2435 - SDG og RJF

Eins og mig minnir að ég hafi komið inná fyrr fæ ég oft hugmyndir um bloggið þegar ég er nýbúinn að senda efni þangað. Var síðast að skrifa um RJF og hefði kannski átt að halda áfram við það. Minnir að eitt af því sem mér þótti hvað merkilegast í þeirri bók hafi verið að Garðar sagði að Fischer hefði sagt (eða gefið í skyn) að hann sæi mikið eftir öllum þeim tíma sem hann hefði eytt í skákina. Líka vildi hann meina að hann hefði gengið alltof nærri sér í síðara einvíginu við Spassky. Held reyndar að að algengt sé að mörgum hætti til að ganga of nærri sér þegar aldurinn færist yfir.

Mér finnst merkilegt að fylgjast með Tortóla-umræðunni og að alþingismenn (eða –fólk) láti bjóða sér þá framkomu sem SDG sýnir þeim. Þó allt sem Sigmundur Davíð og Jóhannes útskýrari segja væri satt og rétt. Jafnvel tæmandi. (Sem ég efast reyndar um) skuldar hann alþingi skýringar á framkomu sinni og siðferðið í því að fjalla um „hrægammasjóði“ án þess að segja frá þessu Tortólamáli öllu er því a.m.k. umdeilanlegt. Búast má við fleiri uppljóstrunum fljótlega.

Virðingarröð skrifa. Er bloggið æðra fésbókarskrifum? Það finnst bloggurum áreiðanlega. En eru ekki bloggarar að verðfella skrif sín ef þeir skrifa of oft og of mikið? Það finnst mér? Þurfa bloggarar að hafa gott vit á því sem þeir blogga um og vera vel menntaðir? Það finnst mér ekki. Og þó. Í mínum huga skiptast skrif í fimm flokka.

Fyrst af öllu koma allskonar fésbókarskrif og þessháttar. Einnig ýmis atvinnuskrif. Um fésbókarskrifin þarf ég ekki að fjölyrða. Oft eru þau einskonar samtal. Merkileg eða ómerkileg eftir atvikum. Helsti munurinn, sem þó virðist vera óljós fyrir sumum, er að næstum allir eða a.m.k. fjölmargir geta lesið ósköpin og erfiðara er að neita að hafa skrifað eitthvað á þessháttar miðil en að hafa sagt það í tveggja eða fárra manna tali. Auðvitað eru þessi skrif oft um margt merkileg. Ef menn skrifa t.d. eitthvað bitastætt þar getur verið að fleiri lesi það en ef það er skrifað annars staðar. En búast má við að það týnist fljótlega. Þó er að sjálfsögðu hægt að gera það aðgengilegt fyrir þá sem að því leita. Annars er ég enginn fésbókarfræðingur og hef heldur neikvæða mynd af fyrirbærinu. Með atvinnuskrifum á ég við allskyns fjölmiðla- og fréttaskrif, sem oft eiga það sameiginlegt með fésbókarskrifunum að vera heldur óvönduð. Sum þeirra skrifa eru þó alveg ágæt. Auglýsingar allskonar gætu mín vegna verið þarna líka.

Bloggskrif eru yfirleitt svolítið vandaðri en þau sem upp hafa verið talin og ekki óskynsamlegt að hafa þau númer tvö. Jafnvel eru þau lesin yfir og lagfærð. Þegar best lætur geta þau verið einskonar bakþankar eða hálftímar hálfvitanna. Þó ég hafi allskyns skoðanir varðandi bloggskrif er ég ekki hlutlaus þar því ég hef stundað þau talsvert. Þessvegna er kannski best fyrir mig að segja sem fæst um þau. Moggablogg eru ekkert verri en önnur og draga ekkert endilega dám af birtingarstað.

Númer þrjú er svo hægt að hafa blaðagreinar og ýmislegt ritstjórnarefni. Oftast er það samhljóða og sammála birtingarstað og þarf samþykki ritstjóra eða ritstjórnar. Svipað má segja um ýmislegt fagefni. Lagagreinar ýmsar, frumvörp, álitsgerðir og ýmislegt þessháttar efni.

Númer fjögur gæti svo verið ritrýnt efni og bækur. Um það mætti auðvitað fjölyrða endalaust og ekki er það endilega merkilegt alltsaman. Kynningarefni um það og úrdrætti er þó oft vel þess virði að lesa og skoða.

WP 20160226 11 34 12 ProFallstykki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband