2778 - Ýmsar hugleiðingar

Allir eru að fjasa um Hrunið þessa dagana. Sumir láta eins og það hafi í raun orðið okkur til góðs að einhverju leyti. Að það hafi neytt okkur til nýs upphafs o.s.frv. En svo er ekki. Frekar má segja að það hafi rænt okkur nokkrum árum. Hrunið og Eyjafjallajökulsgosið hefur þó hugsanlega vakið svo mikla athygli á landinu að það kann að hafa verið meðvirkandi í þeirri fjölgun túrista sem orðið hefur á síðustu árum og hjálpað okkur verulega í peningamálum. Nú erum við langt komin með að hrekja þá frá okkur. Við getum að vísu kennt þeim um flest sem miður fer en það verður varla hægt eftir að þeir hætta að koma.

Svona löguð svartsýni gengur auðvitað ekki. Nær væri að líta á björtu hliðarnar. Þær eru bara svo fáar. Um að gera að koma á óvart. Á knattspyrnusviðinu getum við ekki lengur komið á óvart. Allir reikna með því að við getum eitthvað þar. Svoleiðis var það ekki. Við getum ekki endalaust lifað á fornri frægð. Vilhjálmur Einarsson stökk ansi langt í Melbourne um árið og Vala Flosadóttir stökk nokkuð hátt í Sidney. Kannski Ástralía henti okkur vel í frjálsum íþróttum. Handboltamenn gerðu það gott í Kína. Knattspyrnulandsliðið stóð sig vel á EM í Frakklandi fyrir nokkrum árum. Hver veit nema röðin sé komin að öðrum íþróttagreinum. T.d. fimleikum eða handbolta, jafnvel golfi. Berum höfuðið hátt og þykjumst áfram vera bestir af öllum.

Ég er búinn að komast að því að það er alveg afleitt að eiga of mörg herðatré, jafnvel þó þau séu úr járni eða plasti. Þá er nú betra að kaupa eitthvað til að hengja á þau (ekki), frekar en að hafa þau iðjulaus og hangandi inni í skáp.

Lífið er afskaplega fjölbreytt. Ég vorkenni þeim sem aldrei geta hugsað frumlega hugsun. Þurfa alltaf að leita á náðir tímadrepandi miðla til þess að fá hugmyndir að einhverju. Allt lífið er eintóm stæling hjá þessum aumingjum. Svo festast þessir vesalingar í því að hlusta og horfa alltaf á samstofna upplýsingar. Sumir eru fréttasjúkir, aðrir horfa á morðgátur. Í hæsta lagi sakamálaþætti. En eru samt alltaf ófullnægðir. Kunna varla að lesa. Horfa kannski á klámmyndir um helgar eða fara í hringferð með krökkunum, sem hundleiðist að sjálfsögðu. Er ég eitthvað betri sjálfur? Ekki held ég það. Sennilega er lífið ein maðkaveita. Kannski fimm aura brandari.

Hversvegna ætli ég sé að þessum bloggskrifum? Veit það ekki. Fyrir löngu er ég búinn að afskrifa þá hugsun að með þessu gæti ég öðlast einhverja frægð eða a.m.k. vinsældir. Að sumu leyti má til sanns vegar færa að þetta sé einskonar dagbók. Samt er það alls ekki hugsað þannig. Gömul blogg mætti hugsanlega nota til einskonar heimildasöfnunar á fjölskylduhögum. Áreiðanlega eru þeir sárafír, ef nokkrir, sem lesa gömul blogg frá mér. Ekki held ég saman neinu af því sem hér er skrifað. Ekki vísunum sem hér eru birtar. Það mætti þó gera. Ég bara nenni því ekki. Auðvitað gæti ég verið með ýtarlegri pólitískar hugleiðingar. Fyrir slíku virðist vera talsverður áhugi. Aftur er nenningin ekki nóg. Þá þyrfti ég helst að skrifa daglega.

IMG 7747Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um helgar horfir karl á klám,
krakka á hann feita,
af Jóni Vali dregur dám,
Drottins maðkaveita.

Þorsteinn Briem, 10.10.2018 kl. 19:01

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég mögulega maðka finn
í mysunni frá Steina.
Það er aumi andskotinn
ekki er því að leyna.

Sæmundur Bjarnason, 11.10.2018 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband