Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

2325 - Verkföll yfirvofandi

Bjarna Benediktssyni finnst það ómögulegt að bara annar aðilinn verði fyrir tjóni þegar farið er í verkfall. Auðvitað er það ekki tjón að áliti Bjarna þó sá sem í verkfalli er fái engin laun. Launin er hvort sem er svo lág, að ekkert munar um þau. Núna loksins hefur það runnið upp fyrir verfallsrekendum að allsherjarverkfall er hugsanlega ekki nauðsynlegt til að draga samingsaðila að samningaborðinu. Annars eru margar hliðar á þessum verkfallsmálum og hálfhlægilegar oft á tíðum tilraunir fjölmiðla til að koma umræðum af stað.

Af hverju flýr unga fólkið í stórum stíl til útlanda? (Norðurlandanna aðallega) Auðvitað vegna þess að þar eru kjörin betri fyrir sæmilega duglegt fólk. Ég álít aðalástæðuna fyrir því að kjörin eru betri á hinum Norðurlöndunum vera þá að þar hafa jafnaðarmenn (kratar) ráðið lögum og lofum eftir heimsstyrjöldina. Hér hafa aftur á móti (a.m.k. oftast nær) ráðið öfl sem hafa viljað herma sem mest eftir frelsinu svokallaða í Norður-Ameríku. Fyrir þá sem eru hörkuduglegir í því að færa sér heimsku annarra í nyt hentar það ágætlega. Jafnaðarmennska eða kratismi er það auðvitað ekki. Í augum markaðssinna jafnast kratisminn á við kommúnisma. Hann er reyndar búið að kveða í kútinn, en vel er hægt að nota hann sem grýlu ennþá.

Oft er fjargviðrast mikið útaf mannanafnanefnd og margt af því er áreiðanlega með réttu gert. Mér finnst þó í lagi að einhverskonar eftirlit sé haft með því að foreldrar gefi börnum sínum ekki ómöguleg nöfn sem síðarmeir geta orðið þeim til mikilla trafala. Reynslan sýnir að einhver hætta er á því. Að þvinga útlendinga sem hingað flytja til að skipta um nafn er hinsvegar alveg út í bláinn. Leyfa má það þó og alltaf getur verið þörf á að leyfa fólki að skipta um nafn eða nöfn. Vitanlega ættu opinberir aðilar sem minnst að skipta sér af þessum málum, þó það geti einstöku sinnum verið nauðsynlegt. Þetta með ættarnöfnin og Íslenskar nafnvenjur að öðru leyti er þó alveg þess virði að rífast um.

Hringbrautar-hringavitleysan með göngubrúm og þess háttar út í loftið, landspítala-langavitleysan með alltof stórum húsum og jarðgöngum um allar þorpagrundir og jafnvel Vaðlaheiðar-vitleysan og Landeyjahöfnin, nei nú stoppa ég. Hmm er þetta ekki alltsaman Daglegt plott (Eggertssonar) til þess að þrengja að flugvellinum? Nú hefur hann jafnvel fengið Valsmenn og aðra Guðsmenn í lið með sér til þess. Hvar endar þetta eiginlega? Verður ekki stórstyrjöld útaf þessu?

Ég tel útrásarvíkingana hafa trúað því sjálfa að þeir væru óhemju snjallir. Svolítið snjallir voru þeir áreiðanlega því það þarf góðan skammt af frekju og tillitsleysi til að komast á þann stað sem þeir voru á. Siðferði þeirra er samt vafasamt í meira lagi og yfirburðir þeirra yfir útlendinga í svipaðri aðstöðu, voru alls engir þó þeir héldu það. Verst er að nær allir sem hefðu getað stöðvað þá dásömuðu þá og espuðu í vitleysunni. Kannski voru fjölmiðlarnir verstir því hvað sem hver segir þá eiga þeir sinn þátt í sköpun almenningsálitsins.    

Hanna Birna segir að sjálfstæðisflokkurinn sé fjöldahreyfing vandaðs fólks. Sú fullyrðing er dálítið vafasöm ef rétt er eftir haft. Ekki er samt hægt að draga þá ályktun af þessum orðum að allir sem ekki kjósi sjálfstæðisflokkinn séu óvandaðir að hennar áliti. Samt gera einhverjir það og ekki er nein ástæða til að ætla annað en hún álíti alla þá sem gagnrýna hana óvandaða. Ekki finnst mér neitt átakanlega slæmt að vera svo óvandaður.

WP 20150414 09 27 58 ProBlokkarbygging undirbúin.


2324 - Ísak Harðarson

Ísak Harðarson er fésbókarvinur minn. Um daginn rakst ég á eftirfarandi einskonar prósaljóð eftir hann á fésbókinni. Er annars ekki allt sem finnst á fésbókinni almenningseign. Það hefur mér skilist:

MINN HEIMUR HRUNDI LÖNGU ÁÐUR
(Tileinkað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Geir Haarde
og þeim öflum sem hafa skapað þau og þau þjóna).

 

Nú finn ég þetta ljóð ekki svo ég get ekki vísað í það. Kannski ætlar höfundurinn að snurfusa það eða eitthvað. En af því ég tók afrit af því get ég birt það hér. Þetta hafði heilmikil áhrif á mig og af því að ég geng semsagt með rithöfundarbakteríu þá varð þetta mér tilefni til eftirfarandi hugleiðinga:

ÉG VEIT EKKI NEITT

Auðvitað má margt um Hrunið segja.

Sumt verður þó aldrei sagt. Sumir þegja sem fastast.

Einhverjir töpuðu aleigunni, aðrir talsverðu.

En ég bjargaðist.

Verðum við smáfuglarnir ekki að hugga okkur við það

Að hamingjan er ekki fólgin í rúmgóðum bílskúrum, sem aldrei kemur bíll inn í og tvöföldum gasgrillum?

Eigum við ekki bara að sætta okkur við að peningalegum verðmætum sé stolið af okkur jafnharðan.

Hvað er það sem aðskilur einskisvert líf og það sem verðmætara er? Eru þeir einskisverðari sem drukkna í Miðjarðarhafinu eða eru nægilega ólíkir okkur til að vera einskisverðir?

Hvað þá með Balkanskagastríðin fyrir skemmstu?

Er allt líf jafnmikils virði? Bæði mannlegt og dýrslegt? Jafnvel kjúklingalegt?

Eða plöntulegt og skordýralegt?

Veit það ekki.

WP 20150412 08 43 48 ProTengivagn.


2323 - Vopnuð lögregla

Það neikvæðasta við nútímann er hve margir halda, að aðrir séu eins spilltir og maður sjálfur mundi vera, hefði maður aðstöðu til.

Ókey, þetta átti eiginlega að vera spakmæli, en er það kannski ekki. Bloggið hjá mér er sennilega misheppnuð tilraun til að sýnast merkilegur. Ég er nefnilega alls ekki efni í rithöfund eða skáld, þó ég hafi gengið með þá grillu alllengi. Bloggið hentar mér mjög vel. Stuttar greinar, sem allsekki þurfa að vera í neinu samræmi hver við aðra. Svo sakar ekki að ótrúlega margir lesa þetta bull.

Vopnuð lögregla er það hættulegasta sem til er, punktur. Er valdastéttin virkilega farin að óttast almenning svona mikið? Fyrst verður auðvitað skotið á múslima, vélhjólagengi og annan óþjóðalýð, en er ekki sá almenningur sem krefst nýrrar hugsunar og nýrrar stjórnarskrár sami óþjóðalýðurinn? Sjáið hve illan endi ótti og hræðsla fær. Misskipting auðs í heiminum veldur fátækt, bæði andlegri og líkamlegri. Hve margir hefðu fallið í búsáhaldabyltingunni ef lögreglan hefði verið vopnuð? Bara pæling.

Eftir því sem Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands segir slær Morgunblaðið því upp í stórri fyrirsögn á forsíðu að 18 prósent Íslendinga greiði engan skatt. Auðvitað er þetta tóm vitleysa þó Viðskiptablaðið bergmáli þetta eftir því sem Stefán segir. Sjálfur sé ég aldrei Morgunblaðið nema hundgamalt. Hvað þá Viðskiptablaðið. Kíki þó alloft á mbl.is og treysti fréttum þar og á ruv.is betur en hjá öðrum vefmiðlum. Greinar þykir mér þó betri á Kjarnanum og a.m.k. til skamms tíma einnig á Eyjunni. Uppáhaldsbloggararnir mínir um þessar mundir eru Jónas Kristjánsson og Jens Guð. Upphafssíðan hjá mér er Gúgli sjálfur. Fréttablaðið sé ég nær aldrei. Engin ókeyis blöð rata hingað (og ekki seld blöð heldur) sem betur fer. Nóg er nú samt af þessu bréfarusli í póstinum. Stöku sinnum tek ég samt Bændablaðið í Kosti, en þangað fer ég nær alltaf á fimmtudögum því þá er hægt að fá þar ávexti á hálfvirði.

Dæmigert kjördæmapot átti sér stað bæði þegar Vaðlaheiðargöng og Landeyjahöfn voru ákveðin. Svipað er vissulega að segja um Héðinsfjarðargöng. Þau voru þó þokkalega undirbúin og rökstudd, en ekki rokið í framkvæmdir svotil undirbúningslaust eins og var um hinar tvær framkvæmdirnar. Ekki er þörf á að rifja upp nöfn núna, en auðvitað er rétt að kenna alþingi og ríkisstjórn um þetta alltsaman.

Gnarrinn sjálfur ræddi Guðshugmyndina opinberlega fyrir skemmstu. Sko hann. Þetta þorði hann. Reynslan er samt sú að trúarlegar deilur skila engu. Staðreyndirnar einar skipta máli. Menn líta þær samt misjöfnum augum. Við því er ekkert að gera. Fræðsla er algleymi.

Stutt og dagleg blogg eru á margan hátt það sem blívur. Best að setja þetta bara upp þó stutt sé.

WP 20150412 08 21 22 ProBorgarspítalinn.


2322 - Fíkn

Líklega verð ég aldrei ofurbloggari. Samt er ágætt að stefna að einhverju. En ég held þó tryggð við Moggabloggið og blogga afskaplega oft. Aðrir eru samt duglegri við það en ég. Sennilega er ég meira og minna búinn að koma mér upp föstum lesendahópi. Líka er ég víst manna lengst búinn að vera hérna. Mér finnst af einhverjum ástæðum betra að vaða elginn hér en að vera sískrifandi í fésbókina.

Þegar mér dettur eitthvað í hug sem ástæða væri til að minnast á hér á blogginu set ég það gjarnan í bloggskjalið mitt. Hversdagurinn er samt venjulega ósköp hversdagslegur og lítið spennandi. Fésbókin er það hinsvegar oftast. Þ.e.a.s. ef maður vill bara lesa og skoða sér til hugarhægðar. Ég hef aldrei verið fyrir kaffibollaspjall gefinn sjálfur og finnst athugasemdirnar og séringarnar sem þar er oftast að finna heldur lítið gefandi. Les miklu frekar það sem þeir skrifa sem sjaldan tjá sig og svo eru greinarnar sem séraðar eru stundum mjög merkilegar, en það sem þeir skrifa sem eru sískrifandi á fésbókina er miklu síður merkilegt. Sjálfur er ég þó meira og minna sískrifandi en það bitnar mest á blogginu, að ég held.

IMG 0303Þessa mynd tók ég í febrúar árið tvö þúsund og átta en þá voru selfies ekki nærri því í eins mikilli tísku og nú. Þetta er svosem ekkert sérlega góð mynd en ekki er hægt að neita því að selfie er þetta. Ég er bara svona (eða var) og get ekkert að því gert. Sennilega hefur þetta átt að vera af speglunum. Mig minnir að myndin sé tekin í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Eftir að ég tók mig til og fór að stunda líkamsrækt (gönguferðir) og náði svolitilli stjórn á átfíkninni hefur runnið upp fyrir mér hve menning okkar stjórnast af mat. Mataruppskriftir, matarbækur, matargagnrýni og matarauglýsingar tröllríða öllu. Vel mætti halda að matur væri það mikilvægasta í veröldinni. Svo er þó alls ekki. Sálin (hvar sem hún er nú staðsett) er það langmerkilegasta í mannslíkamanum. Maturinn er bara brennsluefni, ekkert annað. Gott eða vont eftir atvikum. Fíkn hverskonar er fólki eðlileg. Áfengisfíkn, tölvufíkn, sykurfíkn, eiturlyfjafíkn, matarfíkn, skemmtanafíkn, (jafnvel bloggfíkn) og í rauninni hvað sem er getur orðið að fíkn. Þetta skilur sálin og reynir að halda í hemilinn á fólki. Gengur þó misjafnlega. 

WP 20150414 08 53 10 ProUppstilling.


2321 - Spakmæli

Við viljum ekki hafa gamla systemið á hlutunum. Þá þurftu útgerðarmenn bara að gráta pínulítið og þá rauk ríkisstjórnin upp til handa og fóta og felldi gengið í snarhasti. Rekstargrundvallarræfillinn var það stundum kallað sem farið var eftir. Líka við kjarasamninga og önnur útgjöld. Ríkisstjórninni var svo leyft af stórútgerðinni að lofa öllu fögru og þannig gekk svikamyllan áratugum saman. Svo fór Kaninn og allt fór í vitleysu.

Nýja systemið snýst um að láta helst engum líða illa og leyfa öllum að segja og trúa á það sem þeim sýnist. Leyfa útgerðarmönnum og banksterum að gráta pínulítið og sýna heiminum svo og öllum þeim túristum sem hingað vilja koma, hvað við erum sérstök og búum í sérstöku landi. Gallinn er bara sá að ef allt verður of dýrt hérna hætta elsku túristarnir að koma. Kannski væri hægt að fá Kanann til að koma aftur, ef við hótum að afhenda Rússum landið annars.

Mér er fortalið að Ísberg dómari hafi sagt að sannleikurinn væri afstæður, en ekki algildur. Aftur á móti var það víst einhver slordóni að nafni James sem sagði að sumt fólk héldi að það væri að hugsa þegar það væri bara að raða fordómunum uppá nýtt. „Sagan kennir okkur að það sé ekki hægt að læra af sögunni“. Þetta sagði víst Georg Bernhard Shaw. Fleiri spakmælum man ég ekki eftir í bili. Jú mig minnir að hlauparinn, kennarinn og listamaðurinn Hörður Haraldsson á Bifröst hafi sagt: „Frestaðu því aldrei til morguns, sem þú getur alveg eins gert hinn daginn“. Kannski hafði hann þetta eftir einhverjum öðrum, en ég hef reynt að lifa eftir þessu spakmæli og það er ekki erfitt.

Verkfallsátök þau sem nú standa yfir og væntanleg eru virðast um margt vera sérkennileg. Kannski tekst að semja án mikils tjóns fyrir þjóðarbúið. Hugsanlegt er líka að þetta séu pólitískari verkföll en undanfarið hafa verið og að verulega dragist að leysa úr þeim. Pólitískar afleiðingar held ég þó að verði engar. Núverandi stjórn haldist við völd alveg fram að næstu kosningum, en þá á ég von á talsverðum breytingum.

Í fréttum er sagt frá því að Hann Birna Kristjánsdóttir ætli að snúa aftur á þing bráðlega. Það held ég að hún ætti ekki að gera. Eftir að hún sagði af sér ráðherradómi er traustið á henni áreiðanlega afar lítið. Mér finnst hún hafa barið höfðinu við steininn í heilt ár, en vitað það allan tímann að hún hafði rangt fyrir sér. Einhverjir flokksfélagar hennar held ég að séu mér sammála um þetta, þrátt fyrir að hún sjálf muni eflaust þverneita því.

Á þing á hún ekkert erindi og allt sem hún gerir þar mun kalla á andstöðu strax. Hún á líka auðveldara með að þrjóskast við að svara spurningum ef hún mætir ekki þar. Kærð verður hún varla af marktækum aðila. Ef hún bíður nægilega lengi gæti jafnvel farið svo að hún fengi sendiherrastöðu fyrir rest. Með þjósku sinni og lygum hefur hún með öllu girt fyrir pólitískan frama sinn.

Sigurður Gylfi Magnússon, sem ég held endilega að sé prófessor við Háskóla Íslands,hefur haldið fram sagnfræðiskoðunum sem hingað til hafa verið álitnar heldur óáreiðanlegar. Það er að segja einsögulegum, sem byggjast að mestu leyti á frásögnum einstaklinga. Hingað til hafa sagnfræðilegar rannsóknir einkum byggst á opinberum gögnum. Auðvitað er ekki alltaf að marka frásagnir gamalmenna um atburði sem gerðust kannski mörgum áratugum fyrr, en dagbækur og ýmisskonar fróðleikur sem hægt er að sanna að sé frá sama leyti og atburðirnir gerðust sem um er rætt, geta sem hægast komið að gagni við slíkar rannsóknir og allsekki er þörf á að rengja slíkar frásagnir að ástæðulausu.

WP 20150412 08 10 33 ProBorgarspítalinn.


2320 - Rögnunefndin o.fl.

Oft horfi ég á Útsvar. Það er með skemmtilegri spurningaþáttum sem í sjónvarpinu hafa verið. Samt forða ég mér alltaf þegar auglýsingastarfsemin hefst í lok þáttarins. Bara til að láta ekki hafa áhrif á mig. Eins höfðar yfirheyrslan um áhorf á fréttir í byrjun flestra þátta ekki til mín. Í huga auglýsenda eru gjafirnar í lokin sjálfsagt aðalatriðið. Mér finnst það fremur vera spurningarnar og svörin. Ógleymanlegt úr síðasta þætti er t.d. sellóhnéð.

Held að framsóknarflokkurinn haldi svolítið í hemilinn á sjálfstæðisflokknum. Sigmundur er ekki leiðtogi. Hann kann ekki að leyna heimsku sinni á sumum sviðum og er oft frekar óheppinn. Framsókn fékk hið mikla fylgi sitt í síðustu kosningum útá óttalegt plat og of margir sótraftar voru við það á sjó dregnir. Allt jafnar þetta sig þó að lokum og hugarheimur fólks er allt annar nú um stundir en áður var. Allar líkur eru á að Íslendingar bjargi sér útúr afleiðingum kreppunnar. Áhyggjur af ýmsum hlutum eru alveg að drepa margt fólk. Og auðvitað erum við öll sem vinnum skítavinnu fyrir lúsarlaun þrælar þeirra sem éta gull.

Ein umtalaðasta nefnd landsins þessa dagana er svokölluð Rögnunefnd. Hún á að ég held að skera úr um framtíð flugvallarins og er ekki öfundsverð af því. Afar heitar tilfinningar eru bundnar því máli og er flokkspólitík lítt blönduð í það mál. Kannski er það einkum þessvegna sem svona miklar tilfinningar eru þar í spilinu. Allt tengist þetta í mínum huga landspítalanum, nýbyggingum þar og umferðarmannvirkjunum sem rokið var í svotil undirbúningslaust við Hringbrautina. Auðvitað á flugvöllurinn að fara og hann gerir það vafalaust fyrr eða síðar. Eftir því sem það dregst lengur aukast erfiðleikarnir við þennan sjálfsagða hlut. Að tengja þetta mál baráttunni milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins er að skemmta skrattanum.

Mikið er rifist um mál Snorra í Betel. Hann var rekinn úr kennslustarfi fyrir að trúa biblíunni bókstaflega. Mér finnst tjáningarfrelsi vera lítils virði ef afsakanir af því tagi sem haldið var fram í máli Snorra eiga að gilda. Það er lítill vandi að vera hliðhollur tjáningarfrelsi þegar maður er sammála þeim sem um er rætt. Alveg er ég andvígur flestum þeim sjónarmiðum sem Snorri hefur haldið fram. Samt sem áður finnst mér hann hafa rétt fyrir sér í þessu máli.

Verður Ukraina hið nýja Viet-Nam? Margt bendir til þess að hagsmunir stórveldanna (fyrrverandi - segja sumir) Rússlands og Bandaríkjanna rekist harkalega á í Ukrainu. Kannski er Putín eitthvað bilaður ef hann heldur að hann ráði við Bandaríkjamenn. Bandaríkin eru enn það öflug hernaðarlega að stjórnin þar getur ráðið því sem hún vill. Fyrir því eiga Ísraelsmenn eftir að finna áður en langt um líður. Bandaríkjastjórn er óðum að verða afhuga stuðningi sínum við þá.

Alveg er vonlaust að taka þátt í fjörugum umræðum á fésbókinni og fá alltaf tilkynningar um innlegg. En auðvitað getur maður sjálfum sér um kennt. Tikynningafjöldanum er hægt að stjórna. Ekki þarf heldur að bregðast við öllum tilkynningum á sama hátt.

Nú á ég ekki fleiri myndir tilbúnar og eflaust er sumum sama um það.


2319 - Ólafur Pétursson og Leifur Möller

Hef ekki hugmynd um hvernig ég á að skilja fyrirsagnirnar í Vísi á netinu. (Sérstaklega tvær þær síðustu.) Les yfirleitt bara fyrirsagnirnar. Oftast dugar það. En ekki núna. Myndaritstjórinn hefur líka gert mistök. Best að snippa þetta bara.

færri

 

Svo var Vísir eða DV eitthvað að fjalla um Leif Möller og Ólaf Pétursson. Auðvitað er ekkert víst að allir þekki þá sögu. Leifur sat í fangabúðum nasista í stríðinu og Ólafur Pétursson var orðlagður nasisti og dæmdur sem slíkur í Noregi. Athugasemdirnar sem á eftir birtast eru sumar skrítnar og mér næsta óskiljanlegar. Ekkert er einkennilegt við það þó margir sem ekki þekkja söguna vilji dæma Ólaf Pétursson eftir þeim viðmiðum sem algeng eru í dag. Það er bara alltof seint.

WP 20150405 09 09 44 ProSnigill.


2318 - Vorkoman

Ótvíræð merki vorkomunar er víða að finna. Fyrst og fremst eru það náttúrulega veðurspáin og hitatölurnar. Einnig fuglarnir. Þar fyrir utan er t.d. farið að sópa gangstígana. Enda ekki vanþörf á eftir sandausturinn í vetur. Gladdist í gærmorgun (fimmtudag) þegar kvenmaðuinn í appinu mínu tilkynnti eftir klukktíma göngu að veglengdin væri orðin 5,04 kílómetrar. Í morgun gekk mér svo enn betur, enda er vorið áreiðanlega komið í alvöru hér í Kópavoginum og ís og snjór með öllu horfinn af gangstígunum hér í kring. 

Gengisfelling orða er mikil, en kannski ekkert meiri en vant er. T.d. virðast menn varla gera mistök núorðið. Nei, þeir skíta uppá bak. Mönnum er ekki mótmælt heldur er hraunað yfir þá o.s.frv. Orðvarir menn, eins og ég ímynda mér að ég sé, mega vara sig. Stóryrðin blíva. Ekki er fínt lengur að sletta dönsku. Bara úrelt. Enskan er yfirgnæfandi.

Hver er munurinn á vinnuhóp og nefnd? Sennilega enginn. Hvort tveggja er mikið notað af pólitíkusum til að komast hjá því að svara óþægilegum spurningum. Málskrúðið í kringum þessar nefndir er oft ævintýralegt. Ég nefni engin dæmi. Allir hljóta að kannast við þetta. Kveikjan að þessum hugleiðingum mínum var nefndin sem forseti alþingis skipaði (eða ætlar að skipa) til að komast hjá því að leiðrétta atkvæðamisvægið. Það var eiginlega ekki fyrr en þá sem ég gerði mér grein fyrir því að með því að flytja uppá Akranes (eins og við ætlum að gera) erum við að tvöfalda pólitíska vigt okkar. Hmm, eru þá allir sem flytja á Reykjavíkursvæðið að afsala sér einhverju?

Vaknaði ekki fyrr en um sjöleytið í morgun. Þessvegna fór ég í morgungöngu áður en ég fór að sinna blggskrifum og þessháttar. Förum sennilega á Akranes á morgun eða á sunndaginn að skoða betur íbúðina sem við keyptum þar. Annars gengur okkur sæmilega að pakka niður þó það sé heilmikið verk. Föstudagar eru ryksugudagar og þar að auki þarf ég að fara í Bónus einhverntíma um hádegið svo þetta blogg verður í styttra lagi.

WP 20150410 08 00 23 ProSólin reynir eins og hún getur.


2317 - Ómar Ragnarsson

Ómar Ragnarsson kommentaði á bloggið mitt eftirfarandi:

Það er rangt hjá þér að í stjórnarskrá stjórnlagaráðs sé dregið úr völdum Alþingis. Þvert á móti er með henni reynt á margan hátt að efla vald Alþingis á kostnað framkvæmdavaldsins.  

Ráðherrar mega ekki sitja samtímis ráðherradómi á þinginu, vald forseta Alþingis og nefnda þingsins aukið og tiltekið, en það er ekki í núverandi stjórnarskrá. 

Til hliðsjónar við myndun ríkisstjórnar eru hafðar stjórnarskrár í nokkru Evrópuríkjum þar sem þingræðisreglan er tryggð það vel að ekki þurfi að koma til myndunar stjórnar án atbeina Alþingis. 

Þarf ekki annað en að nefna myndun utanþingsstjórnarinnar 1942-44 í því sambandi.

Þetta komment sá ég því miður ekki nærri strax, en þegar ég loksins sá það svaraði ég þannig:

Það er mín skoðun að með því að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur og/eða hunsa úrslit þeirra, eins og gert hefur verið lengi, tryggi alþingi endanleg völd sín.

Um þessi mál má eflaust lengi deila. Ekki er útséð enn um hvort við Íslendingar fáum nýja stjórnarskrá. Mér finnst það heldur ólíklegt. Kannski er það þó einmitt stjórnarskrármálið sem er ein helsta ástæðan fyrir fylgisaukningu Pírata í skoðanakönnunum að undanförnu. Það er að vísu alveg rétt hjá Ómari að með nýju stjórnarskránni er reynt að auka sjálfstæði alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu en t.d. tekur ný stjórnarskrá ekki gildi fyrr en alþingi segir það. Og það dugar alveg. Endanlegt vald er þar. Einnig getur það sett ríkisstjórnina (framkvæmdavaldið) af ef því sýnist svo.

Venjulegur dagur hefst hjá mér með því að ég fæ mér kaffisopa, sest við tölvuna og kíki á fésbókina. Flest innleggin þar fjalla aðallega um veðrið eða sjónvarpið kvöldið áður. Hvorugu hef ég mikinn áhuga á og ég er talsvert hissa á því hve mikið er horft á sjónvarp og óskapast útaf því. Sjálfur nenni ég næstum aldrei að horfa á neitt þar nema þá í mesta lagi fréttir. Ég horfi samt mjög gjarnan á fréttirnar á báðum stöðvum. En auðvitað tilheyrir þetta alls ekki morgunverkunum.

Stundum (oftast) vakna ég mjög snemma og eftir að hafa gengið frá daglegu bloggi (stundum) fer ég að tygja mig í morgungönguna. Í vetur hef ég helst ekki farið í hana fyrr en byrjað er að birta. Markmiðið hjá mér þar hefur að undanförnu verið klukkutími eða 5 kílómetrar og aðstoðar appið í snjallsímanum mínum mig við að fylgjast með því. Oftast en þó ekki nærri alltaf fer ég sömu leiðina og gæti þess að taka sæmilega á.

Allt stefnir í umfangsmikil verkföll. Hingað til hafa spítalarnir og flugfélögin verið mest í fréttum útaf verkföllum. Er mönnum fjandans sama um allt annað? Lítið er fjallað um þessi mál í fjölmiðlum og sáttafundir eru aðeins haldnir þegar allir mega vera að því. Kannski eru stéttarfélögin orðið svona mörg, fjölmiðlarnir svona lélegir eða það er eitthvað annað sem veldur þessu. Kannski menn vakni þegar verkföllin eru skollin á og ekki hægt að gera neitt að ráði. Man vel eftir allsherjarverkföllunum 1984. Þá var hér allt í hers höndum. Engin blöð, ekkert internet, ekkert útvarp, ekkert sjónvarp, en símann var þó hægt að nota. Farsímar þekktust þó ekki, en Landssíminn hafði starfað frá 1906 eða svo. Er verið að bíða eftir þesskonar ástandi? Held að allir færu á límingunum ef þeir kæmust ekki á netið.

WP 20150401 12 52 00 ProÞessi heitir Guðjón.


2316 - Hillary

Í erlendum fréttum er það helst að Hillary Clinton hefur nú eftir 8 ára umhugsum ákveðið að gefa kost á sér í forkosningum demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Vitanlega gera margir ráð fyrir að hún hljóti útnefningu flokksins auðveldlega og vinni síðan forsetakosningarnar sjálfar. Þær verða þó ekki fyrr en í nóvember á næsta ári. Obama verður forseti þangað til í janúar 2017 og á þeim tíma sem líður fram að forsetakosningunum getur margt gerst. Þó má gera því skóna að fjöldamargt muni breytast í utanríkisstefnu Bandaríkjanna ef hún sigrar þar.

Púðurtunnan fyrir botni Miðjarðarhafsins gæti sprungið hvenær sem er. Þjóðarleiðtogar á vesturlöndum og víðar eru vígreifari en vant er. Reynt er eftir megni að gera trúarlegan ágreining sem mestan beggja vegna þeirrar víglínu sem hugsanlegt er að dregin verði. Ef uppúr sýður í Austurlöndum nær er líklegt að áhrif þess muni finnast um allan heim. Ólíklegt er þó að um bein átök verði að ræða í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Þetta er bara mín tilfinning og ekkert víst að neitt sé að marka hana. Stjórnmál skipta samt máli. Enginn fær mig til að segja annað. Munurinn á lokal og global pólitík er ekkert endilega svo mikill.

Global – lokal – singular. Þannig lít ég á pólitíkina. Þeir sem stjórna hugsa mest um eigin rass. Flestum finnst gott að láta líta svo út að þeir hugsi um þjóðarhag. Eigin hagur kemur samt alltaf fyrst. Svo fjölskylduhagur, en ættarhagur og þjóðarhagur einhvers staðar þar á eftir. Hagur heimsins kemur lítið við sögu nema í söfnunum og þess háttar. Kannski í orðræðu. Lítið er samt að marka hana. Svona er þetta bara og breytist hægt.

Sennilega hefur Páll Bergþórsson rétt fyrir sér varðandi sveiflurnar í veðurfari á Norðurslóðum og endurkast sólarljóssins frá ísnum. Hugsanlega veður hann samt sem áður í villu og svíma varðandi landnám Íslendinga í Vesturheimi. Ég er þó hvorki veðurfræðingur né landnámsfræðingur og skil þessi vísindi ekki almennilega. Þó held ég að betra sé að vera hér norðurfrá á mörkum hins byggilega heims en í heita suðrinu. Prepper er ég samt ekki. Lífskjör okkar Íslendinga eru furðulega góð ef miðað er við hnattstöðu og hinn sígilda fólksfjölda.

Nú virðist vorið komið í alvöru. A.m.k. halda fuglarnir það. Áðan var verið að skrúfa frá vatnspóstinum í Fossvogi þegar ég átti leið þar framhjá og svo er byrjað að grisja hjá skógræktinni. Kannski við fáum ekki meiri snjó. Hálfblautt er samt útivið ennþá.

Ég er næstum búinn að skrifa heilt blogg án þess að minnast á fésbókina. Það gengur auðvitað ekki. Man bara í svipinn ekki eftir neinu um hana sem ég hef ekki minnst á áður. Nú er klukkan orðin dálítið margt svo það er líklega best að senda þetta bara snimmhendis út í eterinn.

WP 20150331 08 54 45 ProTré.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband