2547 - Hænsnamálið mikla

Eftir sýningu Kastljóssins á mánudaginn munu væntanlega flestir forðast mjög að kaupa egg frá Brúnegg. Fyrirtækið verður líklega að flýta sér að skipta um nafn og umbúðir. Annað er ekki líklegt að út úr þessu komi. Í versta falli þurfa þeir að skipta um kennitölu líka. Innst inni vita allir að illa er farið með dýr. Ekki síður hér á Íslandi en annarsstaðar. Jafnvel því verr sem þau eru minni og ófærari um að bera hönd fyrir höfuð sér. Um þetta þarf ekki mikið að ræða og allsekki að deila.

Önnur hlið á þessu máli sem fréttastofa sjónvarpsins er þegar farin að gera sér mat úr er sofandaháttur stjórnvalda. Einnig væri fróðlegt að vita hver ferill þessa máls hefur verið hjá sjónvarpi allra landsmanna. Þakklæti fyrir að hafa vakið athygli á þessu má ekki blinda menn. Ekki er að sjá að Fréttastofan og Kastljósið hafi sömu sýn á þetta mál.

Græðgi fyrirtækisins hefur greinilega verið mikil og er ekki á neinn hátt afsakanleg. Talsmanni fyrirtækisins hefur sennilega fundist hann standa sig vel í viðtalinu sundurklippta. Svo er þó allsekki. Útskýringar hans voru afleitar mjög og ósannfærandi. Frammistaða fréttamannsins þó með ágætum.

Þeir opinberu aðilar sem að þessu máli hafa komið hafa sömuleiðis staðið sig afar illa. Talsmaður þeirra stóð sig sömleiðis illa. Tafir þeirra á aðgerðum eru á engan hátt afsakanlegar. Neytendur geta hætt að kaupa egg frá Brúnegg og refsað með því fyrirtækinu, en að stjórnvaldsstofnunum eiga þeir mjög lítinn aðgang.

Vald Kastljóssins er mikið og ekki mun það minnka við þetta.

Sagt er að stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sé í pípunum. Kannski er það rétt. Spyrja má samt hvort Björt framtíð hafi ekki að sumu leyti villt á sér heimildir. Margir álitu þann flokk mun vinstri sinnaðri en Viðreisn.

Eftir kosningar kom þó annað í ljós.

Spyrja má um ýmislegt. T.d. það hvort Jón Gnarr og Heiða Helgadóttir (eða Helgudóttir – man aldrei hvort er réttara) séu hlynnt þessu. Minnir að Björt framtíð hafi eitt sinn verið álitin einskonar framlenging af Besta flokknum. Af hverju vildu hvorki Guðmundur Steingrímsson né Róbert Marshall bjóða sig fram aftur?

Framsóknarflokkurinn er á margan hátt svarti péturinn í þessu öllu saman. Hefur líka ekki lokið tiltektinni. Kannski verður stjórnarandstaðan samt mun sterkari en stjórnin ef þetta verður niðurstaðan.

Bjarni Benediktsson hefur eflaust vonast eftir að Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn kæmu með sér í ríkisstjórn. Það hefði orðið mun fullkomnari afturhaldsstjórn en hér hefur verið lengi. Steingrímur nestor hefði jafnvel getað orðið forseti alþingis. Sennilega er það nokkuð sem hann langar mikið til. Ekki hefði verið ráðlegt að hleypa honum aftur í ráðherrastól.

IMG 2729Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband