2623 - Trump, Putin o.fl.

Mér finnst nú fésbókin vera farin að færa sig uppá skaftið. Hingað til hefur hún látið sér nægja að sýna manni minningar frá fyrri árum, en nú er það frá síðastliðnum mánuði. Ég kann bara ekki við þetta og fýla mín útí fésbókina fer heldur vaxandi við þetta. Annars er svolítið einkennilegt hvað mér er uppsigað við fésbókarfjárann. Samt get ég ekki án hennar verið. Tilkynningarnar þar eru alveg að bera mig ofurliði. Vitanlega er þetta sjálfskaparvíti, en ég get bara ekki að þessu gert. Sumir virðast ekki geta án þess verið að deila öllu mögulegu, hvort sem það eru minningar eða eitthvað annað. Venjulega tekst mér ekki að klára allar tilkynningarnar. Þær leiða mig bara eitthvert annað. Og aldrei minnist ég þess að hafa skrunað alla leið og lesið allt sem fésbókin, eða fólkið þar, býður uppá. Les jafnvel netblöðir ekki nema stundum. Ef eitthvað er nógu krassandi þá má reikna með að margir deili því og svo les ég yfirleitt Fréttablaðið og horfi á fréttirnar í sjónvarpinu.

Þessa dagana er ég að lesa ansi merkilega bók. Hún heitir „Stofuhiti“ og er eftir Berg Ebba. Hann kemst oft skemmilega að orði. Þetta er t.d. úr bókinni: Alvöru dauði er svo hræðilega hversdagslegur. Það spýtist ekkert blóð, jafnvel þó að fólk sé skotið með hríðskotabyssum. Fólk lyppast bara niður, eins og áhugaleikarar með vonda kjarasamninga. Það hreyfir við manni, en ekki á sama hátt og stílfærða útgáfan.

Þetta með vondu kjarasamingana er alveg óborganlegt. Sjálfur minnist ég þess að þegar hestur var skotinn beint í ennið þá hrundi hann niður á sekúndubroti og það spýttist ekkert blóð. Þá var ég sennilega á milli tektar og tvítugs og ég man að þetta kom mér mjög á óvart. Við krakkarnir vildum líka fyrir hvern mun sjá þegar rollurnar voru skotnar í sláturtíðinni, en máttum það allsekki. Annars er þetta tabú á dauðanum hér á Vesturlöndum alveg stórmerkilegt. Fátt er hversdagslegra og þetta á fyrir okkur öllum að liggja.

Á sínum tíma (1986) hittust þeir Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev í Reykjavík. Sá fundur er af sumum talinn upphaf endaloka kalda stríðsins. Þessvegna m.a. er fundar þeirra Trumps og Putins í Hamborg beðið með nokkurri eftirvæntingu af mörgum. Sumt bendir til þess að þeir gætu átt skap saman, en sumt bendir í aðra átt. Aðstaða Putins er að mörgu leyti betri. Samband hans við pressuna í heimalandinu er a.m.k. betra. Svipað má segja um njósnastofnanir landanna. Kannski er kuldinn í þeirra samskiptum að komast á það stig að nýtt kalt stríð sé í vændum. Varla kemur þeim saman um Ukrainu, Sýrland, Kóreu og Kína. Japan og flest ríki í Evrópusambandinu virðast hafa horn í síðu Trumps. Sama má reyndar segja um flest NATO-ríki nema helst Pólland. Kanada er kannski mótfallið Trump en verður þó að gæta sín ákaflega vel.

Kettlingurinn Guðbrandur Logi Högnason er kominn í heimsókn enn og aftur. Gott ef hann er ekki bara farinn að kunna sæmilega við sig hérna. A.m.k. veit hann vel hvar maturinn og sandkassinn eru.

IMG 1500Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband