Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

2627 - Að skeina sig með Costco-pappír

Um það sem nú er að eiga sér stað í Hvíta húsinu vil ég bara segja að það er erfitt að skipta um forseta en hann getur skipt útaf eins og honum sýnist. Þetta er alveg eins og í fótboltanum, nema hvað það virðist ekki flókið að losa sig við þjálfarann en talsvert flóknara að losna við heilan forseta Bandaríkjanna. Á endanum hugsa ég þó að Bandaríkjamenn losi sig við þennan ónýta og sjálfumglaða forseta sem þeir hafa kosið yfir sig í einhverju bríaríi. Geri þeir það ekki er mér að mæta.

„Veðrið er svosem ágætt, en glitskýin láta á sér standa,“ sagði veðurfræðingurinn og baðaði út öllum öngum. „Þau eru nefnilega algengust á þessum tíma,“ sagði hann og signdi sig.“ Nú er þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum að nálgast og þá er alltaf rigning.“ sagði ég glottandi. Svo lauk þessu samtali jafn skyndilega og það hafði hafist. Merking þess var engum ljós, þó hafði það áreiðanlega valdið einhverju.

„Jæja þá í þetta sinn.
Þér er heimil ólin.
En hvenær koma kæri minn,
kakan þín og jólin?“

Ég man vel eftir þessari vísu. Skildi samt aldrei hvað hundurinn var að tala um jólin í þessu sambandi. Eftir mínum skilningi var jólakaka bara jólakaka, en tengdist jólunum ekki á nokkurn hátt. Þegar ég loksins sá þetta skrifað (eða prentað) einhversstaðar þá skildi ég auðvitað málið. Man samt vel eftir þessum misskilningi af einhverjum ástæðum.

Eftir því sem Eiríkur sjálfur segir, er klósettpappírinn leynivopn Costco. Allir fara þangað til að fá sér skeiniblöð og taka svo ýmislegt annað í leiðinni. Sumt er dýrt og annað ódýrt. Dýrust eru samt meðlimakortin (úr ekta skeinipappír) því það er ekki hægt að fá neitt fyrir þau. Kósettpappírinn er samt bæði góður og ódýr eftir því sem Eiríkur segir. Annars er bæði hollt og gott að fylgjast með Eiríki Jónssyni því hann fær allar kjaftasögurnar beint í æð og trúir þeim jafnvel sumum. Og klósettpappírinn er bæði sterkur, breiður og góður fyrir utan það að vera ódýr. Um það get ég borið vitni, alveg prívat og persónulega. Munur eða hroðinn sem seldur er dýrum dómum í Bónus sem klósettpappír.

Það er nú svoleiðis með mig, sagði Jón Alfreðsson á sinni tíð á Bifröst. Gott ef hann var ekki herbergisfélagi þeirra Baldurs Óskarssonar og Árna Reynissonar á tvöhundruðogeinum. Þó það blasi nú ekki við af samhenginu átti hann við með því, að kannski væri hann svolítið hinsegin.

Nú er ég farinn að nálgast síðuskilin, svo það er sennilega best að hætta.

IMG 1386Einhver mynd.


2626 - Hvíldu þig, því að hvíld er góð

Steinbakað súrdeigsbrauð. Sólbakaðir sumartómatar. Niðurrigndir og maðkaðir kálhausar, sem þú veist ekkert hvaðan koma. Hávaðaprófað og vítamínbætt morgunkorn. Smash-style íslandsnaut á epalverði. Kolruglaðir kindaskrokkar. Útúrfullir apakettir með 50 til 70 prósent afslætti. Möguleikarnir eru endalausir og þú veist ekkert hvaðan á þig stendur veðrið. Allir lofa öllu. Mikilvægt er þó að sjá Bónus fyrir Costco. Annars átti þetta ekki að vera áróður. Svona er þetta bara. Öllum fjandanum er lofað. Mikilvægt er að finna áhrifamikil orð. Hver vill t.d. Öfgafullt áfengi. Bragðlausan bjór. Ropandi ræpubaunir eða eitthvað þvíumlíkt?

Þetta setti ég á fésbókina því mér þótti það ekki mega bíða:

Eftirfarandi klausa er úr Fréttablaði dagsins (forystugrein) og ég vil bara vekja frekari athygli á þessu. Þetta er hvorki íslenska né enska og höfundurinn má svo sannarlega skammast sín fyrir að láta annað eins frá sér fara.

„Helstu hagræðingarmöguleikarnir eru: hagstæðari innkaup hjá Olís og Lyfju, sameining búða, lækkun kostnaðar á headoffice og hugsanleg fækkun starfsfólks. Augljósustu hagræðingarmöguleikarnir eru í overhead, sem er þó frekar lean hjá Högum. Slíkur sparnaður er þó ekki make-it break-it á value-added í dílnum.“

Einhverja athygli vakti það þar. Sumir héldu líklega að ég væri að gagnrýna Fréttablaðið en svo var ekki. Held að þarna hafi verið vitnað í skýrslu sem samin var fyrir Landsbankann.

Kannski er versti gallinn við að hafa Tromparann fyrir forseta Bandaríkjanna sá að hann eykur svo sannarlega á hatrið milli hópa í landinu. Eða réttara sagt löndunum. Því vitanlega eru Bandaríkin mörg ríki. Þau hafa samt komið sér saman um að hafa ýmislegt, svosem forsetann, sameiginlegt og auka með því slagkraftinn. Helsti munurinn á ESB og USA sem ég sé er sá að þó svo ESB þróist í átt til eins ríkis þá má áfram gera ráð fyrir að lönd geti slitið sig frá sambandinu. (Brexit).

Líðan fólks er að mestu undir því sjálfu komin. Það er alltaf hægt að finna eitthvað til að vera óánægður með og það er líka alltaf hægt að finna eitthvað til að vera ánægður með. Galdurinn er að hafa sæmilegt jafnvægi þarna á milli. Eiginlega er ekkert gott eða vont í sjálfu sér. Allt fer eftir því hvernig á það er litið.

Þegar manni verður hugsað til þess hvað foreldrar manns hafa þurft að leggja á sig til að koma manni til manns, fallast manni hendur. Þegar maður sér síðan hvað börnin manns leggja á sig til þess að koma sínum börnum til manns falla hendurnar alveg af manni. Býst við að þegar maður sér þessa sömu sjón oftar verði maður alveg handalaus.

Ég sé núna að ekki hefur orðið úr því að ég skrifaði neitt í samræmi við fyrirsögnina. Það verður bara að hafa það. Kannski geri ég það seinna. Nú er þetta orðið svo langt og klukkan svo margt að ekki er neinu við þetta að bæta.

Einhver mynd. (Ekki frá í gær samt)IMG 1484


2625 - Mayweather vs. McGregor

Asskoti eru þessi blogg orðin þunnur þrettándi hjá mér. Eiginlega ætti ég að taka meira uppí mig. Svo virðist pólitíkin vera fjandi vinsæl um þessar mundir og náttúrulega Costco. Um bæði þessi fyrirbrigði gæti ég skrifað ýmislegt. Held að reyndin með Costco verði sú að áður en langt um líður verði það bara þrír stórir alilar sem stjórni dagvörumarkaðnum hérna á höfðuborgarsvæðinu. Já, það nær eiginlega yfir Borgarfjörðinn og talsvert stóran hluta Suðurlandsins. Altsvo höfuðborgarsvæðið. Hinir mega víst éta það sem úti frýs. Þessir þrír aðilar sýnist mér að verði Costco, Bónus og Krónan. Hægt verður að treysta því að lágt verð verði þar og vöruúrvalið sæmilegt. Læt ég svo útrætt um matvælamarkaðinn.

Rússadindlamálið er alltaf að vinda uppá sig. Þó held ég að Trump verði ekki ákærður fyrir það sem gerst hefur í því sambandi, en aftur á móti gætu einhverjir af nánustu samverkamönnum hans lent illa í því. New York Times virðist hafa betra lag á því að fletta ofanaf málum sem þetta snerta, en önnur blöð. Barátta Trump við fjömiðla næstum alla tefur mjög fyrir honum við allt sem hann vill gera. Einnig er samband hans við Repúblikana á þinginu ekki sérlega gott. T.d. gengur GOP afar illa að losa sig við Obamacare og koma með eitthvað bitastætt í staðinn. Við Evrópumenn eigum afar erfitt með að skilja hvað um er deilt á þessu sviði. Ég held að republikönum finnist Obamacare vera of dýrt. Bandarískar stjórnir hafa samt áratugum saman safnað skuldum og komist upp með það vegna þess að svo margar þjóðir nota dollara í milliríkjaviðskiptum sínum. Þannig velta þeir óbeinlínis fjárhagsvanda sínum yfir á aðra.

Mayweather vs McGregor bardaginn í ágúst verður varla sá bardagi aldarinnar sem auglýsendur sjá fyrir sér. Pay per view á víst að vera um 90 dollarar og ég held helst að fyrirframsala sé undir væntingum. Kannski er enginn sérstakur áhugi fyrir bardaga þessum. Eiginlega er hann of fyrirsjáanlegur. McGregor mun áreiðanlega byrja eins og grenjandi ljón, en Mayweather verður varla í vandræðum með að verjast honum og vinna þetta svo með hægðinni. Já, og svo tapaði Gunni víst eins og ég bjóst alltaf við.

Veit ekki hvern fjárann ég ætti að skrifa um. Er líka með plástur á tveimur vélritunarfingrum sem ég setti þar vegna þess að skyndilega og óforvarendis komu göt á húðina á þeim puttum. Satt að segja er þetta líka að verða alveg nógu langt til að setja upp.

IMG 1488Einhver mynd.


2624 - Ólafur Arnarson

Bandaríkjamenn treysta ekki sínum eigin stjórnvöldum til nokkurs hlutar. Þessvegna er það sem allskyns sjálfshjálparbækur, prepping, distropiubækur og þessháttar eru svona vinsælar þar. Kannski eru þeir samt nokkuð margir ultra-hægrisinnarnir sem treysta Donald Trump. Hætt er samt við að stefna hans leiði til einangrunar. Þó hernaðaryfirburðir bandaríkjanna séu talsverðir núna og þeir líti á sig sem lögreglu heimsins, er ekki víst að svo verði um aldur og æfi. Þeir (eða a.m.k. Trump og hans menn) líta greinilega á sig sem stjórnendur heimsins og þykjast vera ákaflega liberal. Eru samt óhóflega hægri sinnaðir pólitískt séð á sama hátt og góða fólkið eða a.m.k. sumt af því virðist vera óhóflega vinstri sinnað. Annars er vel hægt að týna sjálfum sér í þessari pólitík hvort sem hún er glóbal eða lókal. Putin er t.d. ekki vitund vinstri sinnaður. Eins og Trump virðist hann líta á völdin sem takmark í sjálfu sér.

Eitt er það vandamál sem allmjög hefur verið til umræðu að undanförnu. Það er það sem afkomendur Nóbelsskáldsins og fleiri hafa kallað ofsóknir út yfir gröf og dauða. Víst er að á fyrri árum voru tekjur hans skattlagðar á annan hátt en margra annarra rithöfunda, enda má gera ráð fyrir að þær hafi verið mun meiri. Hingað til hefur höfundarréttur listamanna ekki verið talinn til eigna. Nú bregður hinsvegar svo við að yfirvöld vilja telja höfundarrétt Halldórs Laxness til eigna uppá 28 milljónir króna, hefur mér skilist, og skattleggja hann samkvæmt því. Vandséð er að svo skuli gert og vert væri að rökstyðja slíka stefnubreytingu mun betur en gert hefur verið. Rök kunna þó að vera fyrir því að þetta skuli gert og er það ekki ætlun mín að blanda mér í slíkar rökræður.

Ef litið er á allt það oflof sem sést hefur og heyrst í fjölmiðlum landsins útaf kvennalandsliðinu í knattspyrnu að undanförnu gæti það orðið beinlínis vandræðalegt ef þær stæðu sig ekki vel á Evrópumeistaramótinu sem haldið verður von bráðar. Reyndar held ég að lítil hætta sé á því að þær standi sig ekki vel þar...... en samt. Sjálfur hefði ég viljað meiri hófsemi. Ekki verður samt á allt kosið og feginn vildi ég að þær efasemdir sem ég hef um frammistöðuna reyndust marklausar með öllu.

Ekki er hægt að segja að veðrið hafi leikið við okkur Íslendinga að undanförnu. Mér finnst hafa verið alltof kalt og úrkomusamt miðað við árstíma. Öll von er samt ekki úti enn og sumarið getur orðið alveg þokkalegt. Án alls efa mætti fjölyrða miklu meira um veðrið en gert er hér. Ýmsir hafa mikla þekkingu á öllu veðurtengdu og mjög gaman af að tala um veðrið. Sjálfum finnst mér það heldur tilgangslítið og skila litlu. Að mínum dómi er veðrið annaðhvort vont eða gott, Best er að taka því eins og hverju öðru hundsbiti ef það er slæmt, en þakka forsjóninni fyrir gott veður.

Mér fannst það strax dálítið undarlegt þegar Ólafur Arnarson var kosinn formaður Neytendasamtakanna og átti ekki von á að það yrði samtökunum til góðs. Þó fór hann nokkuð vel að stað og maður var farinn að sætta sig við að hafa haft rangt fyrir sér í þessu. Svo fór allt í loft upp í samtökunum núna nýverið og því miður virðist ég hafa haft á réttu að standa í upphafi. Finnst samt að samtökin mættu vera öflugri og satt að segja er það engin hemja að ASÍ skuli hafa stolið frá þeim glæpnum.

IMG 1488Einhver mynd.


2623 - Trump, Putin o.fl.

Mér finnst nú fésbókin vera farin að færa sig uppá skaftið. Hingað til hefur hún látið sér nægja að sýna manni minningar frá fyrri árum, en nú er það frá síðastliðnum mánuði. Ég kann bara ekki við þetta og fýla mín útí fésbókina fer heldur vaxandi við þetta. Annars er svolítið einkennilegt hvað mér er uppsigað við fésbókarfjárann. Samt get ég ekki án hennar verið. Tilkynningarnar þar eru alveg að bera mig ofurliði. Vitanlega er þetta sjálfskaparvíti, en ég get bara ekki að þessu gert. Sumir virðast ekki geta án þess verið að deila öllu mögulegu, hvort sem það eru minningar eða eitthvað annað. Venjulega tekst mér ekki að klára allar tilkynningarnar. Þær leiða mig bara eitthvert annað. Og aldrei minnist ég þess að hafa skrunað alla leið og lesið allt sem fésbókin, eða fólkið þar, býður uppá. Les jafnvel netblöðir ekki nema stundum. Ef eitthvað er nógu krassandi þá má reikna með að margir deili því og svo les ég yfirleitt Fréttablaðið og horfi á fréttirnar í sjónvarpinu.

Þessa dagana er ég að lesa ansi merkilega bók. Hún heitir „Stofuhiti“ og er eftir Berg Ebba. Hann kemst oft skemmilega að orði. Þetta er t.d. úr bókinni: Alvöru dauði er svo hræðilega hversdagslegur. Það spýtist ekkert blóð, jafnvel þó að fólk sé skotið með hríðskotabyssum. Fólk lyppast bara niður, eins og áhugaleikarar með vonda kjarasamninga. Það hreyfir við manni, en ekki á sama hátt og stílfærða útgáfan.

Þetta með vondu kjarasamingana er alveg óborganlegt. Sjálfur minnist ég þess að þegar hestur var skotinn beint í ennið þá hrundi hann niður á sekúndubroti og það spýttist ekkert blóð. Þá var ég sennilega á milli tektar og tvítugs og ég man að þetta kom mér mjög á óvart. Við krakkarnir vildum líka fyrir hvern mun sjá þegar rollurnar voru skotnar í sláturtíðinni, en máttum það allsekki. Annars er þetta tabú á dauðanum hér á Vesturlöndum alveg stórmerkilegt. Fátt er hversdagslegra og þetta á fyrir okkur öllum að liggja.

Á sínum tíma (1986) hittust þeir Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev í Reykjavík. Sá fundur er af sumum talinn upphaf endaloka kalda stríðsins. Þessvegna m.a. er fundar þeirra Trumps og Putins í Hamborg beðið með nokkurri eftirvæntingu af mörgum. Sumt bendir til þess að þeir gætu átt skap saman, en sumt bendir í aðra átt. Aðstaða Putins er að mörgu leyti betri. Samband hans við pressuna í heimalandinu er a.m.k. betra. Svipað má segja um njósnastofnanir landanna. Kannski er kuldinn í þeirra samskiptum að komast á það stig að nýtt kalt stríð sé í vændum. Varla kemur þeim saman um Ukrainu, Sýrland, Kóreu og Kína. Japan og flest ríki í Evrópusambandinu virðast hafa horn í síðu Trumps. Sama má reyndar segja um flest NATO-ríki nema helst Pólland. Kanada er kannski mótfallið Trump en verður þó að gæta sín ákaflega vel.

Kettlingurinn Guðbrandur Logi Högnason er kominn í heimsókn enn og aftur. Gott ef hann er ekki bara farinn að kunna sæmilega við sig hérna. A.m.k. veit hann vel hvar maturinn og sandkassinn eru.

IMG 1500Einhver mynd.


2622 - Bjarna-Dísa (einu sinni enn)

Þeir sem ósleipir eru í stafsetningu skrifa oftast lítið. Vel getur verið ástæða til að örva þá til skrifta því þeirra hugmyndir geta verið alveg jafngóðar eða betri en hinna. Þessvegna er leiðréttingarbannið tilkomið á Netinu. Annars er ljósmyndin og þó einkum vídeómyndin að verða ritháttur æskunnar. Stórir stafir og litlir rugla mig stundum í ríminu. Einhverntíma verður flámælið viðurkennt og sömuleiðis þágufallssýkin og beygingarflóttinn í sérnöfnum. Ef menn nenna hinsvegar ekki að lesa yfir eða láta lesa yfir (forrit mörg geta gert þetta) þá er þeim varla viðbjargandi á þessu sviði. Breytingar í stafsetningu og framburði eiga sér stað einstöku sinnum og ég hræðist þær ekki. Hinsvegar þykir mér sú aðferð að láta Gúgla ráða þessu vera afleit. Greinarmerkjasetninu er ég ósleipur í. Það er helst að ég noti punkta í óhófi. Kannski eru kennarar hættir að vera góðir í stafsetningu. Einu sinni voru þeir það.

Þann 4. júlí 2014 skrifaði ég eftirfarandi:

Frásögnin um Bjarna-Dísu er ein ógurlegasta draugasaga allra tíma. Einhver áhrifamesta og átakanlegasta draugasaga sem ég hef lesið er frásögnin af Bjarna-Dísu og örlögum hennar. Í rauninni er þetta sennilega engin draugasaga heldur aðeins frásögn af ógnvekjandi og hrikalegum atburðum sem urðu á Austurlandi undir lok átjándu aldar. Frásögnin af þessu máli er þó oft flokkuð með draugasögum og sem slík í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Á vef Netútgáfunnar http://www.snerpa.is/net/thjod/bjarnadi.htm  má lesa þessa frásögn orðrétta. Bjarna-Dísa hét Þórdís og var Þorsteinsdóttir. Hún varð úti á Fjarðarheiði þegar hún var um tvítugt. Bjarni bróðir hennar dó einhverntíma laust eftir 1840.

Eins og fyrr segir er hægt að lesa þessa frásögn alla á vef Netútgáfunnar. Þar er ekki annað að sjá en þetta sé talin draugasaga og ekkert annað. Þó er í miðri frásögninni  eftirfarandi klausa með breyttu letri og er hún örugglega frá öðrum komin en upprunalegum skrásetjara frásagnarinnar. Málsgreinin er þannig:

Aðrar sögur segja, að Þorvaldur hafi brotið Dísu á bak aftur, til þess að hún væri kyrr, og hætti hún þá að orga. Margar eru fleiri ljótar sagnir um viðureign þeirra. Þorvaldur var maður vandaður, en með hjátrú eins og margir á 18. öld, og mun það réttast, sem hann sagði frá sjálfur. Sögur segja, að þau Bjarni hafi haft brennivínskút. Mun Dísa hafa verið drukkin og lifað, en Þorvaldur gert út af við hana í hjátrúaræði.

Þau systkin Bjarni og Þórdís voru á ferð frá Eskifirði, þar sem Þórdís var í vist, yfir til Seyðisfjarðar en þar átti Bjarni heima. Þórdís var fremur illa klædd og veður fór versnandi með snjó og fjúki. Loks villtust þau og Bjarni reyndi að grafa þau í fönn en skyndilega sá hann lítið eitt út úr kafaldinu og vildi athuga hvort hann kannaðist við sig. Urðu þau systkin viðskila við þetta og Bjarni fann hana ekki aftur en komst við illan leik til byggða.

Ýmissa orsaka vegna var það síðan ekki fyrr en að fimm dægrum liðnum sem hægt var að fara og vitja um Þórdísi. Allir töldu að hún hlyti að vera dáin en líklega hefur hún ekki verið það, því þegar til átti að taka sýndi hún merki um líf. Það var reyndar talið tákn þess að hún mundi í fyllingu tímans ganga aftur og er í þjóðsögunni greint frá því í alllöngu máli hvernig tókst á endanum að ráða niðurlögum hennar. Það hrikalega við þessa sögu er að Þórdís hefur næstum áreiðanlega verið lifandi þegar komið var til að ná í líkið af henni en sú draugatrú sem tröllreið öllu á þessum tíma varð þess valdandi að í stað þess að reynt væri að bjarga henni var hún drepin.

Auðvitað er mér frásögnin af Bjarna-Dísu hugleikin. Þó er ég ekki Austfirðingur. Og að ég skuli nota þetta tækifæri til að auglýsa Netútgáfuna finnst mér fullkomlega afsakanlegt.

IMG 1513Einhver mynd.


2621 - Allir væla

Ferðamannaþjónustan og útgerðin væla nú sem aldrei fyrr og vilja fyrir hvern mun fá gengisfellingu. Ýmsum ráðum er hægt að beita til að fella gengið þó ekki verði það eins og í gamla daga þegar ríkisstjórnin tilkynnti bara einfaldlega að gengið hefði verið fellt um 10 til 20 prósent eða meira eftir að búið var að láta alla flokksgæðingana vita að þetta stæði til. Þetta gerist víst öðruvísi núna. Í orði kveðnu er gengið nefnilega frjálst og það er markaðurinn sem ræður þessu. Stjórnvöld tregðast við að hlýða þeim sem öllu vilja ráða og grátur ferðaþjónustunnar er að verða ansi hávær. Framámenn þar þykjast sjá framá að ferðamönnum fækki mjög vegna sterkrar krónu og að gróðinn verði ekki eins mikill í framtíðinni einsog verið hefur undanfarið. Þeir sem hamast hafa við að byggja hótel gætu jafnvel tapað.

Setti blogg upp í nótt þegar ég var andvaka klukkan að verða tvö. Fer nefnilega oftast að sofa um ellefuleytið. Ég er orðinn svo gamall. Las þetta blessaða blogg yfir og sá mér til skelfingar og léttis að ég hafði ekki minnst á Tromparann sjálfan í blogginu þó hann hamist við að láta á sér bera. Nú er hann kominn í alvöru stríð við Pressuna og gæti vel tapað því. Bandaríkjamenn bera samt talsverða virðingu fyrir forseta sínum og hann gæti alveg unnið þó óvinsæll sé. Hann ber aftur á móti takmarkaða virðingu sjálfur fyrir embættinu og hagar sér oft eins og óknyttaunglingur.

Fróðlegt verður að sjá hvernig stríðið milli Katar og nágrannaríkjanna endar. Bandaríkjamenn vita ekki í hvern fótinn þeir eiga að stíga. Trump virðist þó hafa stigið í Saudi-Arabíu fótinn, en með því gefur hann Tyrklandi, sem er annað einveldisstórveldi á svæðinu langt nef. Í Egyptalandi sigraði Bræðralag múslima í nánast frjálsum kosningum fyrir nokkrum árum en hershöfðinginn Sísí fríkaði út og rændi völdum þar og styður nú Saudi-Arabíu í fordæmingu á Katar. Annars eru milliríkjastjórnmál svo flókin á þessu svæði að erfitt er að átta sig á nokkru. Samanber stríðið í Sýrlandi þar sem allir virðast berjast við alla. Kalífadæmið er samt sennilega fyrir bí. Kúrdafóturinn á Trump bandaríkjaforseta er sennilega lamaður.

Hingað kom áðan pípari því hitakerfið var í messi og þar að auki var blöndunartækið á eldhúsvaskinum laust. Eigum eftir að sjá hvernig hitakerfið artar sig. Annars er veðrið bara ágætt hérna núna, einkum þó ef sólin lætur sjá sig.

Skátar – verum kátar. Mér finnst þetta orð vera karlkyns, en kannski er það að verða kvenkyns. Kyn orða eru oft ansi merkileg. Minnist þess að ég hló á sínum tíma mikið að því að þýska orðið Madschen (með tveimur punktum yfir a-inu þó), sem ég held að þýði stúlka skuli vera hvorugkyns. Slík sérkennilegheit er samt örugglega að finna í íslenskunni líka. Vil helst ekki muna eftir neinu slíku.

Einu sinni í fyrndinni (eftir 1997 þó) setti ég á vefsvæði Netútgáfunnar upplýsingar um tekjur ýmissa Íslendinga og raðaði þeim eftir kúnstarinnar reglum með aðstoð Excel eða Multiplans. Mér er engin launung á því núna að þær voru frá blaðinu FRJÁLS VERZLUN komnar. Ritstjóri þess blað held ég að þá hafi verið Benedikt sá Jóhannesson sem fjármálaráðherra er núna og hann hringdi í mig og hafði svo mjög í hótunum við mig að ég þorði ekki annað en að taka tekju-upplýsingar þessar niður. Hann átti þær nefnilega að mér skildist.

IMG 1520Einhver mynd.


2620 - Lestin til Keflavíkur o.fl.

Ég sem hélt að Borgarlínan og járnbrautarlestin til Keflavíkur væri sami hluturinn. Svo er víst ekki. Það eina sem þessir hlutir eiga sameiginlegt er víst að báðir eru jafnvitlausir. Einhverntíma heyrði ég að Norðmenn væru í vandræðum með að láta lest frá Osló til Gardemoen bera sig. Mér dugar alveg að vita þetta. Ekki held ég að við Íslendingar gerum betur. Álnarlangar útskýringar og útreikningar í ótal exel-skjölum bæta þar engu við. Þetta var um járnbrautarlestina til Keflavíkur. Sennilega og vonandi er jafnlangt í hana og í Sundabrautina. Ætli það verði ekki bara talað um þessa járnbraut næstu áratugina. Mér segir svo hugur um.

Borgarlínan sýnist mér snúast einkum um að leggja sérstaka vegi fyrir strætisvagna eða kannski sporvagna og láta þá fá sérstakar akreinar (svona eins og fyrirmennirnir í Moskvu hafa) svo þeir geti brunað framúr veslingunum sem hírast í umferðarteppunum. Vel væri hægt að laga og bæta teppurnar með svolítilli útsjónarsemi. Jafnvel að útrýma þeim. Kannski er þetta álíka vitlaust og járnbrautarlestin en hugsanlega mun ódýrara. Ekki veit ég hvort úr þessu verður en allt stefnir í að óviðunandi sé að búa í Reykjavík án þess að eiga bíl miðað við óbreytt ástand. Já, eftir að ég flutti hingað uppá Skaga finnst mér umferðin á Reykjavíkursvæðinu beinlínis ógnvænleg.

Um daginn var að ég held viðtal við einhvern norskan rithöfund í sjónvarpinu (eða var það kannski í útvarpinu). Ég kannaðist hvorki við höfundinn eða bókina sem ég held að hann hafi skrifað. Eftirá hefur þetta viðtal verið mikið á milli tannanna á fólki, en svo einkennilega vill til að ekkert hefur verið rætt um viðtalið sjálft. Sennilega skipti það litlu máli og hugsanlega var það nauðaómerkilegt. Held samt að það hafi verið á besta tíma í sjónvarpinu. Eða strax á eftir fréttum sem er óvenjulegt með viðtöl. Venjulega eru þar engilsaxneskir gamanþættir sem auðvelt er að sleppa. Nei, það hefur verið mikið rætt um það á hvaða tungumáli viðtalið fór fram. Skilst að það hafi verið á ensku, en hvorki á norsku né íslensku. Vonandi hefur það samt verið textað. Skil eiginlega ekkert í þessu máli.

Sjálfsagt eru næstum allir sammála um að svokallað Kjararáð sé óalandi og óferjandi. Er þá ekki hægt að búast við því að ákvarðanir þess verði leiðréttar. Nei, það er engin leið að gera ráð fyrir því. Íslendingum finnst gaman að láta kvelja sig. Misrétti allskonar er valdastéttinni nauðsynlegt. Af illri nauðsyn fellst hún á að kosningar séu haldnar á fjögurra ára fresti. Líklega er skoðun hennar sú að auðveldara og ódýrara sé að telja fáeina nýja þingmenn eða bæjarfulltrúa á að láta valdaöflin í landinu ætíð njóta vafans, en að afnema þau réttindi sem margir telja nauðsynlegt að hafa. Vel sé hægt að ná helstu markmiðum þrátt fyrir það.

Kannski ég fari að stefna að því að blogga oftar en ég hef gert að undanförnu. Enn er ég dálítið upptekinn af því að fara út að ganga flestalla morgna. Stundum fer ég ekki fyrr en svona klukkan níu eða tíu en oftast um sjöleytið. Reyni enn að ná því að fara ca. 5 kílómetra eða vera á gangi í svona klukkutíma. Er samt alls ekkert að flýta mér eða keppast við að fara sem lengst eða hraðast. Hvíli mig oft svona tvisvar til þrisvar og fer oftast sömu eða svipaða leið. Þó er það ekki undantekningalaust. Eflaust gæti ég fjölyrt meira um þessar gönguferðir mínar, en ætla að geyma það þangað til seinna. Helst af öllu vil ég nefnilega vaða úr einu í annað. Það er minn stíll.

Hélt endilega að ég væri búinn að pósta þessu, en svo var víst ekki. Geri það hér með.

IMG 1580Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband