2759 - Að ulla

Vinstri sinnar um allan heim hafa nú tekið upp nýja stefnu. Þeir ulla á andstæðinga sína. Fræg er myndin af Alberti Einstein þar sem hann ullar á ljósmyndarann. Að vísu er ekki vitað til að Einstein hafi verið sérstaklega vinstrisinnaður þó hann hafi á sínum tíma varað við atómsprengjunni. Þar að auki er ekki víst að ljósmyndarinn hafi verið sérstakur óvinur hans. Samt sem áður geri ég ráð fyrir að telja verði Einstein upphafsmann þessarar aðferðar. Annars skiptir ekki meginmáli hver er upphafsmaðurinn, heldur er auðséð að þessi aðferð tekur hefðbundinni málæðisaðferð stjórnmálamanna langt fram. Jafnvel væri hægt að ímynda sér að hún dygði vel í utanríkismálum. Ég bíð bara eftir því að Donald Trump fari að ulla á Pútín.

Það kemur alveg fyrir að ég hlusti á eða heyri auglýsingar í útvarpi. Undanfarið hefur auglýsing um startara vakið athygli mína. Hún hefur verið endurtekin margoft og alllengi og satt að segja er ég  dálítið hissa á henni. Hún byrjar svona: „Vantar startara......“ kannski er þetta endurtekið og vafalaust er einhver sem undirritar auglýsinguna og borgar fyrir hana. En þar sem ég á enga startara á lager og vantar heldur ekki startara missi ég yfirleitt áhugann þegar þarna er komið. Auðvitað er það óttalegur tittlingaskítur að vera að fárast yfir þessu. Ég get samt ekki annað en látið mér sífelldlega detta í hug að þetta verkstæði eða hver það nú er sem stendur að þessari auglýsingu ætti frekar að leita annars staðar að startara ef vöntunin er svona sár. Ef hinsvegar væri verið að selja startara mætti alveg láta sér detta í hug annað orðalag. Annars hefur mér oft dottið í hug að viljandi væri í auglýsingar stundum sett vafasamt orðalag eða jafnvel villur, til að vekja athygli.

„Á misjöfnu þrífast börnin best“, segir máltækið eða spakmælið. Ég er ekki frá því að þetta sé rétt. Of mikil umhyggja getur verið varasöm. Kannski vegnar þeim börnum betur sem er leyft að eiga sig, a.m.k. stundum. Lyklabörn var einu sinni talað um. Þeir sem eldri eru kannast eflaust vel við þetta orð. Hvernig skyldi þeim hafa reitt af í lífinu? Hefur það verið athugað? Sumir unglingar nútildags virðast halda að allt eigi að vera skemmtilegt. Lífið sé semsagt eintóm froða. Jafnvel að allt í sambandi við vinnu eigi að vera bráðskemmtilegt. Kannski er bara hollt að vera í fýlu öðru hvoru og finnast allt leiðinlegt. 

Venjulega fer ég í svona klukkutíma gönguferð á hverjum morgni. Vegna þess að ég er talsvert einrænn að upplagi reyni ég að fara frekar snemma. Helst svona um sjöleytið. Þó er mér hálfilla við að vera á ferðinni í niðamyrkri. Ekki er það vegna myrkfælni, heldur vil ég forðast að reka tærnar í eitthvað. Jafnvægisleysi hefur nefnilega hrjáð mig svolítið í meira en áratug. En tölum ekki meira um það. Einhver kynni að halda að á þessum svotil daglegu göngum mínum reyndi ég að finna uppá einhverju gáfulegu til að blogga um. Ekki vil ég þó viðurkenna að bloggið mitt sé yfirleitt ógáfulegt. Á gönguferðunum hefur mér reynst best að reyna að hugsa ekki um neitt. Erfitt er þó að komast hjá því að hugsa svolítið um gönguna sjálfa og skrokkinn á sér, en það er ekki gáfulegt. Fitbitið mitt (sem er app í símanum) veitir mér upplýsingar um gönguna sem mér finnst ágætt að fá jafnóðum svosem hraða, vegalengd og tíma. Ágiskanir um það geta sem best, ásamt öðru, haldið huganum uppteknum.

IMG 7880Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hún er bæði hip og kúl,
hress og tungulipur,
en Vigdís Hauks er fjandi fúl,
frosinn ljótur svipur.

Þorsteinn Briem, 18.8.2018 kl. 12:50

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Töfrar Steina Kolla köld
kemur honum betur.
Ekki hugnast Vigguvöld
varast hennar setur.

Sæmundur Bjarnason, 18.8.2018 kl. 13:29

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Orðið "tungulipurð" hefur vissulega fengið nýja merkingu.

Þorsteinn Siglaugsson, 18.8.2018 kl. 19:32

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, og ullaði hún Liv Ullman svona mikið?

Sæmundur Bjarnason, 18.8.2018 kl. 20:39

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Eflaust. Og öll sú ætt sko!

Þorsteinn Siglaugsson, 19.8.2018 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband