Bloggfærslur mánaðarins, maí 2018
28.5.2018 | 09:40
2725 - Fundur, fundur ekki, fundur kannski, fundur þó
Nú eru kosningar lukkulega afstaðnar. Ekki ætla ég mér þá dul að fara að kommenta eitthvað á þær. Nógu margir verða áreiðanlega til þess. Annars kvíði ég framhaldinu svolítið. Nú verður ekki þverfótað fyrir bessvisserum á pólitíska sviðinu og þegar þeir þagna sem kannski verður einhverntíma, þá tekur líklega fótbotinn við. Slæmt að hafa ekki mikinn áhuga á öðru hvoru.
Áður fyrr gátu skrifaðar fréttir alveg staðið fyrir sínu. Í blaðaútgáfu gátu þær verið eindálkur, tvídálkur eða þrídálkur (varla meira) allt eftir því hve merkilegar þær þóttu. Nútildax (í einu orði) erum við stödd í endanum eða í miðjunni á því tímabili þar sem það þykir afskaplega ómerkileg frétt sem ekki er myndskreytt. Bráðum þykir það hálf-ómögulegt að geta ekki skreytt frétt með videómynd. Þarna eiga dagblöðin í verulegum vandræðum og sennilega deyja þau alveg út á næstunni. Bæði útaf þessu og ýmsu öðru. Sjónvarpið getur þó fylgt þessari þróun eitthvað eftir, en allar fréttir verða í vaxandi mæli sóttar á Netið, þ.e.a.s Internetið.
Svipaða sögu er að segja um bækur og allskyns fróðleik af flestu tagi. Skrifaður texti er á undanhaldi. Lesinn texti, svo ég tala nú ekki um myndir og sérstalega hreyfimyndir munu að mestu taka við hlutverki hans. Hvort sem það verður á þessari öld eða þeirri næstu þá mun slíkur texti aðeins verða á færi fræðimanna að fá nokkurn botn í. Slíkur er hraði tækninnar.
Segja má að þær framfarir í tækni hverskonar, sem átt hafa sér stað frá tíunda áratugi síðustu aldar og þar til nú, hafi verið svo miklar að þetta sé ekki útilokað. Söngurinn um læsið mun hljóðna á næstu áratugum. Mark my words. Enskan, og einkum þó töluð, er sífellt að sækja á. Íslenskan er á fallanda fæti. Auðvitað er rétt að berjast á móti þessu og það munu margir gera. Samt er líklegra en ekki að þeir tapi. Rétt eins og það er líklegast að Íslendingar komist ekki uppúr riðlinum sínum í HM í fótbolta, þó við vonum að sjálfsögðu að svo fari ekki.
Það hefur komið fram áður á þessu bloggi að ég hef lítið álit á Trump bandaríkjaforseta. Þjóðarleiðtogar utan USA gera það einnig. Sama er að segja um helstu stórblöð heimsins og pressuna almennt. Nú virðist Trump hafa slegið öll sín fyrri met í vindhanagangi. Varla var blekið þornað á bréfi því sem hann sendi Kim Jong Un um að hann væri hættur við að mæta á samningafundinn milli þeirra, en hann var aftur farinn að tala um að kannski yrði samningafundurinn í Singapure haldinn þann 12. júní eftir allt saman.
Kannski væri bara best að hætta að hugsa um þetta gerpi. Hann virðist þrífast á því að sem flestir veiti honum athygli og ekki skipti máli hvort hún er jákvæð eða neikvæð.
Alec Balwin vill hætta að leika Trump forseta í Saturday night live, sem er að verða samskonar stofnun í Bandarísku þjóðlífi eins og Spaugstofan var orðin hér á landi. Þó með þeirri undantekningu að ekki eru alltaf sömu leikararnir þar. Balwin segist hafa gert Trump of bangsalegan þar og hann (Trump) ætti að hætta að herma eftir sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.5.2018 | 11:15
2724 - Fótbolti o.fl.
Það er að verða einskonar íþrótt hjá okkur Steina Briem að kveðast á í athugasemdum við bloggið mitt. Jafnan leggur hann útaf einhverju sem ég hef skrifað um og ég svara með vísu sem á einhvern hátt er tilvísun í hans vísu. Svolítil takmörkun er þetta en mér finnst samt ótrúlega auðvelt að svara honum. Hef nefnilega aldrei litið á mig sem neinn sérstakan hagyrðing. Þegar ég var á Bifröst voru flestir bekkjarfélagar mínir mun betri vísnasmiðir en ég. Séra Helgi Sveinsson gerði t.d. þessa vísu um einn þeirra:
Í andríkinu af öllum ber
okkar kæri skóli.
Kraftaskáld er komið hér
Kiddi á Hjarðarbóli.
Fréttablaðið segir að nú séu 23 dagar þangað til að fyrsti leikur Íslendinga verður á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Ætlunin er víst að birta einskonar jólasveinamyndir af öllum þeim fótboltamönnum sem valdir hafa verið í liðið. Blaðamenn hlakka áreiðanlega til HM eins og jólanna. Ekki þarf nema lítið að skrifa um annað en fótbolta svo ég kvíði þessu ástandi svolítið. Mun samt horfa a.m.k. á leikina sem Íslenska liðið leikur þar og kannski fleiri. Lofa samt engu um það hvað ég les um HM.
Það er ósiðlegt af alþingi að þumbast svona lengi við að ráða bót á fiskveiðistjórnuninni. Vel væri hægt að láta hagnaðinn af fiskveiðunum renna til þjóðarinnar allrar í stað þess að gera fáeina útgerðarmenn moldríka með gjafakvótanum. Ekki er hægt að sjá að sérstakt réttlæti sé í því fólgið að miða ennþá við hverjir mokuðu upp mestum fiski fyrir næstum 40 árum. Þorvaldur Gylfason og fleiri hafa m.a. bent á hvernig Norðmenn hafa látið hagnaðinn af olíunni renna í sjóð sem er nokkurskonar eftirlaunasjóður allrar þjóðarinnar. Kvótakóngarnir íslensku eru til mikillar óþurftar og á vissan hátt sambærilegir við olíufurstana við Persaflóa og oligarchana í Rússlandi.
Ég reyni að skipta mér sem minnst af innlendri flokkapólitík í þessu bloggi mínu. En það er erfitt. T.d. hef ég svolítinn áhuga á strætómálum, þó ég ferðist lítið með þeim. Einhver sagði mér að ókeypis væri í strætó á Akureyri. Það finnst mér nokkuð sniðugt og líklegt til að auka farþegafjölda hjá þeim. Miðflokkurinn (flokkur Sigmundar Davíðs og Vigdísar Hauks) hefur haft hátt um það kosningaloforð sitt að vilja hafa ókeypis í strætó í Reykjavík. Í heilsíðuauglýsingu frá þeim flokki í Fréttablaðinu í dag (föstudag) er þetta loforð komið í sjöunda sæti og þar að auki á það víst bara að vera fyrir þá sem eiga lögheimili í Reykjavík. Í mínum huga þýðir gjaldfrjáls það sama og ókeypis fyrir alla, en ekki bara fyrir suma. Er þessi lögheimilissöngur farinn að trufla suma? Ég bara spyr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2018 | 17:24
2723 - Strætó o.fl.
Það er eins og sumir af mínum fésbókarvinum hafi það fyrir reglu að ef ég hef skrifað eitthvað á bloggið mitt þá sé eitt af þeirra fyrstu verkum að lesa það. Það finnst mér nokkuð góð regla, því ég skrifa aldrei óhóflega löng innlegg í bloggið mitt og set yfirleitt bara eina mynd. Stundum skrifa ég jafnvel eitthvað athyglisvert og frumlegt, hugsanlega þannig að einhverjum þyki það fyndið. Þar að auki skrifa ég um allan fjandann og skipti oft um umræðuefni. Yfirleitt geri ég það ekki í alltof löngu máli.
Er verið að skipta Íslendingum í leigendur og íbúðareigendur í staðinn fyrir fátæklinga og auðmenn? Annars eru íbúðareigundur ekki neinir auðmenn þó þeir eigi eitt stykki íbúð, eða kannski svona hálfa. Sú stefna hefur lengi tíðkast hér á landi að sem allra flestir eigi sitt íbúðarhúsnæði. Kannski er það til að fasteignasölur, sem mér sýnist að séu óhóflega margar, hafi eitthvað að gera. Sögur um gríðarlega háa leigu og miklar hækkanir á henni hafa sennilega aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Hugsanlega hefur túristasprengjan sem hér hefur ríkt undanfarin ár ásamt airb+b leigu á húsnæði talsverð áhrif líka. Þeir sem eiga sitt eigið húsnæði komast líklega sæmilega af, meðan hinir mega éta það sem úti frýs. Þetta ásamt mörgu öðru sýnist mér að sé einkum til umræðu í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Svonefnd borgarlína er einskonar litmús-test núna í aðdraganda kosninganna. Miklu fremur en vinstri og hægri. Það er áhættusamt fyrir frambjóðendur að vera á móti henni. Mér virðist samt að hún sé einkum til þess gerð að reyna enn einu sinni að fá fólk til að fara í strætó. Flestir virðast vilja eiga sinn einkabíl og eru á móti því að fara í strætó. Allir með strætó. Allir með strætó. Enginn með Steindóri var sungið í Reykjavík einu sinni. Ekki hefur það samt tekist, því rekstur strætós hefur hingað til alls ekki snúist aðallega um farþegana, þó reglulega sé leiðakerfi og öðru þessháttar breytt og ekki er víst að borgarlínan geri það heldur. Áherslan er á einkabílinn og heldur áfram að vera það. Jafnvel þó nærri helmingur landrýmis í borginni fari í bílastæði, götur og annan ófögnuð.
Margskonar merkingar orða á íslensku má nota í fleira en gátuvísur. Sumt fer alveg þokkalega í 5 aura bröndurum. T.d. má taka þetta: Skyldu steggirnir á Tjörninni ekki eiga erfitt með andardráttinn? Er ekki nunnunum í Hafnarfjarðarklaustri eitthvað ábótavant? Eru reikningar fyrtækja nægilega endurskoðaðir ef endur eða önd líta á þá? O.s.frv.
Að vera kominn útfyrir umferðarhraðann, teppurnar og svifrykið svona á gamalsaldri er sennilega einhver mesta blessun sem ég hef orðið fyrir. Eiginlega blöskrar mér lætin og djöfulgangurinn þegar ég fer til Reykjavíkur. Kannski halda Hvalfjarðargöngin þessum hamagangi og ófögnuði að einhverju leyti frá manni. Kannski allt fari í bál og brand hérna að þessu leyti þegar ekki þarf lengur að borga í göngin. Í stuttu máli má segja að það séu rólegheitin og einangrunin sem mér líkar best við hér á Akranesi. Þar að auki er þetta allsekki langt frá höfuðborginni.
Lengi vel ruglaði ég saman nöfnum Davíðs Þórs Jónssonar og alnafna hans. Nú veit ég að annar er séra og hinn ekki. Þ.e.a.s. það er til séra Davíð og Davíð leikari. Allstaðar eru þessir Davíðar. Vilhjálmar Vilhjálmssynir eru líka margir. Í svipinn man ég eftir einum lögfræðingi, einum forleifafræðingi og einum söngvara. Auðvitað veit ég að alnafnar eru fremur algengir ef ófrægt fólk er talið með, en það á ekki við hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2018 | 17:02
2722 - Lækna-Tómas og skólaskytterí
Skólaskytterí er talsvert stundað í bandaríkjunum. Í unglingaskólanum þar sem 10 voru drepnir fyrir skemmstu átti að heita að búið væri að fyrirbyggja slíkt. Þar voru tveir lögreglumenn á verði og ýmislegt hafði verið gert til að kenna unglingunum að forðast slíkan ófögnuð eftir mætti. Nú stendur víst til að vopna kennara þar og sem víðast í USA og kenna þeim á byssur. Ekki er ég viss um að það dugi mikið.
Byssueign segir reyndar ekki nein ósköp. Það er frekar byssnotkun og hvernig byssurnar eru, sem úrslitum ræður. Bandaríkjamenn nota byssur mikið og segja gjarnan. Það eru ekki byssur sem drepa, heldur fólk. Þetta er auðvitað alveg rétt. Með byssu getur hinsvegar hver sem er, drepið hvern eða hverja sem hann vill, hvenær sem er. Ef engar byssur væru til eða almenningi bannað af stjórnvöldum að nota/eiga þær, eða notuðu/ættu þær ekki af öðrum ástæðum, þyrfti meiri nánd til að drepa og það tæki meiri tíma. Þetta er mikilvægur munur, sem Bandaríkjamenn virðast ekki vilja skilja. Þeir vilja margir meina að það séu ekki aðeins þeir sterkustu, í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu, sem geta hvenær sem er drepið eða gert óskaðlega hverja sem er. Með vissum skilingi má yfirfæra þetta á byssur.
Svo er líka á að líta: The Military Industrial Complex, sem öllu virðist ráða pólitískt í mörgum ríkjum bandaríkjanna. Ef hvergi væri stríð í heiminum og vopnaskak minnkaði til mikilla muna mundi slíkt valda efnahagslegum þrenginum í USA og víðar. Óbeint halda stjórnvöld hvar sem er í heiminum völdum með vopnavaldi.
Kosningar eru aðferð til að skipta með friðsamlegum hætti um stjórnvöld. Þær segja ekkert um raunveruleg völd. Íslendingar eru helteknir pólitískum skjálfta um þessar mundir og vissulega eru frambjóðendur misjafnir. Ekki er samt ástæða til að gruna þá um græsku. Hugsanlegt er að allir séu þeir með hamingju og heill þjóðarinnar í huga. Samt get ég af einhverjum ástæðum ekki fengið mig til að hafa mikinn áhuga á komandi sveitarstjórnarkosningum. Í seinni tíð hefur áhugi minn kosningum hér almennt farið nokkuð minnkandi.
Fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Ég held bara að allir fjölmiðlar séu að fara á hliðina útaf einu smábrúðkaupi. Ekki hafði ég minnsta áhuga á þessu konunglega brúkaupi, en geri mér alveg grein fyrir því að sumir kunna að hafa það. Beinar útsendingar trufla mig ekki mikið þó ég sé fréttasjúkur. Venjulega er hægt að snúa sér að einhverjum öðrum fjölmiðli ef þörf krefur. Það var samt erfitt núna, en er kannski að lagast.
Lækna-Tómas skrifar langa grein í Fréttablað dagsins og viðurkennir að ég held að virkjunarandstæðingar hafi skráð sig í allstórum stíl til lögheimilis í Árneshreppi til að koma hugsanlega í veg fyrir Hvalárvirkjun með því. Veit ég vel að ekki er alltaf hægt að fara algjörlega eftir lagabókstaf og túlkun yfirstéttar í öllum málum. Þannig hefðu t.d. seint orðið framfarir í verkalýðsmálum, ef fara hefði átt eftir valdastéttinni í einu og öllu. Þessi aðferð er samt þess eðlis að ekki er með öllu hægt að skauta framhjá henni.
Bloggar | Breytt 23.5.2018 kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2018 | 11:08
2721 - Kári Stefánsson
Ég er nú orðinn svo gamall að ég les eða skoða a.m.k. dánartilkynningarnar í Fréttablaðinu oftast nær. Samt hefur það farið framhjá mér að Bjarni í Kaupfélaginu sé dáinn. Ef marka má bloggið hans Ágústar H. Bjarnasonar er það einmitt í dag (föstudag 18/5) sem hann verður jarðaður. Ég kynntist Bjarna vel þegar ég vann og var síðar útibússtjóri í Kaupfélagsútibúinu í Hveragerði. Margar sögur hef ég oft sagt af Bjarna Sigurðssyni og á margan hátt má eflaust segja að hann hafi haft meiri áhrif á mig en margir aðrir. Bræður hans þekkti ég eða kannaðist við marga, en Má og Greip þó einna síst. Sigurð Greipsson formann Héraðssambandsins Skarphéðins og upphafsmann íþróttaskólans í Haukadal kannaðist ég að sjálfsögðu við. Að Bjarni væri sonur hans vissi ég einnig ósköp vel, en aldrei miklaðist hann af því. Hann og Eiríkur blindi á Hótelinu voru föstu punktarnir í Hveragerði æsku minnar ásamt auðvitað ýmsum öðrum.
Einn er sá maður sem getur leikið sér að því að taka ráðherra og aðrar skrautfígúrur í íslensku þjóðlífi, lagt þær á hné sér og rassskellt svo syngur í. Þessi maður heitir Kári og er Stefánsson. Að hann skuli lengi hafa barist fyrir því að fá að vara þá við sem ganga með svonefnt brakkagen er ekki bara heykslanlegt heldur beinlínis sorglegt. Auk þess hefur hann gefið í nafni fyrirtækis síns Landsspítala Íslands svonefndan jáeindaskanna sem ekki er enn búið að taka í notkun að því er ég best veit. Auðvitað hafa opinberir aðilar allskonar afsakanir á reiðum höndum enda hafa þeir haft nægan tíma til að undirbúa þær.
Ég man vel eftir sjónvarpsþætti sem gerður var um skákmeistarann Robert James Fischer og samræður hans við Kára Stefánsson. Slíkar tilvistarlegar og heimspekilegar samræður um lífsgátuna eru sjaldgæfar í íslenskum fjölmiðlum. Fremur er kosið að busla í yfirborðinu á amerísku sápuvatni, sem nóg virðist vera til af.
Enn fjölgar þeim sem virðast líta á þetta blogg mitt sem vin í þeirri vísnaeyðimörk sem að mörgu leyti virðist ríkja hér á landi. Alveg held ég að hætt sé að kenna í skólum vísnagerð og stuðlasetningu. Svo var ekki þegar ég var að alast upp. Þá var okkur kennd stuðlasetning og málfræði alveg undir drep. Man að ég átti fremur auðvelt með að tileinka mér sumt af því, sem haldið var að okkur. Annað t.d. í málfræði og greinarmerkjasetningu fannst mér að vísu mesta stagl en ekki nærri allt. Þarna má segja að margt fari saman. Móðurmálið er alls ekki meðfætt.
Vilhjálmur Vilhjálmsson (assgoti eru þeir annars margir) í Kaupmannahöfn sem í raun og sannleika er úrvals fornleifafræðingur og vandar sig mikið við bloggin sín er nýjasta viðbótin á því sviði. Kallar sig núorðið að vísu Fornleif og ekkert er við því að segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.5.2018 | 10:50
2720 - Hitler & Co.
Satt að segja er ég hræddastur um að Trump bandaríkjaforseti sé Hitler nútímans. Af hverju nefnir þetta enginn? Skil það ekki. Jú, ég veit svosem að það er þetta sem margir hugsa. Samt má helst ekki nefna það. Að sumu leyti er það rétt að umræðan getur hæglega farið útí vitleysu ef þessi samlíking er notuð. Er samt viss um að hann er að hugsa upp aðferð til þess að vera lengur við völd en þau átta ár, sem vaninn er á friðartímum. Enginn vafi er á því að hann mun sigra auðveldlega í forsetakosningunum árið 2020. Fyrir árið 2024 þarf hann að vera búinn að ákveða hvernig hann verður áfram við völd. Með einangrunarstefnu innanlands og ofbeldi í utanríkismálum er alveg hugsanlegt að honum takist þetta. Bandaríkin eru það ríkt land að þau geta hæglega séð um sig sjálf. Menntamenn eru ekki enn farnir að flýja land, en að því kemur. Fjölmiðlar og almenningur í Stóra Útlandinu hafa verið á móti honum frá upphafi, en samt hefur hann komið sínu fram að mestu leyti. Fjölmenning er framtíðin og ESB er lausnin.
Reyndar er ég ekkert viss um að Trump komist upp með eitthvað svipað í USA nú á tuttugustu og fyrstu öldinni, og Hitler gerði á fjórða áratug síðustu aldar í Þýskalandi. Samt held ég að sú hætta sé fyrir hendi. Ekki eru allir fjölmiðlar á móti honum, en flestir sem eitthvað kveður að. Einfeldningslegt er að saka fjölmiðlana um að ráðast óþarflega hart gegn honum. Þar er einfaldlega um að ræða svo marga aðila að ekki er hægt að spyrða þá alla saman. Heldur er ekki hægt að haga sér þannig gagnvart öðrum ríkjum. Bandaríkin og Trump eru einfaldlega að stefna að heimsyfirráðum. Hugsanlega er fremur hægt að líkja þeim við Rómaveldi til forna en Þýskaland nasismans. Óþarfi er auðvitað líka að loka augunum fyrir óhæfuverkum Stalíns og Maós. Mannslíf eru einfaldlega dýrmætari en allt annað.
Þessari prédikun minni er nú lokið og hægt að snúa sér að jarðbundnari verkefnum. Til dæmis er veðrið nú um stundir engu líkt. Áðan fór ég upp í Melahverfi til að sinna dýrunum þar. Meðan ég var þar úti skall á sannkallað óveður. Fyrst haglél og mikið rok. Meðan það stóð yfir slapp ég inn, en út um glugga sá ég að næst kom slydda og þegar ég fór var komið glampandi sólskin og besta veður. Eigum við að skrifa allt sem óvenjulegt er í veðrinu á hnatthlýnunina? Já, já. Þetta var bara él. Og ég er viss um að fleiri hafa orðið varir við þetta en ég einn.
Kosningaskjálfti er farinn að gera vart við sig víðast hvar. Sjálfur merki ég það einkum á því að póstkassar allir fyllast fyrr en varir af allskyns áróðri. Vitanlega er best að leiða þetta sem mest hjá sér. Það er samt ekki alltaf auðvelt. Að sjálfsögðu skipta ýmis málefni í næsta nágrenni okkar miklu máli. Leikskólar, farsímar, fésbók, skipulag, uppsagnir, lögheimili og allur fjandinn skiptir gamalmenni eins og mig samt litlu máli. Samt verð ég víst að kjósa. Ekki hefur áróðurinn í póstkössunum og fjölmiðlunum mikil áhrif á mig.
Einhver mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.5.2018 | 11:13
2719 - Íþróttir o.fl.
Sumt af því sem fólk segir frá á fésbókinni um fátækt sína og aumingjaskap á alls ekki við um mig. Hvort þeir peningar sem til ráðstöfunar eru nægja til framfæris eða ekki fer talsvert eftir þeim lífsstíl sem fólk temur sér eða velur. Hér á Íslandi erum við sem betur fer nokkurn vegin laus við hungur. En auðvitað hafa ekki allir það jafngott. Kommúnisminn tókst ekki í Sovétríkjunum sálugu. Þar áttu allir að vera jafnir.
Góð heilsa er samt alls ekki sjálfsögð. Ennþá er ég sæmilega heilsuhraustur þó ellin hafi náð talsverðum tökum á mér. Satt að segja vorkenni ég þeim sem þurfa að borga háa húsaleigu og sjá fyrir mörgum börnum. Kannski hafa þeir þar að auki lágar tekjur eða engin eftirlaun.
Sumt af þessu er hægt að sjá fyrir og eyða þá þeim mun minna í það sem kalla mætti óþarfa. Vitanlega er það skilgreiningaratriði hvað er óþarfi. Það sem einn álítur hreinasta óþarfa álítur sá næsti vera nauðsynlegt. Langflestir Íslendingar hafa þó nóg að borða og þak yfir höfuðið. En er það nóg? Sennilega ekki. Heilbrigði, bæði andlegt og líkamlegt, er á margan hátt það nauðsynlegasta og það er alls ekki hægt að kaupa fyrir peninga.
Hvernig eigum við, venjulegir íþróttaáhugamenn að fara að? Nú orðið þarf að fylgjast með svo mörgu að maður kemst alls ekki yfir það alltsaman. Og svo segja íþróttafréttamennirnir ekki nærri alltaf um hvað verið er að tala og hvort um er að ræða karlmenn eða konur. Verst er þetta með boltaíþróttirnar. Oft þarf maður að geta sér til um hvað verið er að tala um eftir marka eða stigatölunni. Félögin heita alltaf það sama. Eiginlega ætti maður bara að fylgjast með ákveðnum félögum. Þá kemur upp vandamálið með þjóðerni. Það er á að margan hátt tengt íþróttum. Nenni ekki að fjölyrða meira um þetta.
Fjölmenning eða fjölmenning ekki er spurning dagsins. Auðvitað skipta flóttamenn máli. Engin fjölskylda fer á vergang að gamni sínu. Örlög Palestínumanna og ógæfa er vel skiljanleg og reyndar er hægt að skilja Ísraelsmenn jafnvel líka. Úrslitin í söngvakeppni Evrópu gætu skipt máli í þessu sambandi. Ekki er þó auðvelt að ímynda sér að þau úrslit verði til góðs. Sæmilegur friður á þessu svæði gæti þó smitað út frá sér.
Greinilegt er að helstu rifrildisefnin fyrir komandi kosningar eiga hér á Íslandi að verða lögheimilismálið og Hörpumálið. Bæði finnst mér heldur ómerkileg. Á sama hátt og vinstri-sinnar eiga að segja að Svanhildur Konráðsdóttir sé ómöguleg eiga hægrisinnar að segja að Vesturverk megi borga þá reikninga sem þeim sýnist. Eiginlega vil ég hvorugum hópnum tilheyra. Öll mál geta orðið pólitísk og erfitt er við það að ráða. Grimmdarverk Ísraela gagnvart Palestínumönnum eiga að hafa áhrif á heimsmálin en óvíst er að þau geri það.
Sú heimspekilega spurning hvort fólk sé fífl er sennilega sú spurning sem mest veltur á. Er fólk virkilega almennt svo skyni skroppið að það láti snákaolíusölumenn hræra í sér. Einhverja gagnrýna hugsun verða allir að temja sér. Sé litið á auglýsingar dagsins virðist samt fara lítið fyrir henni hjá mörgum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.5.2018 | 15:45
2718 - Hörpu-málið
2718 Hörpu-málið
NASA (National Aeronautics and Space Administration já Bandaríkjamenn hafa mikið yndi af skammstöfunum) ætlar sér að senda far til Mars árið 2020 og með því einskonar þyrlu (sjálfstýrða en ekki hvað?) Senda á þetta far að stað í júlí (en ekki í mars) og standa vonir til að geta sent þyrlu þessa í rannsóknarferðir vítt og breitt um plánetuna.
Á bakaleiðinni frá Melahverfi um daginn hlustaði ég á útvarpið í bílnum og þar var verið að tala um Jóhann Sigurjónsson og Fjalla-Eyvind. Man að í fyrndinni sá ég leikritið í túlkun Leikfélags Hveragerðis. Gott ef Alla Magga lék ekki Höllu. Minnisstæðast úr þeirri sýningu er mér þegar Halla kastaði barni sínu (dúkkunni) í fossinn. Einnig man ég vel eftir krafsi hestsins í hurðina.
Annarri sýningu man ég líka eftir og hún hét Húrra krakki. Minnisstæðast úr þeirri sýningu er að hafa séð Ragnar í Reykjafossi í krakkafötum.
Það er þetta með myndirnar sem fylgja bloggunum hjá mér. Á sínum tíma átti ég fullt af myndum sem ég setti næstum því jafnóðum á Moggabloggið. Í þessu albúmi sem ég hef aðgang að, en sennilega ekki aðrir, eru einar 346 myndir. Ég er semsagt að endurnýta þær. Er kominn upp í rúmlega 100 og þetta tefur mig svolítið þegar ég set upp blogg. Þó ekki verulega og ef ég ætlaði að setja nýjar myndir í hvert einasta skipti mundi ég eflaust ekki vera svona viljugur að blogga. Bloggskrifin sjálf eru bara skemmtileg.
Sú mynd sem ég setti upp síðast er af World Class í Reykjavík og þar fyrir utan má sjá rassasúlu sem minnir mig á að eitt sinn þegar við vorum í Osló fórum við í Vigeland-garðinn og þar eru svona súlur minnir mig.
Þegar ég á sínum tíma stýrði videóinu í Borgarnesi komu þeir eitt sinn í heimsókn Jón Óttar og Hans Kristján. Með þeim í för var þriðji maðurinn sem ég man ekki hvað heitir eða hét, en ég held að hann hafi áður verið aðalverkfræðingur hjá Sjónvarpinu. Þeir voru að sjálfsögðu að kynna sér hve auðvelt væri tæknilega séð að senda út sjónvarpsefni enda að undirbúa stofnun Stöðvar 2 þá, svo þetta hefur líklega verið árið 1986. Svo fór ég að vinna hjá þeim og þeir stunduðu það að á tímabili að senda fólk til mín sem þeir vildu ekki eða gátu ekki afgreitt sjálfir. Man t.d. vel eftir bæði Hlyni Þór Magnússyni og Sólveigu Anspach sem bæði eru látin núna að ég held. Kannski Jón Óttar og Hans Kristján séu báðir farnir að eldast eitthvað.
Þetta með Hlyn Þór og Sólveigu er ekki bara venjulegt karlagrobb hjá mér enda hefði ég þá ekki beðið með að skrifa um þetta í meira en 2700 blogg. Þessum tveimur man ég vel eftir, en ég held ekki að ég muni eftir fleirum. Hvorki núlifandi né látnum. Annars er namedropping einmitt oft ágætis aðferð til að vekja á sér athygli.
Hörpu-málið, sem sumir vilja kalla Svanhildar-málið eða jafnvel Samfylkingar-málið gæti orðið helsta átakamálið í komandi kosningum, við hliðina á virkjunar-málinu á Vestfjörðum sem allt eins mætti kalla lögheimilis-málið. Hvað veit ég? Eitthvað verða menn að hafa til að rífast um. Og eitthvað verða hlutirnir að heita. Kannski má kalla Hörpu-málið PR-slys, en sennilega sýnir það svart á hvítu hve langt er á milli þeirra sem allt (eða næstum allt) hafa og hinna sem ekki hafa nærri nóg. Það er ekki nóg að benda bara á hve margir höfðu það virkilega skítt áður fyrr. Það eru bara allt aðrir tímar núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2018 | 07:01
2717 - Vorið góða grænt og hlýtt.
Nú er vorið greinilega komið. Grasið að verða grænt. Trén í óða önn að laufgast. Bráðum verður farið að hamast við að slá hérna í kringum blokkirnar. Lúpínan er farin að láta smávegis á sér kræla o.s.frv. Ætli sumarið verði bara ekki gott. Gróðapungarnir hafa samt áhyggjur af því að túristunum fjölgi ekki jafnhratt og áður. Mér er sama. Einhver strá verða líka fegin.
Man eftir vítissóda í búðum og ódýru ærhakki. Sælgæti og gosdrykkjum sem voru allt öðruvísi á Akureyri en í Reykjavík. Man líka eftir malbikaða spottanum þar sem nú er Bæjarháls. Hann var frá því á stríðsárunum og ósléttur mjög mjúklega samt. Þegar þangað var komið (frá Hveragerði) var maður talsvert farinn að nálgast Reykjavík. Man líka eftir Dýrlingnum í sjónvarpinu. Hann er víst dáinn úr elli núna.
Á undan sjónvarpinu var útvarpið allra leiðinda bót. Þar voru mörg gullkornin sem borin voru á borð. Man eftir framhaldsleikritinu sem hét: Hver er Gregory? Á það var hlutstað með mikilli innlifun. Man þó ekki gjörla um hvað það var.
Og bíóin maður. Eiríkur og Sigga á Hótelinu ráku Nýja Ferðabíóið og seldu miðann á 3 krónur gamlar og þótti mikið. Og það var reykt og reykt í bíóinu. Verst hvað birti í salnum meðan logaði á eldspýtunni. Litmyndir voru mjög sjaldgæfar. Hátíð þótti ef danskir skýringartextar voru á myndunum. Engum datt í hug að fara fram á íslenska texta.
Í gærmorgun fór ég í gegningar uppí Melahverfi. Þá var bara einn búinn að lesa bloggið mitt þann morguninn. Þegar ég kom til baka voru þeir orðnir 35. Mér finnst sú tala frekar há. Kannski finnst sumum hún lág, en við því er ekkert að gera. Í gær var fössari eins og krakkarnir segja og eins og venjulega var ég í skásta stuðinu til þess að blogga þegar ég er nýbúinn að setja blogg í eterinn og ég byrjaði á þessu bloggi þá.
Vel á minnst. Þetta með eterinn er athyglisvert. Kannski er það sama og ljósvakinn sálugi. Áður fyrr þótti mönnum það ómögulegt að ljós frá frá stjörnunum væri að flækjast í algjöru tómi. Þessvegna var ljósvakinn fundinn upp. Atmosfer, jónosfer, stratosfer, Sigurður fer, sem betur fer. Ætli það hafi ekki verið Sigurður með skotthúfuna, sá sem kvað svo listilega um hana Maríu. Svona þvælist hugsunin fram og aftur og getur ekki stöðvast við neitt.
Kannski verður þetta mál með þá 17 sem skráðu lögheimili sitt í Árneshreppi stærsta málið fyrir þessar kosningar. Hugsanlegt að þetta tengist virkjanaáformum. Segi bara svona.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2018 | 07:20
2716 - Ætti ég að vera "prepper"?
Einhver hélt því fram í mín bloggeyru að Steini Briem og Ómar Ragnarsson væru sami maðurinn. Ekki hef ég trú á því, en grunsamlegt er þó að Steini skuli ekki vera skráður á Moggabloggið á sama hátt og aðrir. Mér finnst samt gaman að kveðast á við hann. Nú er hann búinn að stimpla sig inn með þessum vísum og getur ekki bara farið.
Að þjóðþekktir menn skuli láta hafa sig útí að söngla auglýsingar frá happadrættis- og öðrum fjárglæfrafyrirtækjum er þyngra en tárum taki. Að Háskóli Íslands og aðrar stofnanir skuli taka við slíkum blóðpeningum er líka ósiðlegt mjög. Eiga peningar að ráða öllu? Að mínum dómi er þetta alveg sambærilegt við eiturlyfjagróða. Auðvitað veit ég vel að mitt álit er fremur léttvægt í þessum sökum, en samt sem áður finnst mér að þetta þurfi að koma fram.
Sennilega er lýðræði skásta stjórnarformið, sem fundið hefur verið upp. Gallalaust er það þó alls ekki. Einnig er hægt að leiða líkur að því að ástandið í heiminum fari örlítið batnandi með árunum. Mannfórnir eru ekki stundaðar og dýrafórnir litnar hornauga. Áfram höldum við að éta flest þau dýr sem við mögulega getum. Hvort grænmeti eða kál allskonar er eitthvað betra skal ósagt látið. Jurtirnar kvarta a.m.k. ekki og kveljast líklega á þann hátt sem við aldrei fáum skilið. Að kjötið sem við étum skuli skömmu áður hafa verið lifandi er satt að segja hálfógeðslegt. Ekki hugsa ég t.d. að líði á mjög löngu þangað til fiskveiðar allskonar verða álitnar ósvinna hin mesta. Og fari þannig sömu leið og landbundnar veiðar. Þær hafa a.m.k. enga efnahagslega þýðingu lengur.
Flest blogg, blaðagreinar, skáldsögur og innlegg á fésbókina eru skrifuð og útbásúnuð í þeim tilgangi aðallega að ganga í augun á einhverjum, að þykjast vera gáfaður, vel að sér, hæfileikaríkur eða fyndinn. Sama er að segja um list-starfsemi alla og eflaust margt fleira. Sjálfur er ég allsekki saklausari af þessari tilhneigingu en aðrir. Ekki þarf að biðjast afsökunar á þessu því segja má að viðurkenning annarra sé öllum nauðsynleg.
Nú þegar hugsanlega allt er að fara í bál og brand í Austurlöndum nær (eins og einu sinni var sagt) er viðeigandi að velta fyrir sér hinum sérkennilegu preppers sem allsstaðar nema á Íslandi virðast vera tilbúnir að leggja talsvert á sig til að hjálpa sér og öðrum, aðallega þó sjálfum sér og sínu skylduliði, ef allt fer á versta veg. Segja má að þetta séu fullorðnir skátar og það töluvert paranojaðir. Bókmenntir til að leiðbeina þessum afvegaleiddu einstaklingum eru talsvert umfangsmiklar. Kannski eru það þeir sem eru gáfaðir, en ekki við sem horfum á þá í forundran.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)