Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

2383 - Frissi feiti

Eitt af því sem komið hefur mér svolítið á óvart í bloggstandinu er að aldrei skuli verða neinn hörgull á því sem maður bloggar um. Þó blogga ég lítt um fréttir og söguleg efni en þeim mun meira um blogg og fésbók. Eiginlega er það alveg nóg. Það er endalaust hægt að blogga um slíkt. Skárra væri það nú.

Ef ég væri ekki skráður á fésbók, þá er eins víst að ég væri skráður á twitter og ekki væri það skárra. Einu sinni var ég vel á veg kominn með að skrá mig líka þar en tókst með herkjum að halda aftur af mér. Afleiðingin er samt sú að ég fæ alltaf annað kastið ítrekanir og áminningar frá þeim. Sama er að segja um einhverja fleiri samfélagsmiðla. Man bara ekki hvað þeir heita. Bloggið og fésbókin nægja mér alveg. Upplagt að hafa síðu eins og Boðnarmjöðinn þar sem maður getur hent frá sér vísum og gleymt þeim svo. Engin þörf á afriti.

Sennilega fer ég alltof sjaldan á netpóstinn minn. Það er mest vegna þess að pósthólfið fyllist fljótlega af nígeríubréfum, auglýsingum og allskyns rusli á fremur stuttum tíma. Auðvitað ætti ég að fá mér nýtt netfang en ég nenni því bara ekki. Mér finnst illa komið fyrir tölvupóstinum, sem einu sinni átti allan vanda að leysa. Ætli maður verði bara ekki að snúa sér að sniglapóstinum aftur.

Einu sinni hélt ég að kreik væri það sama og krókur. Vísan „Allir krakkar, allir krakkar“, var oft sungin í mínu ungdæmi. Í vísunni er talað um „að lyfta sér á kreik“. Þetta kreik sem þar var talað um hélt ég endilega að væri krókur og varaðist mjög að taka undir þetta.

Í fyrsta skipti sem ég sá með eigin augum hve farsímarnir eru orðnir mikill hluti af lífi fólks var í Borgarnesi fyrir svona ári síðan. Þar var einhvers konar skemmtun þar sem fólk af ýmsu þjóðerni var að bjóða vörur sem voru einkennandi fyrir viðkomandi land. Á eftir skemmti einhver Frissi feiti (eða einhver með álíka nafn sem allir áttu víst að kannast við, en ég hafði aldrei heyrt áður.) Þegar hann stökk útá gólfið og fór að dansa og syngja þyrpust allir að með farsímana á lofti til að taka myndir. Reyndar var hávær músíkin sem fylgdi þessu hreint út sagt hættuleg (hugsa ég).

Ingibjörg, Sigrún og Hörður komu hingað áðan og höfðu ekki séð íbúðina okkar fyrr. Ætluðu síðan til Atla, eins og lög gera ráð fyrir. Um þessa heimsókn er ekkert sérstakt að segja en ég nota þetta blogg semsagt sem nokkurskonar dagbók að þessu sinni, þó ég geri það ekki altjént.

Nú er ég semsagt kominn með nýjar myndir sem ég þarf endilega að koma í umferð sem fyrst svo ég geti aftur farið að nota gamlar myndir. Það var svo assgoti þægilegt. Þessvegna blogga ég svona ótt og títt núna. Væri kannski hægt að segja að ég bloggaði eins og óð fluga? Nei, ekki finnst mér það. Óðar flugur eru allt öðruvísi.

Það er ekki hægt að bíða eftir sólinni í hvaða vitleysu sem er. Mér er engin launung á því að mér finnst þessi árlega suðurganga sólarinnar hin mesta vitleysa. En maður verður víst að sætta sig við það. Vaknaði fyrir sjö í morgun og dreif mig í morgungönguna. Undanfarið hef ég verið að rembast við að bíða eftir birtingu en nú nenni ég því ekki lengur. Héðan í frá er það mín eigin klukka sem ræður.

IMG 2288Bjarnabúð.


2382 - USA

Einhver valdamesti maður Vesturlanda er forseti Bandaríkjanna. Næstu kosningar til þess embættis verða haustið 2016. Segja má að nokkur hefð sé fyrir því að forsetar Bandaríkjanna komi til skiptis úr röðum demókrata og republikana. Samkvæmt því ætti næsti forseti að koma úr röðum repúblikana, því Obama er demókrati og sigur hans á Hillary Clinton í forkosningum demókrata var a.m.k. eins mikilvægur og sigurinn í sjálfum forstetakosningunum

Donald Trump hefur að mestu einokað forkosningar repúblikana hingað til og rekur þá kosningabaráttu að mestu leyti sjálfur og án þeirrar kosningavélar sem venjulega stjórnar slíkri kosningabaráttu. Nú virðist eilítið vera að fjara undan þeim yfirburðum og hefðbundnari kosningavélar að taka við. Á hliðarlínunni bíður síðan enn einn Bush bróðirinn og ætlar sér áreiðanlega að feta í fótspor bróður síns Georgs W. Sá heitir Jeb og var áður ríkisstjóri í Miami.

Frambjóðandi demókrata gæti hinsvegar vel orðið áðurnefnd Hillary Clinton. Flest virðist benda til að hún vinni forkosningar demókrata nokkuð auðveldlega, en samt er alls ekki víst að hún sigri í forsetakosningunum. Obama þykir af mörgum hafa staðið sig fremur illa sem forseti og hægri sveifla virðist vera á leiðinni í Bandaríkjunum. T.d. sigraði repúblikani í ríkisstjórakosningum í Kentucky nýlega en því fylki hafði gengið áberandi vel að koma á fót hinu svokallaða Obamacare sem er hið nýja sjúkratryggingakerfi sem Obama hefur verið að berjast fyrir að koma á.

Ekki veit ég hvort lesendur mínir hafa mikinn áhuga á Bandarískum stjórnmálum og þess vegna er ég að hugsa um að láta staðar numið hér. Því er þó ekki að neita að forsetakosningar þar og aðdragandi þeirra getur verið ákaflega spennandi. Þar eru líka alvöru fjölmiðlar sem hafa afburðagóða blaðamenn á sínum snærum.

Ekki get ég látið þetta blogginnlegg mitt snúast eingöngu um bandarísk stjórnmál. Pop-músík hef ég lítið sem ekkert vit á og læt því Iclandic airwaves alveg eiga sig. Hinsvegar ber sjóslysið við höfnina í Reykjavík öll einkenni hins dæmigerða íslenska sleifarlags, svo kannski er rétt að minnast örlítið á það. Örugglega hefur þetta stafað af því að gleymst hefur loka einhverju og er það lítil furða. Betra hefði líklega verið að hafa sérstakan mann til að sjá um það svo það gleymdist ekki. Svipað má segja um hjúkrunarkonugreyið sem sökuð er um manndráp. Áreiðanlega hefði þetta ekki komið fyrir ef þær hefðu verið fleiri.

Appú sagði Lilla Hegga í „sálminum um blómið“ ef ég man rétt. Sú bók er eftir Þórberg Þórðarson ef einhverjir skyldu ekki vita það og Appú þýðir náttúrulega allt búið og þau orð hennar geri ég hér með að mínum.

IMG 2283Breki köttur.


2381 - Fýlan

Mér leiðist sá boðskapur að allir eigi ávallt að vera voðalega jákvæðir og í góðu skapi. Hvers á vonda skapið að gjalda? Það er eiginlega ekki hægt að vera í góðu skapi alltaf hreint. Til þess að vera í góðu skapi verður maður líka að prófa að vera í vondu skapi. Reyndar held ég að það sé allt í lagi að vera í slæmu skapi ef maður gerir engum neitt. Hvað ætti það svosem að káfa uppá mig eða þig þó einhver sé í vondu skapi öðru hvoru. Þessi sífellda broskrafa er beinlínis hættuleg. Það er ekki nauðsynlegt að finna að öllu mögulega þó maður sé slæmu skapi. Það er alveg nóg að vera bara í fýlu. Aðvitað er betra að einhverjir viti af því vegna þess að annars er fýlan til einskis. Held að það hreinsi bara sálina að vera stöku sinnum í fýlukasti.

Er búinn að vera í óvenjugóðu yrkingarstuði undanfarna daga og hef snimmhendis sett afraksturinn á „Boðnarmjöð“ á fésbókinni. Furðu margir lesa það sem þangað er sett.

Við yrkingarnar er ég bara orðinn nokkuð seigur.
Við orðaþrautir ekki deigur.
Andlegur minn stækkar teigur.

Minnir að ég hafi gert þessa vísu fyrir allmörgum árum og þessvegna kann ég illa við að setja hana á Boðnarmjöðinn. Hún er áreiðanlega eftir mig, ég man nokkurn vegin eftir vísum sem ég hef gert sjái ég þær. Hinsvegar hef ég aldrei gert neinn reka að því að safna vísum eftir mig saman. Vona samt að flestar þær bestu séu á blogginu mínu. Þó er það ekkert víst. Man t.d. eftir nokkrum klámvísum sem ekki er víst að ég hafi sett á bloggið. Yfirleitt gleymi ég fljótlega vísum sem ég geri. Man vel eftir Bjarna Valtý og Sveinbirni Beinteinssyni þegar þeir voru að kveðast á í KB. Þeir voru snillingar, báðir tveir.

Varðandi stóra miðilsmálið vil ég aðallega segja þetta: Mér finnst Frosti hafa verið of stórorður. Þó er ég að flestu leyti mjög sammála honum. Mér finnst að fjölmiðlar eigi að láta miðla og annað rugl eiga sig að sem mestu leyti. Ef talin er hætta á stórfelldum vandræðum af slíku ruglfólki er samt e.t.v. ástæða til að endurskoða það. Sá miðill sem Frosti auglýsti á þennan áhrifaríka hátt virðist jafnvel vera gagnlegur og þessvegna hefði hann ekki átt að ráðast á hann af þessum ofsa. Kirkjan hefur að ég held tapað mest á þessu öllu saman. Prestarnir sem úttöluðu sig um þetta mál virtust vera mun ruglaðri en Frosti og miðillinn til samans.

Horfði á „Kiljuna“ í kvöld. Alveg er ég hissa á hvað Egill heldur þar vel á spilunum. Hætti t.d. með Braga þegar maður var um það bil að fá leið á honum. Satt að segja held ég að það sé eini sjónvarpsþátturinn sem ég horfi nokkuð reglulega á. Oft horfi ég samt líka á Hraðfréttirnar og Útsvarið.

IMG 1789Fossvogurinn.


2380 - Undir læknishöndum

Mér skilst að það sé mikil eftirspurn eftir læknishöndum. Svo mikil að líksnyrtar og aðrir í útfarariðnaðinum þurfi að vara sig og halda í allar hendur. Ekki bara sínar eigin heldur líka af líkum sem þeir fá til meðferðar. Sjúkraflutningamenn nota þetta mikið og í rauninni ættu allir að eiga svona til að leggja yfir þá sem illa slasast. Jæja, þetta er víst ekkert fyndið. Það má eiginlega ekki gera grín að því sem sorglegt er, segir Pétur. Svona gæti ég þusað endalaust. Skipbrotsmaðurinn sem át brauðið endalausa er ekki einn um það. Margir reyna að skera endana af fyrst. Það virðist vera sameiginlegt einkenni allra betri bloggara (og vitanlega vil ég teljast til þeirra) að skilja eða misskilja sem allra flest orð. Helst þau reyndar sem engir aðrir misskilja.

Nú er Wordið byrjað að stríða mér svolítið. Kannski læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Ef ekki vill betur setur appið eða forritið skjölin þar sem því finnst þau eiga heima. Veit ekki af hverju bloggskjalið mitt er allt í einu komið á desktoppinn. Svo er uppsetningin talsvert frábrugðin því sem ég átti að venjast. Hver veit nema það sé í góðu lagi? Ekki tjáir að deila við dómarann. Eða í þessu tilfelli Wordið sjálft.

Nú eru miðilsfundir mikið í tísku. Aldrei hef ég orðið svo frægur að komast á slíkan fund, enda er hætt við að ég yrði ekki nógu alvarlegur þar. Þó er ég með alvarlegustu mönnum. Eiginlega get ég alveg tekið undir með Harmageddon-manninum sem ekki var hrifinn af svona fjárplógsstarfsemi. Vel leist honum samt á miðilinn og steig óspart í vænginn við hana. Hananú sagði hænan og lagðist á bakið.

Hér kemur fésbókarinnleggið. Alveg er hún gengdarlaus frekjan í fésbókinni. Ekki veit ég hve oft hún er búin að spyrja mig um skólagönguna og allskyns spurningum getur hún fundið uppá. Sennilega eru allar þessar upplýsingar sem safnað er seldar hæstbjóðanda. En hvað slíkar upplýsingar eiga að fyrirstilla er mér hulin ráðgáta. Fyrir löngu er ég hættur að trúa tölvunni fyrir nokkrum sköpuðum hlut, einmitt vegna þessarar yfirþyrmandi njósnastarfsemi. Hvað veit ég nema búið sé að finna upp forrit sem geta fundið allt það sem fyrirspyrjendum getur dottið í hug að spyrja um. Ef ég ætti slíkt forrit mundi ég endilega vilja láta það hakka í sig sem mestar upplýsingar þó flestallar þeirra væru vitagangslausar.

Ég hef verið að spekúlera í því hversvegna mér er svona illa við fésbókina. Sennilega er það vegna þess að mér gegnum hálfilla að skilja hana og læra á hana. Svo er líka möguleiki að þetta forrit sé meingallað og hættulegt. Hin nýju samfélagsmiðuðu forrit munu eflaust áður en lagt um líður ganga af fésbókinni dauðri. Þangað til ætlar Sykurbergur áreiðanlega að reyna að græða eins mikið á henni og hægt er. Líklega er þó Twitterinn ekkert betri. Ég álpaðist til að skrá mig á einhvern lista þar og síðan hef ég engan frið haft fyrir allskyns tilboðum þaðan. Sama er að segja um LinkedIn. Á einhverjum lista hlýt ég að vera það því ég er sífellt að fá eitthvað þaðan. Öfunda þá sem fá bara fáeinar skjáfyllur á dag í tölvupóstinn sinn.

Sko. Ég skil ekki hvernig nauðasamningsleiðin og skattaleiðin eru jafngildar. Ef önnur er 450 milljörðum lægri en hin er þá ekki rökrétt að tala um afslátt. Ýmsar tölur eru settar í pott og hrært vandlega í og útkoman á að vera og þarf að vera 450 milljarðar. En er hún það? Ég leyfi mér bara að efast um það. Auðvitað er gott að losna við hrundraugana sem flesta áður en næsta hrun skellur á. En öllu má samt ofgera. Og svo er ekki einu sinni víst að aðrir en slitastjórnirnar losni úr höftunum. Skilst mér.

Þetta var pólitíkin i innlegginu, en nú er ég hættur.

IMG 1777Og bílafljótið streymir áfram.


2379 - Stuðin

Arnaldur segist nostra við málfarið og ekki efast ég um það. Að leggja orð sín í dóm lesanda einu sinni á ári finnst mér vera afar sjaldan. Helst vil ég fá fordæmingu eða hrós strax. Jafnvel þó ég fái ekki hundaskít greiddan fyrir snilldina. Þessvegna er það sem ég er bara bloggari en ekki rithöfundur. Reyni a.m.k. að telja sjálfum mér trú um að þannig sé það. Ég sé semsagt í rauninni rithöfundur þó það henti mér allsekki. Hugsanlega er ég þó það sem e.t.v. mætti nefna „stílisti“.

„Sjaldan bregður mær vana sínum“, var einhverntíma sagt og ég er ekki frá því að það eigi við hérna. Oft er ég í bestu stuði til skrifta þegar ég er nýbúinn að setja upp blogg. Og sannast það hér. Annars eru myndirnar að verða mér vandamál. Það er varla hægt að halda því endalaust áfram að setja bara á bloggið gamlar myndir. En myndavélin eða vélarnar hafa verið að stríða mér að undanförnu. Gamla Canon véin mín setur myndirnar hér og hvar í nýja Windowsinu, en ég er nú búinn að finna út úr því. Þar að auki setur myndsíminn minn myndirnar sem ég tek á hann ekki sjálfkrafa á tölvuna eins og hann á að gera. Fyrir svo utan allt þetta þá er ég ekki lengur viss um að ég taki neitt sérstaklega góðar myndir.

Þegar maður eldist finnst manni sífellt færra og færra vera það merkilegt að það taki því að hafa áhyggjur af því. Einna merkilegast finnst manni það sem lengst er síðan að gerðist. Auðvitað skiptir síðan máli hvað öðrum finnst.

Einhver minnir mig að hafi skrifað á fésbókina að honum þætti of lítið fjallað um það sem Guðbergur Bergsson sagði um Hallgrím Helgason. Mér finnst aftur á móti hafa verið fjallað fullmikið um það. Upphafleg orð Guðbergs (sem ekki voru falleg) eru ekkert stórum verri en vinsælir rithöfundar eru vanir að láta falla um keppinautana ef þeir á annað borð tjá sig um svoleiðis himpigimpi. Þau geta samt þegar best lætur fyllt uppí hugmyndir manns um viðkomandi rithöfunda. En auðvitað er best að reyna að gleyma þeim sem fyrst. Þeir vilja umfram allt láta dæma sig af bókum sínum. Allt annað er bara eitthvað sem þarf að flýta sér að komast í gegnum. Kannski meinar hann (Guðbergur) þetta af sínum innsta hjartans grunni og finnur enga aðra leið til að koma þessari skoðun sinni á framfæri. Að ætla að banna honum það er hrein og bein ritskoðun.

Mér sýnist veðrið ætla að verða alveg til fyrirmyndar um þessa helgi. Samt var það svo að gangstígarnir voru eilítið hálir í morgun, enda rakir eftir undafarnar rigningar.

Ég á eftir að pæla mig í gegnum alveg hnausþykkt fréttablað og geri það kannski á eftir. Annars finnst mér það ljótur siður hjá flestum fjölmiðlum að safna sem mestu efni í helgarútgáfurnar og ætlast til að einhverjir lesi þetta.

Mánudagsmorgunn. Enn sannast hið fornkveðna. Göngustuð eru ekkert frábrugðið öðrum stuðum. Ég var nokkurn vegin klukkutíma og átta mínútur að fara 5 kílómetrana í gær en í morgun var ég í betra stuði og var ekki nema um 59 mínutur að fara sömu leið. Veðrið var þó svipað báða dagana, en í gær var ég í regnjakka og þurfti þessvegna ekki að flýta mér. Kannski liggur munurinn þar.

IMG 1749Þarna hefur „trjáfellir“ verið á ferð.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband