Bloggfærslur mánaðarins, september 2017
27.9.2017 | 23:27
2649 - Pólitík o.fl.
Ég álít síðustu ríkisstjórn hafa fallið vegna tilrauna formanns Sjálfstæðisflokksins til hins venjulega leynimakks. Ef Bjarni Benediktsson hefði hunskast til að segja tvíeykinu Benedikt og Óttarri frá þessu með pabba sinn, þá sæti þessi ríkisstjórn líklega ennþá og ekki væri neitt fararsnið á henni.
Þetta er sannleikurinn í málinu. Það er leyndarhjúpurinn sem Bjarni vildi setja á málið sem felldi ríkisstjórnina. Framhjá því verður ekki komist. Sama hve miklu moldviðri Sjallar reyna að þyrla upp. Kannski tekst þeim einu sinni enn að verða stærsti flokkurinn að kosningunum 28. október afstöðnum, en ólíklegt er að þeir sitji í næstu ríkisstjórn. Andstæðingar þeirra munu reyna eftir mætti að koma í veg fyrir það. Og kannski eru allir hinir flokkarnir það.
Hanaslagur í Mosfellsbæ. Þetta er greinilega margslugið mál, sem vafist hefur lengi fyrir mönnum. Gefnar hafa verið út bækur um ómerkilegri mál og nú bíð ég málþola eftir frekari upplýsingum um þetta mikilsverða mál. Æviágrip hanans og hænanna hef ég t.d. hvergi séð. Tilgangslaust er að halda því fram að svo mikilsverð atriði skipti ekki máli. Sömuleiðis þarf ítarlega greinargerð um upphaf þessa máls og ferðalag þess um völundarhús valdsins fram að þessu. Hvernig hæstiréttur getur dæmt í þessu máli án aðstoðar sérfræðinga er mér með öllu hulið. Ég fer fram á að opinberir aðilar og sannanlega óvilhallir skýri frá öllum hliðum þessa máls og ljúki því fyrir komandi kosningar, því þar getur það haft veruleg áhrif.
Kannski Bjarni Ben. gæti fengið vinnu vesturfrá hjá Tromparanum, Hann er hvort eð er alltaf á leiðinni þangað. Annars finnst mér spáin hjá Birni Birgissyni (enn eitt BB-ið) um þingsætafjöldann hjá flokkunum ekki svo vitlaus. Verst að með því fá íhaldsflokkarnir tveir (Sjallar og VG) hreinan meirihluta. Við því er samt ekkert að gera og það er óskastjórn BB og kannski Katrínar líka.
Miðað við síðustu fréttir úr henni Amríku er spurning hvað Tromparanum kemur við. Í stað þess að formæla íþróttamönnum gæti hann t.d. reynt að skilja elflaugamanninn betur. Trump og hann láta eins og óþekkir krakkar, sífellt öskrandi á hvorn annan. Allir eru löngu hættir að taka mark á þessu. Þeir einu sem skaðast er almenningur í Norður-Kóreu. Ekki er samt líklegt að hann snúist af svo miklu afli gegn einræðisherranum að það endi í byltingu. Til þess er heilaþvotturinn of mikill.
Það er ekki að ófyrirsynju að Sjálfstæðismenn eru oft kallaðir íhaldsmenn. Yfirleitt vilja þeir engu breyta, hvort sem um er að ræða stjórnarskrá eða útlendingalög. Auðvitað er það út af fyrir sig virðingarverð afstaða að vilja ekki breyta því sem reynst hefur sæmilega. Það er samt hægt að ganga of langt í þessari viðleytni. Mér finnst Sjálfstæðismenn yfirleitt ganga of langt í þessum málum. Vitanlega er líka varhugavert að breyta bara til þess að breyta. Sjá jafnvel ekki fyrir hver áhrif breytingarinnar verða. Þar finnst mér að vinstri menn gagni stundum of langt. Breytingar sem þeir boða eru stundum greinilega bara settar fram til að valda íhaldsmönnum í öllum flokkum vandræðum. Hjá því getur hins vegar aldrei farið að ýmsu þurfi að breyta í ljósi reynslunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2017 | 14:32
2648 - Trump og Davíð
Mér skilst að síðasti heimsendir verði endurtekinn þann 23. September n.k. Kannski er þetta alveg nýr heimsendir. Ég bara veit það ekki, þó skömm sé frá að segja. Allavega er þessu spáð núna. Auðvelt er að gera grín að svona spám því ef þær mundu rætast þá er maður ekki til staðar til að taka við skömmum fyrir það. Ég sé samt enga ástæðu til að taka þessa heimsendaspá alvarlegar en þær sem á undan hafa farið. Þessi er fjarri því að vera studd vísindalegum rökum og þessvegna að mínum dómi ómarktæk.
Af hverju í ósköpunum sagði Sigríður Andersen það sem hún sagði um BB. Auðvitað vissi hún ekki að stjórnin mundi springa út af þessu, en hún hlýtur að hafa vitað að þetta mundi koma sér illa fyrir hann. Er hugsanlegt að einhver valdabarátta eigi sér stað innan Sjálfstæðisflokksins og hún hafi viljað koma honum í klípu. Ekki veit ég af neinu slíku og mér mundi líklega vera sagt það síðustum manna.
Sennilega er Mueller sá sem er að rannsaka tengingu Rússa við kosningabaráttu Trumps að fara að ákæra Manafort þann sem var á tímabili kosningastjóri Trumps. Kannski er hann reyndar bara að láta líta svo út til að hann kjafti frá og segi allt sem hann veit um Trump. Trump þorir líklega ekki að reka Mueller þennan. Eitt sinn var hann FBI-forstjóri.
Kannski er Trump eins og fleiri mestur í munninum. Lætur sig ekki muna um að hóta að gereyða 25 milljón manna þjóð. Aðrir eru kannski enn stórtækari, en það afsakar Trump ekkert. Kim Jong-un er áreiðanlega hinn mesti harðstjóri og morðingi í ofanálag. Það sæmir hinsvegar ekki Bandaríkjaforseta að vera að munnhöggvast við svoleiðis gerpi. Skil ekki af hverju Trump heldur að hann hafi betur í þeim leik sem Kim hefur iðkað lengi og er viðurkenndur snillingur í.
Mikið er spáð og spekúlerað í komandi kosningar. Einhverjir halda greinilega að BB sé eitthvað veikur fyrir núna. Sennilega kemst hann í gegnum þetta einsog hann hefur komist í gegnum alla skandala hingað til. Bíður bara með að segja nokkuð þangað til hann veit útí hörgul hvað aðrir hafa sagt og ætla að segja. Treystir svo á heppni sína og að Flokkurinn (með stóru effi) haldi áfram að éta úr lófa hans. Þ.e.a.s. allir nema Davíð, en hann er nú ekki marktækur lengur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2017 | 13:05
2647 - Númer eitthvað
Einhvern vegin hef ég ruglast í talningunni á bloggunum mínum. Undanfarið hef ég dregið (alveg óvart) 100 frá þegar ég hef skrifað töluna. Sennilega er öllum skítsama um þetta, nema þá helst mér.
Samkvæmt einhverjum hávísindalegum rannsóknum hefur það komið í ljós að mun meiri líkur á að maður fái Nóbelsverðlaun ef maður étur nógu mikið af súkkulaði. Vísindi af þessu tagi heilla mig ekki. Fjölmiðlamenn eru samt veikir fyrir rannsóknum hverskonar og umhverfast alveg ef þeir frétta af skoðanakönnunum. Sama hvað vitlausar þær eru. Eiginlega er hægt að sanna hvað sem er með rannsóknum. Bara ef þær eru rétt valdar. Eins og allir vita er hægt að ljúga með tölum, enda gera það margir alveg svikalaust. Ekki síst stjórnmálamenn þegar þeir þykjast vera að sanna einhvern andskotann. Stundum nota þeir jafnvel línurit eða eitthvað þessháttar og þá þarf að vara sig á þeim.
Sennilega ætti ég að fara að leggja sjórnmálaskrif fyrir mig. Það er ekki laust við að einhver smáeftirspurn sé eftir skoðunum mínum á stjórnmálum. Þessa ályktun dreg ég af því að umferð um bloggið mitt hefur aukist töluvert eftir að stjórnin féll. Einhvern vegin er það samt svo að mér fellur best að skrifa um hitt og þetta í blogginu mínu. Ef lesendum fjölgar eitthvað er það bara gott mál. Leiðinlegt er að skrifa bara fyrir skrifborðsskúffuna, þó sumir geri það reyndar. Þessi bloggskrif mín eru samt það umfangsmikil að þau mundu flæða um alla íbúðina ef ég eyddi þeim ekki jafnóðum. Verð bara að vona að Morgunblaðið geymi þessi ósköp.
Hvað er það besta við fésbókina?
- Þessu er auðsvarað. Það besta við hana er að hún er alltaf up to date. Það er að segja maður veit að síðasta innlegg sem maður gjarnan vill svara, er ekki hundgamalt. Ég er nefnilega búinn að vera að kíkja á gömul bookmörk undanfarið og sum (jafnvel mörg) þeirra eru búin að vera steindauð lengi.
- Hver er þá helsti gallinn við hana?
- Veit það ekki. En helsti gallinn við gömlu bookmörkin er að víða er engar dagsetningar að finna.
- Af hverju er þér svona illa við fésbókina.
- Það er vegna þess að mér hefur aldrei tekist að læra almennilega á hana.
Æ hættum núna að tala um fésbókina. Ég er búinn að fá leið á henni. Aftur á móti líkar mér ágætlega við Moggabloggið. Sennilega er það vegna inngróinnar íhaldssemi. Hún gæti hvort sem er verið hjá mér eða blogginu.
Sumum bloggurum finnst greinilega að þeir þurfi að birta myndir í einhverju samræmi við efnið. Alveg hef ég gefist upp við það. Birti bara einhverjar myndir. Af hverju í andskotanum ætli ég sé að því? Sennilega er það bara til skrauts. Mætti sennilega alveg eins sleppa því. Hef samt gert það svo lengi að ég get ekki hætt. A.m.k. ekki meðan svona margar eru til. Fyrir löngu tók ég uppá því að endurnýta myndir. Held að ég haldi því bara áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2017 | 09:28
2646 - Kosningar
Þó sennilega hafi fáir áhuga á að vita það ætla ég hér á eftir að segja álit mitt á fáeinum ráðherrum sem ýmist hafa verið betri eða lakari en ég átti von á. Jón Gunnarsson er sá eini þeirra sem ég þekkti svolítið persónulega fyrir og mér finnst hann hafa staðið sig betur en ég bjóst við. Sama er að segja um Þorstein Víglundsson. Hinsvegar hafa bæði Björt Ólafsdóttir og Sigríður Andersen valdið mér vonbrigðum. Þó Björt sé skelegg í kappræðum finnst mér hún ekki hafa haft fullkomið vald á ráðherraebættinu. Sigríður Andersem finnst mér hafa verið óhæf með öllu í sínu ráðherraembætti. Það eina sem mér finnst hægt að segja henni til málsbóta er að Brynjar Níelsson hefði sennilega orðið mun verri.
Alveg er ég hissa á hvað margir eru að missa sig útaf þessum kosningum. Er þetta ekki bara eins og vant er? Er ekki óþarfi að æsa sig? Til hvers að vera með þessi læti? Eru ekki allir (eða næstum því) að gera það gott? Er ekki bullandi góðæri? Sjáið þið ekki veisluna, piltar? Þó einhverjum sé nauðgað og fáeinir drepist. Hvað gerir það til? Má ekki pína ketti lengur? Ertu hættur að berja konuna þína? Hvusslags er þetta?
Auðvitað langar Sjálfstæðisflokkinn í stjórn með Vinstri grænum, enda eru þeir flokkar nauðalíkir í flestu. Samt er ekki hægt að segja að VG sé útibú frá móðurflokknum. Vel er samt hægt að segja það um Viðreisn (gátu ekki einu sinni valið skárra nafn) og Flokk fólksins, sem getur ekki leynt því hve illa þeim er við innflytjendur og flóttafólk. Framsóknarflokkurinn er síðan opinn í báða enda eins og allir vita, svo líklegast er að samskonar (eða verri) stjórn taki við af þessari sem núna er. Starfsstjórn sem ekki má starfa neitt. Þannig er það bara.
Það voru talsvert yfir tvö hundruð lesendur sem skoðuðu eða lásu bloggið mitt í gær og ríkisstjórnarruglið í mér. Eginlega er það bara hraustleikamerki. Kannski ég ætti að fara að hafa upplýsingarnar um heimsóknarfjöldann utanbloggs. Einu sinni kunni ég alveg að skipta um það og gerði reyndar öðru hvoru. Á fésbókina kann ég sáralítið, enda er sífellt verið að breyta öllu þar. Auðvitað er gott að allir haldi að þeir séu snillingar. Mest er ég samt hissa á því hvað margir viðurkenna BB sem einskonar landsföður. Ekki mundi ég gera það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2017 | 08:42
2545 - Ný ríkisstjórn
Auðvitað ber hæst í fréttum núna allt sem tengist falli stjórnarinnar. Heldur heimskulegt þykir mér flest af því sem sagt er opinberlega um það mál. Ætla þessvega ekki að fjölyrða um það. Nóg er nú samt. Kannski ég segi samt örlítið frá því hvernig þetta snerti mig. Horfði á fréttirnar og kastljósið á fimmtudagskvöldið og var ákveðið þeirrar skoðunar að dómsmálaráðherranum yrði fljótlega gert ljóst að hún yrði að segja af sér. Ekki má bera vammir og skammir á sjálfan landsföðurinn. A.m.k. má ráðherra í hans eigin ríkisstjórn ekki gera það. Átti von á að stjórnin stæði þetta mál sæmilega af sér og þessu yrði bara sópað undir teppið eins og venjulega er gert. Fór snemma að sofa og vissi ekkert af neinum fundum. Morguninn eftir fór ég í langa morgungöngu eins og venjulega. Frétti ekkert af stjórnarslitum fyrr en ég kom heim. Svoleiðis var nú það.
Var áðan að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig. Auðvelt væri sennilega að týna sjálfum sér í slíkri vitleysu. Engum er ætlandi að lesa yfir tvö þúsund og sexhundruð blogg í einni striklotu. Var samt alveg hissa á því hvað ég hef oft komist vel að orði hér áður og fyrr. Hef jafnvel verið sannspár stundum, þó ég sé enginn spámaður.
Sú ályktun sem ég dreg af atburðum síðustu daga er sú að nýtt vald sé orðið til. Það er fimmta valdið eða fésbókarvaldið. Þar á ég við félagslegu miðlana eins og þeir leggja sig. Nafnið skiptir engu máli. Það vald sem fólkinu í landinu er fengið með hinni beinu aðkomu sinni að stjórn landsins er svo sannarlega fimmta valdið. Fjórða valdið sem svo fjálglega hefur verið talað um, sem skv. skilgreiningu eru allir þeir gamaldags fjölmiðlar sem í landinu eru. Hvort sem um er að ræða dagblöð, sjónvarp, útvarp, netblöð eða annað verða nú að bíta í það súra epli núna að ráða nánast engu fyrir fólkinu í landinu, sem í krafti sinnar netþekkingar ræður núna því sem það vill ráða.
Nú er kominn mánudagsmorgunn. Fór áðan í birtingu í langa morgungöngu. Í byrjun var hellirigning en úr því rættist fljótlega. Rakinn var samt nógur til þess að ánamaðkarnir voru fjölmennir á gangstígunum. Er annars hægt að segja að ánamaðkarnir hafi verið fjölmennir? hefðu þeir ekki átt að vera fjölmaðkaðir? Bara spekúlasjón.
Nú er kominn tími til að fara að spá í næsta ríkisstjórnarmunstur. Líklega gegnir Guðni Bjarna með þingrofið og svo má reikna með að kosningar verði 28. október. Sjálfstæðisflokkurinn fær sennilega sín 25 % eins og hann er áskrifandi að. Aðrir fá líklega minna. Sjálfstæðismenn og Framsókn munu síðan að öllum líkindum mynda stjórn með aðstoð Flokks fólksins eða Viðreisnar sem báðir eru hvort eð er einskonar útibú frá Flokknum Sjálfum. Kannski þarf báða til, en það mun engum vandræðum valda. Vinstri menn munu eflaust kalla þetta svartsýnisspá og sjá allt annað fyrir sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2017 | 11:30
2544 - Ekkert um fall stjórnarinnar
Ef einhver segir mér að kaffi sé fitandi, fleygi ég honum út um gluggann. Þ.e.a.s. kaffinum. (Verð ég annars ekki að hafa þetta í karlkyni, þó ég sé ekki vanur því. Treysti mér nefnilega við nánari athugun ekki til að henda neinum nema þá helst honum.) Það er nefnilega það eina sem maður getur fengið sér hvenær sem er. Án þess að springa. Eiginlega finnst mér ennþá að kaffi sé hálfvont, samt drekk ég það ómælt. Sennilega er það ögn skárra en mjólkin. Samt ekki nærri eins gott og vatnið. Það getur maður drukkið með öllu án samviskubits jafnvel þó sagt sé að það sé yfirborðsvatn. En ekki hvað? Er ekki allt vatn sem ekki er regnvatn yfirborðsvatn. A.m.k. þegar það komið uppá yfirborðið. Læt ég svo þessum vatnshugleiðinum lokið.
Vegna fellibyljanna sem riðið hafa yfir Bandaríkin að undanförnu eru skattalækkanir nauðsynlegar, segir Trump. Líklegt er að einhverjir trúi þessu bulli, en allsekki er hægt að gera ráð fyrir að hvar sem er væri hægt að halda svonalöguðu fram. Hinn samansúrraði vitleysingur sem núna situr á veldisstóli í Bandaríkjum Norður-Ameríku kemst samt upp með svotil hvað sem er. Hann er sennilega næstum því nógu vitlaus til að verða tekinn inn í Sjálfstæðisflokkinn ef hann væri íslendingur og jafnvel gerður að ráðherra þar.
Þetta er smáþakklætisvottur sem ég skrifaði og setti á fésbókina í tilefni af öllum kveðjunum sem fékk þegar ég varð 75 ára um daginn. Takk kærlega fyrir allar afmæliskveðjurnar. Átti allsekki von á að þær yrðu svona margar. Af því að ég skil fésbókina fremur illa er ég að hugsa um að láta þetta duga sem þakkir fyrir kveðjurnar. Ég hefði líka orðið óhóflega lengi að svara þeim öllum einsog hefði átt að vera. Núorðið er ég nefnilega orðinn svo lengi að öllu. Þetta lífgar sannarlega upp á afmælisdaginn. Annars er það svosem ekkert afrek að verða 75 ára.
Nú er ég eiginlega orðinn hálfleiður á smart-símanum mínum. Ég nota hann svosem bara til að hringja með honum og eitt app er það sem ég nota talsvert. Það heitir Caledos runner og það er ágætt að nota það þegar maður fer í langar gönguferðir. Síðan finnst mér þægilegt að hafa myndavélina í honum. Hann kostaði ekki nema u.þ.b. tuttugu þúsund krónur. Aðallega er það myndavélin í símanum sem ég er orðinn leiður á. Þó tekur hún alveg sæmilegar myndir. Á líka aðra myndavél sem er með flassi en það er sú í símanum ekki með. Ég held að sæmilega góðir símar kosti nútildags áttatíu til hundrað þúsund krónur eða meira og það þykir mér fullmikið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2017 | 09:32
2643 - Hvor er meiri kjúklingur?
Eiginlega eiga þeir Kim Jong un og Donald Trump ekki að fá að fara í þennan leik. Sá sem fyrr lítur undan er taparinn. Leikir af þessu tagi hafa tíðkast lengi. Að færa hann á þennan hátt á persónulegan grundvöll er alveg óskiljanlegt. Auðvitað lítur þetta þannig út í augum flestra. Að sjálfsögðu getur Donald ekki beitt kjarnorkuvopnum og það veit Kim ósköp vel. Allir virðast uppteknir af því hvort Kim muni fyrr líta undan. Kannski beitir hann kjarorkuvopnum og kannski ekki. Ef Donald beitir öllum hernaðarmætti USA nema kjarnorkuvopnum að Norður-Kóreu gæti hann verið á leið inní nýtt Viet-Nam stríð og allsekki er séð fyrir endann á því.
Heilmikið er um það rætt hvort leyfilegt eigi að vera að kýla nasista. Held að umræða um þetta eigi sér stað á pírataspjallinu. Yfirleitt nenni ég ekki að lesa það sem þar er skrifað. Vel getur verið að það sé samt merkilegra en flest annað. Maður getur ekki náð því að lesa hvað sem er. Sumir lesa þetta hér blogg mun fremur en flest annað þó það sé undarlegt. Þetta með nasista og barsmíðar finnst mér dálítið umhendis að vera að ræða á pírataspjallinu. Ég veit svosem ekki hvernig umræður fara þar yfirleitt fram. Eitthvað er samt vitnað í umræður þar. Kannski ég ætti að setja það á mitt sálarprik að lesa það oftar. Annars kemst ég aldrei yfir að lesa nærri allt sem haldið er að mér á fésbókinni og annarsstaðar. Ofbeldi finnst mér að aldrei eigi rétt á sér. Því sé hvorki rétt að slá nasista eða aðra. Þetta með málfrelsið er þó margslungið vandamál. Ef nasistar halda einhverri vitleysu fram finnst mér nær að reyna að leiða þeim villu síns vegar fyrir sjónir en að lemja þá.
Hugsanlegt er að sumir þeirra sem sagðir eru með ólæknandi krabbamein og eigi stutt eftir ólifað geri fullmikið úr hlutunum. Ekki ætla ég að halda því fram að svo sé, en sá grunur læðist samt stundum að manni að svo gæti verið. Með þessu er mögulegt að þeir vonist eftir því að verða gagnrýndir minna þó þeir haldi fram umdeildum sjónarmiðum. Kannski er þessi grunur ferlega ósanngjarn, en ég get bara ekki að mér gert. Þó ég væri með krabbamein er ekki víst að ég mundi útbásúna það, enda er ég sem betur fer ekki minnstu vitund frægur. Ég er bara venjulegur bloggari sem nokkrir tugir og í besta falli fáein hundruð legga sig niður við að lesa, þegar ég læt svo lítið að skrifa. Aðallega eru það ættingjar og vinir eða kunningjar sem ég á þónokkra þó ég sé introvert hinn mesti eða fýldur leiðindapúki eins og flestir mundu segja.
Ýmsum skoðunum hef ég haldið fram hér á þessu bloggi sem ég hef haldið úti ansi lengi. Þó hef ég reynt að gera mér far um að meiða enga að ósekju. Þar með hefur bloggið orðið litlausara en það gæti verið. Þó get ég alls ekki ætlast til þess að nokkur maður sé sammála mér um öll þau málefni sem ég hef minnst á. Ég hef gaman af að skrifa, en sumir sem þó skrifa mjög mikið á félagslegu miðlana láta eins og skrifin séu þeim þvert um geð. Mér finnst það illa farið með sæmileg skrif að nenna ekki að lesa þau yfir. Í flestum tilfellum mundu þau batna mikið við það. Meirihluti þess sem skrifað er á fésbókina er heldur illa skrifað. Flestum kann að finnast það í góðu lagi. Leiðinlegt er að skrifa mjög vitlaust og ef ekki er lesið yfir er mikil hætta á misskilningi allskonar og fáránlegum vitleysum.
Eitthvað hefur dregist hjá mér að senda þetta út í eterinn. Í gær var þingsetning og fjárlagafrumvarpið lagt fram. Með því er reynt að drepa sem flestu á dreif með því að hafa tölurnar nógu margar til að rugla fólk í ríminu því flestir hafa um nóg annað að hugsa. Tvær tölur voru það sem festust í huga mér og að mörgu leyti er það fjandans nóg. Sagt er að hver og einn íslendingur borgi 333 þúsund fyrir heilbrigðiskerfið. Auðvitað munar þá sem hafa nokkrar eða fjölmargar milljónir í laun á mánuði ekki mjög mikið um þessar 333 þúsundir. Þeir fátækustu eiga eflaust í vandræðum með þetta. Þeir borga þó a.m.k. virðisaukaskatt sem er sagður vera 29 prósent af tekjum ríkissjóðs. Ég þarf ekki fleiri tölur en þessar tvær til þess að sjá óréttlætið í þessu. Efast má svo sannarlega um að þeir hálaunuðu séu eitthvað verðmætari þjóðfélagsþegnar en hinir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2017 | 13:30
2642 - Svarolía og Irma
Stutt er síðan svartolían var allra meina bót. Nú er hún orðin stórhættuleg. Sama er að segja um hráolíuna. Einu sinni var hún hundódýr. Svo er ekki nú. Dieselbílum hefur samt fjölgað mikið. Sumir þeirra eru áberandi sparneytnir. Nú er meira áríðandi en áður að fækka þeim verulega. Við hjónin keyptum dieselbíl fyrir nokkru þ.e.a.s. áður en þeir urðu svona hættulegir. Hvernig ætli sé best að vera alltaf réttu megin við náttúru-strikið? Já, svo sannarlega má segja að það sé vandlifað í henni veröld. Og hvernig á að haga sér í ruslmálum? Ég bara spyr. Af því ég er alls ekki viss um það.
Á eftir Harvey kemur Irma. Það er eðlilegt samkvæmt stafrófsfræðum. Það sem hinsvegar er ekki eðlilegt er að fellibyljir fari sífellt stækkandi. Tjón af völdum Irmu gæti vel orðið mun meira en af Harvey. Var hann þó ekki neitt smápeð. Fjölskylda annarrar tengdadóttur minnar býr á Bahama-eyjum. Ekki er víst að þau fari með öllu varhluta af Irmu. Vindur sem ferðast með 70 til 80 metra hraða á sekúndu er ekkert gamanmál. Auðvitað er Florida þéttbýlla og fjömennara en Bahama-eyjar, en samt mættu íslenskir fjölmiðlar huga að öðrum hlutum heimskringlunnar en þeim sem Bandarískir eru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2017 | 22:59
2641 - Veðurhorfur til klukkan níu í fyrramálið
Hugsanlega er það tímanna tákn að alvinsælasta kvikmynda og sjónvarpsefnið um þessar mundir gerist á miðöldum. Þarna á ég við Lord of the Rings. Hobbit og Game of Thrones svo dæmi séu tekin. A.m.k. held ég að þetta eigi allt saman að gerast á miðöldum. Hef lítið af þessu séð og áhuginn er ekki mikill. Það er líka til bóta á margan hátt að þurfa ekkert að vera að hugsa um nýjustu tækni einsog síma, sjónvörp, útvörp, tölvur, miðunartæki, hugsandi farartæki og þessháttar. Kannski er fólk búið að fá leið á öllu þessu dóti og vill hverfa sem lengst aftur í fortíðina. Nýjustu kvikmyndatökutækni er þó beitt og margar myndanna virðast verulega vel teknar en efnið er yfirleitt ekki upp á marga fiska. Reynt er líka að mata börnin á allskyns drekum, dýrum og flygildum. Boðskapurinn er eflaust góður en óttalega er þetta þunnur þrettándi.
Var áðan að hlusta á fréttir útvarpsins í sjónvarpinu. Um leið horfði ég á fyrirsagnaborðann neðst á skjánum. Eins og oft áður var ég með vitlaus gleraugu (eru ekki öll gleraugu vitlaus?) og sýndist ein fyrirsögnin vera á þessa leið: Ringulreiðin á bak við Seljalandsfoss... og komst ekki lengra. Svo áttaði ég mig á því að í stað ringulreiðarinnar var víst talað um gönguleið.
Einu sinni, líklega þegar ég var unglingur eða táningur, jafnvel krakki eða barn, hlustaði ég talsvert á útvarp. Þegar þulurinn sagði veðurhorfur til klukkan níu í fyrramálið, hélt ég að eftir það væru engar veðurhorfur. Veðurhorfur í mínum skilningi á þeim tíma var heldur óljóst hugtak. Þessvegna reyndi ég að vera vakandi og fylgjast vel með klukkan níu daginn eftir, því þá væri von á þessum veðurhorfum eða að þær færu. Ekki tókst þetta og ekki man ég nákvæmlega hvenær ég öðlaðist réttan skilning á þessu orði.
Ég man vel eftir þegar krakkar voru látnir ganga næstum sjálfala. Óttari Guðmundssyni geðlækni hefur orðið tíðrætt um þá tíma. Sóðaskapur ýmisskonar viðgekkst í gamla daga. Ekki þurfti að treysta til hreinlætis jafnmörgum þá og nú. Ekki er örgrannt um að Óttar sjái eftir þeim tímum þegar lyklabörnin voru og hétu. Nú eru bara aðrir tímar og foreldrar hugsa eflaust öðruvísi nú en þá. Auðvitað er brýnt fyrir börnum nú að gefa sig lítt á tal við ókunnuga. Kannski voru engir ókunnugir þá. Allir eru meira og minna ókunnugir núna og þar að auki á bílum.
Hef litlar áhyggjur af því að ég endurtaki mig mjög oft hér á blogginu. Þó kann það að vera þó ég taki ekki eftir því sjálfur. Hef ekki enn náð almennilega tökum á fésbókinni eða twitternum, enda er að mér sýnist alltaf verið að breyta þessum miðlum, og geðjast með því sem flestum, ímynda ég mér. Aftur á móti er Moggabloggið hæfilega íhaldssamt að þessu leyti fyrir mig. Samt er Sjálfstæðisflokkurinn sá eini af fjórflokknum sem ég hef aldrei kosið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.9.2017 | 13:10
2640 - Kötturinn sem klikkaðist
Kettir eru mér hugleiknari en hundar. Þessvegna las ég með athygli frásögnina af bæjarstjórakettinum í Hveragerði. Ég er líka ættaður úr Hveragerði. Meira að segja af hinni frægu Bláfellsætt og jafnvel með hinn merka Bláfellssvip sem Ágústa Eva skrifaði um á fésbókina um daginn. Ég ætlaði nú reyndar fremur að skrifa um klikkaða köttinn en Ágústu Evu. Líklega er búið að skrifa nóg um hana. A.m.k. þegar hún lék Sylvíu Nótt.
Mér finnst nú dálítið hart að dæma kattarvesalinginn til dauða bara af því að hann var í lifenda lífi mjög taugaveiklaður. Ég er allsekki að gera lítið úr vandræðum bæjarstjórans og fjölskyldu hans vegna þessa, þó ég segi þetta. Fremur ber að líta á þetta sem einskonar heimspekilega vangaveltu. Of mikil og áköf dýravernd getur komið illilega í bakið á okkur ef of langt er gengið. Við mennirnir þykjumst vera herrar sköpunarverksins og hver okkar sem er á samkvæmt því að geta tekið sér fullkomið vald yfir þeim dýrum sem á vegi okkar verða. Er það rétt og eðlilegt? Um það má efast. Þvílíku valdi hlýtur að fylgja ábyrgð. Berum við ekki ábyrgð á dýrunum, hvort sem þau eru villt eða ekki? Mér finnst það.
Þannig verða allar veiðar, sem ekki eru stundaðar af þörf, heimspekilega séð fordæmanlegar. Segja má að dráp á dýrum í sláturhúsum séu sprottnin af þörf okkar til að éta þau. Þörf getur líka verið á því að aflífa taugaveiklaðan kött. Ég er bara að tala um að við dæmum dýr ekki til dauða á mjög veikum eða heimskulegum forsendum. Læt ég svo þessum hugleiðingum lokið, þó vissulega mætti vel ræða þetta áfram og gott ef ég gerði það ekki einhverntíma einmitt á þessu bloggi mínu.
Einhver skrifaði á fésbókina nýlega að sér hugnaðist ekki að þeir kumpánarnir Kim-Jong-un og Donald Trump réðu því hvort yrði af kjarnorkustyrjöld eða ekki. Undir þetta er að sjálfsögðu hægt að taka. Munurinn á Norður-Kóreu og Bandaríkjunum er þó mikill. Annað ríkið er einræðisríki og þar eru mannréttindi fótum troðin. Auk þess að allt sem stjórnvöld (eða réttara sagt einræðisherrann) ákveða er sveipað leyndarhjúp og lokun. Þannig er þessu einmitt farið í Norður-Kóreu. Í Bandaríkjunum er aftur á móti næstum allt opið og frjálst. Byggt á lögum og réttvísi. Stundum (oft) finnst okkur Evrópubúum þó næsta mikillar íhaldssemi gæta í stjórnmálum þar. Mannréttindi eru samt í hávegum höfð þar í landi því er ekki hægt að neita.
Ég óttast lítið að til styrjaldar komi í þessum heimshluta þrátt fyrir allan hávaðann í kringum þessi tvö ríki. Ég trúi því einfaldlega ekki að áðurnefndir forystumenn séu svo skyni skroppnir að láta svo fara. Líklegra þykir mér að þetta sé einskonar framhald á kalda stríðinu svokallaða og bara sé verið að kanna hve langt er hægt að komast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)