2316 - Hillary

Í erlendum fréttum er það helst að Hillary Clinton hefur nú eftir 8 ára umhugsum ákveðið að gefa kost á sér í forkosningum demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Vitanlega gera margir ráð fyrir að hún hljóti útnefningu flokksins auðveldlega og vinni síðan forsetakosningarnar sjálfar. Þær verða þó ekki fyrr en í nóvember á næsta ári. Obama verður forseti þangað til í janúar 2017 og á þeim tíma sem líður fram að forsetakosningunum getur margt gerst. Þó má gera því skóna að fjöldamargt muni breytast í utanríkisstefnu Bandaríkjanna ef hún sigrar þar.

Púðurtunnan fyrir botni Miðjarðarhafsins gæti sprungið hvenær sem er. Þjóðarleiðtogar á vesturlöndum og víðar eru vígreifari en vant er. Reynt er eftir megni að gera trúarlegan ágreining sem mestan beggja vegna þeirrar víglínu sem hugsanlegt er að dregin verði. Ef uppúr sýður í Austurlöndum nær er líklegt að áhrif þess muni finnast um allan heim. Ólíklegt er þó að um bein átök verði að ræða í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Þetta er bara mín tilfinning og ekkert víst að neitt sé að marka hana. Stjórnmál skipta samt máli. Enginn fær mig til að segja annað. Munurinn á lokal og global pólitík er ekkert endilega svo mikill.

Global – lokal – singular. Þannig lít ég á pólitíkina. Þeir sem stjórna hugsa mest um eigin rass. Flestum finnst gott að láta líta svo út að þeir hugsi um þjóðarhag. Eigin hagur kemur samt alltaf fyrst. Svo fjölskylduhagur, en ættarhagur og þjóðarhagur einhvers staðar þar á eftir. Hagur heimsins kemur lítið við sögu nema í söfnunum og þess háttar. Kannski í orðræðu. Lítið er samt að marka hana. Svona er þetta bara og breytist hægt.

Sennilega hefur Páll Bergþórsson rétt fyrir sér varðandi sveiflurnar í veðurfari á Norðurslóðum og endurkast sólarljóssins frá ísnum. Hugsanlega veður hann samt sem áður í villu og svíma varðandi landnám Íslendinga í Vesturheimi. Ég er þó hvorki veðurfræðingur né landnámsfræðingur og skil þessi vísindi ekki almennilega. Þó held ég að betra sé að vera hér norðurfrá á mörkum hins byggilega heims en í heita suðrinu. Prepper er ég samt ekki. Lífskjör okkar Íslendinga eru furðulega góð ef miðað er við hnattstöðu og hinn sígilda fólksfjölda.

Nú virðist vorið komið í alvöru. A.m.k. halda fuglarnir það. Áðan var verið að skrúfa frá vatnspóstinum í Fossvogi þegar ég átti leið þar framhjá og svo er byrjað að grisja hjá skógræktinni. Kannski við fáum ekki meiri snjó. Hálfblautt er samt útivið ennþá.

Ég er næstum búinn að skrifa heilt blogg án þess að minnast á fésbókina. Það gengur auðvitað ekki. Man bara í svipinn ekki eftir neinu um hana sem ég hef ekki minnst á áður. Nú er klukkan orðin dálítið margt svo það er líklega best að senda þetta bara snimmhendis út í eterinn.

WP 20150331 08 54 45 ProTré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband