Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2018

2763 - Fésbókarfjárinn

Allir þeir sem skrifa athugasemdir við bloggið mitt geta reiknað með því að uppfrá því reikni ég með þeim sem föstum lesendum. Auðvitað þarf ekki svo að vera, en ég reikna með því samt. Fólk verður bara að sætta sig við það.

Álit mitt á fésbókarfjáranum fer sífellt minnkandi. Kannski er það mest vegna þess að ég skil hann bara alls ekki. Þar fyrir utan eru bölvaðar auglýsingarnar alltaf að verða fyrirferðarmeiri og gott ef allir, sem vilja gera einhver óskunda, geta ekki ruðst inn á síðuna manns. Moggabloggið er mun skárra og hentar betur til predikana og íljósskíninga. Það er að vísu erfitt að finna það fyrir óinnvígða en það á að mörgu leyti betur við mig. Sennilega eru mun færri sem vinna þar, kannski bara engir.

Ekki veit ég af hverju það stafar en undanfarið hefur þeim sem vilja gerast vinir mínir á bansettri fésbókinni farið mjög fjölgandi. Flestir þeirra eru útlendingar eftir nöfnunum að dæma og þetta hlýtur að stafa af því að ég hef alveg óvart lent á einhverjum lista. Listamaður er ég samt ekki.

Til talsverðar Þórðargleði finn ég um þessar mundir vegna vandræða Trumps Bandaríkjaforseta. Kosningarnar í haust gætu orðið geysispennandi. Auðvitað eru bandarískar kosningareglur talsvert flóknar, en samt er varla hægt að gera ráð fyrir því að takist að koma honum úr embætti. Fyrsta raunverulega tækifærið til þess er í forsetakosningunum árið 2020, sem nálgast nú óðfluga, eða eins og óð fluga. Hvernig eru þær annars? Þessar maðkaflugur sem hingað villast um þetta leyti vilja óðar komast út aftur.

Hvernig Trump sjálfur breyttist í flugu er mér að mestu hulið. Helvítis maðkafluga er hann samt. Það er ekki að sjá að hann hafi snefil af meðlíðan með öðru fólki. Hann nýtur þess að Bandaríkin eru ennþá eitt af forysturíkjum hins frjálsa heims. Að sú forysta skuli notuð í þágu metnaðar eins manns er með öllu fordæmanlegt. Ekki er hægt að komast til neins skilnings á því fyrirbrigði sem USA er án þess að gera ráð fyrir því að þarna er um heila heimsálfu að ræða. Kannski er Evrópusambandið að reyna að sumu leyti að feta í fótspor þess ríkis, en stendur Brexitlega og tungumálslega ekki jafnvel að vígi.

Hræddur er ég um að Trump hafi varað sig á því að ekki sé hægt að sanna neitt á hann sem valdið geti embættismissi. Hann er auk alls annars háll sem áll held ég. Hugsa að hann vari sig líka á því að náða ekki eða reka þá sem ekki má náða eða reka. Þar er ég t.d. að tala um Manafort og Sessions. Þá yrði nefnilega allt vitlaust. Ekki er víst að Cohen eða Mueller geti sannað neitt á hann og þessvegna eru það sennilega blessaðir kjósendurnir, eins og fyrri daginn, sem geta gert honum lífið leitt. Þó demókratar fái meirihluta í neðri deildinni og jafnvel í öldungadeildinni líka, dugar það sennilega ekki til, því til að koma honum frá þarf aukinn meirihluta.

Það sem helst hann varast vann
varð þó að koma yfir hann.

Þetta vísubrot er það sem er að flækjast fyrir mér þessa dagana. Ég hef líklega notað einhverntíma glósuna „góða fólkið“ í þeirri merkingu sem andstæðingar þess vilja helst að sé notuð. Kannski er ég einmitt einn af góða fólkinu. Þetta segi ég að gefnu tilefni. En förum ekki lengra út í þá sálma.

Óttalegur tittlingaskítur eru þessar sífelldu málfarsaðfinnslur á fésbókinni. Sumar hverjar a.m.k. Málið bara þróast og þó það fari ekki alltaf í þá átt sem við gamlingjarnir viljum er ekki þar með sagt að við höfum réttara fyrir okkur en aðrir. Okkur finnst það bara. Unga fólkið hefur sínar skoðanir og með því að láta af sífelldum kröfum okkar um bætt málfar og margt annað hefur heimurinn skánað mikið á undanförnum áratugum.

IMG 7823Einhver mynd.


2762 - Hvort er betra að drepast fullur eða ófullur?

Innflytjenda- og flóttamannamál, ásamt kynferðislegum spursmálum ýmisskonar eru á góðri leið með að verða það sem skiptir mestu í stjórnmálalegri umræðu. Ég er að hugsa um að demba mér í þá umræðu.

Í Bandaríkjum Norður Ameríku vakti eitt tiltekið morðmál verulega athygli fyrir stuttu. Þar var ekki annað að sjá en ólöglegur innflytjandi og vinnumaður á bændabýli hefði verið að verki. Trump forseti var ekki lengi að hagnýta sér það. Án þess að segja það beinlínis gaf hann í skyn að þetta sannaði bara að allir (eða flestir) innflytjendur væru glæpamenn.

Við þetta er ýmislegt að athuga. Jafnvel getur verið að ólöglegir innflytjendur séu ekkert verri en annað fólk. Vinnufólk á bændabýlum þar í Guðs eigin landi er ekkert ákaflega margt. Kannski svona ein og hálf milljón. Af þeim er sennilega um helmingurinn eða meira ólöglegir innflytjendur. Þetta tiltekna morðmál segir ekkert til um það hvort morðingjar séu fleiri meðal ólöglegra innflytjenda en annarra. Kannski er því einmitt þveröfugt farið.

Æ, ég nenni þessu ekki. Pólitík er leiðinleg. Aldrei virðist vera hægt að koma sér saman um nokkurn hlut. Bara hjólað í næsta pólitíska andstæðing (flokkslega séð) og þá skiptir litlu hvort maður sé í hjarta sínu sammála síðasta ræðumanni eða ekki.

Varðandi pólitísk kynferðismál dettur mér fyrst í hug að allt ætlaði vitlaust að verða útaf því að Jón Valur Jensson birti klámvísu eftir sjálfan sig á boðnarmiði. Svo sagði DV a.m.k. Það sagði mér bara að fésbókarinnlegg Jóns Vals Jenssonar eru á leslista einhvers starfsmanns á DV. Hef núna farið á Boðnarmjaðarsíðuna og verð að segja að mér finnst þessi vísa heldur klén. Hún er þarna ennþá eða var a.m.k. Annaðhvort er búið að eyða út svotil öllum hneykslunarhellunum eða DV hefur haft rangt fyrir sér að því leyti að þeir sem á Boðnarmjöðinn kíkja reglulega eigi eitthvað bágt með að meðtaka sæmilegar klámvísur. Sjálfur er ég ekki með öllu saklaus af að hafa gert slíkar vísur og þar að auki er (eða var) viðurkennt af vísnavinum að í klámvísum, hestavísum og níðvísum hverskonar hafi íslensk vísnagerð oft risið hæst.

Ég hef komið að sjálfum mér þar sem ég stend við lyftuna hérna í blokkinni og ýti fast á bíllykilinn í algjöru tilgagnsleysi. Hvað táknar það? Fyrir mér er það bara staðfesting á því að ég er stundum dálítið utan við mig.

Hvort ætli sé betra að drepast fullur eða ófullur? Það eina sem ég álít stórhættlegt er að trúa því sem stendur eða fellur í fjölmiðlum. Það er alltaf verið að breyta til. Það sem var krabbmeinsvaldandi í gær er skyndilega orðið meinhollt í dag. Eða var það kannski hinsegin?

Er WOW-air á leiðinni á hausinn eða er bara verið að tala félagið niður af einhverjum annarlegum hvötum? Mér er ekki sama því ég hef góða reynslu af því að fljúga með þessu félagi og ætla kannski að fara erlendis í haust eða vetur.

IMG 7849Einhver mynd.


2761 - Erdogan eða Trump

Erdogan eða Trump. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá myndi ég frekar kjósa Trump. Þetta byggi ég alfarið á því sem ég heyrt um þessi svín. Þó Trump sé slæmur þá held ég hinn sé mun verri. Að vísu er heilmikill munur á þjóðfélögunum sem þessir menn (ef menn skyldi kalla) eru uppaldir í. Þó ég hafi enga sérstaka ástæðu til þess, þá treysti ég Bandaríkjamönnum mun betur en Tyrkjum. Kannski er það vegna þess að ég álít þá vera næstum því eins og við erum en Tyrki aftur á móti talsvert ólíka okkur. Hræðumst við ekki alltaf það sem er ólíkt því sem við þekkjum og erum vönust?

Það er víðar en hér á Íslandi sem húsnæði er dýrt. Sagt er að um 15 þúsund manns búi í bílum í Los Angeles borg einni. Þarna er sagt að sé um allskonar fólk að ræða. Hús eru fáránlega dýr víða í Kaliforníu. Svo geysa þar skógareldar með reglulegu millibili, svo kannski er bara best að eiga heima á Íslandi þegar allt kemur til alls. Reyndar er um fleiri staði að ræða en Ísland og Kaliforníu, en það er efni í annað blogg.

Viðtal í útvarpi allra landsmanna:
Spyrjandi: „Hvað er það besta við sjósund hér á Íslandi“?
Svarandi: „Það er að koma uppúr“.
Sp: „???“

Svona held ég að flestallir sannfærðir íslenskir landkrabbar hugsi sér sjósund. Þeir geta svosem farið augnablik í sjóinn ef þeir eru á Mallorca eða Tenerife, en á Íslandi er það allt annað mál. Þar er sjórinn svo fjári kaldur.

Man ennþá að þegar ég hætti mér út í Nauthólsvík á Nýársdag um árið þrátt fyrir hörkufrost varð ég steinhissa á því að sjá hóp fólks svamlandi í sjónum eins og ekkert væri. Svona er þetta bara. Það sem maður hefur ekki prófað er stórhættulegt. Eða það telur maður sér gjarnan trú um.

Að vera fúll eða ekki fúll, það er spurningin. Held að Harpa Hreins sé alltaf fúl þegar hún skrifar á fésbókina. Aftur á móti er ég fúll næstum alltaf nema þegar ég blogga. Þess vegna reyni ég að blogga svona mikið. En það bara þýðir ekkert. Reyni samt alltaf að vera sem lengst að því. Stundum tekst mér það sæmilega. Með aldrinum hefur mér tekist að vera lengi að næstum hverju sem er. Konunni minni finnst ég vera óhemju lengi að vaska upp. En ég held að ég geri það bara svona vel. 

Nú er Sigurður Hreiðar búinn að gefa út sjálfsævisögu. Hún er víst ekki um bíla. Ég er að mestu leyti hættur að lesa bækur. Svo sennilega kaupi ég hana ekki. Hef lesið bækur sem voru í rauninni ekkert nema fremur ómerkileg blogg. Næstum eins og þetta. Les miklu fremur blogg en bækur. Kosturinn við þau er að þau eru venjulega stutt. Stundum (oft) les ég fréttir. Þær eru stuttar líka. Ef ég reyni að lesa blogg eða fréttir sem eru of langdregin gefst ég bara upp og hætti. Niðurlag frétta fer oft framhjá mér.

IMG 7859Einhver mynd.


2760 - Trúin og efinn

Held ég hafi barasta ekki minnst á Trump í síðasta bloggi. Tímabært að bæta úr því. Trump þambar völdin (sem hann komst yfir með hálfgerðu svindli.) Hann er eins og fyllibytta að því leyti. Kannski hefði frú Clinton ekki orðið neitt betri. Verri hefði hún ekki getað orðið, frá sjónarmiði Evrópubúa. Annars held ég að Trump sé ekkert slæmur, fyrir Bandaríkjamenn vel að merkja, hann er disaster fyrir alla aðra.Vafasamt er að Bandaríkjamönnum takist að losna við hann með málaferlum eða í kosningunum 2020. Ef þeim tekst það ekki heldur 2024 missi ég alla trú á þeim, verði ég ekki dauður þá. Trump virðist ala með sér einvaldsdrauma, en ég held að lýðræðishugsjón Bandaríkjamanna viðurkenni alls ekki sjálfselskuna í honum þegar til lengdar lætur. Tollastríð kann að koma Bandaríkjamönnum nokkuð vel sé til skamms tíma litið. Á endanum tapa auðvitað flestir. Þetta sjá allir nema æstustu Trumpsinnar. Hinn lýðræðislega kosningarétt tekst Trump áreiðanlega ekki að afnema.

Punktur is og skástrik eru að verða afar algengar tilvísanirnar í hinum hefðbundnu fjölmiðlum. Auglýsingar, aðrar en ímyndarauglýsingar, eru oftast með tilvísun í frekari fræðslu á Internetinu. Eru annars ekki allir fjölmiðlar hefðbundnir sem ekki eru fyrst og fremst þar? Í hinum hefðbundnu virðist vera mikið stuðst við fésbókina og gjarnan er rekið einskonar útibú á Internetinu. Ekki er annað að sjá en fréttamenn og konur þurfi að fylgjast vel með á fésbókinni, til að vera marktækur fjölmiðill. Kannski er nauðsynlegt fyrir þá að hafa sérstakan blaðamann eða -menn til að fylgast með þessari bók. Hún er orðin svo samgróin þjóðlífinu. Sú breyting sem orðið hefur hér á Íslandi eftir tilkomu Netsins er svo mikil að vel má tala um byltinu. Þeirri breytingu væri vert að gera skil í bókum og verður eflaust gert þó síðar verði.

Að ég skuli hafa haldið svona lengi áfram að blogga án þess að hafa frá nokkru merkilegu að segja er í rauninni fáránlegt. Held ég hafi byrjað á þessun fjára árið 2006. Þá orðinn rúmlega sextugur. Sennilega eru ekki margir þrautseigari en ég í þessu efni. Nú er ég löngu hættur að blogga daglega og geri það bara þegar mér sýnist. Vissulega lenti ég framarlega í tölvubyltingunni á sínum tíma, en það var að mestu leyti fyrir algerar tilviljanir.

Allt er einskis virði. Hver er það sem ákveður annað? Er ekki Guðdómurinn bara blekking til þess eins að fá fólk til að haga sér almennilega? Hvers vegna þarf að trúa öllum þeim þvættingi sem skrifaður hefur verið um trúmál? Má kannski bara velja? Trúa því sem hverjum og einum finnst trúlegast? Sennilega er það skást. Er þá Guð bara í vörunum og þeim hljóðum sem æfingin skapar? Kannski í prentsvertunni. Eða merkjunum sem fljóta um allt á vegum tækninnar. Reynsla mín af blogginu segir mér að trúmál og hneykslismál hverskonar séu vinsælust í netheimum.

IMG 7879Einhver mynd.


2759 - Að ulla

Vinstri sinnar um allan heim hafa nú tekið upp nýja stefnu. Þeir ulla á andstæðinga sína. Fræg er myndin af Alberti Einstein þar sem hann ullar á ljósmyndarann. Að vísu er ekki vitað til að Einstein hafi verið sérstaklega vinstrisinnaður þó hann hafi á sínum tíma varað við atómsprengjunni. Þar að auki er ekki víst að ljósmyndarinn hafi verið sérstakur óvinur hans. Samt sem áður geri ég ráð fyrir að telja verði Einstein upphafsmann þessarar aðferðar. Annars skiptir ekki meginmáli hver er upphafsmaðurinn, heldur er auðséð að þessi aðferð tekur hefðbundinni málæðisaðferð stjórnmálamanna langt fram. Jafnvel væri hægt að ímynda sér að hún dygði vel í utanríkismálum. Ég bíð bara eftir því að Donald Trump fari að ulla á Pútín.

Það kemur alveg fyrir að ég hlusti á eða heyri auglýsingar í útvarpi. Undanfarið hefur auglýsing um startara vakið athygli mína. Hún hefur verið endurtekin margoft og alllengi og satt að segja er ég  dálítið hissa á henni. Hún byrjar svona: „Vantar startara......“ kannski er þetta endurtekið og vafalaust er einhver sem undirritar auglýsinguna og borgar fyrir hana. En þar sem ég á enga startara á lager og vantar heldur ekki startara missi ég yfirleitt áhugann þegar þarna er komið. Auðvitað er það óttalegur tittlingaskítur að vera að fárast yfir þessu. Ég get samt ekki annað en látið mér sífelldlega detta í hug að þetta verkstæði eða hver það nú er sem stendur að þessari auglýsingu ætti frekar að leita annars staðar að startara ef vöntunin er svona sár. Ef hinsvegar væri verið að selja startara mætti alveg láta sér detta í hug annað orðalag. Annars hefur mér oft dottið í hug að viljandi væri í auglýsingar stundum sett vafasamt orðalag eða jafnvel villur, til að vekja athygli.

„Á misjöfnu þrífast börnin best“, segir máltækið eða spakmælið. Ég er ekki frá því að þetta sé rétt. Of mikil umhyggja getur verið varasöm. Kannski vegnar þeim börnum betur sem er leyft að eiga sig, a.m.k. stundum. Lyklabörn var einu sinni talað um. Þeir sem eldri eru kannast eflaust vel við þetta orð. Hvernig skyldi þeim hafa reitt af í lífinu? Hefur það verið athugað? Sumir unglingar nútildags virðast halda að allt eigi að vera skemmtilegt. Lífið sé semsagt eintóm froða. Jafnvel að allt í sambandi við vinnu eigi að vera bráðskemmtilegt. Kannski er bara hollt að vera í fýlu öðru hvoru og finnast allt leiðinlegt. 

Venjulega fer ég í svona klukkutíma gönguferð á hverjum morgni. Vegna þess að ég er talsvert einrænn að upplagi reyni ég að fara frekar snemma. Helst svona um sjöleytið. Þó er mér hálfilla við að vera á ferðinni í niðamyrkri. Ekki er það vegna myrkfælni, heldur vil ég forðast að reka tærnar í eitthvað. Jafnvægisleysi hefur nefnilega hrjáð mig svolítið í meira en áratug. En tölum ekki meira um það. Einhver kynni að halda að á þessum svotil daglegu göngum mínum reyndi ég að finna uppá einhverju gáfulegu til að blogga um. Ekki vil ég þó viðurkenna að bloggið mitt sé yfirleitt ógáfulegt. Á gönguferðunum hefur mér reynst best að reyna að hugsa ekki um neitt. Erfitt er þó að komast hjá því að hugsa svolítið um gönguna sjálfa og skrokkinn á sér, en það er ekki gáfulegt. Fitbitið mitt (sem er app í símanum) veitir mér upplýsingar um gönguna sem mér finnst ágætt að fá jafnóðum svosem hraða, vegalengd og tíma. Ágiskanir um það geta sem best, ásamt öðru, haldið huganum uppteknum.

IMG 7880Einhver mynd.


2758 - Lögreglan

Það tekur mig oft talsverðan tíma að komast yfir að fletta og skoða Fréttablað dagsins. Tek mér þó öðru hvoru hlé til þess að líta á tölvuskjáinn. Verst að ég þarf helst að skipta um gleraugu til þess. Lít samt á það sem nauðsyn, að lesa sumar af greinunum í blaðinu, til þess að geta betur fylgst með því sem er að gerast í þjóðfélaginu. Í Fréttablaði dagsins (föstudagsins síðasta) skrifar Kolbrún Berþórsdóttir leiðarann og fer mikinn út af búrkubanni. Lokaorðin í leiðaranum eru: „Það er vissulega of mikið af boðum og bönnum í þessum heimi. Búrkubann er þó ekki af hinu illa.“

Ekki ætla ég að tíunda allt það sem hún tínir til í leiðaranum til stuðnings þessu banni, en þó íhaldsmenn af öllu tagi séu oft á móti hvers kyns bönnum, nema helst bönnum við komu flóttamanna, virðist Kolbrún telja sjálfri sér trú um að sjálfsagt sé að vera hlynnt þessu banni og telur sjálfri sér sennilega trú um að þar fylgi hún meirihlutanum, eins og hún vill oftast gera.

Að því leyti er hún með þessu trú þeirri íhaldsstefnu, hvar sem er í heiminum, sem vill fyrir hvern mun aðstoða lögreglu við að halda uppi óbreyttu ástandi. Ljósmyndir af andlitum eru mikið notaðar af lögreglu, sem vill forðast að skjóta alla sem andmæla þeim. Með því móti er hægt að ofsækja þá sem þurfa þykir og jafnvel að losa sig við þá. Hinsvegar eru það augljós mannréttindi að mega klæða sig á hvern þann hátt sem manni sýnist. Hryðjuverkamenn geta sennilega áfram leynst hvar sem er, þó búrkubann komi ekki til. Þó Kolbrún og aðrir íhaldsmenn styðji búrkubann er það alls ekki af illum hvötum sem ýmsir, þar á meðal flestir svonefndir aðgerðarsinnar, eru á móti því.

Almennt er lögreglan (og þar með stjórnvöld) að stefna að því að auka völd sín á hvern þann hátt sem þau geta. Bæði með vopnaburði, ljósmyndavélum og á hvern þann hátt sem mögulegt er. Þetta á ekkert fremur við lögregluna hér á Íslandi eða í Danmörku, svona er þetta um allan heim. Auðvitað vilja stjórnvöld allsstaðar halda völdum sínum. Til þess er herinn stundum kallaður til aðstoðar, eða lögreglan ef ekki vill betur, jafnvel þjóðvarðliðið svokallaða sem er við lýði sumsstaðar. Hvaða munur er annars á þjóðvarðliði og her?

Óvíst er að ég bloggi meira á alveg næstunni og þess vegna er ég að hugsa um að setja þetta upp á Moggabloggið per samstundis. Annars virðist mér að Moggabloggið sé á margan hátt að ganga í endurnýjun lífdaga einmitt um þessar mundir. Líklega er það efni í heila grein og hugsanlegt er að ég skrifi hana. Kannski verður það bara með tímanum ágætt að ég flutti mig ekki þaðan á sínum tíma.

Helena ristarbrotnaði um daginn og um helgina komu syskini mín í heimsókn hingað á Akranes, nema að sjálfsögðu Björgvin, en okkur finnst svo langt til Bolungarvíkur ennþá.

IMG 7885Einhver mynd.


2757 - Pólitíkin, sem öllu ræður

Oft má túlka fréttir með mismunandi hætti. Trump Bandaríkjaforseti gerir það mjög oft og bara vegna þess að hann segir að einhverjar tilteknar fréttir séu „falsfréttir“ þarf það ekki að vera svo. Hann lítur á sig sem útvalinn til þess að flokka fréttir og allar fréttir sem hann álítur að komi sér illa fyrir hann sjálfan kallar hann „falsfréttir“. Ef þær koma frá fjölmiðlum sem honum hugnast ekki (sem eru flestir) á hann ennþá auðveldara með að kalla þær „falsfréttir“. Auk þess vill hann gjarnan gera sem flesta hluti flokkspólitíska, jafnvel þó engin ástæða sé til þess. Hann nýtur mjög góðs af því að bandaríska stjórnmálakerfið er flókið mjög fyrir þá sem ekki hafa sérhæft sig í því. Allir virðast mega ljúga eins og þá lystir í bandarískum stjórnmálum og kjaftavaðallin þar er yfirþyrmandi. Þó er ekki annað að sjá en þeir verði að segja satt ef þeir eru eiðsvarnir fyrir rétti.

Þegar þú sérð einhvern pota með reglubundum hætti í símann sinn – auk þess að stara á hann, er sennilegast að hann sé annaðhvort upptekinn í leik eða að læra á þetta merkilega tól. Einu sinni var lærdómskúrfa mín ansi brött, (Úr blogg-biblíunni: - Gættu þess að láta ekki einstök orð leiða þig á villigötur. – Þú stjórnar með vissum hætti hugsunum lesandans.) en með árunum hefur hún (kúrfan) orðið minna brött. Ef þú getur séð aldur potandans þá færðu kannski betri hugmynd um hvers vegna hann er að þessu. Hvort hann situr eða stendur og er kannski á ferðinni, getur líka verið gott að vita. Kannski skiptir þetta engu máli. Sumir eru samt fljótari að hugsa en aðrir.

Það virðist vera svo að þeir séu vinsælastir, bæði á bloggi og fésbók, sem þykjast vita allt og viðurkenna aldrei að þeir hafi rangt fyrir sér. Ég er þó alls ekki að kvarta. Mér finnst einmitt að bloggið mitt sé lesið af hæfilega mörgum. Gæti samt alveg sætt mig við svolítið fleiri. Kannski blogga ég of oft og hitti ekki á að blogga um það sem flestir vilja vita. Efast lítið um að skoðanir mínar séu þær einu réttu. Dagleg fréttablogg um stjórnmál landsins virðast fá mestan lesandafjölda. Viðurkenni alveg yfirburði fésbókarinna og annarra félagslegra miðla. Myndir og þá einkum hreyfimyndir virðast höfða til flestra. Þyrrkingsleg skrif á gamla mátann eru ekki til vinsælda fallin.

Smásmugulegar frásagnir af veðri virðast vinsælar mjög. Sömuleiðis er ekki að sjá annað en íþróttir af öllu tagi séu einnig vinsælar. Þó virðist sem sumum sé ákaflega uppsigað við ákveðnar íþróttir. Svo er víst afar vinsælt um þessar mundir að gagnrýna ríkisútvarpið. Einkum þó sjónvarpið og þær fréttir sem þar eru fluttar.  

Ríkisstjórnin hér á landi nýtur ekki þeirra vinsælda sem hún ætti að njóta. Í rauninni er sú ríkisstjórn sem ekki nýtur meiri stuðnings en vantrausts gagnslaus. Líka er til lítils að vera sífellt að skipta um ríkisstjórnir. Mestar líkur eru á að ráðherrarnir geri eins vel og þeir geta. Stundum má vissulega gagnrýna ráðherravalið, en það er þó ekki neitt aðalatriði. Ástandið í þjóðfélaginu er það sem mestu máli skiptir. Mitt álit í þessu öllu er að þróunin skipti mestu máli. Þróun sú sem undanfarin ár hefur stefnt til aukinnar misskiptingar hér á landi er að mínum dómi hættuleg mjög. Með því aukast viðsjár milli hópa og gera má ráð fyrir hverskonar uppákomum.

IMG 7891Einhver mynd.


2756 - Verslunarmannahelgin

Vissulega eru áhrif hinna hefðbundu fjölmiðla að minnka. Fésbókin og aðrir félagslegir miðlar eru að koma í staðinn. Meistari hinna félagslegu miðla er sjálfur Donald Trump. Tvitterfærslur hans eru fjölmiðill útaf fyrir sig. Allt þykist hann vita. Veit ýmislegt, en lýgur líka mikið. Áhrif hinna hefðbundnu miðla eru lítil orðin. Voru mikil áður fyrr. Sennilega er heimurinn mikið að breytast einmitt núna. Sá heimur sem blasti við okkur, sem erum orðin óttalegir gamlingjar núna, stuttu eftir síðustu heimsstyrjöld, er allt annar en sá sem blasir við ungmennum nútímans.

Á margan hátt má segja að tæknin hafi tekið völdin. Ekki ætla ég mér þá dul að telja neitt upp í því sambandi. Hver og einn getur gert það fyrir sig. A.m.k. þeir sem eldri eru. Stjórnmálalega eru innanríkismál að verða lítilvægari. Fólk nútildags lítur meira á heiminn sem eina heild. Þar af leiðandi er flóttamannmál og hnatthlýnun mál málanna í dag. Þeir sem íhaldssamastir eru núna búa sér gjarnan til strámann úr öllu því versta sem þeir geta hugsað sér og ráðast síðan á þann strámann. Vinstra sinnað fólk þarf ekki endilega að gera ráð fyrir því að allir flóttamenn séu yndislegir og hugsi bara fallegar hugsanir. Að breyttu breytanda er heldur ekki hægt að gera ráð fyrir því að allir hægri menn séu eins.

Safna ekki tölulegum upplýsingum úr daglegri umræðu eins og mér virðist að sumir geri. Þetta veldur því að ég get ekki á árangursríkan hátt tekið eins mikinn þátt í pólitískri umræðu einsog ég stundum vildi. Auðvitað finnst mér og þykir ýmislegt vera á þennan eða hinn veginn og get ekki á nokkurn hátt gert að því. Stundum væri gott að geta stutt álit sitt með tölum og ef mér tekst að orða spurningar mínar eins og Gúgla þykir hæfilegt og ég nenni að fara þangað þá geri ég það stöku sinnum. Hinn möguleikinn er að orða það sem maður vill segja einhvern vegin öðruvísi. Ræðumaður er ég enginn og hef mesta reynslu núorðið í því að blogga. Meira ástfóstri hef ég greinilega tekið við Moggabloggið en fésbókina. Ekki er heldur að sjá að ég meti Trump Bandaríkjaforseta mikils. Einkum þykir mér sundrungartal hans og fjölmiðlaandúð vera of mikil. Viðurkenni samt að hann hefur gert ýmislegt vel og breytt forsetaembættinu á margan hátt. Kannski tekst honum að koma í veg fyrir að repúblikanar tapi yfirburðum sínum í þinginu í kosningunum í haust, þó er það allsekki víst. Í öldungadeildinni er t.d. ekki kosið um alla þingmennina.

Þegar ég blogga ekki geta lesendur mínir orðið ansi fáir. Jafnvel innan við tuginn á dag. Það er að vonum. Ef ég aftur á móti set upp blogg að morgni dags er ég hálfóánægður ef ég fæ ekki a.m.k. svona 100 lesendur eða svo þann daginn. Þeir fara stundum allt uppí 4-500. Áður fyrr fékk ég jafnvel 30 eða svo þó ég bloggaði ekki neitt. Þetta túlka ég þannig að lesendur mínir, sem ekki eru neitt óþægilega margir, séu í vaxandi mæli farnir að láta tölvuna minna sig á hvort ég hafi bloggað eða ekki. Annars virðist mér að fyrirsögnin ráði kannski talsverðu um fjöldann. Minnir að ég hafi bloggað um það fyrr. Kannski koma margir frá blogggáttinni.

Hugsanlega er athugasemdunum hjá mér eitthvað að fjölga. Steini Briem er a.m.k. farinn að senda mér vísur aftur. Einn er sá sem ég man eftir að hefur eflaust bloggað oftar og lengur en ég og nýtur greinilega mikilla vinsælda sem Moggabloggari. Það er Jens Guð. Reyndar er ég alveg að gleyma Ómari Ragnarssyni, sem stundum bloggar oft á dag. Bloggin hans Páls Vilhjálmssonar les ég stundum líka. Á margan hátt var það Jónas heitinn Kristjánsson sem kenndi mér að blogga og reyndar fleiri. Minnast má á Hörpu Hreinsdóttir og Nönnu Rögnvaldar í því sambandi.

Nú stendur Verslunarmannhelgin sem hæst. Fyrir utan hina næstum árvissu rigningu sem þjóðhátíðargestir fá virðist Skaftárhlaup fylgja með í pakkanum núna. Vonandi verða slysin á þjóðvegum landsins ekki mörg að þessu sinni. Annars er ekki hægt að gera ráð fyrir að verslunarmannhelgin sé upphaf og endir alls. Á sumum fjölmiðlum er samt ekki annað að sjá eða heyra en svo sé álitið.

IMG 7894Einhver mynd.


2755 - Frekar lítið um Trump

Í Bandarískum stjórnmálum eru það peningarnir sem ráða mestu. Hvort er betra að þeir ráði svona miklu eða hálfvitlaus forseti sem hefur pressuna og flestalla ráðamenn annarra þjóða á móti sér. Ekki er hægt að neita því að Bandaríkin hafa náð ágætum árangri á mörgum sviðum eftir að Trump tók við völdum og svo er hann fremur vinsæll meðal þeirra bandaríkjamanna sem eru hægrisinnaðir þarlendis. Stjórnunarstíll hans er þó óneitanlega talsvert tilviljanakenndur og sundrandi. Hann tekur fullan þátt í stjórnmálum dagsins og er sjálfhælinn mjög. Afar ólíkur fyrri forsetum í USA.

Hjá okkur á Íslandi er það kannski ræðumennskan, sem mestu ræður í pólitík. Áhrif Steingríms Sigfússonar eru mikil og þó hann sé ekki forsætisráðherra þá ræður hann miklu, einkum í krafti þekkingar sinnar, reynslu og ræðumennsku. Annars eru stjórnmál fremur leiðinleg sem áhugamál, en svolítið auðveld samt.

Ekki má nú mikið. Obama og Biden sáust saman í einhverju bakaríi að kaupa sér kökur og annað kruðirí og samstundis var það komið í heimsfréttirnar. Kannski þó bara í Bandaríkjunum. Eins og flestir vita sjálfsagt var Obama forseti í USA á undan Trump og Biden varaforseti hans. Hvort skyldu menn af þessu sauðahúsi kunna að meta frægðina mikils eða taka henni sem óhjákvæmilegri bölvun?

Fluguhelvítið sem var að angra mig meðan ég var að bloggast í gærmorgun álpaðist að lokum ofan í kaffibollan minn og varð að gjalda fyrir þau mistök með lífi sínu.

Nú hef ég komist að því að auglýsingar geta stundum komið að gagni. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvað „hitaveituskeljar“ væru nákvæmlega. Oft eru þessi fyrirbrigði auglýst í útvarpinu og oftast í samkrulli við heita potta. Svo ég var búinn að gera ráð fyrir að þetta væri eitthvað skylt þeim. Núna áðan sá ég heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu á hitaveituskeljum og sá þar að þetta eru ofur venjulegir heitir pottar. Þá veit maður það. Og Fréttablaðið græðir.

Nú er kominn ágúst og verslunarmannahelgin á næsta leiti. Hver veit nema sumarið komi á endanum. A.m.k. er veðrið ágætt hér á Skaganum akkúrat núna. Þetta sem hér er á undan var skrifað í gær þriðjudag. Mánaðamót eru eitt af þessu óhjákvæmilega sem veldur því að maður eldist og eldist.

IMG 7907Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband