2541 - Pútín og Trump

Stanz, Aðalbraut, Stop. Stóð á einhverjum skiltum sem maður þurfti að vara sig á í gamla daga. Mér finnst það samt ekki nægilega góð ástæða fyrir Toyota til að auglýsa í mörgum heilsíðuauglýsingum ókeypis ástanzskoðun á bremsum. T.d. heita bremsur hemlar í hátíðlegu máli þó Toyotamenn viti það sennilega ekki. Eiginlega er þetta samt svo ómerkilegt mál að það tekur ekki að fjölyrða um það.

Ekki veit ég hvernig Kötu gengur að mynda fimm flokka ríkisstjórn, en mikið óskaplega held ég að Bjarni sé fúll. Sennilega missir hann formannsembættið útá þetta því varla eru útgerðarprinsarnir og prinsessurnar ánægð með frammistöðuna. Miðað við hvernig stuðningsmenn núverandi stjórnar láta mætti halda að sjálfsagt væri að láta á fimm flokka stjórn reyna. Líklega kemur næsta stjórn til með að verða kölluð fimmflokkastjórnin. Sú þar á undan sennilega Panamastjórnin og þar á undan var Jóhönnustjórnin.

Furðu margir lesa þetta fjas í mér og þess vegna er ekki um annað að gera en reyna að halda þessu áfram.

Þjóðernishyggja, fótbolti, trúarbrögð og stjórnmál eru eitruð blanda. Sumir blanda þessu öllu saman og útkoman verður oft fordómar og hverskyns öfgastefnur. Allt er þetta samt ágætt ef þess er gætt að halda því sæmilega aðgreindu.

Donald Trump heldur áfram herferð sinni gegn pressunni. Sérstaklega virðist honum vera illa við New York Times. Þeir segjast aftur á móti hafa stóraukið áskrift sína með gagrýni sinni á hann. Honum er líka talsvert uppsigað við CNN. Segja má samt að pressan hafi búið hann til. Einkum stóru sjónvarpsstöðvarnar. Þegar hann var að hefja kosningabaráttu sína fékk hann ótrúlega mikla umfjöllun í fréttatímum þeirra. Aðallega útá stóryrði sín hverskonar, sem hann dró síðan talsvert úr. Nú þykjist hann þess umkominn að segja pressunni til. Hirðfíflið sjálft.

Karjakin vann Carlsen víst í gær. Trúi því samt varlega að Carlsen tapi einvíginu. Hann gæti sem best mætt tvíefldur í næstu skák. En þægilegt hlýtur það að vera að vinna á svart. Jafnvel þó það sé ekki nema ein skák. Einvígið er líka afar stutt.

Allt gengur Putín (Rússakeisara) í hag nema innanlandsmálin og olíuverðið. Trump og hann ætla víst í sameiningu að endurvekja kalda stríðið. Þó er ekki víst að Trumparinn fái alla með sér sem áður voru það.

Var áðan að hlusta svolítið á Ólaf sjálfkeyrandi Guðmundsson. Samkvæmt honum er von á sjálfkeyrandi bílum alveg á næstunni. Ekki seinna vænna að breyta ýmsu hér á okkar ástkæra landi. Ef tækist að laga vegina og koma í veg fyrir eða afnema með öllu slys og dauða í umferðinni á næstu árum yrði ég a.m.k. alveg ánægður. Sjálfkeyrandi bílar mega alveg bíða svolítið. Held líka að einhverjir verði fljótari en við hér á Íslandi að taka slíkt upp.

IMG 2879Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þú verður nú að fara varlega í að fjalla um Trumpsa karlinn. Var ekki að koma á daginn að hann er Skagamaður?

Þorsteinn Siglaugsson, 22.11.2016 kl. 22:10

2 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Eigendum Toyota bifreiða býðst ókeypis ástandsskoðun.

Þarf líka að ástandsskoða eigendur???sealed

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 24.11.2016 kl. 09:00

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hallgrímur, þeim býðst ekki ástandsskoðun heldur ástanzskoðun.

Sæmundur Bjarnason, 24.11.2016 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband