Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

2537 - Spilling

IMG 2908Finnst endilega að ég hafi heyrt áðan í útvarpinu að Elizabeth II hafi verið krýnd árið 1947. Það held ég að sé ekki rétt. „Spurðu bara Gúgla.“ Mundi Tinna segja af því að hún er orðin sjö ára. Ég nenni ekki slíku, því mér finnst meira gaman að skrifa en að semja spurningar á ensku.

Það fyrsta sem ég man eftir úr fréttum var um Geysis-slysið. Það held ég að hafi átt sér stað árið 1950. Líka man ég eftir að það gerðist nokkurn vegin um sama leyti að menn komust í fyrsta skipti á Everest-tind og að Elizabeth II var krýnd með pompi og pragt. Það held ég að hafi skeð 1952 eða 1953. Kannski hef ég frétt af því seinna. Allavega held ég að þetta hafi skeð sama árið. Annars er ég enginn prófessor í sagnfræði. Og Gúgla læt ég yfirleitt í friði nema um brennandi spurningar sé að ræða. Þar að auki hef ég engan sérstakan áhuga á ártölum. Það má svosem líka alveg prófa að hafa spurningarnar til Gúgla á íslensku.

Auðvitað er meira en að segja það að ákæra forseta Bandaríkjanna, en samt má búast við því. Kannski verður Donald Trump ákærður eins og Richard Nixon og Bill Clinton. Ekki er þó vitað fyrir hvað. Kannski fyrir Trump University. Trump er það óútreiknalegur að repúblikanar í þinginu gætu ákveðið að losa sig við hann. Hver tæki þá við? Nú auðvitað varaforsetinn Mike Pence, sem er fyrrverandi ríkisstjóri í Indíana og margreyndur stjórnmálamaður, sem Trump er ekki. Líklega mundi hann láta það verða sitt fyrsta verk, eins og Gerald Ford, að náða Trump. Þessar spekúlasjónir eru með öllu án ábyrgðar.

Leiða má líkur að því að Trump muni uppskera nokkuð harða gagnrýni fyrir að hafa gert Steve Bannon að sínum helsta ráðgjafa. Ekki tók Obama forseti undir þær gagnrýnisraddir á sínum síðasta blaðamannafundi sem haldinn var í dag (mánudag). Þó ég sé ekki vanur að fylgjast með beinum pólitískum útsendingum í öðrum löndum gerði ég undantekningu að þessu sinni. Mesta athygli mína vakti samanburður hans á viðbragshraða þeim sem nú er nauðsynlegur við miklum tíðindum. Hann sagði að Kennedy forseti hefði haft 2 vikur til að bregðast við Svínaflóaárásinni. Fyrr hefði hún ekki verið á allra vitorði. Nú mundi slíkur hægagangur ekki vera liðinn.

Spekúlera má í ríkisstjórnarmyndun hér á Íslandi núna og víða er það gert. Mér finnst Bjarni hafa tekið sér fulllangan tíma, því enn er sagt að ekki sé fullvíst að þetta takist. Vissulega er um margt að semja og oft hefur það tekið langan tíma að ganga frá öllum lausum endum. Nú má hinsvegar segja að liggi verulega á því jólin og áramótin nálgast óðfluga. Eða ætti ég kannski að segja eins og óð fluga.

Sennilega minnist enginn þeirra flokka sem nú ræða ríkisstjórnarsamstarf á spillingarmál frekar en þau séu ekki til. Einhver útlend samtök hafa haldið því fram að spilling sé lítil á Íslandi. Almenningur veit þó betur. Spilling, frændhygli, einkavinavæðing o.s.frv. er landlæg hér á Íslandi. Tilraunir til að minnka hana mundu áreiðanlega skila sér í fleiri atkvæðum. Þeir hægri sinnuðu flokkar sem nú ræða stjórnarmyndun eru samt ekki líklegir til að ráðast gegn henni.

Einhver mynd.


2536 - Íslandi allt

Ísland er gott land og gjöfult. Ég er sannfærður um að mjög óvíða eru lífskjör öll jafngóð og hér. Túristastraumurinn mun jafna sig þegar frá líður og á flestan hátt eru þau kynni sem útlendingar hafa af landinu til góðs. Sú sífellda neikvæði sem allsstaðar blasir við, einkum þó á fésbókinni og öðrum félagslegum miðlum, lætur mörgum líða illa. Flestir virðast halda að allir aðrir hafi það miklu betra en þeir sjálfir. Ótrúlegt er að svo sé. Auðvitað líður sumum illa, sumum hálfilla og sumum vel. Svoleiðis er það bara og heldur áfram að vera, nema upp sé tekinn hreinn kommúnismi þar sem enginn á neitt og allir fá það sem þeir þurfa. Þá verða vonandi allir jafnfátækir eða jafnríkir. Allt eftir því hvernig á málin er litið.

Öll þessi gæði eru þó hugsanlega dálítið hverful. Ýmsar þær hættur sem steðja að heiminum gætu svosem hvenær sem er heimsótt okkur. Við erum samt ekki svartsýn þjóð nema þá helst í pólitískri orðræðu. Við undirbúum okkur ekki undir það að allt fari til fjandans. Erum illa undir það búin að hverskyns óáran hitti okkur fyrir.

Sú óáran kæmi líka áreiðanlega að utan. Hingað til hefur sú hugmyndafræði að við ættum að búa sem mest að okkar eigin og einangra okkur sem mest frá umheiminum ekki átt upp á pallborðið hér á Íslandi. Samskipti okkar við umheiminn hafa að mestu falist í meðfæddu flökkueðli okkar. Nú er það samt svo að mesta kynningin sem Ísland fær stafar áreiðanlega af ferðalöngum sem hingað koma.

Veggurinn milli Mexíkó og Bandaríkjanna er alltaf að minnka hjá Trump. Áreiðanlega ákærir hann heldur ekki Hillary Clinton um neitt þó hann hafi haft hátt um það í kosningabaráttunni. Sú barátta snerist, fyrir utan beinu lygarnar, meira um persónulega hluti en áður. Hillary Clinton féll í þá gryfju einnig með því t.d. að halda því fram að Trump væri óhæfur til að gegna embætti Bandaríkjaforseta. Sama gerði Obama forseti og margir fleiri af stuðningsmönnum Hillary. Stefnumálin skiptu sáralitlu máli.

Þó öll umræða sé yfirleitt til góðs má satt oft kyrrt liggja. Ömurlegum fréttum sem eru endalausar mætti beina annað en að sem allra flestum. Jákvæðar fréttir eru samt oftast hundleiðinlegar og ekkert við því að gera. Fjölmiðlum er vorkunn. Lesendur vilja helst neikvæðar fréttir og sem ýtarlegastar fréttir af hörmungum hverskonar. Einhversstaðar sá ég því haldið fram að sá maður sem gæti stundað iðjuleysi án þess að valda sjálfum sér skaða væri sannarlega öfundsverður því sá hæfileiki væri til marks um sanna menningu.

Nú er semsagt verið að reyna að sjóða saman nýja ríkisstjórn. Mér finnst óþarfi að saka menn um óheilindi þó forgangsröðunin sé önnur en hjá manni sjálfum. Líka finnst mér óþarfi að ganga útfrá því að Viðreisn sé verulega frábrugðin Sjálfstæðisflokknum. Þangað langar þá flesta aftur sem hana styðja þó þeir séu óánægðir með sumt í stefnu flokksins. Það er alveg sama hvað sagt er. Verkin sýna merkin. Skil ekkert í Bjarti framtíð að sjá þetta ekki. Evrópa er skárri en Ameríka.

Fíflagangur á flugvöllum. Ein ástæða þess að ég vil helst ekki í flugvélar fara er sú að ég stressast allur upp á flugvöllum. Ýmist þarf maður að vera heillengi í óralöngum biðröðum, heimtað er að maður fari úr skónum og jafnvel ýmsu öðru eða maður verður að fara í gegnum einhver sípípandi öryggishlið o.s.frv. Þar að auki eru sætin í flugvélum oftast svo þétt að þar er engin leið að sitja lengi án þess að fá verki í fæturna og eflaust mætti tína fleira til. Væri hægt að fara bílandi eða siglandi frá landinu og til, án þess að eyða í það vikum, mundi ég þúsund sinnum heldur vilja það.

IMG 2936Einhver mynd.


2535 - Óttarr Proppé

Ég er alltaf að spá. Yfirleitt vitlaust reyndar. T.d. spáði ég alls ekki Trump sigri í Bandaríkjunum og ekki spáði ég rétt í Brexit málinu. Einhvern tíma hlýt ég samt að spá rétt. Nú spái ég því t.d. að Bjarna Ben. takist ekki að mynda ríkisstjórn. Það er líklegra að Katrínu Jakobs. takist það. Sumt í málflutningi Vinstri grænna er þó svolítið umdeilanlegt, en menn voru fyrst og fremst að hafna núverandi ríkisstjórn í kosningunum í októberlok. Og sennilega er auðveldara að fá Viðreisn til að vinna til vinstri en til hægri.

Ég lít svo á að Donald Trump komi ekki þeim málum fram sem lögð er mest áhersla á að hann standi við. Ekki síst af andstæðingum hans og reyndar einnig af mörgum stuðningsmönnum hans líka. Forsetinn er fremur valdalítill eins og allir vita. Í kosningabaráttunni sagði hann aðallega það sem áheyrendur hans vildu heyra. Með tilkomu Trump sem forseta Bandaríkjanna mun íhaldssemi aukast verulega í USA, á því er enginn vafi og má landið síst við því. Innflytjendalöggjöf verður hert, umhverfismál verða stöðvuð, o.s.frv. Innviðauppbygging og endurreisn iðnaðar verður ekki með þeim hætti sem Trump og aðrir íhaldsmenn vonast eftir. Auðveldur sigur mun blasa við demókrötum eftir 4 ár. Hillary ætti að halda áfram baráttu sinni, eins og Nixon gerði eftir að hafa tapað fyrir Kennedy.

Pétur á Kópaskeri kallar Trump federalista. Ég hefði haldið að federalisti væri sá sem vildi veg bandarísku alríkisstjórnarinnar sem mestan. Yfirleitt eru repúblikanar ekki á þeirri skoðun. Trump er hinsvegar enginn venjulegur repúblikani. Geta ríki eins og Kalifornía og Texas sagt sig úr lögum við alríkisstjórnina? Ég held ekki. Þó hafa flest núverandi ríki Bandaríkjanna gengið í ríkjasambandið USA á mismunandi tímum og eflaust á mismunandi forsendum. Ekki er ég sérfróður um þessi málefni.

Dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands segir að gamalt fólk á sjúkrastofnunum sé vannært. Víða mundi það vera kallað svelti. Annars hefur mér skilist að vannæring sé ekki það sama og hungur.

Erum við virkilega ekki komin lengra í almennri heilsugæslu, en þetta?

Áður fyrr var gamalt fólk stundum rekið fyrir björg í hallærum. Svo er sagt a.m.k. Ég hef alltaf haldið að þessháttar aðferðum hefði verið hætt með öllu að beita fyrir mörgum öldum. Stefna núverandi stjórnar í málefnum aldraðra og öryrkja minnir samt um sumt á þessa gömlu flökkusögu.

Ég er með þeim ósköpum gerður að ég vil pólitískt séð hafa lagfæringar á stjórnarskránni framarlega í þeirri forgangsröðun sem ég legg áherslu á. Þó ég hafi kosið Pírata í síðustu kosningum var ég ekki hrifinn af stefnu þeirra í stjórnarskrármálinu. Eins og Guðni Th. sagði í kosningabaráttunni til forsetaembættisins þarf ekki endilega að taka allar lagfæringar í stórum stökkum. Lítil von var til þess að fá fram meiri breytingar á stjórnarskránni á síðasta kjörtímabili en búið var að samþykkja í stjórnarskrárnefndinni. Þessvegna fannst mér stefna Óttarrs Proppés og Bjartrar framtíðar í því máli vera skynsamleg. Sá flokkur hafði líka þor og djörfung til að standa gegn búvörusamningunum.

IMG 3381Einhver mynd.


2534 - Hin hljóðu tár

Sennilega sér Donald Trump veröldina dálítið í svart hvítu ljósi. Þ.e.a.s. ef þú ert ekki með mér þá ertu á móti mér. Allt er hann tilbúinn til að láta af hendi til að bæta samningsstöðu sína. Líklega hefur hann engin prinsipp nema sjálfan sig. Kannski verður það allt í lagi. Ég er sammála Ómari Ragnarssyni um, að það hættulegasta í fari hans er hugsanlega inngróin andstaða hans við allar kenningar um náttúruvernd, hnatthlýnun og þessháttar þó hann í hina röndina sé hallur undir hverskyns öfga og samsæriskenningar.

Forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum eru oftast misheppnaðir. Oft góðir ræðumenn hinsvegar. Menn láta alveg eins og flokkshollustan skipti engu máli. Það er einfaldlega venja að sá flokkur sem átt hefur forseta í tvö kjörtímabil í röð í Bandaríkjunum tapar í næstu kosningum á eftir. Vitanlega er flokkshollustan ekki nærri eins mikil og hér á Íslandi en hún skiptir samt máli. Ekki bara peningar eða skortur á þeim.

Þó er ég alls ekki þeirrar skoðunar að hægri sveifla sé allsstaðar í hinum vestræna heimi að verða reglan. Baráttan milli norðursins og hinna suðrænu áhrifa mun sennilega aukast verulega á næstunni. Norðið er ríkt en suðrið er fátækt. Um ástæður þess fjölyrði ég ekki. Flóttamannastraumurinn á bara eftir að aukast. Ef Bandaríkin lokast verður Evrópa nauðbeygð til að gera betur. Kanada er varla hægt að telja með því stór svæði þar eru óbyggileg ennþá. Það kann þó að breytast. Síbería er líka geysistór.

Ég hef svo gaman af að skrifa, að þó ég sé gamall, fer ekki hjá því að ég velti bókarskrifum fyrir mér. Verst hvað ég skipti ört um áhugamál. Það kemur líka fram í blogginu hjá mér. Ég get ómögulega haldið þræðinum lengi. Verð alltaf að skipta reglulega um. Ekki held ég að það henti vel í bókarskrifum. Svo er ég heldur ekkert sérlega fljótur að skrifa þó ég kunni enn fingrasetninguna sem ég lærði á sínum tíma á Bifröst. Kannski hentar það einmitt betur núna þegar ég er farinn að hugsa hægar en áður var. Einn kosturinn eða ókosturinn við að verða gamall er nefnilega að allt gerist miklu hægar. Ekki hugsunin síður en annað. Kannski hefur dregið svolítið saman með skrifhraðanum og hugsunarhraðanum. Að skrifa langtímum saman um það sama hugnast mér samt allsekki.

Athyglisvert er að velta fyrir sér hverju hið lága olíuverð sem nú tíðkast, gæti hugsanlega komið til leiðar. Hækki olíuverð á næstunni eins og margt bendir til gæti það líka valdið ýmsu. Sú vinnsla sem nú á sér stað t.d. í Bandaríkjunum (fracking) getur t.d. haft heilmikil áhrif á vatnsöflun hverskonar. Heimurinn er einnig á ýmsan hátt að breytast um þessar mundir. Það að allskyns gerviheimar eru að verða til fyrir tilverknað þeirrar fjölmiðlunar og tölvuvæðingar, sem smám saman er að verða almenningseign, er ein af birtingarmyndum þessara breytinga. Túrisminn sömuleiðis.

Af einhverri rælni fór ég áðan inná vefsvæðið „Druslubækur og doðrantar“. Þangað hef ég stundum farið og aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Óðar fór ég að lesa grein eftir einhverja sem ég veit ekki ennþá hver er. Þessi grein nefnist: „Þess vegna lokaði ég sársaukann inni og fór.“ Greinin fjallar m.a. um Ástu Sigurbrandsdóttur og bók hennar „Hin hljóðu tár“ sem kom út árið 1995. Man að ég las þessa bók og hún hafði mikil áhrif á mig. Ljótleiki og hryllingur styrjalda hefur eflaust farið framhjá okkur nútíma Íslendingum mörgum hverjum, en ég man að skilningur minn á þeim hryllingi óx við lestur þessarar bókar og hún er mér mjög minnisstæð. 

P.S Reyndi að skrifa komment á síðuna „Druslubækur og doðrantar“ en fékk það ekki.

IMG 2984Einhver mynd.


2533 - Trump

Nú er orðið svo langt síðan ég bloggaði síðast að ég neyðist eiginlega til þess að skrifa eitthvað. Kjöri Trump í Bandaríkjunum verður líklega að taka eins hverju öðru hundsbiti. Óþarfi að láta það hafa alltof mikil áhrif á sig. Vel er hugsanlegt að ýmislegt breytist í Bandaríkjunum og samskiptum þeirra við aðrar þjóðir. Vonandi samt ekki of mikið.

Mér leiðist fésbókin. Aldrei hagar hún sér eins og ég vil að hún hagi sér. Moggabloggið er betra. Það hagar sér alltaf eins. Ekki þessar sífelldu breytingar. Kannski fer ég samt einhverntíma að skrifa meira og jafnvel mikið á fésbókina, þó ég skilji hana stundum allsekki. Að mörgu leyti er það fljótlegra og hampaminna. Bloggið finnst mér samt að sumu leyti varanlegra og veita meiri tækifæri til umhugsunar. Veit ekki af hverju. Kannski er þetta misskilningur. En ég misskil hvort eð er svo margt að það gerir ekkert til.

Já, já. Ég vakti meira og minna yfir CBS-fréttunum á kosninganóttina. En mér finnst þetta svona eftirá, og sérstaklega úr því að Trump vann, vera svo ómerkilegt mál að ég ætla héðan í frá helst ekki að minnast á þetta alltsaman. Aðrir geta séð um það og gera áreiðanlega. Öfgakennd viðbrögð eru hættuleg. Mér finnst hann einkum hafa unnið á anti-establishment skoðunum sínum og þar eigi hann eitt og annað sameiginlegt með Brexit. Andstaða við ríkjandi stjórnvöld er mjög útbreidd um allan hinn vestræna heim og sú viðstöðulausa fjölmiðlun sem við eigum við að stríða núna er óhóflega neikvæð. Mér hugnast alls ekki margt af því sem Trump hefur sagt. Áreiðanlega hefði ég ekki kosið hann. Hverjir eru eiginlega hinir nytsömu og heimsku sakleysingjar? Annað finnst mér eftirtektarvert. Er virkilega ekkert að marka þessar blessuðu skoðanakannanir? Jú, jú allskonar afsakanir er hægt að finna, en það bjargar ekki neinu.

IMG 2993Einhver mynd.


2532 - Fésbókarminningar, data mining o.fl.

Eftirfarandi klausu eða klásúlu hef ég víst sett á fésbókina fyrir tveimur árum. Altsvo í nóvemberbyrjun árið 2014. Eiginlega hef ég átt það til að vera talsvert fyndinn þá. Ég fór a.m.k. að hlægja þegar ég sá þetta:

Einkenni Íslenskra efnahagsmála er einstakur stöðugleiki, segir Bjarni Benediktsson. Og hann ætti nú að vita það. Sjálfur fjáransráðherrann. Já, ég hef orðið var við þetta. Hér dettur ekki nokkur maður. Það er sama hve hvasst er, enginn dettur. Menn halla sér kannski svolítið upp í veðrið, en það dettur enginn. Nú... Ha... Hvað segirðu? Átti hann ekki við svoleiðis stöðugleika? Nú, er það þannig? Já, ég hef líka orðið var við það. Einkum ef tímabilin eru stutt. Það varð til dæmis engin kollsteypa í fjármálum í gær svo ég muni eftir. Það er jafnvel hugsanlegt að það verði engin á morgun heldur.

Kannski er mér að fara aftur með svonalagað. Samt held ég áfram að skrifa eins og vitlaus maður. Jafnvel þó ég sé fluttur hingað á Akranes. Annars eru mörg skáld og rithöfundar víst héðan frá Akranesi. Flest þeirra áttu það held ég sameiginlegt að vilja fyrir hvern mun komast sem fyrst í sollinn í Reykjavík. Kannski er umhverfið hér ekkert hagstætt frumlegri hugsun og Reykjavík ekki nein stórborg þó manni ógni svolítið umferðin þar og æðibunugangurinn.

Þegar ég setti síðasta blogg mitt upp gleymdi ég víst að stækka myndina og setja hana á miðjuna. Sennilega er það bættur skaðinn því ljósmyndari er ég enginn. Tek samt heilmikið af myndum. Hættur að nenna að setja eitthvað af slíku á moggabloggið mitt því það kostar. Skrif taka afar lítið pláss og þessvegna nota ég bara gamlar myndir með blogginu. Alltaf að reyna að spara.

Það nýjasta af kosningabaráttunni í Bandaríkjunum er að upplýst er að þeir sem stjórna kosningabaráttunni fyrir Trump eru sagðir skipta við breskt tölvufyrirtæki sem hefur aðgang að upplýsingum um 230 milljónir bandaríkjamanna og um það bil 4000 data bits um hvern þeirra. Þetta borga þeir Trumparar vel fyrir og geta í staðinn miðað rétt á væntanlega kjósendur. Eflaust gera Clintonsinnar eitthvað svipað, en hlálegt er samt að Trumparar skuli leita útfyrir landsteinana með þetta.

Annars sýnist mér tilgangslaust hjá mér að skrifa mikið um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum því svo margir skrifa um þær og sumir hverjir af mikilli þekkingu. Nú er Comey forstjóri FBI búinn að draga flest til baka varðandi Hillary Clinton, en samt eru margir reiðir honum fyrir að vera að skipta sér af þessu.

IMG 2991Einhver mynd.


2531 - Trumplandia

Einu sinni var svonefnt „þingfararkaup“ þingmanna mjög lágt. Allskyns aukasporslur voru þá auðvitað þeim mun hærri. Kaupið var samt lélegt. Man að á einhverju tímabili hafði ég hærri laun en þingfararkaupið var. Svo stóð ekki lengi. Ríkisstjórnir og alþingi hafa komist upp með að stela af mér og flestum öðrum hluta þeirra eftirlauna sem ég hélt að ég væri að safna með því að borga í lífeyrissjóð á langri ævi. Það sem almennar tryggingar ákveða í samráði við yfirvöld á hverjum tíma að greiða öllum ætti alls ekki að koma þeim eftirlaunum sem ég hef skrapað saman, nokkurn skapaðan hlut við.

Mér finnst raunar ekki nein goðgá að alþingismenn hafi góð laun, en þegar föstu launin þeirra eru u.þ.b. fimm eða sex sinnum hærri en yfirvöld skammta mér í óstolnum eftirlaunum og ellistyrk þá fyndist mér réttlátt að afnema eða minnka stórlega aukasporslurnar.

Þessa klausu setti ég á fésbókina því ég er eða var ekki búinn að skrifa neitt meira og fannst að þessi hugleiðing ætti erindi þangað. Slæm þróun ef ég fer að setja öll mín skrifa bæði á fésbókina og moggabloggið. Takið vandlega eftir því að ég nota ekki stóran staf í fésbókina né árans moggann og reyni a.m.k. alltaf að muna eftir að gera það ekki heldur ef ég minnist á alþingi í miðri setninu. Dægurmálefni og pólitík eru samt ekki mínar ær og kýr, þó sumir geti varla án þess verið að hugsa mikið um slíkt.

Auðvitað veit ég mætavel að til eru reglur um hvar nota skuli stóra stafi. Mér finnst bara að hver og einn eigi að ráða því. Vitanlega er þetta líka vegna þess að ég kann þær reglur ekki. Að nota stóra stafi eingöngu er að hrópa eða öskra og það vil ég auðvitað helst ekki gera. Ég er einnig ákaflega óviss um hvernig eigi að nota kommur og önnur greinarmerki. Aftur á móti þykist ég vera allgóður í stafsetningu. Geri t.d. fremur sjaldan upsilonvillur og var á sínum tíma guðslifandi feginn þegar setunni var útrýmt. Sennilega eitt besta verk Sverris Hermannssonar. Annars var hann furðu sjálfstæður og forn í hugsun miðað við að fylgja jafnvitlausum flokki og hann gerði.

Trumplandia er nýjasta orðið sem demókratar í Bandaríkjunum hafa fundið upp um FBI (alríkislögregluna). Þeir segja að þeir sem vinna hjá FBI séu mjög andsnúnir Hillary Clinton. Ég er eiginlega spenntari fyrir forsetakosningunum í Bandaríkjunum á þriðjudaginn kemur, en kosningunum sem hér fóru fram um daginn. Hlutirnir breytast afar hægt hér á Íslandi og ég yrði ekki vitund hissa þó Bjarni Benediktsson mundi mynda ríkisstjórn með Framsókn og Viðreisn. Ég trúi því varla á Bjarta Framtíð að taka þátt í slíku. Þó FBI hafi snúist á sveif með Trump er ég samt ekkert að hugsa um að breyta spádómi mínum um sigur Hillary Clinton. Held að það séu meiri líkur á að Bandaríkin nálgist Evrópu pólitískt séð ef Clinton vinnur. Hræddur er ég um að Bandaríkin mundu einangrast meira ef Trump ynni.

Þó Brexit sé staðreynd (sem ég spáði vilaust um) er það svo að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem haldin var í Bretlandi og þar sem samþykkt var að ganga úr ESB var strangt tiltekið aðeins ráðgefandi. Forsætisráðherrann sagði af sér og nýr tók við. Hans/hennar hugmynd var að óska formlega eftir útgöngu í lok mars á næsta ári. Samningar um hvernig að útgöngunni yrði staðið tækju síðan u.þ.b. 2 ár. Nú er allt útlit fyrir að lagalegar flækjur tefji þetta mál verulega. Kannski liðast Bretland í sundur í alvörunni eins og á knattspyrnuvöllunum.

IMG 3013Einhver mynd.


2530 - Kosningar, ríkisstjórn, o.fl.

Eins og allflestir Íslendingar tek ég nú þátt í ríkisstjórnarkaplinum. Klausuna hér fyrir neðan setti ég áðan á fésbókina, því mér finnst áríðandi að þessi hugmynd komist á flot. Sennilega er hún það nú þegar, með öllu án míns tilverknaðar geri ég ráð fyrir. Flestir sem um kosingaúrslitin skrifa eru þó óhóflega langorðir. Margir vilja halda stærsta flokknum utan við ríkisstjórn og að talsvert sé á sig leggjandi til þess að það megi takast. Framsókn vill vera með öllum, en enginn vill ótilneyddur vera með henni.

Þetta er mín hugmynd í sem allra fæstum orðum og ég setti það svotil óbreytt á fésbókina:

Nú er kosningunum lokið, en eftir að mynda ríkisstjórn. Ég vona bara að það taki ekki alltof langan tíma og eins mundi ég óska þess að íhaldsamasta flokki landsins verði haldið utanvið þá ríkisstjórn. Ég vil nefnilega breytingar á ýmsu (aðallega eftir mínu höfði að sjálfsögðu) en ekki þá stöðnun og kyrrstöðu sem Bjarni Benediksson boðar. Að þingflokkar Samfylkingar og Bjartrar framtíðar veiti slíkri ríkisstjórn hlutleysi sitt, án þess að fá ráðherra í henni, líst mér við fyrstu sýn nokkuð vel á.

Þetta þýðir að sjálfsögðu minnihlutastjórnstjórn Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, sem samtals hafa 27 þingmenn. Ekki vil ég segja neitt um ráðherra í þeirri ríkisstjórn, en mannvalið ætti að vera nóg. Læt ég svo lokið speglasjónum (spekúlasjónum) um pólitík að þessu sinni.

Í Kyndlinum mínum fann ég áðan bókina (skáldsöguna) „The Marchers“. Bakgrunnur hennar er byltingin í Íran (Persíu) sem lengi hefur vakið áhuga minn. Verst hvað ég hef lítið álit á skáldsögum og hve seinlesinn ég er og gleyminn.

Þessi bók er pdf-skjal sem allir hljóta að vita hvað þýðir. Hún er samt áreiðanlega ekki „stolin“ ef svo má segja. Ég hef örugglega fengið hana ókeypis á Amazon því ég fæ mér eingöngu rafbækur þar sem ekki kosta neitt. Þær eru nú um 75 þúsund talsins. Þetta er að því er ég best veit nýleg bók. Á Amazon kostar hún núna $5,30.

Er nýbúinn að lesa bók sem heitir „Denali nights“ en Denali er að sjálfsögðu annað nafn á Mt McKinley sem er hæsta fjall Norður-Ameríku og er í Alaska. Þessi bók er ennþá ókeypis á Amazon. Hún er einskonar dagbók manns sem tók þátt í leiðangri þangað. Fjallgöngur, ís og kuldi heilla mig ennþá þó ég geti ekki lengur stundað neitt þessháttar.

Fékk áðan eftirfarandi orðseningu frá fésbókarguðunum:

You're in control of who can see the things you post

Sæmundur, it looks like someone who isn't your friend recently liked one of your posts. We want to make sure you know who can see the things you post. To learn more, check out Privacy Basics.

—The Facebook Privacy Team

Í stuttu máli sagt þá hef ég engin áform uppi um að gerast „fésbókarfræðingur“ og er alveg sama þó þeir sem það vilja geti lesið það sem ég skrifa.

IMG 3049Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband