Bloggfærslur mánaðarins, október 2018

2783 - Alþjóðlega sinnuð pressa

Pressan er vinstri sinnuð. Eða a.m.k. alþjóðlega sinnuð. Á því er enginn vafi. Ekki er langt síðan Erdogan var mesti skúrkur sem sögur fóru af. Nú er öllu trúað sem frá Tyrkjun og honum kemur. Hugsanlega hagar þessi alþjóðlega sinnaða pressa dálítið seglum eftir vindi. Ég er samt með þeim ósköpum gerður að ég trúi öllu illu sem sagt er um stjórnvöld í Saudi Arabíu. Jafnvel að ég trúi stundum betur klerkastjórninni í Íran. Erdogan er háll sem áll og Tyrkir virðast vestrænni en okkur er oft talin trú um. Aðalgalli þeirra samkvæmt stórmiðlum á Vesturlöndum er að þeir eru flestir Múhameðstrúar. Sú trú er nútildags oftast kölluð Islamstrú. Mér finnst þetta Islam forskeyti sem sett er framan við allt mögulegt minna óþægilega mikið á orðið Ísland. En það er allt önnur saga.

Málfar má lengi deila um. Ég er ekki frá því að ungt fólk og unglingar nú á tímum skilji stundum ekki öll orð og orðasambönd sem ég nota. Tungumál breytast. Kannski er íslenskan að breytast meira um þessar mundir en hún hefur gert á síðustu öldum. Allsekki held ég að tökuorð, eða yfirleitt einstök orð, vegi þyngst í því sambandi. Heldur að málfræðin sé að breytast. Margir eru ágætlega að sér í íslenskri málfræði án þess að þekkja með nafni þau hugtök sem þar eru notuð. Man vel eftir því að í skóla þótti mér málfræðin hundleiðinleg. Kannski situr enn í mér að Gunnar Benediktsson sem eitt sinn kenndi í mínum bekk það sem mig minnir að þá hafi verið kallað íslenska (sennilega þó með zetu). Hann notaði að ég held mikið af tíma sínum til að berja í okkur stafsetningu.

Horfði nýlega á kvikmyndina sem kölluð hefur verið á íslensku „Lömbin þagna“ með Anthony Hopkins og Jody Foster. Aðallega var það vegna þess að ég hafði ekki horft á hana áður, en heyrt mikið um hana talað. Satt að segja fannst mér hún fremur léleg. Sæmilega spennandi þó, en á margan hátt er ég hræddur um að hún hafi elst fremur illa. Sennilega hefur hún þótt nokkuð góð á sínum tíma. Margar aðrar hryllingsmyndir eru mér mun ofar í minni, sumt í þessari mynd var t.d. óttalega barnalegt.

Steini Briem hefur nú látið heyra frá sér eftir athugasemdafylliríið um daginn. Veit ekki hvort ég á að búast við vísum eða athugasemdum frá honum á næstunni. Hann er skelfilega dyntóttur og lítur stórt á sig. Næstum eins og Donald Trump að því leyti. Andúð hans á Tromparanum og Jóni Vali Jenssyni held ég samt að sé ekki nein uppgerð. Óþarfi finnst mér að reita Jón Val til reiði á þann hátt sem hann gerði. Mér er alveg sama þó hann kalli mig gamlan og sérvitran kall og jafnvel fávita. Ég gæti svosem fundið að ýmsu hjá honum en geri það ekki.

Kosningabaráttan í Bandaríkjunum tekur á sig ýmsar skrýtnar myndir. T.d. heldur Trump og sálufélagar hans því fram að flóttamenn sem segjast vera á leiðinni til Bandaríkjanna yfir Mexikó séu á vegum demókrata og Georges Sorosar, sem sannarlega er einn af þeirra helstu styrktaraðilum. Þeir eiga að hafa borgað flóttamönnunum fyrir að hyggjast fara til Bandaríkjanna. Ekkert bendir þó til að þetta sé rétt.

IMG 7706Einhver mynd.


2782 - Lokaðir fésbókarhópar

Steini minn. Þetta heitir að sníkjublogga, eins og þú gerðir við mitt síðasta blogg. En mér er alveg sama. Þú mátt halda þessu áfram ef þú vilt. Ekki er ég samt viss um að allir lesi með mikilli athygli þessi ósköp sem þú lætur þér um tölvu (munn) fara í athugasemdum við bloggið mitt. Einu sinni bloggaðir þú hér á Moggablogginu og ég sé að ýmist heitir þú núna í þínu sníkubloggarastandi Steini Briem eða Oliver Twist. Orðljótur ertu stundum, en það skaðar mig ekki. Einu sinni sníkjubloggaðir þú svo mikið á blogginu hans Ómars Ragnarssonar að sumir héldu að hann skrifaði þessar athugasemdir sjálfur. Svo hrakti hann þig í burtu. Ekki hef ég séð að þú athugasemdist mikið hjá honum Páli (ekki baugspenna) Vilhjálmssyni. Mér finnst hann þó alltof vinsæll. Eru íhaldsseggir svona hræðilega margir? Kannski eru stjórnmálaskrif bara svona aðgengileg og hugsanlega eru vinstrisinnar svona miklir fésbókarvinir. Auðvitað er ég í aðra röndina upp með mér af því að þú skulir athugasemdast svona mikið hjá mér, en of mikið má af öllu gera.

Alhæfingar eru þreytandi. Það er ekki nóg með að sagt sé að allir karlmenn og allar konur séu alveg eða að mestu leyti eins, heldur er reynt að skipta öllum í hópa og ráðast síðan á þá undir yfirskini gáfna og reyslu. Kannski hef ég gert þetta stundum og ég er allsekki að gefa í skyn að þeir sem þetta geri séu eitthvað verri en aðrir. Þetta er bara svona og er allsekki rétt. Allir eru einstakir eins og oft er sagt.

Lokaðir fésbókarhópar er ekki vitund lokaðir þegar meðlimir þeirra eru farnir að skipta hundruðum og jafnvel þúsundum. Allt sem sagt er þar er per samstundis komið út um allt. Greinilega eru einhverjir af þeim sem vinna á blöðum og öðrum fjölmiðlum skikkaðir til þess að fylgjast sem best með fésbókinni og segja frá því sem þar gerist. Er nokkuð fylgst með öllum þeim sem taka þátt í skilgreindum fésbókarhópum? „Þjóð veit þá þrír vita“, var einu sinni sagt.

Ekki hef ég neina hugmynd um hversvegna svona margir hafa áhuga á að lesa það sem ég er að rembast við að skrifa. Auðvitað hef ég, eftir allan þennan tíma, sem ég hef lifað (rúmlega sjötíuogsexár) talsverða æfingu að skrifa þokkalega læsilegan texta. Hugleiðingar mínar eru þó ekki frumlegar yfirleitt, en geta svosem verið það, grunar mig. Rithöfundur er ég ekki, þó ég hafi nokkurn skilning á því starfi. Einskorðun mín og ending við bloggskrifin, sem ég uppgötvaði þó ekki fyrr en á gamals aldri (bloggið á ég við), er á margan hátt furðuleg. Ekki ætla ég þó að reyna að skilgreina þá ónáttúru núna enda skil ég hana ekki vel sjálfur. Hatur mitt á fésbókinni, þó ég fari oft þangað og skilji og skynji á margan hátt töfra hennar, er einnig illskilgreinanlegt.

Nú eru Saudasvínin búin að viðurkenna að hafa drepið Khashoggi. Engir held ég að trúi þeirri sögu, nema kannski Trump, sem þeim hefur tekist að sjóða saman á næstum því mánuði. Þetta mál kemur til með að hafa mikil áhrif, jafnvel þó allmargir þykist trúa þessu. Saudi-Arabia kemur ekki til með að endurheimta þau áhrif sem það ríki hafði áður fyrr.

IMG 7710Einhver mynd.


2781 - Um hálftíma hálfvitanna

Katrín forsætis virðist alltaf vera að bíða eftir því að einhver starfshópur, öðru nafni nefnd skili einhverju af sér. Misjafnlega langur tími á að líða þangað til svo verður. Ef nefndin skyldi ekki skila af sér á réttum tíma má alltaf fresta því dálítið. Svo á eftir að skipa aðra nefnd til þess að semja frumvarp til laga um það málefni sem til umræðu er. Síðan gæti það frumvarp velst um á alþingi í talsverðan tíma. Að lokum gæti svo vandamálið sem leysa átti verið horfið eða verið komin ný ríkisstjórn. Þetta virðist vera nokkuð staðlað svar hjá henni. Sama hvað spurt er um.

Stundum horfi ég á sjónvarp frá alþingi. Einkum og sér í lagi á hálftíma hálfvitanna, sem Jónas heitinn Kristjánsson fyrrum ritstjóri kallaði svo. Ekki hef ég komist hjá því að veita því athygli að bæði Katrín forsætis og Steingrímur Jóhann sem á að heita forseti alþingis leitast jafnan við að ýta frá sér öllu sem óþægilegt er. Vitanlega er það ekki nema mannlegt og stundum er gagnrýni á ríkisstjórnina, sem vissulega er legíó, þannig framsett að hún er varla svaraverð. Forsætisráðherra ætti þó að temja sér að svara efnislega þeim spurningum sem til hennar er beint, en ekki eyða tíma sínum í persónulegt skítkast. Þingforseti þykist yfirleitt, og kannski með réttu, vera hærra settur en óbreyttir þingmenn og gætir sín betur að þessu leyti. Segist í hæsta lagi ætla að athuga málið, sem við vitum ekkert um hvort hann gerir. Fer þó að mestu leyti eftir þingskaparreglum eftir því sem mér sýnist.

Sennilega fækkar túristum hér á Íslandi á næstu árum. Hótel, Veitingahús og ferðaseljendur allskonar, sem hafa rokkað feitt undanfarið og grætt vel, eru nú að búa sig undir að kenna aumingja stéttarfélögunum um þessar fyrirsjáanlegu afleiðingar græðgi sinnar, og ókeypis notkunar á náttúruauðlindum landsins. Svo má alveg reikna með því að Wow-air fari á hausinn. Þá munu margir fara að væla. Ekki er ólíklegt að það gjaldþrot setji af stað einhverskonar hrun. Væntanlega verður það samt ekki nærri eins slæmt og bankahrunið fyrir 10 árum.

Svokölluð bankaleynd er upphaf alls ills. Að leyfa stjórnendum banka með eða án aðstoðar sýslumanna að ráða því á eigin spýtur, hvað fellur undir þessa leynd er algjörlega fráleitt. Að ráðherrar skuli kinnroðalaust styðja fremur flokkinn sinn en almenning í landinu er sömuleiðis út úr kú. Óbreyttum alþingismönnum er vorkunn þó þeir taki sér ráðherrana til fyrirmyndar. Traust almennings á alþingi er í núlli. Traust á dómstólum hefur einnig beðið talsverðan hnekki. Sjálfur hæstiréttur hefur tilfært það sem rök fyrir niðurstöðu sinni, sem yfirleitt er í anda ríkisstjórnar, að stefndi (ríkissjóður) hefði kannski tæplega efni á því að gera það sem réttast væri samkvæmt lögum. Man vel eftir slíku í sambandi við gjöld til landbúnaðarmafíunnar. Að vísu er nokkuð langt um liðið frá þessu máli.

Að þessu sinni hef ég ekkert rætt um heimsmálin sem þó eru með versta móti nú um stundir og ekki minnst á Trump, Khashoggi eða Saudi-svínin. Það er þó ekki vegna þess að ég velti þeim ekki fyrir mér og kannski er Khashoggi-málið ekki það sem hættulegast er heimsfriðnum. T.d. eru flóttamenn frá Honduras og Guatemala þúsundum saman á leið til Bandaríkjanna. Innlend stjórnmál eru mér þó hugleiknari akkúrat núna.

IMG 7722Einhver mynd.


2780 - Kashoggi og braggastrá

Með því að vaða svona úr einu í annað eins og ég geri má segja að úr verði argasta bull. Ekki vil ég þó samþykkja það, því ég aðskil a.m.k. með greinaskilum það sem mér finnst þurfa að aðskilja. Satt að segja nenni ég ekki að finna upp fyrirsagnir á allt sem ég skrifa. Fyrirsagnir finnst mér að hafi oft mest áhrif á aðra. Kannski lesa fáir mín blogg vegna fyrirsagnanna. Hef svosem enga hugmynd um það.

Ekki er annað að sjá en hvarf blaðamannsins í sendiráði Saudi Arabíu í Tyrklandi ætli að hafa talsvert mikil áhrif. Ekki minni á heimsmálin en braggastrámálin hafa hérlendis. Kashoggi hefur sennilega verið myrtur og ekki er að sjá annað en Saudar ætli að viðurkenna að hann hafi verið myrtur í sendiráðinu, en sennilega reyna þeir að segja að stjórnvöld hafi ekkert haft með það að gera. Hverjum verður kennt um veit ég ekki. Tyrkir hafa reynt að segja ekki frá því að þeir hafi eflaust allskyns njósnagræjur í þessu sendiráði eins og öðrum.

Braggamálið gæti orðið Degi dýrt og ekki dugir að hafa borgarstjórann sífellt veikan. Annars eru framúrkeyrslur landlægar hér á Íslandi og ekki síður hjá ríkinu en borginni og fleirum. Margt er þó með ólíkindum í braggamálinu. Vil samt ekki fara útí nein smáatriði þar en fjölmargir virðast hafa getað skrifað reikninga að vild. Eftiráskýringar og afsakanir í þessu máli eru lítils virði.

Veðurlagið nú í haust hefur verið heldur rysjótt. Spádómur um veturinn í heild er það samt allsekki. Frosthörkur hafa þó ekki verið miklar, en það gæti breyst. Þó ég viðurkenni alveg að veðurlag geti haft áhrif á ýmislegt, get ég ómögulega fegið mig til þess að gera það að sérstöku áhugamáli. Frekar er hægt að segja að bloggið almennt og fésbókin séu það.  

Tjáningarfrelsi og mannréttindi af ýmsu tagi eru það einnig. T.d. þótti mér mál Snorra í Betel mjög athyglisvert á sínum tíma og á margan hátt vera keimlíkt því máli sem nú er sem mest rifist um. Mér finnst mál kennarans við Háskólann í Reykjavík vera Háskólanum til vansæmdar ef ekki er hægt að slá því föstu að skoðanir umrædds kennara hafi haft áhrif á kennsluna. Ef þessar skoðanir eru ekki nýtilkomnar finnst mér ólíklegt að þær hafi allt í einu farið að hafa slík áhrif að nauðsynlegt væri að reka hann. Auðvitað kann vel að vera að fleira sé um að ræða í þessu máli og líklegast er að einhver tæknileg atriði eða annar tittlingaskítur ráði lyktum málsins.

Á margan hátt finnst mér slæmt að horfa uppá þær tölur sem koma á súluritið mitt ef langur tími líður að milli blogga. Þessvegna er það sem ég rembist stundum við að skrifa bara eitthvað á bloggið mitt jafnvel þó það sé lítils virði.

Á laugardaginn fórum við í afmælisveislu uppeftir til Bjarna því daginn áður varð Tinna níu ára. Veislan fór vel fram og þar var fiskisúpa framreidd og ýmislegt meðlæti. Fjöldi krakka (allt stelpur) var þar líka og daginn áður hafði hún eftir venju haldið uppá afmælið með bekkjarfélögunum í skólanum.

IMG 7745Einhver mynd.


2779 - Laxamál fyrir vestan

Um margt má fræðast með því að skoða alþingisvefinn sæmilega vel. T.d. voru í gær (þriðjudag) greidd atkvæði um frumvarpið hans Kristjáns sjávarútvegsráðherra. Ekki er frásagnarvert hverjir voru meðmæltir því en engir voru á móti. Þeir sem kannski voru á móti pössuðu sig á því að vera fjarverandi eða greiða ekki atkvæði. Þessir voru fjarverandi: Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Einar Daðason, Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jón Þór Ólafsson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Páll Magnússon, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Svandís Svavarsdóttir.

Og þessir sátu hjá: Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Andri Thorsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Snæbjörn Brynjarsson.

Efni málsins ætla ég ekkert að fjölyrða um, enda hef ég mjög takmarkað vit á þessu. Þó má segja að alþingi ætti ekki að vera að setja upp úrskurðarnefndir þar sem ekki er hægt að áfrýja úrskurðum ef ekki er ætlunin að standa við þá, þó það sé e.t.v. óþægilegt. Mikið hljóta alþingismenn samt að vera fegnir því að hafa ekkert með braggaviðgerðir eða endurbyggingar þeirra að gera. Aumingja borgarstjórnin situr uppi með það klúður alltsaman. Nóg er að búa til hæstarétti (úrskurðarnefndir) út um allt og þurfa svo að breyta lögum til að ógilda dóma (úrskurði) þeirra. Og svo ætlast þessir vesalingar til að virðing þeirra aukist.

Á Íslandi lognast flest heykslunarmál útaf með tímanum. Þannig er því farið með þau tvö mál sem ég hef minnst á hér að ofan. Sennilega verða flestir búnir að gleyma þeim eftir nokkrar vikur og í hæsta lagi að minnst verði á þau í næstu kosningabaráttu. Eflingarmálið eða var það kannski kennt við Gunnar Smára er t.d. næstum alveg dottið uppfyrir. Þannig fer fyrir flestum málum. Eiginlega tekur ekki að vera að æsa sig útaf þessu. Ef æsingurinn er mikill enda málin kannski fyrir dómstólum og þegar úrskurður kemur þaðað eru allir búnir að gleyma málinu, en lögfræðingarnir græða eins og venjulega. Menn eru þegar farnir að gíra sig uppí að rífast um kjaramál og mega varla vera að því að tala um annað.

Allir muna eitthvað. Sem betur fer muna ekki allir það sama. Rétt áðan rifjuðust upp tvær vísur fyrir mér. Því miður gerði ég þær ekki, en fleygar urðu þær. Ekki vil ég þó segja um hvern þær eru. Sú fyrri er svona:

Úti í snjónum flokkur frýs
fána sviptur rauðum.
Ólafur Ragnar Grímson grís
gekk af honum dauðum.

Og sú seinni er þannig:

Vanhæfur kom hann að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Bónus hann á
eins og hvert barn má sjá.
það er mynd af honum í merkinu.

IMG 7746Einhver mynd.


2778 - Ýmsar hugleiðingar

Allir eru að fjasa um Hrunið þessa dagana. Sumir láta eins og það hafi í raun orðið okkur til góðs að einhverju leyti. Að það hafi neytt okkur til nýs upphafs o.s.frv. En svo er ekki. Frekar má segja að það hafi rænt okkur nokkrum árum. Hrunið og Eyjafjallajökulsgosið hefur þó hugsanlega vakið svo mikla athygli á landinu að það kann að hafa verið meðvirkandi í þeirri fjölgun túrista sem orðið hefur á síðustu árum og hjálpað okkur verulega í peningamálum. Nú erum við langt komin með að hrekja þá frá okkur. Við getum að vísu kennt þeim um flest sem miður fer en það verður varla hægt eftir að þeir hætta að koma.

Svona löguð svartsýni gengur auðvitað ekki. Nær væri að líta á björtu hliðarnar. Þær eru bara svo fáar. Um að gera að koma á óvart. Á knattspyrnusviðinu getum við ekki lengur komið á óvart. Allir reikna með því að við getum eitthvað þar. Svoleiðis var það ekki. Við getum ekki endalaust lifað á fornri frægð. Vilhjálmur Einarsson stökk ansi langt í Melbourne um árið og Vala Flosadóttir stökk nokkuð hátt í Sidney. Kannski Ástralía henti okkur vel í frjálsum íþróttum. Handboltamenn gerðu það gott í Kína. Knattspyrnulandsliðið stóð sig vel á EM í Frakklandi fyrir nokkrum árum. Hver veit nema röðin sé komin að öðrum íþróttagreinum. T.d. fimleikum eða handbolta, jafnvel golfi. Berum höfuðið hátt og þykjumst áfram vera bestir af öllum.

Ég er búinn að komast að því að það er alveg afleitt að eiga of mörg herðatré, jafnvel þó þau séu úr járni eða plasti. Þá er nú betra að kaupa eitthvað til að hengja á þau (ekki), frekar en að hafa þau iðjulaus og hangandi inni í skáp.

Lífið er afskaplega fjölbreytt. Ég vorkenni þeim sem aldrei geta hugsað frumlega hugsun. Þurfa alltaf að leita á náðir tímadrepandi miðla til þess að fá hugmyndir að einhverju. Allt lífið er eintóm stæling hjá þessum aumingjum. Svo festast þessir vesalingar í því að hlusta og horfa alltaf á samstofna upplýsingar. Sumir eru fréttasjúkir, aðrir horfa á morðgátur. Í hæsta lagi sakamálaþætti. En eru samt alltaf ófullnægðir. Kunna varla að lesa. Horfa kannski á klámmyndir um helgar eða fara í hringferð með krökkunum, sem hundleiðist að sjálfsögðu. Er ég eitthvað betri sjálfur? Ekki held ég það. Sennilega er lífið ein maðkaveita. Kannski fimm aura brandari.

Hversvegna ætli ég sé að þessum bloggskrifum? Veit það ekki. Fyrir löngu er ég búinn að afskrifa þá hugsun að með þessu gæti ég öðlast einhverja frægð eða a.m.k. vinsældir. Að sumu leyti má til sanns vegar færa að þetta sé einskonar dagbók. Samt er það alls ekki hugsað þannig. Gömul blogg mætti hugsanlega nota til einskonar heimildasöfnunar á fjölskylduhögum. Áreiðanlega eru þeir sárafír, ef nokkrir, sem lesa gömul blogg frá mér. Ekki held ég saman neinu af því sem hér er skrifað. Ekki vísunum sem hér eru birtar. Það mætti þó gera. Ég bara nenni því ekki. Auðvitað gæti ég verið með ýtarlegri pólitískar hugleiðingar. Fyrir slíku virðist vera talsverður áhugi. Aftur er nenningin ekki nóg. Þá þyrfti ég helst að skrifa daglega.

IMG 7747Einhver mynd.


2777 - Er góðærið örugglega búið?

Það er langt síðan ég tók þann pól í hæðina að til þess að komast hjá því að allir gætu komist að manns innstu hugrenningum væri best að láta þær ekki í ljósi nálægt tölvu, hvort sem væri í rituðu máli eða töluðu. Þetta hefur hvað eftir annað komið sér vel því tölvur eru skaðræðisgripir. Ekki er samt hægt að hunsa þær með öllu, en maður veit yfirleitt of lítið um alla þeirra möguleika til að tengjast netum hverskonar og jafnvel heimilistækjum. Þess utan gætu þær fundið uppá því að taka myndir og þessháttar.

Það er að verða talsvert snúið hjá mér að nálgast gamlar myndir til að skreyta þetta blogg með. Ég er með þeim ósköpum gerður að mér finnst að allt sem á netinu er eigi að vera án endurgjalds. Blöskrar stundum hvað auglýsingar og hvers kyns áróður virðist eiga greiða leið að fólki. Allt er þetta gert til að hjálpa því að losna við peningana sína. Á margan hátt eru einmitt þessi fyrirbrigði undirstaðan undir menningu Vesturlanda. Minnir að einhvertíma hafi verið skrifuð bók sem hét eða heitir því nafni: „Der Untergang Des Abendlandes“. Já, já. Þetta er þýska. Og þar sem ég kann næstum ekki neitt í þýsku hef ég ekki lesið þessa bók. Held samt að „Abendlandes“ vísi til Vesturlanda og að hún sé hundgömul.

Mjög vinsælt er að segja að við Íslendingar höfum komist stórkostlega vel útúr kreppunni sem hér var fyrir 10 árum. Svo er þó ekki. Margir glíma enn við afleiðingar Hrunsins og mjög varasamt er að gera ráð fyrir því að engin fjölgun hefði orðið á ferðamönnum og engar framfarir á neinu sviði, ef Hrunið hefði ekki komið til.

Góðærið er búið. Segja þeir sem gerst þykjast vita. Galli með þessi árans góðæri að maður fréttir yfirleitt ekki af þeim fyrr en eftirá. Þá er venjulega orðið of seint að gera nokkuð og maður missir af öllu. Þannig hefur það löngum verið. Hvernig mér og mínum hefur tekist að komast í gegnum allar þessar fjármálakreppur er eiginlega alveg furðulegt. Efast um að ég hafi nokkurntíma haft það betra en eftir að ég komst á eftirlaun. Þó eru þau ekki nema rúmlega 100 þúsund á mánuði. Sennilega skiptir mestu máli að við þurfum ekki að borga himinháa húsaleigu. Annar kostnaður er líka í lágmarki.

Gulli Þórðar, sem nú er víst utanríkisráðherra sagði um daginn, og var þá að ræða um ESB, að framvegis gæti enginn haldið því fram að auðvelt væri að hætta þáttöku þar. Og vísaði þá áreiðanlega í BREXIT. Eins og kunnugt er eiga Bretar í nokkrum erfiðleikum með að losna úr Evrópusambandinu. Eða kannski vilja þeir bara fá allt fyrir ekkert, eins og við Íslendingar erum þekktir fyrir. Auðvitað eru Bretland og Ísland næstum því eins að öllu leyti (ekki) og þessvegna hefur Gulli eflaust rétt fyrir sér. Einhverjir gætu samt efast um að svo sé. Svo eru þeir til sem eru á móti ESB af einhverri annarri ástæðu, eins og t.d. Jón Valur Jensson. Sennilega er hann hræddur um að við festumst í einhverjum Trumpisma ef við svo mikið sem hugsum vitlaust.

Untitled Scanned 23Einhver mynd.


2776 - Að leggja skóna á hilluna

„Sæl vertu Sigurjóna“, sagði Halldór Blöndal. Hann var sennilega ráðherra þá og ég man eftir þessari setningu úr útvarpinu. Hann var sennilega að vígja eitthvað í sambandi við símann og ætlaði að hringja í Kristján Jónsson óperusöngvara sem þá var í Rússlandi. Gallinn var bara sá að það var ekki Sigurjóna sem svaraði í símann, heldur einhver sem talaði bara rússnesku.

Þessi skóhilla hlýtur að fara að gefa sig hvað úr hverju. Einhver knattspyrnumaður var um daginn að setja skóna sína þar. Eiginlega finnst mér það ekkert fréttnæmt, en ég er nú svo takmarkaður að ég skil ekki æðri fjölmiðlavísindi. En samkvæmt blaðafréttum er hann alls ekki sá fyrsti sem setur skóna sína á þessa hillu.

„Vikan“ er víst orðin áttræð. Þegar ég var á Bifröst var ég áskrifandi að Vikunni og hún kom í hverri viku. Í auglýsingateikningunni hjá Herði Haralds gerði ég auglýsingu fyrir Vikuna. Man vel að stafirnir voru rauðir. Seinna meir, um það leyti sem Kúbu-deilan stóð sem hæst skrifaði ég grein um Gísla Sigurbjörnsson í Ási, sem einskonar svar við grein sem birst hafði um hann í Vikunni. Vikan vildi ekki birta hana, en þegar ég leitaði til Morgunblaðsins var það birt sem Vettvangur dagsins. Gæti skrifað meira um þetta því það er mér nokkuð minnisstætt, en geri það ekki núna a.m.k.

Eru sjónvarpstæki bílar nútímans. Í heilsíðuauglýsingu er 50 þúsund króna afslætti lofað á einu sjónvarpstæki. Hver hefur þá álagningin verið og hver borgar auglýsinguna. Einu sinni gat maður leikandi létt fengið heilt sjónvarp fyrir þessa upphæð. Á svipuðum tíma og bílaverð virðist fara lækkandi fer sjónvarpsverð hækkandi. Ekki er víst að sjónvarpstæki með aðgangi að 1000 sjónvarpsrásum og ýmsu fleiru sé nokkuð meira menningar- og menntunartæki en ódýru sjónvörpin voru. Þau áttu að vera alveg stórkostleg að því leyti, en voru það ekki.

Hrunið mikla á víst 10 ára afmæli um þessar mundir. Flestir eiga einhverjar minningar sem tengjast því og ég þar á meðal. Finn samt enga löngun hjá mér til að fjölyrða um það. Kannski er að styttast í næsta hrun og t.d. gæti það hafist með því að flugfélög færu unnvörpum á hausinn. Fjölmiðlar hafa verið uppteknir við það að spá falli Wow-air, en svo fór Primera á hausinn. Okkur hjónunum hefur oft verið strítt á því að við höfum valdið hruninu. Minnir að við höfum, af illri nauðsyn keypt flatskjár-sjónvarp fyrir hrun sem núna er að verða úrelt vegna þess að það er svo lítið. Haustið 2008 að mig minnir fórum við með öðru starfsfólki frá Aðföngum til Kaupmannahafnar til að taka þátt í árshátíð. Þessi sótt í að halda árshátíðir erlendis hefur að mínum dómi stulað fremur en flatskjárkaup að hruninu. Annars er ekki grín gerandi að þessum atburðum og nú 10 árum seinna eru enn margir að glíma við afleiðingar þess.

Traust almennings á Alþingi og stjórnvöldum öllum er ákaflega lítið. Ekkert virðist vera gert til að auka það. Vissulega er það ekki einfalt mál, en vel mætti byrja á því að ríkisstjórnin, Alþingi og reyndar stjórnvöld öllvönduðu sig svolítið meir. Sérstaklega á þetta við um ráðuneytin. Þar virðist fólk ekki hafa vit á neinum sköpuðum hlut. Auðvitað er ekki allt satt og rétt, sem sagt er á fésbókinni og reyndar liggja flestir fjölmiðlar á því lúalagi að reyna sífellt að gera pólitískan hlut sinna manna sem stærstan og mestan.

Untitled Scanned 60Einhver mynd.


2775 - Steini og Jón

Eitt það mikilvægasta sem góður bloggari þarf að venja sig á er að skrifa aldrei nema hluta af því sem hann/hún veit um viðkomandi efni, en samt að vera ekki að geyma það til betri tíma sem manni þó dettur í hug. Þykist ég þá sjálfur vera góður bloggari? Kannski. A.m.k. er ég talsvert reynslumikill á þessu sviði. Ekki kann ég þó þá list að verða vinsæll. Hvað þá frægur. Kalla það samt ágætan árangur að ná því að hafa á annað hundrað daglega lesendur án auglýsinga. Tel það varla auglýsingu þó ég láti vita af því á fésbókinni að ég hafi bloggað. Ekki hef ég kynnt mér neitt hvert fésbókarguðirnir hafa beint þeim tilkynningum.

Ég hef vanið mig á að það sem ég skrifa sé opið öllum, ef þeir á annað borð hafa einhvern minnsta áhuga á að lesa það sem ég skrifa. Að undanförnu hefur athugasemdum við bloggið mitt fjölgað nokkuð. Ekki græt ég það. Andsvörin við þeim eru öllum sýnileg og yfirleitt fremur lítt yfirlesin. Samt er ég ekki að afsaka á neinn hátt það sem ég skrifa þar. Athugasemdirnar eru yfirleitt ekki svo margar eða langar að ég þurfi neitt að agnúast útí þær. Hef aldrei stundað það að eyða athugasemdum eða takmarka það á nokkurn hátt sem ég skrifa, en það kemur fyrir að ég leiðrétti augljós pennaglöp í blogginu sjálfu. Kann ekkert á að breyta eða eyða athugasemdum.

Get ekki neitað því að þær athugasemdir sem ég hef fengið að undanförnu fá mig til að hugsa. Annars geri ég yfirleitt fremur lítið af því. Sennilega er bara best að halda sínu striki og halda áfram að bölva fésbókinni (hún er samt ómissandi) og Trump. Minn stíll er að ræða aldrei lengi um sama efnið. Í blaðagreinum finnst mér oft sem höfundar teygji lopann of mikið og haldi áfram að endurtaka næstum það sama aftur og aftur. Stundum finnast einhver ný sjónarhorn en yfirleitt ekki.

Í ljósi þeirra umræðna sem orðið hafa hér á mínu bloggi að undanförnu bíð ég spenntur eftir því að Steini Briem láti í sér heyra. Svo get ég hæglega búist við að Jón Valur hafi eitthvað við þetta alltsaman að athuga. Samt sem áður er ekki örgrannt um að ég hafi svolítið gaman af þessu öllu saman. Verst hvað Jón er oft langorður.

Untitled Scanned 61Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband