2723 - Strætó o.fl.

Það er eins og sumir af mínum fésbókarvinum hafi það fyrir reglu að ef ég hef skrifað eitthvað á bloggið mitt þá sé eitt af þeirra fyrstu verkum að lesa það. Það finnst mér nokkuð góð regla, því ég skrifa aldrei óhóflega löng innlegg í bloggið mitt og set yfirleitt bara eina mynd. Stundum skrifa ég jafnvel eitthvað athyglisvert og frumlegt, hugsanlega þannig að einhverjum þyki það fyndið. Þar að auki skrifa ég um allan fjandann og skipti oft um umræðuefni. Yfirleitt geri ég það ekki í alltof löngu máli.

Er verið að skipta Íslendingum í leigendur og íbúðareigendur í staðinn fyrir fátæklinga og auðmenn? Annars eru íbúðareigundur ekki neinir auðmenn þó þeir eigi eitt stykki íbúð, eða kannski svona hálfa. Sú stefna hefur lengi tíðkast hér á landi að sem allra flestir eigi sitt íbúðarhúsnæði. Kannski er það til að fasteignasölur, sem mér sýnist að séu óhóflega margar, hafi eitthvað að gera. Sögur um gríðarlega háa leigu og miklar hækkanir á henni hafa sennilega aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Hugsanlega hefur túristasprengjan sem hér hefur ríkt undanfarin ár ásamt „airb+b“ leigu á húsnæði talsverð áhrif líka. Þeir sem eiga sitt eigið húsnæði komast líklega sæmilega af, meðan hinir mega éta það sem úti frýs. Þetta ásamt mörgu öðru sýnist mér að sé einkum til umræðu í komandi sveitarstjórnarkosningum. 

Svonefnd borgarlína er einskonar litmús-test núna í aðdraganda kosninganna. Miklu fremur en vinstri og hægri. Það er áhættusamt fyrir frambjóðendur að vera á móti henni. Mér virðist samt að hún sé einkum til þess gerð að reyna enn einu sinni að fá fólk til að fara í strætó. Flestir virðast vilja eiga sinn einkabíl og eru á móti því að fara í strætó. Allir með strætó. Allir með strætó. Enginn með Steindóri var sungið í Reykjavík einu sinni. Ekki hefur það samt tekist, því rekstur strætós hefur hingað til alls ekki snúist aðallega um farþegana, þó reglulega sé leiðakerfi og öðru þessháttar breytt og ekki er víst að borgarlínan geri það heldur. Áherslan er á einkabílinn og heldur áfram að vera það. Jafnvel þó nærri helmingur landrýmis í borginni fari í bílastæði, götur og annan ófögnuð.

Margskonar merkingar orða á íslensku má nota í fleira en gátuvísur. Sumt fer alveg þokkalega í 5 aura bröndurum. T.d. má taka þetta: Skyldu steggirnir á Tjörninni ekki eiga erfitt með andardráttinn? Er ekki nunnunum í Hafnarfjarðarklaustri eitthvað ábótavant? Eru reikningar fyrtækja nægilega endurskoðaðir ef endur eða önd líta á þá? O.s.frv. 

Að vera kominn útfyrir umferðarhraðann, teppurnar og svifrykið svona á gamalsaldri er sennilega einhver mesta blessun sem ég hef orðið fyrir. Eiginlega blöskrar mér lætin og djöfulgangurinn þegar ég fer til Reykjavíkur. Kannski halda Hvalfjarðargöngin þessum hamagangi og ófögnuði að einhverju leyti frá manni. Kannski allt fari í bál og brand hérna að þessu leyti þegar ekki þarf lengur að borga í göngin. Í stuttu máli má segja að það séu rólegheitin og einangrunin sem mér líkar best við hér á Akranesi. Þar að auki er þetta allsekki langt frá höfuðborginni.

Lengi vel ruglaði ég saman nöfnum Davíðs Þórs Jónssonar og alnafna hans. Nú veit ég að annar er séra og hinn ekki. Þ.e.a.s. það er til séra Davíð og Davíð leikari. Allstaðar eru þessir Davíðar. Vilhjálmar Vilhjálmssynir eru líka margir. Í svipinn man ég eftir einum lögfræðingi, einum forleifafræðingi og einum söngvara. Auðvitað veit ég að alnafnar eru fremur algengir ef ófrægt fólk er talið með, en það á ekki við hér.

IMG 8151Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Geysi mikið samansafn,
Sæmi fundið hefur,
Vilhjálms Vilhjálms nefnir nafn,
í nótt hann varla sefur.

Þorsteinn Briem, 23.5.2018 kl. 19:59

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta nafna samansafn
síst af öllu er mikið.
En hann Steini stórt með nafn
stalst víst yfir prikið.

Sæmundur Bjarnason, 23.5.2018 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband