2990 - Hvað ætti ég að kalla þetta blogg?

Þó Kóvítinn liggi allstaðar í leyni er það einhvern vegin svo að ég er ekki nærri því eins hræddur við hann núna, eins og ég var í vetur. Ekki eins hræddur við hurðarhúna og lyftuhnappa, semsagt. Auk þess fer ég sjálfur í Bónus og Áslaug var með Kófsýninguna á vinnustofunni sinni þrátt fyrir allt, en nú er henni semsagt lokið. Ég passa samt uppá allt sem þríeykið er sífellt að predika yfir manni. Mannamót forðast ég eins og pestina (pun intended). Reyni að flýta mér sem mest í Bónus og meira en ég er veirulaust vanur. Horfi andagtugur á hinar daglegu útsendingar um Covid-19 o.s.frv. Kæruleysi held ég að sé helsta ástæðan fyrir því að faraldurinn sé að gjósa upp aftur. Vorkenni mikið þeim sem verða fyrir sýkingu núna. Jafnvel meira en Beirutbúum. Minna þeim sem missa spón úr aski sínum, eða tapa kannski af einhverjum gróða. Hjá sumum er jafnvel meira að gera en venjulega. Lítil ástæða er til að vorkenna þeim. Ríkisstjórnin er sennilega líkleg til að horfa of mikið á fjárhagslegar hliðar faraldursins. Allir hafa þó nóg að borða hér á ísa köldu landi.

Tromparinn þarf svolítið að flýta sér, að búa til nýjan óvin fyrir kosningarnar í byrjun nóvember. Það er samt greinilega það sem hann er að gera. Kína er ágætur kandidat til þess. Ekki er mikil hætta á að Biden verði ósammála honum í því efni. Mannréttindi eru á lágu stigi í Kína miðað við Bandaríkin og Evrópu. Kosningaréttur allra er ekki í heiðri hafður, eins og víðast á Vesturlöndum. Lýðræði er þar ekkert, eftir þvi sem okkur í Vestrinu er sagt og auðvitað trúum við því. Að þeir hafi viljandi sett kórónu-faraldurinn af stað er þó hugsanlega of langt gengið. Annars gætu þessar kosningar orðið nokkuð spennandi. Lítil hætta er á því að Repúblikanaflokkurinn og Trump gefi þumlung eftir. Trump þyrfti samt að fara að vinna á í skoðanakönnunum fljótlega ef hann á að hafa minnstu möguleika á því að sigra. Vitanlega vinnast kosningar ekki í skoðanakönnunum, samt sem áður standa Bandaríkjamenn framarlega í slíku eða það held ég a.m.k.. (Er ekki réttast að hafa tvo punkta þarna?). Einhvern vegin svona var þó staðan fyrir fjórum árum síðan. Allir bjuggust við að Clinton mundi sigra. En alveg óvart var það Trump sem gerði svo. Ekki þýðir að halda því fram að Clinton hafi fengið fleiri atkvæði. Kosningakerfið er bara svona þarna eins og miklu víðar.

Miklvægasta heimspekilega spurningin finnst mér vera þessi: Er fólk fífl? Ég þekki fáa heimspekinga en hefur oft fundist að þeir leggi mest uppúr orðhengilshætti og naflaskoðun. Vissulega er oft þörf á því að skilgreina merkingu orða sem allra best og nákvæmast. Ef spurningin, sem ég nefndi hér í upphafi er skoðuð með gagnrýnum huga er ekki hægt að komast hjá því að álíta að já-svar beri með sér svolítinn keim af rasisma. Aftur á móti mundi nei-svar hugsanlega bera vott um einfeldni. Kannski er bara best að svara þessu með „kannski eða ef til vill.“ Annars er ég alls enginn heimspekingur, en finnst hún stundum vera svolítið fjarlæg venjulegri hugsun. Sumir leikmenn eru ágætis heimspekingar en þekkja ekki allt það jargon sem virðist þurfa að tileinka sér til að vera gjaldgengur þar.

IMG 5702Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undir Sæma orðið heitt,
auðnast samt að lifa,
ætíð hér um ekki neitt,
enn kann hann að skrifa.

Þorsteinn Briem, 9.8.2020 kl. 14:16

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini er víst ekki neitt
um hann get ég skrifað.
Enda varla er mér leitt
þó einhver fái lifað.

Sæmundur Bjarnason, 9.8.2020 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband