Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

2547 - Hænsnamálið mikla

Eftir sýningu Kastljóssins á mánudaginn munu væntanlega flestir forðast mjög að kaupa egg frá Brúnegg. Fyrirtækið verður líklega að flýta sér að skipta um nafn og umbúðir. Annað er ekki líklegt að út úr þessu komi. Í versta falli þurfa þeir að skipta um kennitölu líka. Innst inni vita allir að illa er farið með dýr. Ekki síður hér á Íslandi en annarsstaðar. Jafnvel því verr sem þau eru minni og ófærari um að bera hönd fyrir höfuð sér. Um þetta þarf ekki mikið að ræða og allsekki að deila.

Önnur hlið á þessu máli sem fréttastofa sjónvarpsins er þegar farin að gera sér mat úr er sofandaháttur stjórnvalda. Einnig væri fróðlegt að vita hver ferill þessa máls hefur verið hjá sjónvarpi allra landsmanna. Þakklæti fyrir að hafa vakið athygli á þessu má ekki blinda menn. Ekki er að sjá að Fréttastofan og Kastljósið hafi sömu sýn á þetta mál.

Græðgi fyrirtækisins hefur greinilega verið mikil og er ekki á neinn hátt afsakanleg. Talsmanni fyrirtækisins hefur sennilega fundist hann standa sig vel í viðtalinu sundurklippta. Svo er þó allsekki. Útskýringar hans voru afleitar mjög og ósannfærandi. Frammistaða fréttamannsins þó með ágætum.

Þeir opinberu aðilar sem að þessu máli hafa komið hafa sömuleiðis staðið sig afar illa. Talsmaður þeirra stóð sig sömleiðis illa. Tafir þeirra á aðgerðum eru á engan hátt afsakanlegar. Neytendur geta hætt að kaupa egg frá Brúnegg og refsað með því fyrirtækinu, en að stjórnvaldsstofnunum eiga þeir mjög lítinn aðgang.

Vald Kastljóssins er mikið og ekki mun það minnka við þetta.

Sagt er að stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sé í pípunum. Kannski er það rétt. Spyrja má samt hvort Björt framtíð hafi ekki að sumu leyti villt á sér heimildir. Margir álitu þann flokk mun vinstri sinnaðri en Viðreisn.

Eftir kosningar kom þó annað í ljós.

Spyrja má um ýmislegt. T.d. það hvort Jón Gnarr og Heiða Helgadóttir (eða Helgudóttir – man aldrei hvort er réttara) séu hlynnt þessu. Minnir að Björt framtíð hafi eitt sinn verið álitin einskonar framlenging af Besta flokknum. Af hverju vildu hvorki Guðmundur Steingrímsson né Róbert Marshall bjóða sig fram aftur?

Framsóknarflokkurinn er á margan hátt svarti péturinn í þessu öllu saman. Hefur líka ekki lokið tiltektinni. Kannski verður stjórnarandstaðan samt mun sterkari en stjórnin ef þetta verður niðurstaðan.

Bjarni Benediktsson hefur eflaust vonast eftir að Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn kæmu með sér í ríkisstjórn. Það hefði orðið mun fullkomnari afturhaldsstjórn en hér hefur verið lengi. Steingrímur nestor hefði jafnvel getað orðið forseti alþingis. Sennilega er það nokkuð sem hann langar mikið til. Ekki hefði verið ráðlegt að hleypa honum aftur í ráðherrastól.

IMG 2729Einhver mynd.


2546 - Gísli Marteinn og Eva María

Guðbjörn Jónsson sem ég held endilega að ég eigi að kannast við og að hann hafi eitt sinn átt heima að Hrafnakletti í Borgarnesi heldur áfram að reyna að verja Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvað Panamaskjölunum viðvíkur. Heldur hann virkilega að einhverjir nenni að lesa þessa langhunda sem hann skrifar um það efni? Ekki hann ég a.m.k.. Er nefnilega ansi hræddur um að „attention span“ fólks sé sífellt að styttast. Kannski veð ég samt í villu og svíma þarna því ég man að einu sinni las ég allar þær sögur (stuttar eða langar) sem ég gat komið höndum yfir á netinu. En sá tími er löngu liðinn. Mér finnst oft eins og ég hafi allt mitt líf verið meira og minna uppá netið og bbs-in kominn. En það er ekki svo. Ég kynntist tölvum og þess háttar ekki fyrr en um og jafnvel eftir 1980.

Fiskmarkaður Íslands er á Akranesi. Barnaskóli Íslands er á Akureyri (skilst mér) Skóflan h/f er aftur á móti hér á Akranesi. Annars eru fyrirtækjanöfn sérstök fræðigrein. T.d. sá ég hér ekki alls fyrir löngu Eurofant einn heilmikinn. Veit samt ekki að hvaða leyti hann er frábrugðinn venjulega föntum. Eru fantar annars nokkurntíma venjulegir? Held ekki. Svo er líka hægt að drekka úr föntum, en það gera nú fæstir núorðið.

Mér finnst sandurinn á Langasandi vera að minnka. Kannski er sama fyrirbrigðið hér á ferðinni og á Miami Beach. Allur sá sandur sem þar er, ku vera kominn af hafsbotni fyrir tilverknað manna. Ekki veit ég til að neitt hafi verið átt við sandinn á Langasandi. Kannski kemur hann aftur í sumar. Mér finnst hann allavega hafa minnkað talsvert. Mölin og steinarnir eru líka til mikilla trafala á gangstígnum útað Sómundarhöfða. Ef sjórinn getur flutt steina og möl þá ætti sandur ekki að vera nein fyrirstaða.

Nú skilst mér að Gunnlaugur sá sem samdi sögu Akraness sé á ferðinni með sögu kirkjunnar í Hafnarfirði. Enn virðist hann haldinn af stórbókarblætinu. Veit ekki betur en sóknarnefndin þar sé í mestu vandræðum vegna þessa. Hinsvegar held ég að Bæjarstjórn Akraness hafi fengið frá skiptaráðanda bókaútgáfunnar sem gaf út sögu Akraness talsverðan fjölda bóka sem ekki seldust og gengu eiginlega frá bókaútgáfunni. Kannski er þetta ekki allt alveg kórrétt hjá mér en svona upplifi ég fréttir af þessu.

Horfði um daginn á hluta af þættinum ofurvinsæla (skv. kynningu) hjá Gísla Marteini og þó Eva María hafi greinlega verið sársvöng var ýmislegt áhugavert í þættinum og Gísli Marteinn kann þá list mörgum öðrum betur að skipta áreynslulaust um umræðuefni. Að vísu fékk hann enga kanónu eins og Sigmund Davíð til að rífast við um pólitík, en samt var þátturinn alveg sæmilegur. Svo er hann venjulega með tónlistaratriði í lokin og þá geta analfabetar á slíkt eins og ég hætt að horfa.

IMG 2721Einhver mynd.


2545 - UFC og MMA

Besta ráðið til að fá marga (ja, svona 5-6 hundruð manns) til að kíkja á og jafnvel lesa bloggið sitt er að hafa fyrirsögnina dálítið krassandi. T.d. dugar oft ágætlega að hafa einhver vinsæl nöfn úr fréttum dagsins þar. Ég hef prófað þetta og það reynist ágætlega. Þ.e.a.s ef markmiðið er að fá sem flesta til að kíkja inn. Önnur aðferð sem dugar oft ágætlega er að skrifa sem oftast. Ég nenni samt sjaldnast að skrifa oft á dag eins og jafnvel virðist þurfa. Svo er náttúrulega mjög gott að vera vel þekktur fyrir. Jafnvel er svo að sjá að meðmæli þekktra manna í þjóðfélaginu skipti máli. Skrifin sjálf virðast ekki skipta miklu, en auðvitað þurfa þau að vera sæmileg.

Oft hef ég hugsað um tilgangsleysi lífsins. Þó er ég enginn heimspekingur og hef oft fundið sárt til þess að hafa ekki meiri menntun. Eftir að mínum aldri (74 ár) er náð verða þessar hugsanir áleitnari og áleitnari. Sennilega eru flestir menn nokkurnvegin jafnokar þegar þeir fæðast. Síðan er dálítið undir hælinn lagt hve mikla örvun og stuðning þeir fá á sínum fyrstu árum. Vel má gera ráð fyrir að þau séu mikilvægust. Þarmeð verður kennarastarfið með mikilvægustu störfum sem unnin eru. Fyrir utan skólagöngu eru tækifærin sem menn fá afskaplega mismunandi.

Sú breyting sem orðið hefur a.m.k. hér á Íslandi á mínu uppvaxtarskeiði. Þ.e. að konur eru almennt farnar að vinna mun meira úti en áður var og menntun og þroska ungra barna er að mestu leyti sinnt utan heimilis hefur án efa valdið meiri breytingum á þjóðfélaginu en margir gera sér grein fyrir.

Núna síðusu árin hefur önnur breyting dunið yfir. Sú er aðallega bundin tækniframförum. Fullyrða má að samskipti fólks hafi breyst mjög verulega undanfarin ár. Sú breyting sem Netið, fésbók, twitter og allskyns samskiptaforrit og tækni hefur valdið er án efa gagntækari en flestir vilja vera láta.

Lestur, skrift og reikningur eru samt sem áður undirstaða alls. Bækur eru hinsvegar alls ekki sú allra meina bót sem oft er látin í veðri vaka. Mikilvægast alls er að aðgangur sem flestra að upplýsingum hverskonar sé sem auðveldastur og ódýrastur. Fæði, klæði og húsaskjól er næstum öllum tryggt hér á Vesturlöndum en virðist sumsstaðar vera af skornum skammti. Þó viljum við ekki jafna öllu út. Eða hvað? Á sumum má skilja að sú sé hugsjónin. Viljum við gerast allslausir flóttamenn? Ef auðæfum heimsins yrði jafnað milli allra er hætt við að lítið kæmi í hlut hvers og eins. Af hverju er þessum margumtöluðu auðæfum svona misskipt? Er hugsanlegt að stjórnmálaskoðanir og hugsjónir ráði þar einhverju um? Eru þær systur kannski undirstaða alls lífs á jörðinni.  

UFC eða MMA (mixed martial arts – sem Gunnar Nelson er víst bestur í) virðist að mörgu leyti hafa tekið við af hefðbundnum hnefaleikum hvað vinsældir og ógeðslegheit snertir. Ekki er annað að sjá en eitt heimssamband ráði þar öllu, en ekki þrjú eins og fyrir hnefaleikunum var komið. Gunnar er hugsanlega meðal svona 20 bestu í einum þyngdarflokki (sem ég veit ekki hve margir eru.)

IMG 2737Einhver mynd.


2544 - Bloggskrif o.þ.h.

Er bloggið þerapía? Já, a.m.k. fyrir mig. Kannski er mitt blogg líka þerapía fyrir einhverja aðra. Manni hættir svolítið til að álíta sjálfan sig einstakan. Það getur vel verið að einhverjir hugsi svipað og ég. Fyrir þá gæti mitt blogg verið eins og einhvers konar þerapía. Að minnsta kosti lesa það ótrúlega margir eftir því sem tölvan segir mér. Hún getur að vísu allsekki sagt mér hverjir lesa bloggið mitt. (Kannski gæti ég samt fengið IP-tölurnar einhvers staðar og sömuleiðis tímann og dregið mínar ályktanir af því.) En ég fæ alltaf upplýsingar þegar ég vil um hve margir hafi heimsótt mitt blogg.

Kannski verður þetta blogg mitt meira um blogg en flest önnur. Ath. Þetta er viðvörun. Alls ekki er rétt að skrifa um hvað sem er á netið eða bloggið. T.d. finnst mér að margir skrifi sögur af krökkunum sínum án þess að velta fyrir sér hvernig þeim líkar við þær frásagnir að svo og svo mörgum árum liðnum. Það sem manni finnst sjálfum vera krúttlegt og skemmtilegt kann þeim að finnast að fáum árum liðnum vera leiðinlegt og mannskemmandi. Netið gleymir nefnilega engu. Kannski er fésbókin svona líka. Um þessar mundir er hún í því að reka framan í mann eitthvað sem maður hefur skrifað fyrir mörgum árum síðan. Sumt af því getur manni alveg fundist fyndið, en ekki er víst að öðrum finnist það.

Mörgun finnst að það sem þeir skrifa á tölvuna sé bara fyrir einhverja útvalda. Svo er þó ekki. Alltaf verður að gera ráð fyrir að þeir sem síst skyldi rekist á þetta einhverntíma í framtíðinni. Þessvegna er best að venja sig á að skrifa ekki annað á bloggið eða í fésbókina en það sem allir mega vita. Já, já ég veit að þetta getur verið erfitt og þessvegna er best að reyna að venja sig á það sem fyrst. Sumir skrifa aldrei neitt og það er kannski varlegast og vænlegast. En svo eru aðrir líkir mér sem eru sískrifandi og stundum eru þeir kannski skammaðir af sínum nánustu fyrir að segja of margt. Þarna er vandratað meðalhófið og kannski er bara best að skrifa sem minnst.

Bloggið er betra en fésbókin. Þetta hef ég margsagt. En af hverju ætli það sé. Kannski týnist með tímanum allt sem maður skrifar á fésbókina, en þó er það ekki víst. Kannski skrifar maður líka fyrir einhverja tilviljun eitthvað meiriháttar merkilegt án þess að vita af því fyrr en löngu seinna. Ef þá nokkurntíma. Hugsanlega er þessvegna betra að blogga en láta allt flakka á blessaðri bókinni.

Assskoti er tafsamt að fletta í gegnum öll þessi fjárans blöð sem maður þarf endilega að gera. Laugardagsfréttablaðið en t.d. hnausþykkt og eftir því þungt. Ég er ekki einu sinni hálfnaður með að fletta í gegnum það. Sem betur fer er það mestmegnis auglýsingar sem maður getur verið fljótur með. Svo þegar það er búið þá á ég eftir að fletta í gegnum Jólablað Skessuhorns. Þar er hugsanlegt að eitthvað tefji mann. Ég á við að þar gæti verið eitthvað sem maður þarf endilega að lesa. Sem betur fer fækkar ört þeim greinum sem ég þarf endilega að lesa. Eða er ég bara farinn að að eldast svona mikið? Hef bara áhuga á færri greinum semsagt.

IMG 2822Einhver mynd.


2543 - Benedikt segir pass

Því er haldið fram að Viðreisn hafi aldrei viljað að tilraun Katrínar gengi upp. Bágt á ég með að trúa því. Alt þar til Viðreisn skríður uppí til Sjálfstæðisflokks og Framsóknar vil ég trúa því að þau atriði sem pirrað hafa Bjarna Ben. sem mest séu ekki tómur leikaraskapur þar á bæ. Sú stjórn sem mestar líkur eru á að taki við er að mínum dómi: Allir saman nema Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur. BF hlýtur fyrr eða síðar að slíta sig frá Viðreisnardraugnum.

Egill Helga segir að nýjar kosningar mundu líklega koma Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki vel. Þar er ég ekki sammála honum. Ég held þvert á móti að þær mundu koma þessum flokkum illa. Ekki man ég til að Egill hafi fært nein rök fyrir þessari skoðun sinni svo ég ætla heldur ekki að gera það. Sennilega er ómögulegt að komast að því hvor hefur rétt fyrir sér að þessu leyti nema með því að endurtaka kosningarnar. Ef það væri gert strax mætti kannski hlífa örþreyttum almenningi og komast hjá kosningabaráttunni að mestu leyti.

Loksins er Ómar Ragnarsson farinn að þreytast á Steina Briem. Sníkjublogg af þessu tagi eru óttalega þreytandi og mér finnst Ómar hafa sýnt þessu mikinn skilning.

Stórtíðindi! Pétur Gunnlaugsson á útvarpi sögu hefur verið ákærður fyrir útbreiðslu hatursorðræðu. Í dag hefur stórt skref verið tekið í baráttunni gegn öfgum og hatri. Ég vona að hann verði dæmdur og að fleiri ákærur munu fylgja í kjölfarið. Þá verður loksins hægt að koma einhverjum böndum á þetta ógeðfellda samfélagsmein!,“ sagði Sema Erla á Facebook-síðu sinni.“

Þessi klausa er úr DV. Er ekki hissa á að Pétur hafi verið kærður. Veit ekki hvernig lögin eru. Hef heyrt Pétur reyna að æsa innhringjendur upp í óvönduðum  og hatursfullum ummælum. Sú var a.m.k. mín upplifun af því sem ég heyrði. Pétur sjálfur reyndi að passa sig þó hann væri greinilega sammála innhringjandanum. Man samt ekki nákvæmlega um hvað var rætt.

Eiginlega get ég ekki látið mér detta neitt í hug til að lengja þetta innlegg. Ef ég fer ekki að drífa mig í að setja þetta upp gæti mikið af þessu, sem ég er þó búinn að skrifa, orðið úrelt. Og hvað er þá til ráða.

Satt að segja finnst mér að Black Friday eða Svartur Föstudagur hafi litla merkingu hér á landi. Samt virðast flestar verslanir ólmar vilja færa okkur nær og nær Bandaríkjunum að þessu leyti eins og þegar Valentínusardagurinn var gerður að hátíðisdegi hér fyrir nokkru síðan. Hver veit líka nema næsta æðið verði þakkargjörðarkalkúnn. Þó gæti það sem best orðið jólakalkúnn því rjúpunni er víst að fækka og íslendingum að fjölga.

IMG 2858Einhver mynd.


2542 - Geirfinnur Einarsson

Jón Valur Jensson les víst bloggið mitt. A.m.k. stundum. Ekki get ég bannað honum það og hef það ekki í hyggju. Sömuleiðis ætla ég ekki að meina honum eða nokkrum öðrum að athugasemdast við það. Vona samt og held að ekki séu allir sem þetta lesa jafnhægrisinnaðir og hann. Kannski hef ég einhvern hægri-stimpil á mér vegna þess að ég er svo latur, sérhlífinn og íhaldssamur að ég blogga ennþá á Moggablogginu. Einhver minnir mig að hafi sagt að þar blogguðu bara öfgahægrimenn og fáeinir stórskrýtnir sérvitringar. Vonandi hefur hann talið mig vera skrýtinn sérvitring því öfgahægrimaður vil ég allsekki vera.

„Já, Canopy by Hilton og við erum fyrsta hótelið worldwide og Reykjavík er up and coming áfangastaður sem að komandi kynslóðir elska með náttúruna okkar og kúlturnum okkar og þarafleiðandi var þetta bara svona match made in heaven að við myndum verða fyrsta destinationið til að opna hótelið.“

Egill Helgason tekur þetta sem dæmi um það að íslenskunni sé að hraka. Ég er ekki frá því að ég sé sammála honum. Er a.m.k. þeirrar skoðunar að það sé nýja hótelinu til stórskammar að láta svonalagað frá sér fara. Man að í dönskunni á Bifröst gekk okkur illa að þýða „begrebet kultur“ á gullaldar íslensku, en tókst þó.

Eiginlega þori ég aldrei að kaupa stóra og dýra hluti núorðið á þessu síðustu og verstu afsláttartímum. Maður gæti þess vegna verið að missa af einhverjum toppafslætti annarsstaðar. Svo getur maður ekki einu sinni verið viss um að 80% afsláttur sé mikill afsláttur. Margar verslanir auglýsa nefnilega að hjá þeim sé allt að 80% afsláttur. Hugsanlega er þá 5% afsláttur á öllu nema einni tusku sem er 80% afsláttur á. Já ég veit að þetta er svartsýnisraus, en verslun sem alltaf er með útsölur og afslætti verður að gera ráð fyrir að selja sífellt minna án afsláttar.

Guðmundar og Geirfinnsmálin hvíla svo sannarlega eins og mara á þjóðinni. Verði ekki fljótlega af dómstólum komist að þeirri niðurstöðu að þarna sé um venjuleg mannshvörf að ræða (eru mannshvörf annars nokkurntíma venjuleg) og viðurkennt að dómsmorð hafi verið framið geta dómstólar búist við að með öllu verði hætt að taka mark á niðurstöðum þeirra. Margir gera það reyndar nú þegar. Því miður virðast dómarar vera jafnófullkomnir og hverjir aðrir. Við höfum (eftir því sem okkur er sagt) samþykkt þessa dómstólaaðferð til að útkljá deilumál. Segja má að þetta hafi tekið við af þjóðveldishugsuninni um að menn ættu sjálfir að framfylgja dómun. Seinna meir átti slíkt sér einkum stað fyrir kóngsins mekt og eftir það fengu dómarar þessi réttindi. Spyrja má hvort þau séu nokkuð sjálfsögð. A.m.k ættu þeir að geta viðurkennt mistök kerfisins svona löngu eftirá.

Þessi bloggskrif mín eru á vissan hátt samsvarandi dagbókarskrifum. Sumir ættingja minna og aðstandenda lesa þetta áreiðanlega til að sannfærast um að ég sé enn með „fulde fem“ eins og sagt var í mínu ungdæmi. Sjálfur þykist ég enn skrifa gullaldarmál þó þeim fari mjög fækkandi sem það gera. Allir eru sískrifandi. Eða voru a.m.k. þangað til fyrir skemmstu. Ég er farinn að merkja það að skrif þykja ófullkomin en vídeó-, kvikmynda- og ljósmyndatjáning hvers konar að verða sífellt algengari.

Hef tekið eftir því að ef ég set nafn á einhverjum í fyrirsögnina á bloggi mínu eykur það töluvert aðsóknina og allmargir virðast lesa það blogg og kannski fleiri. Þetta er mín læksöfnun og ég bið ekkert afsökunar á henni. Neita því ekki að mér finnst sumir ganga ansi langt og með lélegum hætti í þeirri söfnun á fésbókinni. Twitter hef ég aldrei náð neinu sambandi við.

IMG 2821Einhver mynd.


2541 - Pútín og Trump

Stanz, Aðalbraut, Stop. Stóð á einhverjum skiltum sem maður þurfti að vara sig á í gamla daga. Mér finnst það samt ekki nægilega góð ástæða fyrir Toyota til að auglýsa í mörgum heilsíðuauglýsingum ókeypis ástanzskoðun á bremsum. T.d. heita bremsur hemlar í hátíðlegu máli þó Toyotamenn viti það sennilega ekki. Eiginlega er þetta samt svo ómerkilegt mál að það tekur ekki að fjölyrða um það.

Ekki veit ég hvernig Kötu gengur að mynda fimm flokka ríkisstjórn, en mikið óskaplega held ég að Bjarni sé fúll. Sennilega missir hann formannsembættið útá þetta því varla eru útgerðarprinsarnir og prinsessurnar ánægð með frammistöðuna. Miðað við hvernig stuðningsmenn núverandi stjórnar láta mætti halda að sjálfsagt væri að láta á fimm flokka stjórn reyna. Líklega kemur næsta stjórn til með að verða kölluð fimmflokkastjórnin. Sú þar á undan sennilega Panamastjórnin og þar á undan var Jóhönnustjórnin.

Furðu margir lesa þetta fjas í mér og þess vegna er ekki um annað að gera en reyna að halda þessu áfram.

Þjóðernishyggja, fótbolti, trúarbrögð og stjórnmál eru eitruð blanda. Sumir blanda þessu öllu saman og útkoman verður oft fordómar og hverskyns öfgastefnur. Allt er þetta samt ágætt ef þess er gætt að halda því sæmilega aðgreindu.

Donald Trump heldur áfram herferð sinni gegn pressunni. Sérstaklega virðist honum vera illa við New York Times. Þeir segjast aftur á móti hafa stóraukið áskrift sína með gagrýni sinni á hann. Honum er líka talsvert uppsigað við CNN. Segja má samt að pressan hafi búið hann til. Einkum stóru sjónvarpsstöðvarnar. Þegar hann var að hefja kosningabaráttu sína fékk hann ótrúlega mikla umfjöllun í fréttatímum þeirra. Aðallega útá stóryrði sín hverskonar, sem hann dró síðan talsvert úr. Nú þykjist hann þess umkominn að segja pressunni til. Hirðfíflið sjálft.

Karjakin vann Carlsen víst í gær. Trúi því samt varlega að Carlsen tapi einvíginu. Hann gæti sem best mætt tvíefldur í næstu skák. En þægilegt hlýtur það að vera að vinna á svart. Jafnvel þó það sé ekki nema ein skák. Einvígið er líka afar stutt.

Allt gengur Putín (Rússakeisara) í hag nema innanlandsmálin og olíuverðið. Trump og hann ætla víst í sameiningu að endurvekja kalda stríðið. Þó er ekki víst að Trumparinn fái alla með sér sem áður voru það.

Var áðan að hlusta svolítið á Ólaf sjálfkeyrandi Guðmundsson. Samkvæmt honum er von á sjálfkeyrandi bílum alveg á næstunni. Ekki seinna vænna að breyta ýmsu hér á okkar ástkæra landi. Ef tækist að laga vegina og koma í veg fyrir eða afnema með öllu slys og dauða í umferðinni á næstu árum yrði ég a.m.k. alveg ánægður. Sjálfkeyrandi bílar mega alveg bíða svolítið. Held líka að einhverjir verði fljótari en við hér á Íslandi að taka slíkt upp.

IMG 2879Einhver mynd.


2540 - Hannesarholt og Doddsson

Ég fer ekki ofan af því, að stærsta ástæðan fyrir sigri Trumps í Bandaríkjunum hafi verið andstaða hans við hin hefðbundnu stjórnmál. Þeir sem kusu hann kusu hann þrátt fyrir alla hans galla vegna þess að þeir voru hundleiðir á ríkjandi stjórnvöldum og fannst þau ekki hafa gert neitt fyrir sig á undanförnum árum. Sama finnst mér hafa gerst varðandi Brexit og ég á von á því að svipað gerist í Frakklandi næsta sumar.

Nú getum við snúið okkur að stjórnarmynduninni hér heima. Sennilega tekst Katrínu Jakobsdóttur að mynda fimm flokka stjórn, þó mikið hafi verið reynt að halda því fram að slíkt væri ekki gerlegt. Ein af ástæðunum fyrir þessu haldi mínu er sú að með því móti má halda Sjálfstæðisflokknum frá stjórnartaumunum og líka er kominn tími til að sýna fram á að þetta sé hægt. Íhaldssamastir allra í þeirri stjórn verða sennilega Vinstri grænir. Þeir eru nauðalíkir Sjálfstæðismönnum að því leyti að þeir vilja helst ekki breyta neinu.

Enn er verið að telja atkvæði í Bandaríkjunum. Nú er heildarstigafjöldi Clinton kominn í hálfa aðra milljón framyfir Trumparann. Ekki dugar það til að koma kjaftaskinum frá því hann nýtur þess sama og Framsóknarflokkurinn hér að sveitaatkvæði eru öðrum fremri.

Skelfing er fésbókin annars leiðinleg. Ég mundi missa af öllum safaríkustu kjaftasögunum ef ekki væri fyrir DV. Þó kaupi ég þann leiðindasnepil alls ekki. Hann ryðst samt inná mig á fésbókarfjáranum og fræðir mig m.a. á því að Salvör systir hans Hannesar sé nú búin að móðga gjörvalla listaelítuna á Íslandi. Ég fylgist bara hreint ekkert með. Man þó vel eftir Salvöru og Netnáttúru hennar. Man ekki betur en maðurinn hennar hafi farið til Afghanistan einhvern tíma í fyrndinni og að hún og Ólína Kerúlf hafi fyrir margt löngu ætlað í samvinnu við mig að koma þjóðsögum Jóns Árnasonar á framfæri við almenning á Netinu.

Er ekki Hannesarholt annars kennt við Hannes Hólmstein? Eða var það kannski Hannes Hafstein. Allavega tengdist það eitthvað Guðföðurnumm Doddssyni. Og þaraðauki steini eða steinum. Svo sá ég um daginn að búið var að breyta Innnes-skiltinu hérna skammt frá Akranesi í Hannesarskilti. Það þótti mér fjandi hart.

Einhverntíma sá ég ljósmynd. Ætli það hafi ekki verið hjá Kollu í Álfafelli. Þar vorum við Erla Trausta og Jósef Skafta ofan í vatnslausri sundlaug. Þessi mynd kann að hafa verið tekin í skólaferðalagi endur fyrir löngu og sundlaugin gæti hafa verið í Lundarreykjadal. Aftan á þessa mynd var skrifað: Erla sæta, Jobbi gáfaði og Sæmi sniðugi. Lögreglurannsókn á því hver skrifaði þetta er ekki lokið ennþá.

IMG 2884Einhver mynd.


2539 - Helgi Hrafn Gunnarsson

Sko. Sjáið nú til. Ef Helgi Hrafn Gunnarsson verður í framboði í næstu alþingiskosningum eru allar líkur á því að ég kjósi Píratana enn og aftur. Ha, getur verið að hann stofni nýjan flokk? Nú, þá kýs ég hann bara. Samt er það svo að hann er einn af örfáum alþingismönnum sem hefur virkilega imponerað mig.

Hvernig á ég annars að svissa úr alvöru yfir í þykjustu? Er nóg að raða bara orðunum öðruvísi upp? 

Satt að segja er ég orðinn leiður á því að hafa allt á hornum mér. Samt eru margir þannig innréttaðir. Hvað er t.d. fésbókin annað en endalaus geðvonskuköst? Svoleiðis er það líka á Alþingi. Hálftími hálfvitanna er t.d. oftast nær þannig að menn keppast við að svívirða hvern annan. Undir rós þó oftast nær. Og svo þreytast þingmenn ekki á því að halda því fram að þeir láti ekki svona á nefndarfundum. Hver á að trúa því? Og svo á að borga þessum himpigimpum hátt í tvær milljónir í laun á mánuði. Ja, svei.

Jæja, nú er ég alveg að missa mig í neikvæðninni. Best að snúa við blaðinu. Þetta eru nú meiri gáfnaljósin sem eru að hefja þingferilinn núna. Og svo slitnar ekki slefan á milli Viðreisnar og Bjartrar (F)ramtíðar. Ef hún Kata litla hjá Vinstri (G)rænum getur ekki myndað stjórn þá getur það sennilega enginn. Ætli Buffarinn skipi þá ekki bara utanþingsstjórn. Eitt er það sem besserwisserar reyna alltaf að gera og það er að uppnefna fólk. Nei, þetta ætlaði ég ekki að segja. Blessunarlega er besserwissurum alltaf að fækka eftir að Gúgli kom til skjalanna. Ha, hvað skjala? Það veit ég ekki. Maður tekur bara svona til orða.

Vissulega væri hægt að halda svona áfram út í það óendanlega. En hver mundi lesa þessháttar bull. Sennilega fáir.

Nú vill Kári Stefánsson fá að bjarga konum frá brjóstakrabba. Ekki fær hann samt að gera það eins og hann vill fyrir mannkynsfrelsurunum hjá Persónuvernd. Um þetta skrifar hann langhund mikinn, sem ég var að enda við að lesa. Kári er eins og sumir krimmahöfundar. Ef hægt er að afgreiða einhverja hugmynd á hálfri blaðsíðu eða svo þá er alveg sjálfsagt að skrifa um efnið þrjú hundruð blaðsíður eða meira. En hvernig ætli mér hafi dottið í hug að lesa annan eins langhund og Kári skrifaði. Kannski er um að gera að lengja mál sitt sem mest til að ná til fólks. Það sem hingað til hefur nefnilega fælt mig sem mest frá twitter eru þessar ímynduðu takmarkanir á lengd hverra skilboða. Á fésbókinni er hægt að hafa langhunda mikla og sumir gera það. Annars er ég víst líka á móti fésbókinni. Ekki ennþá vaxinn uppúr Moggablogginu.

Getur verið að orsakanna að hruni Samfylkingarinnar sé að leita í of nánu sambandi hennar við fjármálaöflin í landinu. Þetta virðist Egill Helgason halda. Kannski er það rétt. Kannski er það líka rétt að fylgishrun Pírata miðað við skoðanakannanir sé áróðri gegn þeim að kenna. Hvað veit ég? Gersamlega ótengdur öllum kjaftamaskínum og les ekki nema sumt sem þó kemst á flestra vitorð í fésbókinni.

Nú er ég hættur.

IMG 2917Einhver mynd.


2538 - Um Carlsen, Trump, Apple o.fl.

Myndin sem ég setti með síðasta bloggi lenti óvart efst, en ég nenni ekki að laga það. Alveg er merkilegt hvað ég blogga mikið þessa dagana. Verst ef einhverjir lesenda minna verða leiðir á þessu sífellda skrifelsi. Er samt ekkert að hugsa um að hætta meðan einhverjir láta svo lítið að lesa þessi ósköp.

Reglulega er hnýtt í gamla fólkið á Lansanum. Barátta Landsspítalans fyrir auknu fjármagni fer einkum fram í fjölmiðlum (RUV fréttum??) Hugsa að þetta sé sú mynd sem margir hafa. Alþingismenn fara eftir því sem þeim er sagt. Sama hvað. Ekki er hægt að ætlast til þess að þjóðfélagið nemi staðar meðan stjórnmálamenn mala. Enda held ég að þeir geri sér grein fyrir því. Engin ástæða er til að ásaka stjórnmálamenn nema óbeint um ástandið á Landsspítalanum, eða eru fjölmiðlarnir í samsæri með sjúkrahúsinu um að gera sem mest úr vandanum? Ekki hef ég trú á því.

Lögreglan hér á Akranesi fær ekki góða dóma í fréttum. Eflaust er henni formælt á fésbókinni. Ég fæ samt ekki mikið af slíkum tilkynningum. Ábyrgð lögreglunnar ætti að vera að svara a.m.k. einhvern vegin ásökunum sem birtast í viðurkenndum fjölmiðlum. En hvaða fjölmiðlar eru viðurkenndir og hver á að viðurkenna þá?

Nú er jafnvel talað um að Apple neyðist til að framleiða sínar vinsælustu vörur í (iPhone og iMac) í Bandaríkjunum. Segið svo að kjör Trumparans hafi engin áhrif. Hann hefur kannski ekki úrslitaáhrif á hvort Magnús Carlsen eða Sergei Karjakov verði heimsmeistari í skák, þó einvígið um þann titil sé nú haldið í New York. Áhrif hans eru samt mikil. Fyrir utan heimsmeistaratitilinn finnst mér mest brennandi spurningar dagsins og næstu daga vera hver verður valinn utanríkisráðherra í Bandaríkjunum þegar Trump tekur við og hvort Katrínu takist að mynda 5 flokka stjórn hér á voru kalda landi.

Einhverjir dagar held ég að séu síðan ég bloggaði síðast, svo sennilega er bara best að senda þetta rakleiðis út í eterinn, þó í styttra lagi sé.

IMG 2915Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband