Bloggfærslur mánaðarins, maí 2018

2715 - Skátar - verum kátar

Þegar verið er að kynna eða afkynna uppfyllingarlög í útvarpi allra landsmanna er höfundur ljóðsins ævinlega tiltekinn allra síðast. Söngvarar, undirspilarar, lagahöfundar, útsetjarar og fleiri alltaf hafðir á undan. Af hverju ætli það sé? Eiginlega hefði innslag af þessu tagi átt betur heima á fésbókinni. En eins og margir aðrir þá forðast ég það forrit um þessar mundir. 

Ef ég les að jafnaði bloggin þeirra Jónasar (jonas.is) og Styrmis (styrmir.is) eða hér á Moggablogginu bloggin þeirra Ómars Ragnarssonar, Páls Vilhjálmssonar og Jens Guðs (eignarfallið vefst svolítið fyrir mér.) Les þar að auki greinarnar þeirra Björgvins Guðmunssonar og Þorvaldar Gylfasonar í Fréttablaðinu. Hræri þessu öllu saman eftir kúnstarinnar reglum, (sem ég set sjálfur.) Er ég þá ekki sæmilega garderaður fyrir því að fá flest pólitísk sjónarmið, vitlausu megin við fésbókina? Bara spyr af því að vinsældir þeirrar bókar fara heldur þverrandi þessa dagana. Erfitt líka að leita í henni og kunnáttan ekki mikil.

Það er búið að tala um það í allmörg ár að setja á stofn eftirlíkingar af gömlum húsum í miðbæinn á Selfossi. Ekki hefur þó verið hafist handa ennþá. Nú er samt gert meira en að tala um hlutina. Deilt er um atkvæðagreiðslu. Lögreglan er komin í það mál. Annars er ekkert víst að hún hafi tíma til að sinna þessu, því nú flykkjast túristarnir eins og farfuglar á svæðið.

Nú eru fleiri en Steini Briem farnir að setja yrkingar sínar á bloggið hjá mér. Hér var ég næstum búinn að skrifa Steini Jóru, en það var á sínum tíma ekki síður eftirminnilegur karakter en Briemarinn. Svo þegar menn demba á mig limrum þá er ég eiginlega varnarlaus. Kannski ég athugi með síðasta innlegg á þetta blogg.

Skátar – verum kátar. Var einu sinni sagt. Þarna má segja að blandist saman málfræði og kvenréttindi. Kannski er þetta kynbundin málfræði. Eða MeToo og églíka. Einu sinni voru til drengjaskátar og kvenskátar, ljósálfar og ylfingar. Sá sem þetta sagði, einu sinni í fyrndinni, eða skrifaði um það var meðal annars að óskapast yfir því að rímfræði (ekki fingrarím, sem mér finnst fjalla um tunglkomur og þessháttar – sbr. að ruglast í ríminu.) og vísnagerð gæti liðið fyrir það að í framtíðinni kynnu þessi tvö orð: Skátar og Kátar að verða látin ríma saman. Sem þau auðvitað gera. Annars finnst mér enskumælandi menn vera einum of örlátir á stóra stafi. Framburður getur líka vafist fyrir óvönum sem bara eða a.m.k. aðallega kunna ensku af bókum. Eins og ég t.d.

Skátafélög hafa ekki nándar nærri eins mikinn slagkraft og þau áður höfðu. Kannski má segja að pólitík og trúarbrögð hafi drepið þennan þarfa félegsskap. Útivist og náttúruvernd eiga þó afar vel við þarna. Mér finnst skólastarf á margan hátt geta tekið mið af aga þeim og heilbrigðri föðurlandsást sem einkennir skátastarf.

Á sínum tíma var ég útibússtjóri á Vegamótum á Snæfellsnesi. Mig minnir að það hafi verið árið 1970 eða 1971, sem stelpurnar á veitingahúsinu þar kvörtuðu undan því að þurfa að vera í kjólum eins og viðgegnist hafði áður en ég kom þangað. Ég sagði undireins að mér væri nákvæmlega sama þó þær væru í síðbuxum. Ekki er landsbyggðin alltaf löngu á eftir Reykjavíkursvæðinu í öllu.

IMG 8220Einhver mynd.


2714 - Enn um Tromparann eina og sanna

Einhverjir held ég að hafi haldið því fram að við Íslendingar ættum að gerast ríki í bandaríkjunum. Svona á borð við Alaska. Ekki líst mér á það. Puerto Rico er eyja í Karíbahafinu. Bandaríkjamenn ráða þar lögum og lofum. Gott ef þeir sem þar búa eiga ekki að hafa full réttindi í USA. Íbúar þar eru nokkrar milljónir. Bandaríkjamenn hafa ekki viljað fallast á fylkisréttindi þeim til handa. Í september síðastliðnum gekk þar fellibylur yfir og olli talsverðu tjóni. Rafmagn er ekki enn komið á nærri allstaðar eftir þetta hvassviðri. Ef við Íslendingar ætlum okkur að gerast bandarískir þegnar án þess að færa USA einhverjar fórnir í staðinn held ég að við getum alveg gleymt þessu. Satt að segja líst mér betur á hugmynd Gunnars Smára um að gerast fylki í Noregi. Þó hafa Norðmenn aldrei sýnt okkur nein sérstök vinahót, nema kannski í orði. Skemmst er að minnast smugudeilunnar sálugu. Færeyingar og Grænlendingar líta hins vegar raunverulega upp til okkar.

Enn og aftur er Melania Trump sökuð um ritstuld. Að þessu sinni er hún að leiðbeina krökkum um nethegðun. Meðal annars talar hún um „Cyberbullying“. Maður hennar er einmitt frægur um víða veröld fyrir að stunda slíkt athæfi. Með sínum net-ofsóknum hefur honum tekist að fá nægilega marga til að kjósa sig. Sumir þeirra sjá eftir því, en í staðinn bætast einhverjir við.

Ljósmæður eru sennilega alveg við það að gefast upp fyrir Bjarna Benediktssyni og er það engin furða. Maðurinn kúgar alla sem nálægt honum koma. Hann gerir það kannski ekki Trump-lega en kúgar samt. Merkilegt hvað hann hefur góða stjórn á flokknum þó hann hafi farið með hann úr stórum flokki í lítinn og endar kannski á svipuðum slóðum og Framsóknarflokkurinn.

Ekki get ég stillt mig um að minnast á Trump. Öldungadeildarþingmenn eru valdamiklir í bandarískum stjórnmálum. Í Vestur-Virginiufylki verður í haust kosinn nýr slíkur. (Hugsanlega.) Sá gamli sem er úr Demókrataflokknum býður sig sennilega fram aftur. Á næstunni verður prófkjör hjá Repúblikönum. Sá sigurstranglegasti þar, sem er nýsloppinn úr fangelsi, segist vera Trump-legri en Trump sjálfur. Hann (sjálfur Tromparinn) er víst ekki hrifinn.

Svo maður haldi sig nú áfram á Trump-legum nótum þá hefur öldungardeildarþingmaðurinn John McCain, sem er af mörgum álitinn dauðvona útaf krabbameini í heila fremur óskað eftir því að Barach Obama flytji líkræðuna yfir sér en Trump. McCain þessi barðist við Obama í forsetakosningunum árið 2008 eins og margir muna. Trump vill hann að haldi sig sem lengst í burtu.

IMG 8223Einhver mynd.


2713 - Magnús bóndi

Til þeirra sem lesa gamalmennablogg, eins og mitt. Nú loksins er það runnið upp fyrir mér að ástæðan fyrir því hvað umferðin er lítil, er sú að það er Sunnudagur. Það er ekki nærri því eins slæmt veður núna eins og undanfarið. A.m.k. er ágætis „gluggaveður“ í augnablikinu. Það getur vel verið að það sé einhver blástur, en á trjánum sé ég að það getur ekki verið mikið.

Mér sýndist hann Magnús bóndi, í túlkun hins ódauðlega Ladda, vera lifandi kominn á forsíðu Fréttablaðsins um daginn, en það var víst einhver allt annar. Að vísu var hann í kraftgalla, sem var eins á litinn og sloppurinn hans Magnúsar. Og með svolítið flókið hár en samt var það ekki hann.

Er öruggt að allir vilji umfram allt fá „merkjavöru“? Eftir auglýsingum að dæma virðist svo vera. Sjálfur reyni ég yfirleitt að kaupa ó-auglýsta vöru, en ef sparað er á því sviði er oft sparað á öðrum sviðum líka. Það getur endað með því að maður kaupi ómögulega vöru.

Í gamla daga, og ég á ekki við eldgamla Valash-daga, var til gosdrykkur sem hét 7up. Hann var í grænum flöskum og drykkurinn sjálfur litlaus minnir mig. Einu sinni ætlaði ég að stela mér gúlsopa af slíku góðgæti, sem 7up var álitið í þá daga. Þá reyndist vera steinolía í árans flöskunni. Ég var allan daginn á eftir að drepast í maganum, en þetta rjátlaðist af mér.

Klausurnar eru með stysta móti hjá mér núna í dag, en það gerir ekkert til. Ég má hafa þetta eins og ég vil. Verst að halda áfram án þess að hafa neitt að segja.

Bæjarstjórnarkosningar eru eins og veðrið. Hundleiðinlegar en samt er ekki hægt að komast hjá þeim. Ekki einu sinni neitt sérlega spennandi, eins og Alþingiskosningar geta svosem verið. Annars eru það forsetakosningarnar í USA, sem ég hef mestan áhuga fyrir. Sennilega fer þetta mest eftir áhuganum. Sumir, einkum þó frambjóðendur í Reykjavík, sem kváðu víst vera óvenjumargir að þessu sinni, kunna eflaust vel að meta bæjarstjórnarkosningar, en ekki hann ég.

Nú er ég kominn aftur eftir að hafa farið snögga ferð uppí Melahverfishálendið. Á leiðinni þangað hitti ég sex hesta sem voru ófáanlegir til að fara útaf veginum. Að lokum tókst mér þó að komast framhjá þeim og eftir það var leiðin greið. Engin snjóruðningstæki eins og í gær. Enda enginn snjór núna. Veðrið er svona hægt og hægt að skána. Kannski vorið komi bara á endanum. Í Maí á veðrið ekki að vera svona. Nú þegar bjart er orðið mestallan sólarhringinn má vorið og jafnvel sumarið alveg fara að koma.

IMG 8225Einhver mynd.


2712 - Trump og Nóbel

Íslensk stúlka brákaði stórutá í svefni í Sjanghæ. Þetta var fyrirsögn í vinsælum fréttamiðli. Mér finnst þetta fremur fáfengileg frétt. Þó skoðaði ég hana. Er þá ekki tilganginum náð? Kannski eru það fleiri en ég sem gera það. Samt er ég allsekki að gagnrýna stúlkukindina. Eflaust hefur hún ekki skrifað fréttina. Jafnvel verið á móti því að um þetta væri skrifað. Svona er nú samt fréttamatið hjá sumum. Er ég þá að gagnrýna fréttamiðilinn? Kannski. Já, eiginlega. Þetta sá ég á tímaritinu hans Eiríks Jónssonar. Kannski hefur sá sem skrifaði þessa fyrirsögn verið að gera grín að sjálfum sér. Hvað veit ég?

Enn er ég dálítið fastur í því að blogga næstum því daglega. Ég get bara ekki stillt mig. Sennilega les ég of mikið af bandarískum fréttum. Trump-manía mín er samt ekki að réna. Bandaríkjamenn eru ekki nema um 4% af heimsbyggðinni að fjölda til, en áhrif þeirra hafa hingað til verið mjög mikil og eru enn. Þó fara þau minnkandi.

Það nýjasta héðan frá Norðulöndunum, (af hverju skyldi ég nota stóran staf þarna?) er að Nóbelsverðlaununum í bókmenntum verður ekki úthlutað í ár. Ekki veit ég með vissu útaf hverju þetta er, en þetta er eflaust heitasta fréttin í heiminum núna. Og svo eldgosið á Hawaii.

Hlutverk ljósmynda og vídeómynda hefur breyst mikið að undanförnu. Segja má að hvorttveggja sé orðin miklu meiri almenningseign en áður var. Ritað mál er meira og minna að verða útelt þing. Þó hef ég ekki sagt skilið við það og held áfram að blogga eins og enginn sé morgundaginn. Þetta orðalag með morgundaginn er afar vinsælt núna og ýmislegt úr orðalagi dagsins á ég fremur auðvelt með að tileinka mér. Verr gengur með ýmsa tækni sem unga fólkið í dag hefur alveg á valdi sínu. Þó eru eflaust margir verr settir en ég að þessu leyti.

Ein ástæða þess að margir vinnuveitendur vilja gjarnan fá verðbólguna aftur er sú að þá þarf ekki að vera að lækka launin hjá fólki þó illa gangi. Nóg er að þrjóskast við að hækka. Eins og ástandið var fyrir nokkru (fyrir hrun) vildu fæstir hafa nokkuð að gera með taxta stéttarfélaga enda voru flestir eða allir yfirborgaðir. Það er auðvitað óskastaða vinnuveitenda. (Af hverju eru þeir veitendur – jafnvel tungumálið er þeim velviljað). Ómarktækir samningar við stéttarfélög og hæfileg verðbólga – sem auðvelt er að velta yfir á aðra - er einmitt það sem SA vill.

Þegar ég verð andvaka eins og átti sér stað í morgun fimmtudag (vaknaði um fjögurleytið) á ég um ýmsa kosti að velja. Ég geta farið í tölvuna. Ég get fengið mér bók að lesa. Ég get lesið eitthvað á spjaldtölvunni minni og þarf þá ekki að sitja í hálfóþægilegum stól. Ég get horft á sjónvarpið o.s.frv. Semsagt fjölmiðlun öll hefur tekið miklum stakkaskiptum. Hvað gerði fólk eiginlega hér áður fyrr þegar það varð andvaka? Samdi ljóð og sögur? Orti rímur? Í myrkrinu yfir veturinn hefur það verið erfitt án þess að eyða dýrmætu ljósmeti. Hvers vegna í ósköpunum sem ég ekki eitthvað? Nenni því bara ekki. Ég á ekkert sérstaklega erfitt með að setja saman vísur. Sumar þeirra eru meira að segja alveg sæmilegar. Þó ég segi sjálfur frá.

IMG 8241Einhver mynd.


2711 - Katrín, Jónas og Páll

Nú er ég á góðri leið með að falla í það gamla hjólfar að blogga á hverjum degi. Jafnvel þó ég hafi svosem ekkert að segja. Slíkt ber að varast. Betra er að blogga almennilega og þá sjaldnar. Best er auðvitað að blogga alls ekki neitt.

Vissulega er það svo að Katrín Jakobsdóttir liggur nú greinilega undir feldi. Þ.e.a.s. næst þegar hún kemur fram opinberlega skiptir það sem hún segir og hvernig hún segir það verulega miklu máli. Bæði fyrir hana og VG. Hugsanlega fyrir ríkisstjórnina einnig

Þessir blessuðu (eða bölvuðu) auglýsendur eru að verða alltof ríkir. Undanfarin a.m.k. tvö eintök af Fréttablaðinu staðfesta þetta. Þ.e.a.s. utan um sjálft blaðið var fjögurra síðna kálfur með auglýsingum frá sama aðilanum. Moggafjandann sé ég aldrei. Hann hlýtur að græða grimmt á þessu.

Einhverntíma í kosningabaráttunni 2016 var Donald Trump spurður hver væri hans aðalráðgjafi í utanríkismálum. „Það er ég sjálfur“, svaraði hann. Þessi árátta hans um að treysta alltaf sjálfum sér best, er á margan hátt að fara með hann. Ákvarðanir hans (einkum í utanríkismálum) eru oft stórskrýtnar. Þegar verst lætur gætu þær jafnvel stefnt heimsfriðnum í hættu. Þessvegna er fundar hans með Kim Jong-un, sem hugsanlega er jafnvitlaus og hann, beðið með mikilli óþreyju.

Ekki held ég samt að hann (Trump) verði kærður til embættismissis, eins og reynt var með Bill Clinton greyið. Framhjáhald sannaðist að vísu á hann og eitthvað þessháttar væri áreiðanlega hægt að sanna á Trump, en ekki er að sjá að slíkt hafi endilega áhrif á embættisfærslu hans. Á endanum gæti hann þó skotið sjálfan sig í fótinn með Twitter eða á annan hátt. Forsetaembættið sem slíkt mun samt eflaust taka Trump-legum breytingum í framtíðinni.

Sko, ekki gat ég stillt mig um að láta Trump-ljós mitt skína. Sem betur fer er lítið að marka þessar heimspólitísku vangaveltur mínar. Aðrir mega mín vegna halda áfram með þær. Sumar þeirra eru þannig að vel mætti hugsa sér að byggja samsæriskenningar á þeim ef ekki væri byggt á neinu öðru.

Ég vil helst skipta sem allra mestu af pólitík dagsins í hægri og vinstri. Auðvitað veit ég ósköp vel að margir telja þessa skiptingu úrelta. Á vinstri vængnum tel ég Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóra vera fremstan skribenta, en á þeim hægri Pál Vilhjálmsson kennara. Mér finnst þeim báðum hætta til að vera of öfgakenndir. Vitanlega er þessi hægri/vinstri skipting ekki einhlít nema í sumum málum. Opingáttarmenn og einangrunarsinna má líka skipta mönnum í eftir afstöðu þeirra til útlanda. Ég held að Þorvaldur Gylfason hafi haldið slíku fram og svo hef ég líka heyrt því haldið fram að allir séu í rauninni framsóknarmenn eða ekki.

IMG 8242Einhver mynd.


2710 - Ásmundur Einar og Halldóra

Tilbúnir, skjóta, miða. Þetta segir Washington Post að séu einkunnarorð Trumps bandaríkjaforseta. Vel kann það að vera rétt. A.m.k. er ekki annað að sjá en hann leggi meira uppúr ásýnd hlutanna en innihaldi þeirra.

Fróðlegt var að horfa á opna fundinn sem Halldóra Mogensen, pírati stjórnaði. Í upphafi fannst mér hún skelegg og ákveðin, en í lokin bar líkamstjáning og rödd hennar vitni um eitthvað allt annað. Ráðherrann komst upp með að flækja málin með útúrsnúningum og málæði. Kannski forsætisráðherra snupri hann eitthvað, en líklegast er að þetta mál allt saman lognist útaf. Bragi verði kosinn í þessa SÞ-nefnd og allt verði eins og áður að því frátöldu að Bragi á varla afturkvæmt í Barnahúsið. Einu sinni hélt ég að SÞ þýddi Siggi Þráins, en nú veit ég að þarna er verið að tala um Sameinuðu Þjóðirnar.

Reiði kvenfólksins er sífellt að færast nær og nær. Fyrir nokkru tók hópur karlmanna sig til á Indlandi og nauðgaði stúlku þar. Gott ef þeir myrtu hana ekki síðan. Nú er svo komið að nokkrir karlmenn hafa gert spænskar konur og reyndar alla feminista öskureiða. Úlfahjörð ungra karlmanna er talin hafa raðnauðgað ungri konu í Pamplona þegar hið fræga nautahlaup fór þar fram fyrir tveimur árum. Kannski beinist sú reiði aðallega að dómstólum þar í landi. Hver veit nema það séu einkum karlmenn sem þeim stjórna. Katrín Jakobsdóttir þarf kannski að fara að sýna á næstunni að mark sé á henni takandi. Innistæða hennar hjá VG er ekki ótakmörkuð. Kona er hún og ætti að finnast nærri sér höggvið.

Sú saga gengur nú fjöllunum hærra í USA að Amazon sé að leita að stað til að fara með aðalstöðvar sínar til. Eins og margir vita eru núverandi aðalstöðvar þeirra í Seattle og þar vinna (eða vinna ekki) á þeirra vegum tæplega 50 þúsund manns. Í Seattle finnst þessu stórfyrirtæki vera orðið fullþröngt um sig og þar að auki er Microsoft í næsta nágrenni og borgaryfirvöld hugsanlega á móti þeim. Boston, New York og LA koma varla til greina (þar er svo dýrt að búa.) Vitanlega vilja allir fá þetta stórfyrirtæki í bakgarðinn hjá sér þó ekki væri nema vegna útsvars starfsmannanna.

Þegar ráðherrar fara að tala um starfshópa og verklagsreglur er réttast að stilla radarinn betur. Sennilega er verið að reyna að leyna einhverju. Jafnvel að tala þá í kaf sem hafa rétt fyrir sér og vinna tíma. Hugsanlega gæti viðkomandi ráðherra meint eitthvað allt annað en hann er að segja. Svo er auðvitað alltaf smámöguleiki á, að verið sé að segja satt og rétt frá.

Í morgun þegar ég vaknaði var allt grátt af snjó hérna, en nú er hann farinn og ekki að vita nema ég hætti mér út. Morgungangan og Fitbit-ið bíður mín.

IMG 8246Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband