2640 - Kötturinn sem klikkaðist

Kettir eru mér hugleiknari en hundar. Þessvegna las ég með athygli frásögnina af bæjarstjórakettinum í Hveragerði. Ég er líka ættaður úr Hveragerði. Meira að segja af hinni frægu Bláfellsætt og jafnvel með hinn merka Bláfellssvip sem Ágústa Eva skrifaði um á fésbókina um daginn. Ég ætlaði nú reyndar fremur að skrifa um klikkaða köttinn en Ágústu Evu. Líklega er búið að skrifa nóg um hana. A.m.k. þegar hún lék Sylvíu Nótt.

Mér finnst nú dálítið hart að dæma kattarvesalinginn til dauða bara af því að hann var í lifenda lífi mjög taugaveiklaður. Ég er allsekki að gera lítið úr vandræðum bæjarstjórans og fjölskyldu hans vegna þessa, þó ég segi þetta. Fremur ber að líta á þetta sem einskonar heimspekilega vangaveltu. Of mikil og áköf dýravernd getur komið illilega í bakið á okkur ef of langt er gengið. Við mennirnir þykjumst vera herrar sköpunarverksins og hver okkar sem er á samkvæmt því að geta tekið sér fullkomið vald yfir þeim dýrum sem á vegi okkar verða. Er það rétt og eðlilegt? Um það má efast. Þvílíku valdi hlýtur að fylgja ábyrgð. Berum við ekki ábyrgð á dýrunum, hvort sem þau eru villt eða ekki? Mér finnst það.

Þannig verða allar veiðar, sem ekki eru stundaðar af þörf, heimspekilega séð fordæmanlegar. Segja má að dráp á dýrum í sláturhúsum séu sprottnin af þörf okkar til að éta þau. Þörf getur líka verið á því að aflífa taugaveiklaðan kött. Ég er bara að tala um að við dæmum dýr ekki til dauða á mjög veikum eða heimskulegum forsendum. Læt ég svo þessum hugleiðingum lokið, þó vissulega mætti vel ræða þetta áfram og gott ef ég gerði það ekki einhverntíma einmitt á þessu bloggi mínu.

Einhver skrifaði á fésbókina nýlega að sér hugnaðist ekki að þeir kumpánarnir Kim-Jong-un og Donald Trump réðu því hvort yrði af kjarnorkustyrjöld eða ekki. Undir þetta er að sjálfsögðu hægt að taka. Munurinn á Norður-Kóreu og Bandaríkjunum er þó mikill. Annað ríkið er einræðisríki og þar eru mannréttindi fótum troðin. Auk þess að allt sem stjórnvöld (eða réttara sagt einræðisherrann) ákveða er sveipað leyndarhjúp og lokun. Þannig er þessu einmitt farið í Norður-Kóreu. Í Bandaríkjunum er aftur á móti næstum allt opið og frjálst. Byggt á lögum og réttvísi. Stundum (oft) finnst okkur Evrópubúum þó næsta mikillar íhaldssemi gæta í stjórnmálum þar. Mannréttindi eru samt í hávegum höfð þar í landi því er ekki hægt að neita.

Ég óttast lítið að til styrjaldar komi í þessum heimshluta þrátt fyrir allan hávaðann í kringum þessi tvö ríki. Ég trúi því einfaldlega ekki að áðurnefndir forystumenn séu svo skyni skroppnir að láta svo fara. Líklegra þykir mér að þetta sé einskonar framhald á kalda stríðinu svokallaða og bara sé verið að kanna hve langt er hægt að komast.

IMG 1058Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband