2321 - Spakmæli

Við viljum ekki hafa gamla systemið á hlutunum. Þá þurftu útgerðarmenn bara að gráta pínulítið og þá rauk ríkisstjórnin upp til handa og fóta og felldi gengið í snarhasti. Rekstargrundvallarræfillinn var það stundum kallað sem farið var eftir. Líka við kjarasamninga og önnur útgjöld. Ríkisstjórninni var svo leyft af stórútgerðinni að lofa öllu fögru og þannig gekk svikamyllan áratugum saman. Svo fór Kaninn og allt fór í vitleysu.

Nýja systemið snýst um að láta helst engum líða illa og leyfa öllum að segja og trúa á það sem þeim sýnist. Leyfa útgerðarmönnum og banksterum að gráta pínulítið og sýna heiminum svo og öllum þeim túristum sem hingað vilja koma, hvað við erum sérstök og búum í sérstöku landi. Gallinn er bara sá að ef allt verður of dýrt hérna hætta elsku túristarnir að koma. Kannski væri hægt að fá Kanann til að koma aftur, ef við hótum að afhenda Rússum landið annars.

Mér er fortalið að Ísberg dómari hafi sagt að sannleikurinn væri afstæður, en ekki algildur. Aftur á móti var það víst einhver slordóni að nafni James sem sagði að sumt fólk héldi að það væri að hugsa þegar það væri bara að raða fordómunum uppá nýtt. „Sagan kennir okkur að það sé ekki hægt að læra af sögunni“. Þetta sagði víst Georg Bernhard Shaw. Fleiri spakmælum man ég ekki eftir í bili. Jú mig minnir að hlauparinn, kennarinn og listamaðurinn Hörður Haraldsson á Bifröst hafi sagt: „Frestaðu því aldrei til morguns, sem þú getur alveg eins gert hinn daginn“. Kannski hafði hann þetta eftir einhverjum öðrum, en ég hef reynt að lifa eftir þessu spakmæli og það er ekki erfitt.

Verkfallsátök þau sem nú standa yfir og væntanleg eru virðast um margt vera sérkennileg. Kannski tekst að semja án mikils tjóns fyrir þjóðarbúið. Hugsanlegt er líka að þetta séu pólitískari verkföll en undanfarið hafa verið og að verulega dragist að leysa úr þeim. Pólitískar afleiðingar held ég þó að verði engar. Núverandi stjórn haldist við völd alveg fram að næstu kosningum, en þá á ég von á talsverðum breytingum.

Í fréttum er sagt frá því að Hann Birna Kristjánsdóttir ætli að snúa aftur á þing bráðlega. Það held ég að hún ætti ekki að gera. Eftir að hún sagði af sér ráðherradómi er traustið á henni áreiðanlega afar lítið. Mér finnst hún hafa barið höfðinu við steininn í heilt ár, en vitað það allan tímann að hún hafði rangt fyrir sér. Einhverjir flokksfélagar hennar held ég að séu mér sammála um þetta, þrátt fyrir að hún sjálf muni eflaust þverneita því.

Á þing á hún ekkert erindi og allt sem hún gerir þar mun kalla á andstöðu strax. Hún á líka auðveldara með að þrjóskast við að svara spurningum ef hún mætir ekki þar. Kærð verður hún varla af marktækum aðila. Ef hún bíður nægilega lengi gæti jafnvel farið svo að hún fengi sendiherrastöðu fyrir rest. Með þjósku sinni og lygum hefur hún með öllu girt fyrir pólitískan frama sinn.

Sigurður Gylfi Magnússon, sem ég held endilega að sé prófessor við Háskóla Íslands,hefur haldið fram sagnfræðiskoðunum sem hingað til hafa verið álitnar heldur óáreiðanlegar. Það er að segja einsögulegum, sem byggjast að mestu leyti á frásögnum einstaklinga. Hingað til hafa sagnfræðilegar rannsóknir einkum byggst á opinberum gögnum. Auðvitað er ekki alltaf að marka frásagnir gamalmenna um atburði sem gerðust kannski mörgum áratugum fyrr, en dagbækur og ýmisskonar fróðleikur sem hægt er að sanna að sé frá sama leyti og atburðirnir gerðust sem um er rætt, geta sem hægast komið að gagni við slíkar rannsóknir og allsekki er þörf á að rengja slíkar frásagnir að ástæðulausu.

WP 20150412 08 10 33 ProBorgarspítalinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband