2542 - Geirfinnur Einarsson

Jón Valur Jensson les víst bloggið mitt. A.m.k. stundum. Ekki get ég bannað honum það og hef það ekki í hyggju. Sömuleiðis ætla ég ekki að meina honum eða nokkrum öðrum að athugasemdast við það. Vona samt og held að ekki séu allir sem þetta lesa jafnhægrisinnaðir og hann. Kannski hef ég einhvern hægri-stimpil á mér vegna þess að ég er svo latur, sérhlífinn og íhaldssamur að ég blogga ennþá á Moggablogginu. Einhver minnir mig að hafi sagt að þar blogguðu bara öfgahægrimenn og fáeinir stórskrýtnir sérvitringar. Vonandi hefur hann talið mig vera skrýtinn sérvitring því öfgahægrimaður vil ég allsekki vera.

„Já, Canopy by Hilton og við erum fyrsta hótelið worldwide og Reykjavík er up and coming áfangastaður sem að komandi kynslóðir elska með náttúruna okkar og kúlturnum okkar og þarafleiðandi var þetta bara svona match made in heaven að við myndum verða fyrsta destinationið til að opna hótelið.“

Egill Helgason tekur þetta sem dæmi um það að íslenskunni sé að hraka. Ég er ekki frá því að ég sé sammála honum. Er a.m.k. þeirrar skoðunar að það sé nýja hótelinu til stórskammar að láta svonalagað frá sér fara. Man að í dönskunni á Bifröst gekk okkur illa að þýða „begrebet kultur“ á gullaldar íslensku, en tókst þó.

Eiginlega þori ég aldrei að kaupa stóra og dýra hluti núorðið á þessu síðustu og verstu afsláttartímum. Maður gæti þess vegna verið að missa af einhverjum toppafslætti annarsstaðar. Svo getur maður ekki einu sinni verið viss um að 80% afsláttur sé mikill afsláttur. Margar verslanir auglýsa nefnilega að hjá þeim sé allt að 80% afsláttur. Hugsanlega er þá 5% afsláttur á öllu nema einni tusku sem er 80% afsláttur á. Já ég veit að þetta er svartsýnisraus, en verslun sem alltaf er með útsölur og afslætti verður að gera ráð fyrir að selja sífellt minna án afsláttar.

Guðmundar og Geirfinnsmálin hvíla svo sannarlega eins og mara á þjóðinni. Verði ekki fljótlega af dómstólum komist að þeirri niðurstöðu að þarna sé um venjuleg mannshvörf að ræða (eru mannshvörf annars nokkurntíma venjuleg) og viðurkennt að dómsmorð hafi verið framið geta dómstólar búist við að með öllu verði hætt að taka mark á niðurstöðum þeirra. Margir gera það reyndar nú þegar. Því miður virðast dómarar vera jafnófullkomnir og hverjir aðrir. Við höfum (eftir því sem okkur er sagt) samþykkt þessa dómstólaaðferð til að útkljá deilumál. Segja má að þetta hafi tekið við af þjóðveldishugsuninni um að menn ættu sjálfir að framfylgja dómun. Seinna meir átti slíkt sér einkum stað fyrir kóngsins mekt og eftir það fengu dómarar þessi réttindi. Spyrja má hvort þau séu nokkuð sjálfsögð. A.m.k ættu þeir að geta viðurkennt mistök kerfisins svona löngu eftirá.

Þessi bloggskrif mín eru á vissan hátt samsvarandi dagbókarskrifum. Sumir ættingja minna og aðstandenda lesa þetta áreiðanlega til að sannfærast um að ég sé enn með „fulde fem“ eins og sagt var í mínu ungdæmi. Sjálfur þykist ég enn skrifa gullaldarmál þó þeim fari mjög fækkandi sem það gera. Allir eru sískrifandi. Eða voru a.m.k. þangað til fyrir skemmstu. Ég er farinn að merkja það að skrif þykja ófullkomin en vídeó-, kvikmynda- og ljósmyndatjáning hvers konar að verða sífellt algengari.

Hef tekið eftir því að ef ég set nafn á einhverjum í fyrirsögnina á bloggi mínu eykur það töluvert aðsóknina og allmargir virðast lesa það blogg og kannski fleiri. Þetta er mín læksöfnun og ég bið ekkert afsökunar á henni. Neita því ekki að mér finnst sumir ganga ansi langt og með lélegum hætti í þeirri söfnun á fésbókinni. Twitter hef ég aldrei náð neinu sambandi við.

IMG 2821Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, en Sæmi minn, nú er hann Trump jafnvel að verða normið (þótt það fréttist seint hingað), enda orðinn svo óskaplega sanngjarn upp á síðkastið, og hvað má þá ég alls vesall segja? Kannski bara alls ekki neitt nema hér í þínu verndarskjóli. En biddu mig bara ekki að taka þessa loftslagstrú, það færi alveg með mig.

Jón Valur Jensson, 24.11.2016 kl. 07:51

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Loftslagstrúin útbreidd er
ekki er því að neita.
Íhaldshrókar afleitir
engu vilja breyta.

Sæmundur Bjarnason, 24.11.2016 kl. 08:38

3 identicon

JVJ mundi trúa loftlagsbreytingum ef það væru verðlaun fyrir það.. eins og td eilíft líf og svona ;)

DoctorE 24.11.2016 kl. 12:08

4 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Morgunblaðs-bloggið stendur sig með prýði og bara ósköp notalegt/nothæft í allskonar bloggi.

Eyjólfur Jónsson, 24.11.2016 kl. 15:15

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gaman að því hvernig Sæmundur bregður hér fyrir sig 17. aldar framburði (Íhaldshrókar afleiter) í sinni vel gerðu vísu, minnir á HP: "Í þínu nafni útvalder".

En nú skulda ég honum vísu:

Já, sómi er að því, minn Sæmi,

þeim sautjándu aldar listum,

að heiðrir þú Hallgríms dæmi

og heita trú hans á Christum.

  

Jón Valur Jensson, 24.11.2016 kl. 16:22

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fagurkeri flámælis
fær hjá Jóni lofið.
Allt er þetta andhælis
og enginn getur sofið.

(síðasta ljóðlínan er nú eiginlega dæmigerður hortittur.)

Sæmundur Bjarnason, 24.11.2016 kl. 23:08

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

  • Sæmundur, frægur fagurkeri,

  • fussar ei við lofinu.

  • Allt, sem ég honum til heiðurs geri,

  • hann meðtók, meðan Lúðvík beri

  • sér undi í kerlinga klofinu.*

  * Síðustu línurnar taka mið af dagskrá Sjónvarpsins í kvöld, þar sem meintar bólfarir Lúðvíks XIV Frakkakonungs með mágkonu sinni og ektakvinnu komu meðal annars við sögu.

  Jón Valur Jensson, 25.11.2016 kl. 02:08

  8 identicon

  Varðandi afslættina. Vann einu sinni hjá fyrirtæki sem auglýsti oft svona allt að 80& afsláttur. Vorum með forljótar rauðar flísar á 80% afslætti en ekkert annað. Lentum síðan í bölvuðu veseni þegar einhver keypti allar helvítis flísarnar. Þá þurfti að finna eitthvað annað sem enginn vildi kaupa þótt það væri á 80% afslætti.

  benni 28.11.2016 kl. 18:08

  9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

  Rauðu flísarnar hafa greinilega verið mistök í innkaupum. Verðbólgan, sem auðvitað var bölvuð að öllu öðru leyti, leiðrétti svona lagað í gamla daga, því allt sem var á gamla verðinu var í rauninni hundódýrt.

  Sæmundur Bjarnason, 28.11.2016 kl. 21:00

  Bæta við athugasemd

  Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

  Innskráning

  Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

  Hafðu samband