2620 - Lestin til Keflavíkur o.fl.

Ég sem hélt að Borgarlínan og járnbrautarlestin til Keflavíkur væri sami hluturinn. Svo er víst ekki. Það eina sem þessir hlutir eiga sameiginlegt er víst að báðir eru jafnvitlausir. Einhverntíma heyrði ég að Norðmenn væru í vandræðum með að láta lest frá Osló til Gardemoen bera sig. Mér dugar alveg að vita þetta. Ekki held ég að við Íslendingar gerum betur. Álnarlangar útskýringar og útreikningar í ótal exel-skjölum bæta þar engu við. Þetta var um járnbrautarlestina til Keflavíkur. Sennilega og vonandi er jafnlangt í hana og í Sundabrautina. Ætli það verði ekki bara talað um þessa járnbraut næstu áratugina. Mér segir svo hugur um.

Borgarlínan sýnist mér snúast einkum um að leggja sérstaka vegi fyrir strætisvagna eða kannski sporvagna og láta þá fá sérstakar akreinar (svona eins og fyrirmennirnir í Moskvu hafa) svo þeir geti brunað framúr veslingunum sem hírast í umferðarteppunum. Vel væri hægt að laga og bæta teppurnar með svolítilli útsjónarsemi. Jafnvel að útrýma þeim. Kannski er þetta álíka vitlaust og járnbrautarlestin en hugsanlega mun ódýrara. Ekki veit ég hvort úr þessu verður en allt stefnir í að óviðunandi sé að búa í Reykjavík án þess að eiga bíl miðað við óbreytt ástand. Já, eftir að ég flutti hingað uppá Skaga finnst mér umferðin á Reykjavíkursvæðinu beinlínis ógnvænleg.

Um daginn var að ég held viðtal við einhvern norskan rithöfund í sjónvarpinu (eða var það kannski í útvarpinu). Ég kannaðist hvorki við höfundinn eða bókina sem ég held að hann hafi skrifað. Eftirá hefur þetta viðtal verið mikið á milli tannanna á fólki, en svo einkennilega vill til að ekkert hefur verið rætt um viðtalið sjálft. Sennilega skipti það litlu máli og hugsanlega var það nauðaómerkilegt. Held samt að það hafi verið á besta tíma í sjónvarpinu. Eða strax á eftir fréttum sem er óvenjulegt með viðtöl. Venjulega eru þar engilsaxneskir gamanþættir sem auðvelt er að sleppa. Nei, það hefur verið mikið rætt um það á hvaða tungumáli viðtalið fór fram. Skilst að það hafi verið á ensku, en hvorki á norsku né íslensku. Vonandi hefur það samt verið textað. Skil eiginlega ekkert í þessu máli.

Sjálfsagt eru næstum allir sammála um að svokallað Kjararáð sé óalandi og óferjandi. Er þá ekki hægt að búast við því að ákvarðanir þess verði leiðréttar. Nei, það er engin leið að gera ráð fyrir því. Íslendingum finnst gaman að láta kvelja sig. Misrétti allskonar er valdastéttinni nauðsynlegt. Af illri nauðsyn fellst hún á að kosningar séu haldnar á fjögurra ára fresti. Líklega er skoðun hennar sú að auðveldara og ódýrara sé að telja fáeina nýja þingmenn eða bæjarfulltrúa á að láta valdaöflin í landinu ætíð njóta vafans, en að afnema þau réttindi sem margir telja nauðsynlegt að hafa. Vel sé hægt að ná helstu markmiðum þrátt fyrir það.

Kannski ég fari að stefna að því að blogga oftar en ég hef gert að undanförnu. Enn er ég dálítið upptekinn af því að fara út að ganga flestalla morgna. Stundum fer ég ekki fyrr en svona klukkan níu eða tíu en oftast um sjöleytið. Reyni enn að ná því að fara ca. 5 kílómetra eða vera á gangi í svona klukkutíma. Er samt alls ekkert að flýta mér eða keppast við að fara sem lengst eða hraðast. Hvíli mig oft svona tvisvar til þrisvar og fer oftast sömu eða svipaða leið. Þó er það ekki undantekningalaust. Eflaust gæti ég fjölyrt meira um þessar gönguferðir mínar, en ætla að geyma það þangað til seinna. Helst af öllu vil ég nefnilega vaða úr einu í annað. Það er minn stíll.

Hélt endilega að ég væri búinn að pósta þessu, en svo var víst ekki. Geri það hér með.

IMG 1580Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sæll sæmundur

gaman að lesa þessar línur, það má kannski bæta því við að spurningin um hvernig þetta verður fjármagnað er enn ósvarað. Þetta eru tugir ef ekki hundruðir milljarða og ekki alveg ljóst hvaðan þeir eiga að koma, sérstaklega þegar borgarsjóður stendur ekki á traustum fótum. En það er svo sem eftir öðru það er ýmislegt hægt á Íslandi sem væri sennilega óhugsandi erlendis ...

bjarni 3.7.2017 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband