Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

2315 - Meirafíflskenningin

Held að það hafi verið Margeir Pétursson, sá útsjónarsami og eitilharði skákmaður, sem ég sá eða heyrði fyrst fjalla um „meirafíflskenninguna“ margfrægu sem segja má að hafi sett Ísland á hausinn, eða allavega næstum því. Nafnið sjálft ber með sér hvernig kenningin er hugsuð. Svo lengi sem þú getur reiknað með því að selja aftur á hærra verði það sem þú kaupir, þá kaupir þú það. Annars er það að verða úrelt að fjalla um Hrunið. Nær væri að tala um eitthvað annað.

Til dæmis stjórnarskrána. Núverandi stjórnarflokkar vilja ekki með nokkru móti að drögin sem samþykkt voru um árið, verði að veruleika. (Og reyndar má segja það sama um fjórflokkinn allan) og kannski einnig um Bjarta framtíð eða Besta flokkinn. Rugla þessu oft saman. Samþykkt hennar mun nefnilega draga verulega úr valdi alþingis. Ekki er heldur víst að forsetinn geti haldið áfram að túlka skrána að vild sinni. Neitunarvald hans er þó nauðsynlegt. Ekki má láta núverandi forseta villa sér sýn í því efni.

Látum sem eitthvað sé að marka andstæðinga Pírata á alþingi þegar sagt er að þeir séu bæði hysknir og latir. Í hvaða stöðu setur það þá sjálfa? Ef meirihluti fólks styður píratana eru þá ekki þessir gagnrýnendur þeirra jafnvel verri, eða a.m.k. jafnslæmir.

Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að fólk skapi sér fantasíuveröld á borð við Bíldalíu eins og Karl Einarsson Dunganon heitinn gerði. Líta má á Bíldalíu sem aðalstað gufupönksins. Andri Snær Magnason rithöfundur hefur tekið að sér að auka vinsældir staðarins eftir getu og verður eflaust gerður að heiðursborgara þar fljótlega.

Af einhverri tilviljun fór ég að horfa á lok undanrásanna í söngvakeppni framhaldsskólanna síðastliðinn laugardag. Hugsanlega sá ég einnig einhverja kynningu á keppninni. Keppnina sjálfa sá ég alls ekki. Enda hef ég ekkert vit á tónlist, söng eða neinu þessháttar. Kynnarnir vöktu samt athygli mína, einkum annar þeirra sem ég held endilega að heiti Steiney. Hún er greinilega fædd til þess að vera sjónvarpsstjarna. Framkoma hennar var svo áreynslulaus og eðlileg að með ólíkindum var. Tvö atriði stóðu uppúr fannst mér. Annað var að sjálfsögðu blokkflautudúettinn og hitt var þegar hún var að borða pitsuna.

Kaupi alveg læknisfræðilegu og vísindalegu rökin fyrir því að bólusetja og er þess vegna algjörlega sammála þeim sem eru á móti því að hunsa bólusetningar. Samt sem áður er ég líka á móti því að hegna þeim sem vilja ekki bólusetningar með því að niðurgreiða t.d. ekki veru þeirra barna á leikskólum sem ekki eru bólusett. A.m.k. finnst mér alls ekki að sú upphæð sem þar er notuð megi vera mjög há. Ég er þeirrar skoðunar að fyrir þroska barnanna sé leikskólinn nauðsynlegur.

WP 20150328 08 37 36 ProSteinn.


2314 - ÓRG og SDG

Krafa dagsins er aukinn jöfnuður, aukin samskipti gegnum netið, aukið persónufrelsi og aukið gegnsæi á öllum sviðum. Vitanlega geta hagsmunir rekist á. Svo hefur ætíð verið og mörg stríð hafa verið háð vegna slíkra hagsmunaárekstra. Áður fyrr börðust einstaklingar og fjölskyldur, seinna alls kyns hópar, ættbálkar og þjóðir. Vonandi kemur sú tíð að slíkt heyrir sögunni til.

Nefndir hafa verið margir sem hugsanlegir arftakar ÓRG á Bessastöðum. Auðvitað er ekkert víst að hann hætti. Þessvegna er einum of fljótt að vera að velta þessu fyrir sér. Endanlega ákvörðun held ég að hann taki ekki fyrr en um næstu áramót. Gnarrinn virðist vera hættur við í alvöru. Margir eru tilnefndir til starfsins og í rauninni er til lítils að telja þá upp sem til greina koma og hugsanlegt er að máti sig við djobbið.

Sigmundur Davíð er svo langt kominn að núna hótar hann lánardrottnum Íslands öllu illu. Ekki er líklegt að meiri tíðindi verði á flokksþingi framsóknar, en hótunin um að eitthvað alvarlegt gerist í hrunmálum áður en alþingi fer í sumarfrí. Kannski fer það bara ekkert í sumarfrí.

Skilst að Bubbi Morthens hafi einhverntíma í bloggi sínu skrifað á þessa leið:

Nú er fólk komið á þing sem telur þetta eðlilegt og vill einfaldlega að ég aðlagi mig og komi til móts við þjófana.”

Þessi misskilningur ríður húsum. Þessvegna kom það mér svolítið á óvart að Bubbi Morthens skuli vera orðinn Pírati og kannski verður Villi fjárfestir það bráðum!! Af mörgum ástæðum er greinilegt að endurskilgreina þarf höfundarréttarhugtakið. Alþjóðleg stórfyrirtæki stjórna þessum málum eins og nú er háttað. Ríkisstjórnir mega sín lítils. Á margan hátt eru mál þessi erfiðari og flóknari í litlum samfélögum en stórum. Þar kemur einfaldlega til sögunnar hagkvæmni stærðarinnar.

Algengt er að tæknin útrými heilum atvinnugreinum. Starfsfólk þar þarf einfaldlega að aðlaga sig tækninni.Tölvutæknin er á margan hátt óvinur þess kerfis sem búið er að byggja upp með lagasetningu í kringum hvers kyns höfundarrétt, a.m.k hér á vesturlöndum. Höfundar og dreifendur efnis þurfa að aðlaga sig breyttri tækni. Fólk skilur mæta vel að þeir aðilar þurfa að sjálfsögðu laun fyrir sína vinnu. Verði ekkert gert í þessum málum mun þetta sem Bubbi kallaði þjófnað aðeins aukast og margfaldast.

WP 20150327 08 43 20 ProTrjágarður.


2313 - Vitlaus Óli

Eftir því sem dóttir Kristjáns á Miðhrauni og eiginkona Ólafs Ólafssonar segir er það vitlaus Óli sem dæmdur var til fangelsisvistar af hæstarétti í Al Thani-málinu svokallaða. (Sá Ólafur Ólafsson sem nú situr ((að því er mér skilst)) á Kvíabryggju er sonur Ólafs þess Sverrissonar sem eitt sinn var kaupfélagsstjóri í Borgarnesi.) Sé þetta rétt, er um eitt allsherjarklúður að ræða. Ég trúi því ekki að allir sem komið hafa að þessu stóra máli séu þeir vitleysingar að hafa ekki kannað slíka grundvallarspurningu til hlítar. Það vill svo til að ég var eitt sinn undirmaður Ólafs þessa Sverrissonar og átti meira að segja heima á Snæfellsnesi og kannast því lítilsháttar við suma aðalleikendur í þessu mikla drama.

Einhver vissi það ekki að Sverrir Ólafsson, sem var meðdómandi í einu hrunmálinu væri bróðir Ólafs Ólafssonar svo kannski er þetta ekki alveg útilokað. Ættfræðin getur greinilega stundum komið að haldi.

Á fésbókinni eru menn misörlátir á lækin sín. Að sumu leyti er það til þess fallið að verðfella þau. Svolítið öðru máli finnst mér gegna um deilingarnar. Þær taka upp pláss og ef einhver villist inná tímalínuna gefur það e.t.v. ranga mynd af hugsanagangi eigandans. Sjálfur reyni ég að vera eins spar á hvorttveggja og mér er unnt. Auðvitað er það samt svo að varasamt er að dæma menn eftir lækum og séringum. Jafnvel skrif á vegginn er ekki alltaf að marka. Þar er það augnablikið sem ræður. Í blogginu er oft rýmri tími til umhugsunar.

Gerði smávísu áðan og setti hana á Boðnarmjöðinn á fésbók. Hann er vel til þess fallinn að setja allskyns vísur þangað. Þessi vísa er svona:

Ömulegir Ólar tveir
eru á sumra valdi.
Eiginlega allir þeir
ættu að vera í haldi.

Mér finnst það frekar kostur á vísum en ókostur ef hægt er að skilja þær á ýmsan veg. Þessi finnst mér vera þannig. Kannski er það tómur misskilningur.

Sá rétt áðan risafyrisögn í DV.IS og hún var á þessa leið: Manuela Ósk opnar sig: Grétar Rafn sleit sambandinu með tölvupósti. Ég verð að játa að ég er eiginlega engu nær. Nenni samt ekki að lesa þessa stríðsfrétt, sem mér skilst af einhverjum ástæðum að sé í rauninni eldgömul. Fyrir ævalöngu var sýnd í einu af kvikmyndahúsum bæjarins mynd sem á íslensku var kölluð: Ungfrúin opnar sig. Hún var svolítið djörf eins og kallað var á þeim tíma. Datt sú mynd fyrst í hug þegar ég sá þessi ósköp, en sennilega er þetta ekkert líkt.

WP 20150320 10 26 48 ProNauthóll.


2312 - Píratar og ýmislegt fleira

Mér líkar við (elska segja krakkarnir) afdankaða og sannfærða íhaldskurfa (og kurfur – eða hvað) sem væru til í að styðja Sveinu í múslimahræðslu sinni, en hafa bara lofað (bæði sjálfum sér og öðrum) að lána hinum algjörlega ópólitíska Sjálfstæðisflokki atkvæði sitt í næstu kosningum. Hin pólitíska rétthugsun (og ESB-aðdáun) sem einkennir vinstra liðið hugnast mér heldur ekki. Þessvegna er ég svolítið einangraður (vonandi þó án þess að vera öfgafullur) í stjórnmálaskoðunum mínum.

Þetta er ekki nýtilkomið. Í síðustu kosningum lenti ég í þessu sama og endirinn varð sá að ég kaus Píratana. Það var semsagt ekki vegna þess að ég sæi fyrir núverandi „himinskautasiglingu“ þeirra, sem ég gerði það. Ekki var ég heldur svo gjörkunnugur stefnumálum þeirra eða áherslum. Þekki þau svolítið betur núna.

Af því menn vilja helst ekki vera kallaðir hægri- eða vinstri-sinnar eru margir sem afneita þeim hugtökum. Mér finnst þetta samt hafa dálitla merkingu ennþá. Og að ég sé talsvert vinstri sinnaður. Of mikil ríkisafskipti eru samt eitur í mínum beinum.

Get illa án þess verið að fjölyrða um fésbókina. Get þó ekki án hennar verið frekar en aðrir á mínum aldri. Einu sinni var mér sagt að ég gæti átölulaust (frá viðkomandi) ákveðið hvort ég fengi tilkynningar um innlegg á vegginn eða ekki. Les aldrei fésbókarleiðbeiningar.

Fésbókarvinir mínir eru nærri 600 að ég held. Ég safnaði nefnilega slíkum í eina tíð en man ekki lengur hvernig ég fór að því. Gæti samt eflaust rifjað það upp ef í hart færi.

Meðal fésbókarvina minna eru a.m.k. tveir Sigurðar. Sigurður Þór Guðjónsson rithöfundur. (Frægastur er hann sennilega fyrir bókina Truntusól – sem hann skrifaði fyrir margt löngu.) Hinn Sigurðurinn heitir Sigurður Hreiðar og er fyrrverandi ritstjóri Vikunnar. Báðir þessir Sigurðar eru mikið gefnir fyrir það (eins og ég) að láta ljós sitt skína og ég merkti við að fá ætíð tilkynningar þegar þeir gera það á fésbókinni.

Um þetta gerði ég vísu rétt áðan og vegna þess að ég held að blammeringar séu í lagi ef þær eru í bundnu máli læt ég hana flakka hér:

Sitja á lista Siggar tveir,
sem að skrifa mikið.
Óviljandi eru þeir
alveg hreint við strikið.

Þetta strik er nú bara hjá mér og er til komið af því að ég vil hafa hæfilega margar tilkynningar hjá mér þegar ég fer á fésbókina. Auðvitað gerist það oft á dag þó eg reyni að vera spar á hana.

Nú er allt að verða hvítt hér í Kópavoginum einn ganginn til. Þetta blessaða vor kemur og fer oft á dag sýnist mér. Veðurfræðingur er ég samt ekki heldur. (Frekar en fésbókarfræðingur meina ég.) Eflaust skemmta þeir sér samt núna.

Á sama hátt og einu sinni var sagt: (Andrés Björnsson)

Ferskeytlan er Frónbúans
fyrsta barnaglingur.
En verður seinna í höndum hans
hvöss sem byssustingur.

Mætti líklega í dag setja „Fésbókin“ í staðinn fyrir „Ferskeytlan“ án þess að merkingin breyttist mikið. Í dag kunna nefnilega fáir skil á ferskeytlum, en enginn er maður með mönnum nema hann kunni sem mest fyrir sér í „fésbókarfræðum“. Reyndar skilst mér að fésbókin sé um það bil að verða úrelt. Ég er samt ekki kominn lengra en það að ég er fastur í blogginu. Twitter, Snapchat og hvað þetta heitir alltsaman er mér algjörlega framandi.

WP 20150315 11 00 02 ProEftir rokið.


2311- Úr gömlu bloggi o.fl.

Spilling er talsverð hér á Íslandi. Erfitt er að stoppa hana. Einfaldlega vegna þess að oftast er ekki hægt að sanna, með óyggjandi hætti, að farið hafi verið á svig við lögin. „Löglegt en siðlaust“ sagði Vilmundur Gylfason fyrir margt löngu. Mér finnst ekki að það eigi að sætta sig við spillinguna þó oft sé erfitt að eiga við hana. Þjóðfélög geta þróast í ýmsar áttir eftir því hvernig tekið er á spillingarmálum. Spilling er allsstaðar. Þýðingarlaust er að neita því.   

Auðvitað er hægt að finna hægri stefnu ýmislegt til foráttu. Jafnvel umfram vinstri stefnu. Þó Sovéska sæluríkið sé eitur í þeirra beinum. Stjórnmálum lauk ekki um leið og kalda stríðinu. Halda má því fram að hér á Íslandi hafi sóknin frá örbirgð til bjargálna verið óvenju hröð. Kannski var það „blessað stríðið“ sem olli þessu, kannski fiskurinn á miðunum og kannski eitthvað allt annað. Vitanlega er líka hægt að halda því fram líka að framfarirnar hafi orðið „þrátt fyrir“ ytri aðstæðurnar en ekki vegna þeirra. Annars eru þetta allt saman lúxusvandamál sem við erum að fást við.

Eftir því sem DV segir þá er Bubbi Mortens orðinn Pírati. Það þykir mér nokkuð langt gengið en get samt vel skilið hann. Þó Vilhjálmur Bjarnason haldi því fram að stjórnmálaflokkurinn Píratar berjist fyrir ólöglegu niðurhali þá verður það ekki rétt með því. Lög geta verið bæði sanngjörn og ósanngjörn. Sumir skilja fyrr en skellur í tönnum en þó ekki allir. Með því að láta alþjóðleg stórfyrirtæki ráða lagasetningu geta eðlileg kynslóðaskipti orðið hatrömm og illvíg.

Það má ekki reisa moskuna þarna. Það má ekki nota þessa peninga til að reisa mosku. Kannski skiptir einhverju máli hvaða starfsemi kemur til með að fara fram í húsinu. Ég er búinn að missa alla trú á stjórnmálamanninum Ingibjörgu Sólrúnu. Hins vegar man ég vel eftir Sverri Agnarssyni og ég hef fulla trú á honum.

Eftirfarandi skrifaði ég fyrir sjö árum eða svo. Blogg númer 303 var það:

Guðlaugur var lítill, varla meðalmaður, skolhærður, alltaf með húfu. Snemma varð hann sköllóttur, hafði gaman af að þrasa.

Svona er móðurafa mínum lýst. Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta snilldarleg mannlýsing. Hún er komin frá frænku minni Báru Sigurjónsdóttur, en Guðlaugur var einnig afi hennar.

Annars er þetta af vef sem systursonur minn Atli Vilhelm Harðarson hefur komið upp í tilefni af því að til stendur að halda ættarmót í sumar. (ath. að þetta er eldgömul færsla) Ættingjum mínum sem hingað kunna að rekast vil ég benda á að urlið er "www.gvendarkot.tk/"

Margt er merkilegt á þessari vefsíðu. Meðal annars fjöldi mynda. Einnig eru þar nokkrar vísur sem hafðar eru eftir Ingibjörgu systur minni. Sumar þessara vísna kannast ég líka við, svona þegar ég sé þær uppskrifaðar. Vonandi tekur Ingibjörg það ekki illa upp, þó ég birti þessar vísur hér:

Súlurýju rak á vog,
rétt upp í hann Sigurð.
Hún var tíu álnir og
eftir því á digurð.

Hafið þið heyrt um hann Hóla-Jón?
Hann ætlaði að fara í verið.
Dallurinn allur datt í spón
og drengjunum gaf hann smérið.

Á ég að segja þér sögu
af kerlingunni rögu?
Hún fór á milli fjóss og hlöðu
og flengdi sig með snarpri grautarþvögu.

Einu sinni átti ég gott
á allri æfi minni.
Þá var soðinn rjúpurass,
reittur upp úr skinni
hjá henni stjúpu minni.

Þar sem Ingibjörg talar um "grautarþvögu" minnir mig endilega að vani hafi verið að segja "rjómaþvögu". Ég hef samt enga hugmynd um hvernig slíkt verkfæri er. Í sömu vísu fannst mér líka alltaf að verið væri að tala um kerlingu sem héti Raga, en ekki um kerlingu sem væri rög.

Tvær aðrar vísur kann ég, en man ekki hvort ég lærði þær af ömmu Jórunni eða mömmu minni. Þær eru svona:

Andrés minn í eyjunum,
er að róa núna.
Fiskinn ber á fleyjunum
og færir krakkagreyjunum.

Þarna kann síðan að hafa verið ein ljóðlína til viðbótar, en ég man hana ekki.

Hin er svona. Og þegar farið var með hana áttu tveir að sitja flötum beinum á gólfinu, takast í hendur, spyrna saman iljum og togast á:

Við skulum róa á selabát,
fyrst við erum fjórir.
Það eru bæði þú og ég,
stýrimaður og stjóri.

Af því ég hef ástæðu til að ætla að fleiri en ættingjar mínir lesi þetta blogg var ég að hugsa um að bæta hér við fáeinum orðum um ættarmót almennt, en dettur bara ekkert gáfulegt í hug.

WP 20150311 10 09 27 ProSnjór.


2310 - Póstbítingar o.fl.

Skelfing er fésbókin leiðinleg. Hún festir fólk í allskonar vitleysu. Og pólitíkin dregur dám af henni. Vitleysunni altsvo, meina ég. Mér finnst að stjórnmálin séu með vitlausasta móti núumstundir. Hvað skyldi koma útúr þessu? Maður ræður því ekki einu sinni sjálfur (nema að takmörkuðu leyti) hvað maður skoðar á fésbókinni. Nú er ég semsagt farinn að tala um hana aftur. Voðalegur ruglingur er þetta. Fésbókarfræðingur vil ég síst að öllu verða. Gott ef þeir eru ekki þegar orðnir of margir. Sjálfur er ég líklega að verða Moggabloggsfræðingur. Ætli það sé skárra? Sennilega er Jónas Kristjánsson minn helsti mentor í bloggskrifum. Var nefnilega að lesa hann áðan, eftir að hafa trassað það í fáeina daga.

Einu sinni beit hundur hana Guðnýju frænku mína þegar hún var að bera út póst. Vitanlega er hundum illa við póstburðarfólk. Þeir skilja það yfirleitt svo að þeir eigi að passa húsið á meðan yfirhundurinn er fjarverandi. Svo kemur pósturinn og fer að fikta í húsinu. Jæja, þetta áttu nú ekki að vera heimspekilegar hugleiðingar heldur frásögn af eftirminnilegum atburði. Þegar ég frétti af þessu var ég í heimsókn hjá Ingibjörgu systur minni og hún spurði Guðnýju meðal annars spurningar sem sennilega fáir hafa spurt:

„Hvað gerði hundurinn svo eftir að hann var búinn að bíta þig?“

„Nú, hann fór bara í burtu.“

Hvað átti hann svosem að gera annað? Hann var búinn að sinna sínu hlutverki. Í eftirleiknum var hundurinn síðan dæmdur og léttvægur fundinn. Ekki þó fyrir tilverknað Guðnýjar.

Allt er nú til á Internetinu. Þar er til dæmis til sérstök síða sem heitir: „Sigmundur Davíð horfir á hluti.“ Að vísu er hún ekki nærri eins krassandi og síðan sem heitir: „Kim Jong Un looking at things.“ Samt er hún augljóslega sniðin eftir henni. Eflaust hefur verið sagt frá þessu fyrr einhvers staðar, en ég hef ekki séð þetta fyrr en nú nýlega. Ó, afsakið. Hefði ég átt að birta linka hér? Gagnvart höfundarréttarlögum er þó aldrei of varlega farið. Gúglið bara sjálf.

Er skák nördaleg? Að minnsta kosti er búið að úthýsa henni að mestu leyti mjög víða. Fréttir af henni er alls ekki að finna í útbreiddum fjölmiðlum. Bækur um þessa nördalegu iðju eru þó fjölmargar. Áhuginn er víða fyrir hendi. Þegar Friðrik Ólafsson var uppá sitt allra besta og tefldi meðal annars í Wageningen og Portoros, voru skákfréttir samt á útsíðum dagblaða þess tíma. Svo er ekki lengur. Leikarafréttir og aðrar furðufréttur hafa tekið við. Er það afturför? Kannski ekki. Margt um skák má finna á Internetinu og jafnvel á fésbókinni.

WP 20150310 08 53 53 ProSveit í borg.


2309 - Páskar

Ætíð þegar meiriháttar slys verða (sem samkvæmt fréttum er ansi oft) er tekið fram að ekki sé um hryðjuverkaárás að ræða. Hvernig skyldi standa á því? Mín skoðun er sú að blaða- og fréttamenn haldi að almenningur búist við að hryðjuverkamenn séu, gráir fyrir járnum, á hverju götuhorni. Held að svo sé ekki. Fréttamenn móta verulega skoðanir fólks. Neikvæðar fréttir og skrýtnar eru mest áberandi í öllum fréttamiðlum hér á Íslandi og er það án efa í samræmi við skoðanir fréttamanna. Einnig tíðkast það mjög að láta líta svo út að atburðirnir hafi átt sér stað í næsta húsi. Er þetta í samræmi við skoðanir almennings? Ég efast um það. Vissulega er „almenningur“ (sem ég treysti mér engan vegin til að skilgreina nákvæmlega) fréttaþyrstur mjög að því er virðist. Þó held ég að þetta gæti sem hægast verið öðruvísi.

Hver eru mín helstu áhugamál? Eflaust eru það málefni sem ég fjölyrði sem mest um hér á þessu bloggi. Þó held ég að það sé ekki allskostar rétt. Margt af því sem ég hef áhuga fyrir er meðhöndlað ágætlega (eða allsekki) af fjölmiðlamönnum. Fyrir þeim og öðrum fréttamönnum hef ég talsverðan áhuga eftir að hafa unnið árum saman á fjölmiðli. (Stöð 2.)

Nú eru Páskar og allskyns páskaveislur í hámarki. Hér í Auðbrekkunni var ein slík í gærdag. (Föstudaginn langa.) Vissulega yljar það okkur gamla fólkinu að sjá barnabörnin hamingjusöm. Og fátt er eins skemmtilegt og að fylgjast með athöfnum þeirra og sjá þau hlaupa um. Einangrun sumra er samt slík að sú skemmtun er alls ekki í boði. Þó eru börnin mörg.

Veðrið leikur við okkur um þessa Páska. Þó eru þeir fremur snemma. Eða það hef ég heyrt. Snjórinn er að mestu horfinn hér á Stór-Kópavogssvæðinu. Það birtir snemma og þó ekki sjái til sólar nú í augnablikinu (laugardagsmorgunn) er hlýtt og vorlegt um að litast. Skammdegisdrunginn er óðum að hverfa og nú standa fyrir dyrum hjá okkur flutningar til Akraness og kattapössun þar.

Lestur allur er á miklu undanhaldi. Myndir, bæði hreyfi- og kyrr- , hafa að miklu leyti tekið við. Allar græjur til slíks eru orðnar almenningseign og ekki græt ég það. Þó skrifa ég eins og skrattinn sé á hælunum á mér. (Og stuðla sumt án þess að taka eftir því fyrr en eftirá.)  Aðallega er það vegna þess að ég kann fátt annað. Þó þykir mér gaman að ímynda mér að ég hafi bæði vit og skilning á myndum hverskonar. Svo er þó sennilega ekki. Samt lýk ég þessu bloggi með mynd, sem allir lesendur mínir neyðast til að sjá.

WP 20150310 09 19 53 ProJólakort?


2308 - Aprilgöbb o.fl.

Þó ég sé svo tortrygginn að eðlisfari að ég verði sjaldan fyrir barðinu á aprílgöbbum, finnst mér eiginlega að banna ætti allt slíkt. Þau eru nefnilega að verða svo mörg og margvísleg og þar að auki er það sem ótrúlegt var í gær orðið mun trúlegra í dag. Það er næstum  því hægt að trúa hverju sem er. Bráðum verða allar ótrúlegar fréttir sagðar vera gömul eða afturgengin aprílgöbb.

Hagfræðin segir að stjórnmálin séu barátta um að láta markaðinn ráða ferðinni eða stunda ríkisafskipti. Þannig er það bara alls ekki. Kannski var það nokkurn vegin á þann veg einhverntíma en sú er ekki raunin nú um stundir. Víðast á Vesturlöndum er óhætt að segja að áhrif markaðarins séu of mikil. Þeir sem einu sinni voru kallaðir vinstri sinnaðir eru a.m.k. flestir þeirrar skoðunar. Fólki finnst stjórnmálamenn og flokkar hafa sogað of mikil áhrif til sín. Afleiðingin er sú að fólki finnst það alls ekki ráða örlögum sínum eða lífi. Auðvitað má að mestu kenna sofandahætti um það. Vesturlönd eru í þann veginn að missa forystuhlutverk sitt  í heiminum, enda gera þau lítið í því að tryggja réttlæti og sanngirni gagnvart fátækari hluta mannkyns. Hvort forystuhlutverkið glatast með friðsamlegum hætti eða ekki er ekki hægt að sjá fyrir. Áreiðanlega mun það samt gerast á þessari öld eða þeirri næstu. Nú er ég semsagt búinn að gleyma því sem ég ætlaði að segja, svo best er að hætta.

Blandað hagkerfi er næstum örugglega það besta. Ég hef tröllatrú á Skandinavíska módelinu að því leyti. Sem jafnaðarmaður eða krati í grunninn er það kannski engin furða. Íslensk stjórnmál finnst mér þó að hafi þróast á undanförnum árum í átt að því ameríska, einkum því bandaríska. Það virðist alls ekki henta okkur eins vel og það Skandinavíska. Fólksflutningarnir til Noregs sanna það.

Búið boða til blaðamannafundar vegna kjarnorkuviðræðnanna

Þegar ég var í skóla (Já, það er langt síðan) var sá orðflokkur sem ég átti auðveldast með að greina svokallað „nafnháttarmerki“. Það var haft á undan sögnum í nafnhætti. Klausan hér á undan er fyrirsögn úr Vísi. Nú sýnist mér semsagt að búið sé að segja nafnháttarmerkinu stríð á hendur og jafnvel að útrýma því. Þetta er alls ekki eina dæmið sem ég hef rekist á af þessu tagi. Hingað til hef ég þó álitið að ég væri bara svona vitlaus. Nú er ég semsagt kominn á aðra skoðun og lesendur mínir munu eflaust gjalda þess. Með öðrum orðum: Ég er kominn í stríð gegn niðurfellingu að-sins í setningum að þessu tagi.

WP 20150310 08 34 49 ProOg bílafljótið rennur óstöðvandi áfram.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband