2436 - Brussel o.fl.

Auðvitað er skást að þegja þegar gríðarlegir atburðir gerast. Ekki dreg ég úr alvarleika atburðanna í Brussel. Samt er það svo að augljóslega er verið að reyna að hræða almenning. Það er eini tilgangur hryðjuverka af þessu tagi. Látum þetta ekki koma okkur úr jafnvægi. Það er akkúrat það sem verið er að reyna. Norðmenn stóðu sig á margan hátt vel í eftirmálum Úteyjar, en að sjálfsögðu skiptir miklu máli hve atburðirnir í Brussel eru miklu nær okkur en það sem á gengur í Mið-Austurlöndum. Tyrklandi, Sýrlandi, Pakistan o.s.frv.

Þögn sjálfstæðisþingmanna um Tortólamálið nýja er satt að segja ærandi. Auðvitað er skiljanlegt að þeir vilji ekki úttala sig um málið án þess að gefa Sigmundi forsætis tækifæri til að útskýra sína hlið á málinu. Bjarni Benediktsson hefur e.t.v. þarna tækifæri til að endurheimta eitthvað af glötuðu fylgi Sjálfstæðisflokksins. Til þess þarf hann sennilega að lítillækka Sigmund Davíð sem mest án þess þó að sprengja stjórnina. Hugsanlegt er að hún standi þetta af sér. Framsóknarflokkurinn nær sér hinsvegar áreiðanlega ekki. Kannski hugsa menn bara málið fram yfir páska.

Held að Bandaríkjamenn séu allsekki tilbúnir til að kjósa Bernie Sanders. Sumt af því sem hann boðar minnir mjög á Skandinavíska módelið og sjálfur mundi ég fremur kjósa hann en Hillary Clinton. Hana mundi ég þó taka framyfir Donald Trump að sjálfsögðu og sennilega hvaða repúblikana sem væri. Til forseta í Bandaríkjunum bjóða sig venjulega allmargir fram en langmesta athygli vekja frambjóðendur stóru flokkanna enda líta útbreiddir fjölmiðlar varla við hinum, nema þeir séu þeim mun þekktari.

Svei mér ef ég myndi ekki velja annað hvort Þorgrím Þráinsson eða Ástþór Magnússon af þeim frambjóðendum sem fram eru komnir nú þegar til forseta Íslands. Sennilega bíða margir eftir því að einhver verulega þekktur maður sem nýtur almenns trausts bjóði sig fram. Vonandi á frambjóðendum eftir að fjölga eitthvað.

WP 20160226 11 32 32 ProVelkomin til Akraness.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband