sömuleiðis geta þeir ekki alltaf gengið út frá því að lesendur séu allir eins. Í þessu efni gildir að gera það sem hverjum og einum finnst réttast.

Mismunur skáldskapar og veruleika hefur lengi verið mannskepnunni hugleikinn. Ef einn hópur listamanna (ljósmyndarar) má ljúga eins og þeir eru langir til, hversvegn þarf að amast við því að annar hópur geri það sama? Vissulega má halda því fram, að með þessu sé sagnfræðingum framtíðarinna fengið verðugt verkefni. Með þessu geti þeir tætt viðurkennda listamenn í sig á sannfærandi hátt. Vorkunnsemi í garð þessara sagnfræðinga er allsekki úr vegi því vitanlega verða þeir að vega og meta allar þær ljósmyndir og upplýsingar sem nútíminn hugsanlega færir þeim í hendur.

Nú hef ég skrifað langloku um eitt og sama efnið, en það er einmitt það sem ég hef hingað til reynt að forðast. Ekki held ég samt að þetta ætti að verða til þess að ég slaufi þessu bloggi. Þvert á móti er ég einmitt að hugsa um að senda þetta frá mér því ég var svo heppinn að verða andvaka einmitt núna.

IMG 5579Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ógurlega æstur hér,
upp á stekkur nefið sér,
á óvart kæmi ekki mér,
ef hann skæri haus af þér.

Þorsteinn Briem, 10.8.2020 kl. 08:52

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nú, ert það þú sem stendur fyrir þessu??

Sæmundur Bjarnason, 10.8.2020 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband