2545 - Ný ríkisstjórn

Auðvitað ber hæst í fréttum núna allt sem tengist falli stjórnarinnar. Heldur heimskulegt þykir mér flest af því sem sagt er opinberlega um það mál. Ætla þessvega ekki að fjölyrða um það. Nóg er nú samt. Kannski ég segi samt örlítið frá því hvernig þetta snerti mig. Horfði á fréttirnar og kastljósið á fimmtudagskvöldið og var ákveðið þeirrar skoðunar að dómsmálaráðherranum yrði fljótlega gert ljóst að hún yrði að segja af sér. Ekki má bera vammir og skammir á sjálfan landsföðurinn. A.m.k. má ráðherra í hans eigin ríkisstjórn ekki gera það. Átti von á að stjórnin stæði þetta mál sæmilega af sér og þessu yrði bara sópað undir teppið eins og venjulega er gert. Fór snemma að sofa og vissi ekkert af neinum fundum. Morguninn eftir fór ég í langa morgungöngu eins og venjulega. Frétti ekkert af stjórnarslitum fyrr en ég kom heim. Svoleiðis var nú það.

Var áðan að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig. Auðvelt væri sennilega að týna sjálfum sér í slíkri vitleysu. Engum er ætlandi að lesa yfir tvö þúsund og sexhundruð blogg í einni striklotu. Var samt alveg hissa á því hvað ég hef oft komist vel að orði hér áður og fyrr. Hef jafnvel verið sannspár stundum, þó ég sé enginn spámaður.

Sú ályktun sem ég dreg af atburðum síðustu daga er sú að nýtt vald sé orðið til. Það er fimmta valdið eða fésbókarvaldið. Þar á ég við félagslegu miðlana eins og þeir leggja sig. Nafnið skiptir engu máli. Það vald sem fólkinu í landinu er fengið með hinni beinu aðkomu sinni að stjórn landsins er svo sannarlega fimmta valdið. Fjórða valdið sem svo fjálglega hefur verið talað um, sem skv. skilgreiningu eru allir þeir gamaldags fjölmiðlar sem í landinu eru. Hvort sem um er að ræða dagblöð, sjónvarp, útvarp, netblöð eða annað verða nú að bíta í það súra epli núna að ráða nánast engu fyrir fólkinu í landinu, sem í krafti sinnar netþekkingar ræður núna því sem það vill ráða.

Nú er kominn mánudagsmorgunn. Fór áðan í birtingu í langa morgungöngu. Í byrjun var hellirigning en úr því rættist fljótlega. Rakinn var samt nógur til þess að ánamaðkarnir voru fjölmennir á gangstígunum. Er annars hægt að segja að ánamaðkarnir hafi verið „fjölmennir“? hefðu þeir ekki átt að vera „fjölmaðkaðir“? Bara spekúlasjón.

Nú er kominn tími til að fara að spá í næsta ríkisstjórnarmunstur. Líklega gegnir Guðni Bjarna með þingrofið og svo má reikna með að kosningar verði 28. október. Sjálfstæðisflokkurinn fær sennilega sín 25 % eins og hann er áskrifandi að. Aðrir fá líklega minna. Sjálfstæðismenn og Framsókn munu síðan að öllum líkindum mynda stjórn með aðstoð Flokks fólksins eða Viðreisnar sem báðir eru hvort eð er einskonar útibú frá Flokknum Sjálfum. Kannski þarf báða til, en það mun engum vandræðum valda. Vinstri menn munu eflaust kalla þetta svartsýnisspá og sjá allt annað fyrir sér.

IMG 0977Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband