2393 - Trump

Landamæri eru útvíkkun á hræðslunni við hið ókunna og skila engum árangri. Fangelsi skila yfirleitt engum árangri heldur. Líflátsdómar eru fáránlegir. Ríkisvald á ekki að stunda hefndir á þann hátt. Auk þess sem hættan á dómsmorði er talsverð. Hvað á þá að gera við óforbetranlega glæpamenn? Ekki veit ég það. Oftast er auðveldara að gagnrýna hluti en koma með skynsamlegar tillögur um úrbætur.

Einu sinni var ljósmyndari sem varð svo hugfaginn af blómi á berangri sem hann sá í byrjun dagsferðar að hann var ekki mönnum sinnandi. Svo mikill ljósmyndari var hann þó að hann sá að blómið mundi taka sig ennþá betur út ef birtan væri svolítið öðruvísi. Hann beið því allan daginn eftir að birtan breyttist. Það gerðist undir kvöld. Þegar ferðafélagar hans komu aftur álösuðu þeir honum um heimsku. Hann var samt hamingjusamastur allra í hópnum.

Vissulega er Donald Trump últra-hægrisinnaður. Hann hefur meira að segja hótað því að fara fram sem óháður frambjóðandi í forsetakostningum á næsta ári ef hann fær ekki útnefningu Repúblikanaflokksins. Þannig mundi hann sennilega færa Hillary Clinton forsetaembættið eins og Ross Perot gerði árið 1992 fyrir manninn hennar. Annars var Clinton á margan hátt ágætur forseti og kannski yrði Hillary það líka. A.m.k. tek ég Clinton-klanið framyfir Bush-klanið.

Nú veit ég af hverju fésbókin er vinsælli en bloggið. Fyrir það fyrsta er hún einfaldari. Samt er hún í raun flókin og margbrotin ef menn vilja vita allt um hana. Hitt er líka greinilegt að athyglistími flestra er sífellt að styttast. Langar greinar eru óvinsælar. Um að gera að segja allt í sem stystu máli. Orðin „sjá meira“ blálituð hafa samt vissan töframátt. Mörgum blöskrar samt ef óralangur pistill birtist við það að klikka á þessi orð.

Þó Hringbraut sé á margan hátt ágætur miðill er margt afar einfeldningslegt þar. Björn Þorláksson vitnar í gamla grein um Pál Skúlason heimspeking og margt er vel sagt þar. Það breytir samt ekki því að myndmálið er að taka hið skrifaða yfir. Ef til stendur að höfða til yngri kynslóðarinnar dugir ekki forneskjulegt skrifelsi eins og hér er boðið uppá. Myndmálið og hið talaða orð (eða sungna) er það eina sem blífur.

Í framhaldi af þessu er ég að hugsa um að stytta bloggið mitt og hafa það ekki lengra. Myrkrið er svo mikið á morgnana að ég tek ekki neinar myndir á morgungöngunni um þessar mundir og þessvegna eru bara gamlar myndir í boði. Á sínum tíma reyndi ég að velja þær skástu til bloggbirtingar en satt að segja er úr svo mörgum myndum (og bloggum) að moða á netinu að ég kemst varla að og er alveg sama um það.

 

 

Einhver mynd.IMG 1337


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband