2725 - Fundur, fundur ekki, fundur kannski, fundur þó

Nú eru kosningar lukkulega afstaðnar. Ekki ætla ég mér þá dul að fara að kommenta eitthvað á þær. Nógu margir verða áreiðanlega til þess. Annars kvíði ég framhaldinu svolítið. Nú verður ekki þverfótað fyrir bessvisserum á pólitíska sviðinu og þegar þeir þagna sem kannski verður einhverntíma, þá tekur líklega fótbotinn við. Slæmt að hafa ekki mikinn áhuga á öðru hvoru.

Áður fyrr gátu skrifaðar fréttir alveg staðið fyrir sínu. Í blaðaútgáfu gátu þær verið eindálkur, tvídálkur eða þrídálkur (varla meira) allt eftir því hve merkilegar þær þóttu. Nútildax (í einu orði) erum við stödd í endanum eða í miðjunni á því tímabili þar sem það þykir afskaplega ómerkileg frétt sem ekki er myndskreytt. Bráðum þykir það hálf-ómögulegt að geta ekki skreytt frétt með videómynd. Þarna eiga dagblöðin í verulegum vandræðum og sennilega deyja þau alveg út á næstunni. Bæði útaf þessu og ýmsu öðru. Sjónvarpið getur þó fylgt þessari þróun eitthvað eftir, en allar fréttir verða í vaxandi mæli sóttar á Netið, þ.e.a.s Internetið.

Svipaða sögu er að segja um bækur og allskyns fróðleik af flestu tagi. Skrifaður texti er á undanhaldi. Lesinn texti, svo ég tala nú ekki um myndir og sérstalega hreyfimyndir munu að mestu taka við hlutverki hans. Hvort sem það verður á þessari öld eða þeirri næstu þá mun slíkur texti aðeins verða á færi fræðimanna að fá nokkurn botn í. Slíkur er hraði tækninnar.

Segja má að þær framfarir í tækni hverskonar, sem átt hafa sér stað frá tíunda áratugi síðustu aldar og þar til nú, hafi verið svo miklar að þetta sé ekki útilokað. Söngurinn um læsið mun hljóðna á næstu áratugum. Mark my words. Enskan, og einkum þó töluð, er sífellt að sækja á. Íslenskan er á fallanda fæti. Auðvitað er rétt að berjast á móti þessu og það munu margir gera. Samt er líklegra en ekki að þeir tapi. Rétt eins og það er líklegast að Íslendingar komist ekki uppúr riðlinum sínum í HM í fótbolta, þó við vonum að sjálfsögðu að svo fari ekki.

Það hefur komið fram áður á þessu bloggi að ég hef lítið álit á Trump bandaríkjaforseta. Þjóðarleiðtogar utan USA gera það einnig. Sama er að segja um helstu stórblöð heimsins og pressuna almennt. Nú virðist Trump hafa slegið öll sín fyrri met í vindhanagangi. Varla var blekið þornað á bréfi því sem hann sendi Kim Jong Un um að hann væri hættur við að mæta á samningafundinn milli þeirra, en hann var aftur farinn að tala um að kannski yrði samningafundurinn í Singapure haldinn þann 12. júní eftir allt saman.

Kannski væri bara best að hætta að hugsa um þetta gerpi. Hann virðist þrífast á því að sem flestir veiti honum athygli og ekki skipti máli hvort hún er jákvæð eða neikvæð.

Alec Balwin vill hætta að leika Trump forseta í „Saturday night live“, sem er að verða samskonar stofnun í Bandarísku þjóðlífi eins og Spaugstofan var orðin hér á landi. Þó með þeirri undantekningu að ekki eru alltaf sömu leikararnir þar. Balwin segist hafa gert Trump of bangsalegan þar og hann (Trump) ætti að hætta að herma eftir sér.

IMG 8137Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Engar rannsóknir hafa sýnt fram á, svo ég viti til, að "verri" eða "óhreinni" íslenska sé almennt töluð nú hér á Íslandi en fyrir til að mynda hálfri öld, þegar dönskuslettur í íslensku voru mun algengari en þær eru nú.

Þorsteinn Briem, 28.5.2018 kl. 12:48

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hér áður var tilveran yndisleg
og allt var í besta lagi
En nú er allt farið á verri veg,
vídeófréttir, tungan treg
og Trump orðinn góður gæi.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.5.2018 kl. 22:57

3 identicon

Rétt að senda þér kveðju,Sæmundur, rakst á þessa síðu þegar ég var að skoða þjóðsögurnar, er það ekki rétt hjá mér að þú sért búinn að skrá fjölda þeirra inn? Góðan dag! IHJ

Ingi Heiðmar Jónsson 29.5.2018 kl. 07:40

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini minn, hvað er þetta, engin vísa. Ég er að miklu leyti sammála þér um íslenskuna. Eiginlega hef ég meiri áhyggjur af fjölmiðlun á Íslandi en islenskunni sem slíkri. Töluð íslenska mun áfram verða ríkjandi, en lestur verður ekki eins rikjandi og áður. 

Sæmundur Bjarnason, 30.5.2018 kl. 18:04

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Áður var allt svo gott,
endalaust hamingjuflóð.
Áður var framtíðin flott
og fortíðin alltaf góð.

Sæmundur Bjarnason, 30.5.2018 kl. 20:40

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, eitthvað settum við af þjóðsögum á Netútgáfuna, næstum eingöngu að mig minnir úr þjóðsögum Jóns Árnasonar. Flokkuðum þær reyndar á annan hátt en hann og urðum að hætta með Netútgáfuna því enginn vildi styrkja okkur. Áhuginn á þjóðsögum og allskyns fornum fræðum er samt enn við lýði hjá mér og ættingum mínum.

Sæmundur Bjarnason, 30.5.2018 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband