Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020

2931 - Daglegt líf á tímum veirunnar

Vinsælasti sjóvarpsþátturinn um þessar mundir er tvímælalaust um „Covid þríeykið“ sem þau Víðir, Þórólfur og Alma leika aðalhlutverkin í. Og nú er Bingi að reyna að fá hlutverk þarna. Þessir daglegu blaðamannafundir eru nú þegar orðnir afar vinsælir og margir sem fylgjast spenntir með. Undarlegur andskoti að vera að berjast við óvin sem engin leið er að sjá!! Þetta hefur mannkynið samt kallað yfir sig. Nú nennir enginn að tala um loftslagsvána lengur. Það er ekki í tísku. Allt snýst um Kóvítinn. Hvað getum við kallað þennan ólukkans sjúkdóm? Ekki er víst að það sé alveg sanngjarnt að kalla þetta Kínversku veikina, þó sumir geri það alveg óhikað.

Segja má að það sé að bera í bakkafullan lækinn að ræða um þessa fjárans veiru. Eiginlega fór ég ekki að taka hana alvarlega fyrr en föstdaginn þrettánda (mars hlýtur að vera). Sennilega var þá farið í þetta samkomubann, sem sumir vilja kalla samgöngubann. Ég man að talsverð tímamót voru falin eða fólgin í þessari dagsetningu.

Af hverju skyldi fólk láta tattóvera sig? Ég á bágt með að skilja það. Greinilega finnst samt sumum þetta sjálfsagt. Auðvitað má segja að fólk geti gert það sem því sýnist með sinn eigin líkama, meðan það káfar ekki upp á aðra. Sumir eru allt lífið að reyna að gera líkamann sem fullkomnastan í eigin augum. Aðrir eru með sífelldar aðfinnslur útaf þessu. T.d. ég. Sjálfur ákvað ég snemma að gera sem allra minnst í því að fikta í honum. Auðvitað bora ég daglega í nefið og drekk og borða allskyns óþarfa eða óþverra, að því er sumum finnst.

Nýjasta dæmið um þetta er fyrirtektin í sambandi við föstuna hjá mér, en eins og þeir sem þetta lesa reglulega, sem hljóta að vera einhverjir, vita hef ég haldið mig við svokallaða intermittent fasting svo að segja frá síðastliðnum áramótum. Ekki var það útaf útlitinu (ístran finnst mér sjálfsögð). Lífstílsbreytingu má sennilega segja að það hafi verið, enda líður mér að flestu leyti betur svona. Smámunir eins og Covid-19 hafa engin áhrif á mig að þessu leyti. Þó mundi ég sennilega hætta ef ég veiktist af þessari plágu.

Þeir sem trúa á veiruna eru sennilega með böggum hildar útaf því að ég hafi lagt nafn hennar við hégóma með því að kalla hana smámuni. Það er hún svo sannarlega ekki og segja má að þetta séu athyglisverðir tímar sem við lifum á. Ekki aðeins fáum við veiruna yfir okkur, heldur vorum við þátttakendur í Hruninu mikla um árið. Gott ef þetta jafnast ekki svotil á við tvær heimsstyrjaldir sem sumir lifðu á síðustu öld. Að vísu voru meira en 20 ár á milli þeirra en að sumu leyti má samt líta á þær sem fyrri og seinni hálfleik. Svo fengum við kalda stríðið, vetnissprengjuna og geimferðakapphlaupið. Ég bíð bara eftir engisprettunum.

Segja má að veturinn sé orðinn nógu langur. Að vísu á ég í mestu erfiðleikum með að sjá snjó útum glugganna hjá mér. Satt að segja er alveg snjólaust hér á Akranesi núna en svolítið blautt um og skúrasamt veður. Kannski fer ég út að ganga á eftir.

IMG 6234Einhver mynd.


2930 - Palladómar

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira um kórónuvírusinn. Ég ætla semsagt að reyna að komast hjá því að minnast á hann. Eihverju sinni, sennilega fyrir hrunið mikla árið 2008 hef ég skrifað einskonar palladóma um næstum alla þá sem á þeim tíma höfðu samþykkt vinarbeiðni frá mér á Moggablogginu, eða sent mér eina slíka. Ekki man ég neitt um það. Minnir bara að þetta hafi verið svona. Eitt er ég alveg viss um og það er að ég hef skrifað þetta. Þó þetta sé eldgamalt er kannski vert fyrir einhverja að lesa þetta, þó ekki væri nema til þess að hætta í bili að hugsa um veirufjandann í smástund. Hér eru þessir palladómar:

Anna Einarsdóttir

Anna í Holti var fyrst allra til að bjóða mér bloggvináttu. Hún ólst upp með strákunum mínum og er skemmtilegur bloggari og mikið lesin. Bloggar yfirleitt mjög stutt og dálítið stopul,

Anna K. Kristjánsdóttir

er eiginlega ekki Moggabloggari. Hefur bloggað lengi og afar reglulega. Bloggar um þessar mundir held ég bæði á Moggabloggið og Blogspot.com. Ákaflega gaman að lesa bloggin hennar. Schumacher aðdáandi og ekki verri fyrir það. Göngugarpur mikill og segir skemmtilega frá ferðalögum sínum.

Arnþór Helgason

starfaði á blindrabókasafninu þegar ég kynntist honum fyrst. Hann var einn af fáum málsmetandi mönnum sem sýndi Netútgáfunni, sem ég stóð fyrir á þeim tíma, mikinn áhuga strax frá upphafi. Var einnig (og er kannski enn) á leirlistanum eins og ég og lét álíka lítið fyrir sér fara þar. Mætti blogga miklu meir. Bloggin hans eru alltaf áhugaverð.

Ágúst H. Bjarnason

Er nýbúinn að gerast bloggvinur hans. Er með fróðustu mönnum á Íslandi um marga hluti. Mjög skemmtileg áhugamál og bloggar skemmtilega.

Matthías Kristiansen

Sonur Trumans sem eitt sinn var skólastjóri á Hvolsvelli og kennari og bókavörður í Hveragerði. Matthías kenndi í Borgarnesi þegar ég var þar. Stundar einkum þýðingar núna. Skákmaður góður og skemmtilegur bloggari.

Baldur Kristjánsson

Prestur í Þorlákshöfn. Ég þekki hann svosem ekki neitt. Veit að hann er fyrrverandi blaðamaður og bloggar oft skemmtilega.

Bjarni Harðarson

Systursonur minn og þingmaður. Skemmtilegur bloggari.

Bjarni Sæmundsson

sonur minn. Býr nú í Nassau á Bahamaeyjum og er skákmeistari eyjanna. Bloggar alltof sjaldan. Ætti að kynna Bahamaeyjar fyrir löndum sínum. Það eru nefnilega ekki margir Íslendingar sem þekkja vel til þar.

Eyþór Árnason

Sviðsstjóri á Stöð 2 og þar kynntist ég honum. Hefur skáldlega sýn á hlutina og bloggar mjög skemmtilega en of sjaldan. Eyþór er alltaf skáldlegur í sínum skrifum og skrifar fallega um hvað sem er. Hugleiðingar hans um eðli bloggsins eru alveg ágætar.

Fríða Eyland

Ég veit ákaflega lítið um Fríðu. Hún bloggar ekki oft en setur gjarnan videomyndir upp.

Gestur Gunnarsson

Kynntist Gesti þegar hann vann á Stöð 2. Þar var hann einskonar altmuligmand og reddaði hlutum og vann oftast erfiðustu og leiðinlegustu verkin. Hefur að undanförnu verið að birta kafla úr því sem ég held að hljóti að vera drög að ævisögu, en hætti skyndilega að blogga og hefur ekki sést hér á Moggablogginu síðan.

Gíslína Erlendsdóttir

er dáin

Guðni Þorbjörnsson

Mosfellingur og flugdellukarl, en ég veit ekki mikið um hann.

Guðbjörg Hlildur Kolbeins

Kennir fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands. Fjölmiðlungar eru oft mjög andsnúnir henni en hún er beitt og gagnrýnir fjölmiðla oft harkalega og af mikilli kunnáttu. Leyfir ekki athugasemdir eftir að allt varð vitlaust í bloggheimum vegna gangnrýni hennar á umtalaðan vörulista Smáralindar.

Gunnar Helgi Eysteinsson

Frændi minn og búsettur í Svíþjóð. Ekki veit ég hvers vegna hann er með svona gamla mynd af sér á Moggablogginu. Mikill tölvugrúskari og fundvís á nýja og skemmtilega hluti.

Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur par exellence. Sendir vísur bæði á Vísisbloggið og Moggabloggið og bloggar yfirleitt lítið framyfir það. Vísurnar eru næstum alltaf þrusugóðar.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hannes Hólmsteinn er bara Hannes Hólmsteinn og lítið meira um það að segja. Hefur bloggað og skrifað mikið að undanförnu um umhverfismál en er auðvitað bestur í stjórnmálasögunni.

Hlynur Þór Magnússon

Var einn af mínum uppáhaldsbloggurum en steinhætti fyrir allnokkru. Áður blaðamaður við Bæjarins Besta á Ísafirði og þaráður m.a. fangavörður við Síðumúlafangelsið í Reykjavik og blaðamaður við Morgunblaðið.

Jóhann Björnsson

Sálfræðingur og heimspekingur. Hefur kennt sálfræði við framhaldsskóla og er frumkvöðull á því sviði.

Jóna Á. Gísladóttir

Ágætur penni. Skrifar fallega um einföldustu og hversdagslegustu hluti. Hugsanlegt er þó að börnin hennar verði einhverntíma óánægð með sumt sem hún hefur skrifað, en skrifin hennar eru bara svo góð að það þýðir lítið fyrir þau að segja mikið.

Jón Steinar Ragnarsson

Mikill hugsuður. Á létt með að rökræða um trúmál og skrifar sérlega góðar lýsingar á atburðum sem hann hefur lent í.

Kjartan Valgarðsson

Sonur Valgarðs Runólfssonar sem lengi var skólastjóri í Hveragerði. Býr í Suður Ameríku. Hefur ekki bloggað nokkuð lengi núna, en er skemmtilegur þegar hann tekur sig til.

Klói

Veit bókstaflega ekkert um hann. Bloggar mjög sjaldan.

Kristín M. Jóhannsdóttir

Þrælskemmtilegur bloggari. Býr í Kanada og er íþróttamaður mikill og hefur áhuga á aðskiljanlegustu hlutum í sambandi við þær.

Kristjana Bjarnadóttir

Dóttir Bjarna á Stakkhamri. Skemmtilegt að lesa minningar hennar frá Laugargerðisskóla. Tekur sjálfa sig stundum fullalvarlega.

Lára Hanna Einarsdóttir

Lára Hanna var einu sinni yfirþýðandi á Stöð 2 og þar kynntist ég henni. Er eiginlega engu lík.

Ólína Þorvarðardóttir

Ólínu þekki ég ekkert. Á þeim árum sem ég þrælaðist við að setja efni á Netútgáfuna sóttum við með aðstoð Salvarar Gissurardóttur um styrk til Raunvísindasjóðs. Hugmyndin var að setja upp vefsetur með þjóðsögum og umfjöllun um þær. Ég hafði á þeim tíma sett allmikið af þjóðsögum á Netútgáfuna og þessvegna kom sú hugmynd fram að hafa mig með í þessu. Styrkinn fengum við ekki þó Salvör sjálf semdi umsóknina.

Ómar Ragnarsson

Ómar virðist halda að sem formaður stjórnmálaflokks beri honum að hafa vit og skoðanir á öllu mögulegu. Maðurinn er þó ekki einhamur og hefur vit á ólíklegustu hlutum. Eiginlega bloggar hann fullmikið fyrir minn smekk. Það er varla hægt að fylgja honum eftir. Tveit til þrír Ómarar gætu auðveldlega fyllt eitt dagblað af áhugaverðu efni.

Púkinn – Friðrik Skúlason

Friðrik er skemmtilegur. Þarna er hann aðallega Fúll á móti, en ég er viss um að hann er skemmtilegur ef því er að skipta. Fær gæsahúð þegar minnst er á torrent.is

Ragnhildur Sverrisdóttir

Ég þekki hana eiginlega ekki neitt. Hún bloggar bara skemmtilega.

Salvör Gissurardóttir

er lektor í tölvufræðum við Kennaraháskóla Íslands. Er sífellt að gera einhverjar tilraunir með nýjar og nýjar græjur. Hefur átt mikinn þátt í að kynna bloggið fyrir Íslendingum. Hef fylgst með bloggi hennar lengi og tel hana með allra bestu bloggurum landsins.

Sigurður Hreiðar

Fyrrverandi ritstjóri Vikunnar. Var á Bifröst rétt á undan mér. Skemmtilegur bloggari en bloggar of sjaldan. Bílfróður með afbrigðum.

Sigurður Þór Guðjónsson

er engum líkur. Ólíkindatól hið mesta, en afburða bloggari, skáld og rithöfundur, en með ólæknandi veðurdellu.

Sirrý Sig.

Nýbakaður rithöfundur. Fyrsta bók hennar kom út fyrir síðustu jól. Tók fyrst eftir henni þegar hún setti fyrstu kaflana um Jens & Co. á Netið. Bíð ennþá eftir fleirum.

Sveinn Ingi Lýðsson

Veit afar lítið um hann annað en að hann býr á Álftanesi.

Sverrir Stormsker

Karlremba mikil. Sniðugur samt og orðheppinn með afbrigðum.

TómasHa

Í heita pottinum.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Fornleifafræðingur búsettur í Danmörku. Frumlegur mjög.

Már Högnason

Margt um hann að segja. Þýðir klámmyndir fyrir sjónvarpsstöðina Sýn. Einskonar alterego Gísla Ásgeinssonar þýðanda.

IMG 6237Einhver mynd.


2929 - Vonandi er hámarkið að nálgast

Að mörgu leyti erum við öllsömul, útlendingar sömuleiðis, að lifa í einskonar dystópíusögu núna. Að vísu er það svo að venjulega eru vírusarnir í slíkum sögum mun lífshættulegri, en þessi kórónavírus í rauninni er. Stjórnvöld missa líka yfirleitt með öllu tökin á ástandinu í slíkum sögum og allskyns óaldarflokkar vaða uppi og algert stjórnleysi tekur við. Ekkert slíkt hefur átt sér stað núna, en að mörgu leyti er ástandið illum draumi líkast. Allt þarf að skoða í ljósi kórónavírussins og stjórnvöld eru langt frá því að vera öfundsverð. Sem betur fer hafa slíkir óaldarflokkar hvergi ógnað stjórnvöldum, en sögur fara samt af óskipulögðum flokkum sem setja sig upp á móti flestu því sem stjórnvöld gera. Á margan hátt eru slíkar sögur það hræðilegasta sem heyrist og fyllsta ástæða til að taka hart á slíku. Öfug við tölvuleiki og skáldsögur er ekki hægt að spóla til baka og það sem gerist er óafturkræft.

Satt að segja er líklegast að Ólympíuleikunum sem áttu að fara fram í sumar verði frestað. Jafvel í heilt ár. Svo er líka möguleiki að hætt verði við þá með öllu. Þar með yrði þessum faraldri líkt við heimsstyrjöld. Hingað til hefur ekki annað en þessháttar orðið til þess að hætt væri við slíkan stórviðburð. Eins og kunnugt er voru engir Ólypíuleikar árin 1940 og 1944. Aumingja Japanir, þeir ætluðu sko aldeilis og svo sannarlega að sýna heiminum að þeir væru búnir að jafna sig á kjarnorkuslysi og þannig hörmungum. Að láta eina sjálfskipaða nefnd ráða öllu í sambandi við þetta allt saman er sérkennilegt í meira lagi. Þrátt fyrir allla þá spillingu sem þrífst í skjóli þessarar nefndar verður að segjast að ríkisstjórnir gætu aldrei komið sér saman um það sem þarf til svo Ólympíuleikar geti farið fram.

Vírusfréttir gegnsýra allt. A.m.k. er svo hér á landi. Börn og unglingar þyrftu svo sannarlega á því að halda að geta kúplað sig frá öllu slíku, en það er ekki hægt. Þau eru að mestu varnarlaus. Geta ekki einu sinni sótt skóla, þó þau hati hann yfirleitt. Íþróttir allar eru einnig í lamasessi og ef foreldrar ættu að stjórna unglingum alfarið, mundi þjóðfélagið lamast algerlega. Þ.e.a.s. allir, eða næstum því allir, yrðu að vera heima.

Suður-Kórea virðist hafa sigrast á vírusnum á fremur ódýran hátt samaborið við Ítalíu a.m.k. Varla er ástæða til að gera ráð fyrir að þar hafi sannleikanum verið hagrætt og/eða óþarfa harðýgni beitt eins og hugsanlega hefur verið reyndin í Kína. E.t.v. er það einkum hlýðni við yfirvöld og samstaða sem hefur bjargað þeim. Möguleg er þar samt sem áður einhverskonar seinni bylgja. Hugsanlega sleppum við Íslendingar líka vel frá þessum vágesti. Kannski er besti vinur þessa vágests sú áhersla sem lögð er á Vesturlöndum á einstaklingshyggju. Hlýðni við yfirvöld og samfélagslegar áherslur virðist vera mun meiri víða í Asíu en í Evrópu.

Þrátt fyrir að vírusfréttir séu algerlega dómínerandi um allan heim um þessar mundir er ekki hægt framhjá því að líta að vissulega er mikil þörf á hvíld frá þessu öllusaman. Þegar ég vakna á morgnana verður mér oft hugsað til þess hve ánægjulegt það væri ef maður þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjum af vírusnum ógurlega. Veðrið er svosem ekkert séstaklega gott um þessar mundir, en ef það væri allt og sumt væri tilveran bara nokkuð góð. Það finnst mér allavega.

IMG 6239Einhver mynd.


2928 - Er um nokkuð annað að tala en vírusinn?

Þegar ég setti réttáðan upp mitt klósettpappírsblogg var mér einmitt búið að detta í hug eitthvað til að skrifa um en nú er ég illu heilli búinn að steingleyma hvað það var. Þó ég flýtti mér eins og ég gat við bloggpeistið og myndasækelsið, kom allt fyrir ekki, ég gleymdi þessu úrvalsefni. Kannski rifjast það upp fyrir mér einhverntíma seinna, við skulum sjá til. Kannski eru einhverjir svo langt leiddir af Covidleiðindum að þeim finnst skárra en ekkert að lesa þetta blogg eða annað sem í boði er. Þetta Covidstand þýðir ekki svo ýkjamikla breytingu fyrir mig því ég er vanastur að vera hér í nokkurskonar sóttkví. Helst að ég sakni þess að geta ekki farið útí Bónus og keypt mér eitthvað með nógu miklum afslætti. Dóttir mín heimtar nefnilega að versla fyrir okkur og heldur greilega að Covinveiran sé stórhættuleg fyrir gamalmenni. Sem hún auðvitað er. Sóttvarnalæknirinn hann Þórólfur segir það, en Frosti og jafnvel fleiri virðast vera á annarri skoðun og hella sér af krafti útí einhverja hálfmisheppnaða útreikninga.

Margt í sambandi við efnahagsleg áhrif þessarar veiru minnir á hrunið árið 2008. Vonandi verður þetta ástand eins tímabundið og bjartsýnustu menn virðast álíta. Allar tölur og dagsetningar sem nefndar eru í þessu sambandi eru hreinar ágiskanir. Allteins gæti þetta samkomubann varað allt næsta sumar. Engin leið er að dæma um hvernig ástandið verður þá.

Flestu er frestað nú um stundir, en ekki er hægt að gera það endalaust. Íþróttir flestar hafa lagst af. Þó er kandidatamótið svokallaða í skák haldið austur í Katrínarborg um þessar mundir og sjálfsagt að fylgjast svolítið með því. Hrafn Jökulsson skrifar ágætar greinar um það á Vísi. Sjálfur hef ég fjölgað hressilega þeim bréfskákum sem ég er með í gangi hverju sinni á chess.com. Hvernig menn fara að því að vera bara með svona rúmlega 200 stig þar er mér að mestu leyti fyrirmunað að skilja. Afleiðing þessarar fjölgunar virðist vera að ég nota minni tíma á hvern leik og næ þessvegna lakari árangri. Mér þykir þetta þó sæmilega skemmtilegt og er nákvæmlega sama um hvort ég vinn eða tapa. Það er ósköp þægilegt að tefla bréfskákir á netinu, ég prófaði bréfskákir svolítið þegar maður þurfti að nota sniglapóstþjónustuna til þess arna, en gafst svo upp á því.

Það er svosem ágætt að losna við íþróttafréttir úr sjónvarpinu, en ef það koma bara Kóvítisfréttir í staðinn er vel hægt að segja að verr sé af stað farið en heima setið. Fjölmargir held ég samt að sitji heima nú um stundir útaf veiruskrattanum. Það má ekki minnast á neitt þá eru veirufréttir búnar að stinga upp sínum ljóta kolli. Hvernig skyldu fréttamenn taka á því ef þurrð yrði á vírusfréttum? Allar fréttir fjalla með einum eða öðrum hætti um þennan faraldur, annað kemst ekki að.

Hér á Íslandi held ég að ekki muni margir deyja úr þessu og að við losnum sæmilega snemma við sjúkdóminn sjálfan. Aftur á móti er líklegt að efnahagslegu áhrifin, atvinnuleysið, vöruframboðið og óttinn verði lengi viðloðandi. Kannski alltaf. Hugsanlegt er nefnilega að samvinna og verslun þjóða milli verði aldrei söm aftur. Vel getur verið að fræ þeirrar tortryggni sem sáð hefur verið i þessum veirufaraldri verði til þess að aldrei grói um heilt milli þeirra sem mest þyrftu á því að halda. Suðrið muni semsagt ekki ná Vestrinu. Eða ætti kannski frekar að segja Austrinu, til að geðjast Kínverjum. Þessi faraldur verður lengi kenndur við þá.

IMG 6240Einhver mynd.


2927 - Að hamstra klósettpappír

Ekki er ég neinn prófessor í virology, en þeir virðast vera orðnir ansi margir hér á landi núorðið. Annars er ég búinn að tala eða skrifa um þetta áður, minnir mig. Sérfræðingar spretta ævinlega upp út um allt ef vinsælt verður að ræða um ákveðin efni. Alveg er það furðulegt hvað sóttvarnarsérfræðingarnir eru orðnir margir hérlendis á stuttum tíma.

Hér áður fyrr var óhætt að hamstra ljósaperur. Þær voru nefnilega bæði fyrirferðarmiklar og entust stutt. Þetta vissu íþróttafélögin og létu krakkana ganga í hús og selja ljósaperur. Nú er búið að girða fyrir þetta með því að láta perurnar endast von úr viti. Sennilega eru svipuð lögmál sem gilda um klósettpappirshamstur. Þar fyrir utan þarf líklega ekki að óttast að tækniframfarir geri ónauðsynlegt að nota hann. Íþróttafélög, Lionsklúbbar og þess háttar félög hafa líka fyrir löngu gert sér grein fyrir þessu og víða er búið að skipta ljósaperum út fyrir klósettpappír. Svipað má segja um plastflöskurnar. Vinsælt er að senda krakka út af örkinni og biðja um tómar plastflöskur. Bílar (jafnvel sendiferðabílar) koma svo í humátt á eftir krökkunum. Ekki hef ég samt orðið var við samkeppni um almenna ruslasöfnun, en hún kemur vafalaust einhverntíma.

Eitthvað verða menn að finna sér til dundurs í sóttkvínni. Hvort sem hún er sjálfskipuð eða ekki. Kannski dunda einhverjir sér við að lesa blogg. Mér finnst þau oft skemmtileg. Skáldsögur eru yfirleitt ekkert nema útúrdúrar. Ég tala nú ekki um glæpareyfarana. Þar virðist það bara vera markmið höfunanna að fylla ákveðinn fjölda blasíðna. Kannski er þetta svipað með bloggið. Ég fæ samt enga samkeppni varðandi bloggfjölda.

Sumir blogga oft á dag. Ekki ég núorðið a.m.k. Sumir linka líka alltaf í fréttir á mbl.is. Ekki ég núorðið a.m.k. Ég er sífellt að hætta að nenna ýmsu, sem mér þótti viðeigandi áður fyrr. Er ég kannski að verða gamall? Ekki finnst mér það. Jafnvægið og ýmsar hreyfingar eru smám saman að verða erfiðari. Þá bara hætti ég þeim. T.d. þykir mér stórhættulegt á standa uppá stól núorðið. Ekki var það þannig.

Sennilega er ég með alveg skítsæmilega hjarta og lungnavél. Meðal annars hugsa ég að það sé vegna þess að ég fer mjög oft í langar gönguferðir. Samt er hugsanlegt að munurinn á hámarkspúls og hvíldarpúls sé ekki eins mikill núna hjá mér og hann var einu sinni. Bjarni var einu sinni á sjúkrahúsi og tengdur við einhverjar vélar. Þegar púlsinn hjá honum fór niður fyrir 40 komu hjúkrunarfræðingarnir hlaupandi og héldu að hann væri að deyja. Þetta var þá bara hvíldarpúlsinn hjá honum. Hámarkspúlsinn er sennilega um 200. Erpulsakum, var einu sinni sagt og ekki skildu það allir. Líka mætti skrifa það svona: Er púls á kúm?

Ýmislegt dettur manni í hug, hérna í fásinninu. Ekki er snjónum fyrir að fara hjá okkur Akurnesinum. Mikið vafamál er þó hvort ég er orðinn Akurnesingur þrátt fyrir fimm ára búsetu. Hér er næstum alveg snjólaust og kannski erum við einir um það að geta farið í langar gönguferðir án þess að eiga á hættu að detta. Annars er það einkennilegt hve unglingar og ungt fólk á auðvelt með að ganga þrátt fyrir mikla hálku. Hún er eiginlega það eina sem ég óttast á löngum gönguferðum. Mikið rok og rigning eru líka óvinir mínir.

IMG 6255Einhver mynd.


2926 - Ástin á tímum kólerunnar

Ég ætla að reyna að minnast ekki á Covin-19 veiruna eða nokkuð sem henni tengist. Ég veit að það verður erfitt og ég er viss um að einhverjir eru búnir að fá leið á slíkri umfjöllun og kannski eru ekki margir vinklar eftir sem vert væri að fjalla um. Vissulega verður þetta erfitt, en það má alltaf reyna. Sæmilega gekk þó að sneiða hjá farsóttarsögum í síðasta bloggi, þó það væri uppsett á sjálfan föstudaginn sem var hjá sumum a.m.k. aðaldagurinn.

Fésbókin heldur sínu striki og ekki er nein sérstök ástæða til að finna að því. Ef ekki væri fyrir hana og Netið yfirleitt væri sú sóttkví og sjúkdómahræðsla sem kvelur marga mun alvarlegri. Nú er strax farinn að koma dálítill vírus-svipur á þetta blogg svo sennilega væri betra að tala um eitthvað annað. Af nógu er að taka því lífið heldur áfram, hjá flestum a.m.k.

Stundum er ekki hægt að segja að tilteknar vísur taki sér bólfestu í hug mér. Það geta alveg eins verið bókarheiti. „Ástin á tímum kólerunnar“ minnir mig að bók ein eftir frægan útlending heiti. Gabríel Markes (sennilega röng stafsetning) minnir mig að höfundurinn heiti (eða hafi heitið). Ekki þarf að geta sér til hversvegna mér komi þetta í hug. Nú er ég farinn að nálgast Covid-19 óþægilega.

Á þessu bloggi var a.m.k. byrjað á alþjólega pi-deginum. Eins og allir hljóta að vita er hann að sjálfsögðu 14. mars. Af hverju 14. mars? Nú, auðvitað vegna þess að mars er þriðji mánuðurinn í árinu (a.m.k. hér á Vesturlöndum) og 3,14 er nokkurnvegin það sama og pi. Annars er líklega ekki rétt að fjölyrða mikið um það vegna þess að sá dagur er fullnærri föstudeginum þeim þrettánda

Stundum er talað um brandajól eða litlu brandajól og stórubrandajól. Nákvæm merking þessara orða er nokkuð á reiki. Í mínu ungdæmi, sem var um miðja síðustu öld, var oft minnst á „Stóru Brandajól“. Önnur brandajól minnist ég ekki að hafa heyrt um. En hvenær voru þessi stóru brandajól? Ég þykist muna eftir að það væri talið vera þegar aðfangadagur jóla væri á fimmtudegi. Á þessum degi voru jólin tvíheilög sem kallað var. Þ.e.a.s. ekki var þriðji í jólum álitinn neinn sérstakur helgidagur. Aðfangadagur var það eiginlega ekki heldur. T.d. var unnið næstum allsstaðar fram að hádegi þann dag og að því leyti var hann eins og venjulegur laugardagur. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur fjallað á mjög ítarlegan hátt um þetta mál í Almanaki þjóðvinafélagsins (eða Háskólans).

IMG 6256Einhver mynd.


2925 - Föstudagurinn þrettándi mars

Jæja, nú er þetta orðið að alvöru farsótt. Einhver opinber aðili var að lýsa því yfir. Ekki þýðir lengur að láta sem ekkert sé. Alveg var samt við því að búast að heyrðist svolítið til allra þeirra sem eru miklu gáfaðri og þekkja betur til farsótta og sóttvarna, en vesalings landlæknir og aðrir í nefndinni, sem ítrekar á hverjum degi, handþvott og sprittun. Einkum sjá þeir allt greinilega í baksýnisspeglinum og eru sammála um flestöll „ef og hefði“. Eflaust hefði mátt haga sér að einhverju leyti öðruvísi í baráttunni við veiruna skæðu. Samt er samstaða þjóðarinnar mikil þegar kemur að þessum málum og auðveldara að sameinast um þetta en til dæmis loftslagið. Ekki eigum við aldraður pöpullinn annars úrkosta en treysta stjórnvöldum. Satt að segja finnst mér þau hafa hagað sér mjög skynsamlega í þessari baráttu. Annars hef ég ekki svo miklu við þetta að bæta og greinilegt er að þetta verður áfall sem líkja má við áfallið mikla sem við Íslendingar urðum fyrir 2008 þó alltannars eðlis sé.

Þetta skrifaði ég gær, og loka klásúluna einnig. Nú hefur ríkisstjórnin séð ljósið. Þessi helgi og þessi dagur föstudagurinn 13. mars árið 2020 verður sennilega lengi í minnum hafður. Gott ef þetta er ekki nokkurskonar „Guð blessi Ísland“ -dagur. Satt að segja þori ég ekki á fésbókina því sjálfsagt er allt vitlaust þar. Það má alltaf reyna að hugsa um eitthvað annað en Covid-19, þó það sé náttúrulega erfitt.

Mér gengur eiginlega ágætlega með þetta sjálfskipaða „intermittent fasting“ sem ég fór í uppúr síðustu áramótum. Að vísu eru undantekningarnar orðnar nokkuð margar, en þó ekki svo að ég sé í þann veginn að gefast upp á þessu. Alltaf er leyfilegt að fá sér vatn. Kannski er það eitthvað það hollasta sem maður lætur ofan í sig. Kjötsoð fæ ég mér á kvöldin áður en ég fer að sofa og jafnvel líka ef ég verð andvaka og svo þegar ég bíð eftir að klukkan verði 12 á hádegi. Aldrei er það  samt meira en svona 1 – 3 glös á sólarhring. Annað eins af kaffi fæ ég mér meðan fastan stendur yfir. (Ekki þó á kvöldin). Smámjólkurdreitil set ég útí kaffið og reyni að telja mér trú um að það sé bara bragðsins og vanans vegna. Þar fyrir utan fæ ég mér háþrýsingspillurnar mínar á hverjum morgni. (6 talsins). Og nú er ég byrjaður að taka lýsi á morgnana. Öll föst fæða og næringarmikil er á bannlista hjá mér, en þó eru vissar undantekningar á því. Einkum á kvöldin og hvað tímasetningar varðar. Mér finnst þetta gera mér gott að ýmsu leyti, þó ekki sé það beinlínis megrandi. Það er ágætt að vera ekki síétandi og oftast varð ég grútsyfjaður samstundis, ef ég fékk mér eitthvað á kvöldin eftir að ég var búinn að vaska upp.  

Alveg er þetta nóg í fréttum á einum og sama degi að vera með fallítt þjóðarflugfélag (sem sennilega verður bjargað af ríkisstjórninni), Covin-19 vírusinn sem er að sleppa og verða landlægur ásamt talsverðum jarðskjálfta á Reykjanesi. Eiginlega fer okkur að þyrsta í almennilegar og jákvæðar fréttir eins og t.d. vorkomuna. Já, vel á minnst. Sennilega kemur vorið einhverntíma. Líkur eru hinsvegar á að páskunum og fermingum öllum verði frestað.

IMG 6260Einhver mynd.


2924 - Covin-19 og verkföll

Auðvitað er ekki nokkur leið að blogga án þess að minnast á Covin-19 veiruna. Þeim fjölgar sífellt sem telja yfirvöld um allan heim gera of mikið eða of lítið úr öllu sem tengist þessari veiru. Ég segi nú bara uppá ensku: „Better safe than sorry“. Hugsanlega er sumstaðar gert of mikið úr hættunni sem þessari veiru fylgir og annars staðar of lítið. En það þýðir allsekki að hunsa eigi tilmæli nefndar þeirrar hér á Íslandi sem reynir að hafa stjórn á þessu. Ég er sannfærður um að þau eru öll að gera sitt allra besta til að draga úr hættunni sem þessu fylgir. Óttinn sem þessu getur fylgt er samt sem áður eitt af því hættulegasta í stóra samhenginu. Búast má við áhrifum á hagvöxtinn víða um heim útaf þessu og þar með á stjórnmálaástandið.

Woody Allen hefur víða komið sér útúr húsi með því að dóttir hans hefur haldið því fram að hann hafi... Ja, ég fer ekkert nánar útí það. Það er samt full-langt gengið að útgáfufyrirtækið sem búið var að semja við um útgáfu ævisögu hans var neytt til að hætta við það vegna þess að stór hluti starfsfólksins þar hótaði að hætta störfum væri það ekki gert. Rétturinn til að segja sína skoðun er einn helgasti réttur hvers manns. Fólk getur haft sína skoðun á manninum, en verk hans eiga skilið að sjást. Enginn neyðir neinn til að lesa bókina. Auðveldara verður að banna óvinsælar bókmenntir ef þessi gjörð fær að standa.

Ekki er víst að Warren styðji Sanders þó stefna þeirra sé um margt lík. Svo er heldur ekkert vist að þeir sem hefðu kosið Warren séu á þeim buxunum að kjósa Sanders. Þeir gætu fundið uppá því að styðja Biden. Líkurnar á að sigra Trump skipta marga höfuðmáli. Einhverntíma seinna má reyna að sveigja Demókrataflokkinn svolítið til vinstri. Miðað við Evrópu er vel hægt að segja að Republikanaflokkurinn sé öfgahægriflokkur nú um stundir. Þessvegna stansar mig á að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ætíð samsama sig þeim flokki, en ekki hægfara eða hægrisinnuðum Demókrötum.

Nú er ég búinn að telja fram. Einsog haldið hefur verið fram var það afspyrnufljótlegt. Ég þurfti bara að samþykkja allt sem haldið var fram. Hef enga ástæðu til að ætla að verið sé að hlunnfara mig. Einu sinni var skattframtalið mjög svo fyrirkvíðanlegt. Maður var að rembast við að svíkja svolítið undan skatti með því að ýkja allar kostnaðartölur lítilsháttar. Kannski fylgdist maður aðeins betur með þá. Núorðið vill maður helst vera heima og fara ekki neitt. Sennilega er það líka eins gott nú að tímum Kínaflensu og þessháttar. Verkföllin eru svo sér kapítuli.

Sem gamall formaður verkalýðsfélags og þingfulltrúi á allmörgum Alþýðusambandsþingum hef ég alltaf meiri samúð með þeim sem ég álít minni máttar í verkfallsdeilum. Þeir sem fátækir eru hafa ekkert að selja nema vinnu sína. Oft er það svo að fyrirtækin sem vilja umfram allt borga sem lægst kaup hafa úr fjölbreyttum ráðstöfunum að velja til að mæta auknum launakostnaði. Annars vil ég sem minnst skipta mér af þessum málum en í þeim eins og í stjórnmálum yfirleitt ættum við Íslendingar að halla okkur sem mest að Skandinavíu og Evrópu.  

IMG 6281Einhver mynd.


2923 - Vísur og vísnagerð

Af einhverjum ástæðum varð blogg mitt frá því um daginn, sem ég skírði eftir Vilborgu Davíðsdóttur, skoðað af fleirum en ég á að venjast. Um 300 manns. Venjulega geri ég ekki neitt til þess að auka vinsældir þessa bloggs. Þó er ég vanur að setja vísun á það á fésbókina, svona til öryggis. Sjálfur lít ég líka oft á fésbókina af sömu ástæðu. Vinsældir fésbókarinnar eru ótvíræðir, en mér finnst samt mest af því sem þar er skrifað harla lítils virði og koma mér lítið við. Þó ég setji alltaf mynd í bloggið mitt er ég ekki nærri eins duglegur við að setja myndir þar núorðið eins og sumir aðrir. Ég er að mestu hættur að taka myndir, en hef þeim mun meira yndi af að skrifa.

Apropos myndir. Einhverntíma myndskreytti ég bloggin mín með allskyns myndum. Nú er ég hættur því og tek ekki mikið af myndum.  Undanfarin mörg hundruð blogg hef ég bara sótt gamlar myndir sem ég notaði áður fyrr í myndskreytingar og eru ennþá hjá Mogganum. Já, alveg rétt. Ég númera bloggin mín alltaf með hlaupandi númerum, og er jafnvel einn um það. Nenni ekki að senda nýjar myndir á Moggabloggið. Meðal annars er þetta í sparnaðarskyni gert, því mig minnir að einhvertíma hafi ég borgað Mogganum þúsundkall fyrir aukið pláss. Svo er þetta bæði fljótlegra og hampaminna. Peningum til Sjálfstæðiflokksins og Morgunblaðsins sé ég líka alltaf eftir. Sennilega er það vegna þess að Fréttablaðið er ókeypis og netaðganginn verður hvort eð er að borga fyrir. Án hans væri maður hálfhandalaus. Kann ekki mikið á stillingarnar á þessu bloggi og forðast að breyta nokkru þar. Svipað er að segja um símann. Ekki er ég nærri eins duglegur við að pota í hann eins og margir aðrir.

Skrifaði áðan í fyrsta skipti komment á bloggið hjá Þorsteini Siglaugssyni. Hann áskilur sér einskonar ritstjórnarvald yfir sínu bloggi og ég geri enga athugasemd við það, þó ég geri það allsekki sjálfur. Bloggið mitt er eins opið og mögulegt er. Ef einhverjum dytti í hug að skrifa eitthvað meiðandi þar er eins víst að ég bæri ábyrgð á því. Einu sinni hafði ég mikinn áhuga á öllu sem tengdist höfundarrétti og ærumeiðingum, en fylgist ekki neitt með því nú orðið. Eftir því sem árunum fækkar í áttrætt hefur maður minni áhuga á mörgu.

Vísan sem hefur tekið sér bólfestu í höfðinu á mér í dag er svona:

Úti vindur æstur hvín
ægilegt er rokið.
Nú held ég bráðum heim til mín
nú hef ég verki lokið.

Þessi vísa er að ég held eftir mig sjálfan. Áreiðanlega var þetta, ef svo er, ekki ort af neinu sérsöku tilefni. Og ég held að mikið af snjöllum vísum hafi einmitt verið ortar á undan tilefninu þó oft sé annað látið í veðri vaka. Þar með er ég ekki að halda því fram að þessi vísa sér sérstaklega snjöll. Mér bara datt þetta svona í hug.

IMG 6286Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband