Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

2393 - Trump

Landamæri eru útvíkkun á hræðslunni við hið ókunna og skila engum árangri. Fangelsi skila yfirleitt engum árangri heldur. Líflátsdómar eru fáránlegir. Ríkisvald á ekki að stunda hefndir á þann hátt. Auk þess sem hættan á dómsmorði er talsverð. Hvað á þá að gera við óforbetranlega glæpamenn? Ekki veit ég það. Oftast er auðveldara að gagnrýna hluti en koma með skynsamlegar tillögur um úrbætur.

Einu sinni var ljósmyndari sem varð svo hugfaginn af blómi á berangri sem hann sá í byrjun dagsferðar að hann var ekki mönnum sinnandi. Svo mikill ljósmyndari var hann þó að hann sá að blómið mundi taka sig ennþá betur út ef birtan væri svolítið öðruvísi. Hann beið því allan daginn eftir að birtan breyttist. Það gerðist undir kvöld. Þegar ferðafélagar hans komu aftur álösuðu þeir honum um heimsku. Hann var samt hamingjusamastur allra í hópnum.

Vissulega er Donald Trump últra-hægrisinnaður. Hann hefur meira að segja hótað því að fara fram sem óháður frambjóðandi í forsetakostningum á næsta ári ef hann fær ekki útnefningu Repúblikanaflokksins. Þannig mundi hann sennilega færa Hillary Clinton forsetaembættið eins og Ross Perot gerði árið 1992 fyrir manninn hennar. Annars var Clinton á margan hátt ágætur forseti og kannski yrði Hillary það líka. A.m.k. tek ég Clinton-klanið framyfir Bush-klanið.

Nú veit ég af hverju fésbókin er vinsælli en bloggið. Fyrir það fyrsta er hún einfaldari. Samt er hún í raun flókin og margbrotin ef menn vilja vita allt um hana. Hitt er líka greinilegt að athyglistími flestra er sífellt að styttast. Langar greinar eru óvinsælar. Um að gera að segja allt í sem stystu máli. Orðin „sjá meira“ blálituð hafa samt vissan töframátt. Mörgum blöskrar samt ef óralangur pistill birtist við það að klikka á þessi orð.

Þó Hringbraut sé á margan hátt ágætur miðill er margt afar einfeldningslegt þar. Björn Þorláksson vitnar í gamla grein um Pál Skúlason heimspeking og margt er vel sagt þar. Það breytir samt ekki því að myndmálið er að taka hið skrifaða yfir. Ef til stendur að höfða til yngri kynslóðarinnar dugir ekki forneskjulegt skrifelsi eins og hér er boðið uppá. Myndmálið og hið talaða orð (eða sungna) er það eina sem blífur.

Í framhaldi af þessu er ég að hugsa um að stytta bloggið mitt og hafa það ekki lengra. Myrkrið er svo mikið á morgnana að ég tek ekki neinar myndir á morgungöngunni um þessar mundir og þessvegna eru bara gamlar myndir í boði. Á sínum tíma reyndi ég að velja þær skástu til bloggbirtingar en satt að segja er úr svo mörgum myndum (og bloggum) að moða á netinu að ég kemst varla að og er alveg sama um það.

 

 

Einhver mynd.IMG 1337


2392 - Fíknir

Það fórst víst alveg fyrir hjá mér að birta mynd með síðasta bloggi. Reyni að bæta úr því.

Mannvirkjafíkn versus umhverfisverndarfíkn eru fíknir sem vefjast sjaldan fyrir mönnum. Eitulyfjafíkn, sætindafíkn og matarfíkn gera það samt. Svo ekki sé nú talað um vinstrifíkn og hægrifíkn eða bara einfaldlega pólitíska fíkn sem slær margan manninn blindu. Trúarbragðafíkn og þjóðernisfíkn eru í mikilli tísku um þessar mundir. Í fíknilausum heimi væri sennilega ömurlegt að búa. Enginn er með öllu laus við fíknir. Ekki frekar en fordóma. Þetta voru nú bara svona sundurlausir þankar í tilefni af því að ég var að enda við að lesa bloggið hans Ómars.

Kannski er eitt stykki herþota hættulegra heimsfriðnum en atburðirnir í París. Ég hef áhyggjur af þessu, ég verð bara að segja það. Í síðustu setningunum er ég semsagt að reyna að herma eftir því sem Steingrímur Hermannsson sagði oft. Áherslurnar eru í mínum huga svipaðar.

Eitt er það sem forsetinn og forsætisráðherrann eiga greinilega sameiginlegt. Það er gamaldags þjóðremba. Auðvitað þarf þjóðremba ekkert að vera slæm í sjálfu sér, en hana má nota til að afsaka útlendingahatur, rasisma og raunar hvað sem er. Og það er gert. Vitanlega er opingáttarstefna ekkert betri en einangrunarstefna. Hún hefur bara sýnt sig í því að vera heillavænlegri. Framfarir síðustu áratuga hafa fremur byggst á opingáttarstefnu en hinu gagnstæða. Það finnst mér a.m.k. og að engin leið sé að horfa framhjá því.

Jæja þetta er nú bara minn venjulegi reiðilestur á blogginu. Vitanlega væri réttast að taka upp léttara hjal. Gott ef unglingar dagsins hafa ekki rétt fyrir sér í því að sjálfsagðast af öllu sé að skemmta sér undir drep á meðan tími er til. Hvers vegna að hafa áhyggjur af morgundeginum? Verðum við ekki öll fallbyssufóður í þriðju heimssyrjöldinni hvort sem er?

IMG 1332Einhver mynd


2391 - Þriðja heimsstyrjöldin?

Kannski ég taki mér smáfrí frá skáksögunni, en næsta ár þar er árið 1954. Ég er eiginlega alveg hissa á því hve mikil umfjöllun fjölmiðla er um hryðjuverkin í París. Hugsanlega er það vegna þess að hún var öðruvísi en flest hryðjuverk sem unnin hafa verið hér á Vesturlöndum. Kannski er þriðja heimsstyrjöldin um það bil að skella á. Ekki veit ég það og hugsanlega enginn. Með öllu er samt vafalaust að við lifum á athyglisverðum tímum. Sennilegt er að veröldin breytist nokkuð núna eftir hryðjuverkin í París.

Þó ég reikni ekki með að til stríðsátaka komi get ég hæglega viðurkennt að ég hlakka að mörgu leyti til næstu kosninga. Hætt er við að pólitískar væringar aukist mikið. Vel er hægt að hugsa sér að lífskjör öll versni stórlega hér á Íslandi. Á margan hátt má segja að allsnægtaþjóðfélag á borð við Bandaríki Norður-Ameríku þrífist ekki hér. Hnattstaða og fámenni veldur þar mestu að sjálfsögðu. Vel getur svo farið að við verðum, nauðug viljug, að feta í fótspor hinna Norðurlandaþjóðanna. Engin leið er að spá fyrir um úrslit næstu kosninga. Heimsmálin eru í það miklum hnút að búast má við að þau hafi mikil áhrif á úrslitin. Einangrunarstefnan gæti sigrað.

Verkefnaleysi alþingis er hluti af vandamálinu „virðing alþingis“ sem þingmönnum verður oft tíðrætt um. Þingmennirnir ráða engu. Ríkisstjórnin ræður engu segir hún, en ber þó ábyrgðina. Hverjir eru það þá eiginlega sem ráða í raun? Það hljóta að vera starfsmenn ráðuneytanna. Þeir þurfa bara að passa sig á því að ráðherraræflarnir verði ekki öskureiðir. Sennilega er það helsta áhyggjuefni þeirra að ráðherrarnir fari að setja tímapressu á þá. Það vilja ráðherranir auðvitað helst ekki gera, því hver vill hafa hundóánægða starfsmenn?

Þess í stað reyna þeir (ráðherrarnir) að halda alþingi góðu með málæði og undanbrögðum. Hin svokallað virðing alþingis líður mikið fyrir þetta. Systemið er eiginlega alveg galið. Starfsmennirnir reyna að sjálfsögðu að gera sem allra minnst og skömmin lendir á alþingi sem ávallt er á síðustu skipunum með allt. Hræddur er ég um að „uppreisn alþingis“ verði fólgin í því að engar stjórnarskrárbreytingar komist í gegn. Hvorki á þessu þingi né nokkurntíma.

„Uppreisn almennings“ gæti síðan komið í ljós í næstu kosningum. Eða þarnæstu. Eða einhverntima seinna. „Virðingarleysi alþingis“ er vegna þess að alþingismenn vilja það í raun sjálfir. Kannski er farið að örla á „virðingarleysi ríkisstjórnarinnar“. Best að láta bara strákana (Bjarna og Simma) ráða þessu. Þeir hafa hvort eð er bara gaman af því. Svo eru þeir báðir hæfilega vitlausir, svo það er um að gera að reyna að koma öllu á þá. Nú eru jafnvel stjórnarþingmenn farnir að ókyrrast. Framkvæmdaleysi ríkisstjórnarinnar er farið að skera í augun. Söngurinn um að allt gangi vel er að verða svolítið þreytandi. Einhverjar handvaldar tölur á blaði gera það kannski, en alls ekki allt.

Það fór eins og mig grunaði. Ekki er mikill áhugi á skáksögunni. Nöfn þeirra skákmanna sem fremstir voru eru vel þekkt. A.m.k. í vissum kreðsum. Nú eru nöfnin aðallega kínversk og indversk. A.m.k. austurlensk og það er erfitt að muna þau. Einhvern vegin eru þau alls ekki eins hljómmikil og í gamla daga. Mangi litli stendur samt fyrir sínu. Þó hann tapi nú aðallega þegar hann tekur þátt í sveitakeppni. Sumir eflast einmitt við það.

Það er fremur erfitt með myndatökur þessa dagana. Líklega verð ég bara að fara aftur í það far að birta gamlar myndir. Auðvitað gæti ég svosem hætt þessu, en ég er búinn að venja mig á þetta.


2390 - Skákárin 1952 og 1953

Ætli sé ekki réttast að halda svolítið áfram með skáksöguna? Fyrst verð ég samt að víkja smávegis að blogginu sjálfu. Að þessu sinni átti ég í engum vandræðum með að deila efninu á fésbókinni. Engin mynd fylgdi samt og biðst ég afsökunar á því. Reynt verður að bæta úr því núna.

Skákárin 1952 og 1953.
Segja má að baráttan um heimsmeistaratitilinn einkenni þessi ár. Bobby Fischer er að vísu fæddur en ekki enn farinn að láta að sér kveða. Þær hindranir sem þarf að yfirstíga til að geta skorað heimsmeistarann á hólm eru þrjár. Fyrst eru það svæðamótin svokölluðu sem veita eftir vissum reglum rétt til þátttöku á millisvæðamóti. Þeir efstu þar ásamt fyrrverandi áskorendum eða heimsmeisturum fá síðan rétt til þátttöku á kandidatamótum og efsti maður þar fær rétt til að skora á heimsmeistarann. Þegar hér er komið er þetta kerfi enn í mótun en kemst á fastan grundvöll fljótlega og segja má að það sé við lýði allt þar til Kasparov og Short tefla sitt ójafna einvígi árið 1993. En það er önnur saga. Löng og sérkennileg. Um það leyti hætti ég að fylgjast eins vel með skáksögunni og framað því.

Millisvæðamótið er að þessu sinni haldið í Svíþjóð (Stokkhólmi og Saltsjöbaden) Alexander Kotov sigrar þar og ásamt honum fá úr því móti þátttökurétt á næsta kandidatamóti þeir Petrosjan, Taimanov, Geller og Averbakh. Keres sigrar á mjög sterku skákmóti í Budapest en þar eru meðal keppenda t.d. Smyslov, Botvinnik og Geller.

Sovétríkin sigra á Olympíumótinu sem haldið er í Helsinki að þessu sinni eins og Ólympíuleikarnir. Skyldleikinn er samt ekki mikill og Ólympíumótið í skák hefur jafnan verið haldið annað hvert ár þó Ólympíuleikarnir sjálfir séu haldnir fjórða hvert ár. Sovétríkin sigra semsagt í því móti í fyrsta sinn og það þó sjálfur heimsmeistarinn Botvinnik hafi ekki komist í liðið og er sagt að hann hafi verið talsvert pirraður yfir því.

Ýmis skákmót eru haldin og t.d. Gligoric, Pomar, Reshevsky og Najdorf ásamt Bronstein og Taimanov standa sig vel í þeim. Kandidatinn Averbakh nær þó aðeins þrettánda sæti í meistaramóti Moskvuborgar. Friðrik Ólafsson vinnur sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil og Bykova vinnur fyrsta kandidatamót kvenna. Bojolubov deyr. Allt þetta gerðist árið 1952.

Það markverðasta sem gerðist árið 1953 var að Smyslov varð efstur í kandidatamótinu sem haldið var það ár í Zurich í Sviss. Keppendur þar voru 15 talsins og tefldu tvöfalda umferð. Af hálfu FIDE var síðan ákveðið að hafa keppendur færri. Talsvert á eftir Smyslov komu síðan Bronstein, Keres, Reshevsky og Petrosjan. David Bronstein skrifaði fræga bók um þetta mót.

Eftir dauða Stalíns má segja að þátttaka sovéskra skákmeistara í mótum víðsvegar um heiminn hafi aukist verulega. Einkum er óhætt að segja að Smyslov standi sig vel þar. Mikail Tal vinnur lettnesta meistaramótið í fyrsta sinn. Oscar Panno sigrar á heimsmeistaramóti unglinga eftir einvígi við Klaus Darga. Beljavsky fæðist.

IMG 2366Akratorg.


2389 - Skákárin 1950 og 1951

Ég er sannfærður um að misskipting auðlegðar er miklu hættulegri heimsfriðnum en mismunandi trúarbrögð. Vestræn menning með sín kristnu gildi hefur á undanförnum öldum og áratugum orðið mun ríkari á allan hátt en önnur menning. Austræn eða íslömsk gildi hefðu engu breytt um það. Vel sést það t.d. á Japan. Þar má segja að vestræn menning ríki en alls ekki kristin gildi. Yfirburðir hinnar vestrænu menningar voru og eru einkum í því fólgnir að stríðstæknin og drápin urðu þar vélrænni og skipulagðari en annars staðar. Heimssyrjaldirnar á síðustu öld eru órækur vitnisburður um það. Með stríðstækninni og drápunum tókst að halda öðrum menningarsvæðum niðri. Hugsanlegt er að þessum yfirburðum ljúki á þessari eða næstu öld.

Ekki veit ég hvort öðrum finnst þessar hugleiðingar gáfulegar en mér finnst það. Mér finnst þær svo gáfulegar að hugsanlega ætti ég að setja þær á fésbókina strax því líklegt er að fleiri lesi þær þar. Nei, annars. Það er ekki þess virði. Þetta er ágætis bloggefni.

Skákárin 1950-51.
Eiginlega ætti maður eingöngu að skrifa um það sem maður hefur sæmilegt vit á. Ekki hefur mér tekist að fara eftir þessu, og ég hef bloggað um ýmislegt, sem ég hef takmarkað vit á. Ég hef samt alla tíð haft talsverðan áhuga á skáksögunni, einkum svona eftir heimsstyrjöldina síðari og fram til 1980-90 eða svo. Kannski ég reyni að rekja þar helstu atriðin. Það er engin sérstök ástæða fyrir því að ég vel árið 1950 til að byrja á. Mér er engin launung á því að ég byggi þessa umfjöllun að talsverðu leyti á upplýsingum úr bók eftir Graham Burgess sem kom út árið 1999 í London. Auðvitað er það líka svo að öldin var nákvæmilega hálfnuð árið 1950 og ég nálgaðist það þá óðfluga að verða 10 ára og var byrjaður að lesa Morgunblaðið og við það kviknaði skákáhuginn. Friðrik Ólafsson sem fæddur er 1935 er því aðeins 16 ára í lok þessa tímabils. Hann tekur að þessu sinni þátt í fyrsta heimsmeistaramóti unglinga undir 20 ára aldri sem haldið hefur verið. Þetta mót var haldið í Englandi árið 1951 og það var Júgóslavinn Borislav Ivkov sem þar varð efstur og hlaut að launum titilinn heimsmeistari unglinga. Rússar tóku ekki þátt í þessu móti, sennilega vegna þess að vitað var fyrirfram að Svissneska kerfið svonefnda yrði notað. Í þá tíð tíðkaðist að veita sigurvegurum þessa móts alþjóðlegan meistaratilil. Seinna meir breyttist það svo í stórmeistaratitil.

Meðal keppenda á þessu móti auk Ivkovs og Friðriks Ólafssonar má nefna Bent Larsen og Arnold Eikrem.

Árið 1950 var fyrsta kandidatamótið haldið í Búdapest í Ungverjalandi. (Ameríkönunum Reshevsky og Fine var að vísu neitað um vegabréfsáritun til Ungverjalands) Tilgangur þess móts var að gefa sigurvegaranum rétt til að skora heimsmeistarann (Botvinnik) á hólm. Efstir og jafnir með 12 vinninga af 18 mögulegum urðu þeir David Bronstein og Isaak Boleslavsky. Smyslov var með 10 vinninga og Keres 9 og hálfan. Bronstein bar síðan sigurorð af Boleslavsky og tefldi við Botvinnik árið 1951 og Botvinnik tókst að halda heimsmeistaratitlinum með jöfnum vinningum í einvíginu. Keres sigraði á meistaramóti Sovétríkjanna þetta árið og þeir Boleslavsky, Smyslov og Geller (kóngurinn frá Odessa) urðu mun neðar.

Fyrsta Olympíumótið eftir heimsstyrjöldina síðari var haldið þetta ár, en Sovétmenn tóku ekki þátt í því og Júgóslavar sigruðu þar og urðu á undan Argentínu, Vestur-Þýskalandi og Bandaríkjunum. Liudmilla Rudenko vann heimsmeistaratitil kvenna en enginn hafði haft þann titil síðan Vera Menchik andaðist árið 1944. FIDE ákvað þetta ár að taka upp stórmeistaratitla og alþjóðameistaratitla en þeir höfðu ekki verið við lýði fram til þess tíma.

Ljubomir Ljubojevic fæddist þetta ár.

Árið 1951 var ekki síður merkilegt skákár en 1950. Áður er minnst á heimsmeistaramót unglinga og einvígið um heimsmeistaratitilinn. Keres vann þá aftur Sovétmeistaramótið og að þessu sinni voru þeir Bronstein og Botvinnik báðir meðal keppenda. Einnig Petrosjan.

Geza Maroczy deyr þetta ár og þeir Karpov, Timman og Vaganjan fæðast.


2388 - París o.fl.

Ekki var það nú svo gott að ég gæti sérað umsvifalaust síðasta bloggið mitt, og ég ætla ekkert að reikna með því að geta það á næstunni. Kannski lagfæri ég eitthvað línubilin og athuga betur með myndirnar, en ég er ekkert viss um það. Ekki virðist mér það neitt ákaflega flókið að skoða Moggabloggin, þó ég viðurkenni fúslega að ekki er lengur sama áherslan á þeim hjá Moggaguðnum Davíð eins og mér finnst að ætti að vera.

Mikið vildi ég að það væri hægt að hætta við jólin, eða að minnsta kosti að fresta þeim svolíkið. Þessi ósköp eru að skella á. Krakkarnir eru sífellt að læra betur á þetta. Ég er ansi hræddur um að ýmsa hausa sé verið að brjóta í smátt til að finna réttu jólagjafinar. Svo getur verið að þessi jól verði alvöru fésbókarjól og ég veit bara ekki hvernig þau eru. Vafamálið með jólasveininn er nú komið á leikskólana. Þetta grímuklædda eða grímulausa ofbeldi allstaðar á eftir að hefna sín.

Selfie-stangir eða svonefnd kjánaprik eru mjög vinsæl um þessar mundir og er það engin furða. Hver ætti svosem að endast til þess annar að taka myndir af þeim sem umfram allt vilja vera á sem flestum myndum. Sumir eru víst þannig er mér fortalið. Ekki sel ég það dýrara en ég keypti það, en ótrúlegt er það mjög. Þeir sem þessi svonefndu kjánaprik eiga geta víst tekið myndir af sér endalaust. Og gott ef þeir gera það ekki. Kannski eru þau langmest í búðum og auglýsingum og það ætti að koma í ljós, þó síðar verði. Ekki hef ég kynnst neinum sem hefur sagst eiga svona grip. Góða fólkið hallmælir þeim mjög eins og svo mörgu öðru. „Stjörnulögfræðingur“ er t.d. á góðri leið með að verða skammaryrði, þó fáa hefði grunað það í gær eða fyrradag.

Fékk slatta af skákbókum um daginn og er núna að lesa bækur eftir Gennady Sosonko. Hann er að mörgu leyti ágætur rithöfundur. Svo er líka þarna bók þar sem getið er um öll skákmót og þessháttar á hverju ári á tuttugustu öldinni. Það sem gerðist í skákinni svona á árunum 1950 til 1980 er mér einna efst í huga og af einhverjum ástæðum finnst mér mest gaman að lesa um það tímabil.

Í sambandi við hryðjuverkin í París og hernað íslamska ríkisins dettur mér í hug að sú hugmynd að stjórnendur þar séu yfirleitt fyrrverandi herforingjar í írakska hernum og þar með fyrrum handbendi Saddams Hússeins einræðisherrra í Írak virðist eiga auknum vinsældum að fagna. Þeir menn eru til sem halda slíku fram og þar með að ábyrgð Bandaríkjastjórnar á stöðu heimsmála sé talsverð.Ýmsar ástæður valdi því síðan að íslamska ríkið beiti sér ekki meira en raun ber vitni gegn Bandaríkjunum. Frambjóðandinn frækni og ríki sem Trump nefnist hefur t.d. haldið því fram að ef Parísarbúar hefðu allir verið þrælvopnaðir hefðu engin vandræði orðið þar.

Fari svo að endurvakin verði starfsemi Akraborgarinnar að einhverju leyti gæti vissulega margt breyst hér á Akranesi. Akratorg, sá forngripur sem það í rauninni er, er nýbúið að fá smáandlitslyftingu og er ekki lengur svo galið. Gamli bærinn á Akranesi lítur út fyrir að henta túristum ágætlega. Þær nýtísku tilraunir sem gerðar hafa verið austan við Stillholt eru alveg misheppnaðar. Þær þýða þó að íbúar á Akranesi eru mun fleiri en annars mundi vera. Auðvitað mætti samt gera svæðið í kringum safnasvæðið sæmilega túristavænt og jafnvel einnig skógræktina þar skammt frá og líka Langasand alveg út að Sólmundarhöfða. Ef sementsverksmiðjusvæðið verður gert að afgirtu ríkramannalandi eins og ráðagerðir eru uppi um er hlutverki Akraness sem ferðamannastaðar endanlega lokið.

Eitt það alvarlegasta sem steðjar að Íslandi um þessar mundir er að „spekilekinn“ svonefndi er sennilega að aukast. Yfirvöld hafa samt engar áhyggjur af því. Völd þeirra munu nefnilega frekar vaxa við það en hitt. Niðurstaða næstu almennu þingkosninga gæti samt komið þeim á óvart.

IMG 2377Kanína.


2387 - Er búið að semja frið?

Fésbókin og Mogginn virðast hafa samið frið. A.m.k. get ég deilt bloggunum mínum núna. Guð láti gott á vita. Annars trúi ég ekkert sérstaklega á hann. En orðtakið er svona. Þeir sem eru með meirapróf í samsæriskenningum mundu sennilega segja að þetta tengdist allt nauðgunaríbúðinni í Hlíðunum og það getur vel verið, mín vegna.

Þetta minnir mig að sjálfsögðu á vísuna góðkunnu:

Storminn hefur loksins lægt
ljúfur saminn friður.
Yfirsængin hægt og hægt
hreyfist upp og niður.

Annars er það víst fátt sem ekki minnir mig annaðhvort á gamlar vísur eða sérstakar orðræður úr íslendingasögunum eða jafnvel fornaldarsögum Norðurlanda.

Villi Vill í Köben (sem er allsekki sá sami og Villi Vill í Hlíðunum) gerir athugasemd við píramídafrétt mína í síðasta bloggi. Bæði vegna þess að athugasemdir við blogg mín eru sárasjaldgæfar núorðið á þessu síðustu og verstu fésbókartímum og svo mega aðrir gjarnan kynnast kímnigáfu Villa Vill, þá ætla ég að endursegja athugasemd hans hér. Hann spyr semsagt um það hvort píramídarnir séu með hita. Svo er ekki, að því er ég best veit, en hitamunur eftir dægrum er talsverður í Egyptalandi hefur mér skilist. Með sérsmiðuðum tækjum er hægt að komast að því hvort hitabreytingin er jöfn alstaðar í viðkomandi píramída. Svo er ekki og geta margar skýringar verið á því.

Er búinn að komast að því að á morgungöngu minni eru 400 metrar pr. hverjar 5 mínútur fullmikið fyrir mig í myrkri, kulda og rigningu og mér veitir varla af að minnka það niður í svona 370 metra eða jafnvel 350 (betri tölur). Þannig var það t.d. í morgun þó ekki hafi farið að rigna að ráði fyrr en undir lokin. Í hellirigningu má líka stytta leiðina sem farin er. Viðmiðunin í því efni er ennþá 5 kílómetrar eða klukkutími.

Kannski ég setji þetta bara upp áður en það verður með öllu úrelt. Það verður líka fróðlegt að sjá hvernig mér gengur að deila þessu.

IMG 2356Blóm.


2386 - Guantanamo

Burma heitir semsagt Myanmar núna eins og flestir vita. Höfuðborgin heitir Yangon en hét víst einu sinni Rangoon, eða það var manni kennt í skóla, minnir mig. Erum við bara ekki einum of föst í ensku heitunum? Einu sinni hétu líka ýmsar borgir í Kína öðrum nöfnum en núna. Jafnvel Peking hefur fengið nýtt nafn held ég. Getur ekki verið að þetta séu einskonar Smókíbei-nöfn. Eini framburðurinn og nöfnin sem ættu að gilda, er innfæddra.

Nú fer bloggið mitt á tvo staði. Fésbókina og Moggann. Fésbókin er þó dálítið vangæf því hún tekur ekki mark á línubilsmerkjum frá Wordinu. Þegar hún hættir líka að birta orðabilin þá veit ég ekki hvað ég á að gera. Sennilega verð ég þá að gefast upp á Wordinu.

Stundum er talað um það hérlendis að skýrslur og ýmsar upplýsingar séu ekki aðgengilegar öllum. Líka er stundum rætt um svonefnt fangaflug sem farið hafi um Reykjavíkurflugvöll. Bandaríska þingið tók umræðurnar um fangaflugið og hin leynilegu fangelsi og hugsanlegar pyndingar þar svo alvarlega að gerð var svolítil (eða ekki svo lítil) skýrsla um málið. Hún er víst einar 6700 blaðsíður. (Segi og skrifa sex þúsund og sjö hundruð blaðsíður) og var fullgerð í desember síðastliðnum. Að sjálfsögðu var hún stimpluð „TOP SECRET“ og það má eiginlega enginn kíkja í hana. Málaferli eru í uppsiglingu um eignarhald á skýrslunni góðu og á meðan þau standa yfir getur að sjálfsögðu enginn fengið að sjá hana. Eignarhaldið getur skipt miklu máli því ef þingið á hana er hægt að halda henni leynilegri endalaust.

Bandarísk stjórnmál geta oft verið sérlega athyglisverð. Sjálfur man ég vel eftir því að þegar Obama var í kosningabaráttunni árið 2008 lofaði hann því hátíðlega að ef hann yrði kosinn forseti yrði örugglega búið að loka fangabúðunum í Guantanamo innan árs. Mér vitanlega er ekki enn búið að loka þessum fangabúðum sem ég held að hafi verið starfræktar síðan 2002.

Auðvitað er ekki allt neikvætt sem um USA má segja. Engir taka lagafyrirmæli og mannréttindi jafn alvarlega og þeir. Margt gott má um Bandarísku þjóðina segja (raunar er um margar þjóðir að ræða), en sú gangrýni sem oftast heyrist er einkum um stjórnarfar þar, sem á Evrópskan mælikvarða er ákaflega hægrisinnað.

Egyptaland hefur verið talsvert í fréttum undanfarið. Þar eru líka píramídarnir frægu sem eru mörg þúsund ára gamlir. Leit hefur staðið yfir að undanförnu að hugsanlegum leyniherbergjum þar og nú nýlega voru gerðar opinberar myndir sem teknar hafa verið með sérstökum hitamyndavélum og benda þær til að píramídarnir hafi ennþá ekki verið rannsakaðir til fulls.

IMG 2348Varða.


2385 - Áfram tilraunaframleiðsla

Ekki tókst hún að öllu leyti sú tilraun sem ég sagði frá í síðasta bloggi.

Ekki get ég notað sömu myndirnar því þær eru geymdar hjá Mogganum.

Fésbókarfjandinn eyðir líka öllum línubilum svo það sem þangað er sett lítur hálfilla út. Að öðru leyti má segja að þessi tilraun hafi tekist bærilega.

Þannig að ég hugsa að ég hafi það þannig í nánustu framtíð a.m.k. að setja blogginnleggin mín á báða staðina. Munurinn verður einkum, virðist vera, sá að engar myndir birtast á fésbókinni og engin línubil heldur.

Í gær (sunnudag) komu krakkarnir allir í heimsókn ásamt skylduliði (Anton, Díana og Charmaine komu þó ekki) alls voru þetta svona 10-12 manns. Öðrum þræði a.m.k. var þetta einskonar afmælisveisla Hafdísar og ekki orð um það meir (veit að hún kærir sig ekki um það).

Þar sem ég fór fremur snemma í gönguferðina í gær. (Eins og ég sagði víst í blogginu þá.) Lék mér heilmikið við stelpurnar (Tinnu og Helenu) og fékk engan hádegislúr, var ég hundþreyttur eftir að hafa troðið öllu diskadótinu og þ.h. í tvær uppþvottavélar og étið óvenjumikið. Svaf lengi og fór semsagt í enga morgungöngu í morgun.

Það er eiginlega kominnn tími til að gera aðra tilraun. Línubilin eru heilmörg hérna og ég ætla að setja mynd með. Þeim sem lesa þetta og vilja gera samanburð (eða skoða myndina) er semsagt ráðlagt að fara á Moggabloggið.

IMG 2349Brákarey.


2384 - Smátilraun

Nú virðist það ekki ganga lengur að ég geti auglýst bloggið mitt á fésbókarræflinum. Sá her manns sem þar vinnur og tölvudeild Moggans hafa greinilega sameinast í vanheilögu bandalagi um að koma í veg fyrir þá ósvinnu að hægt sé að auglýsa sig í öðrum hvorum miðlinum þó maður skrifi í hinn. Ætli ég skrifi bara ekki í þá báða ef það er eitthvað betra. Setji semsagt sama bloggið á báða staðina. Vitanlega er það svolítið meira verk en ég tel það ekki eftir mér, því það eina sem maður hefur eftir á þessum aldri er tími. Númerin og fyrirsagnirnar verða alveg eins og vonandi allt annað líka, jafnvel myndirnar. Set það semsagt á tvö url því Moggabloggsurlið mitt er blokkað. Prófa fyrst að gera þannig með þetta litla blogg.

IMG 2311Brauðval.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband