2386 - Guantanamo

Burma heitir semsagt Myanmar núna eins og flestir vita. Höfuðborgin heitir Yangon en hét víst einu sinni Rangoon, eða það var manni kennt í skóla, minnir mig. Erum við bara ekki einum of föst í ensku heitunum? Einu sinni hétu líka ýmsar borgir í Kína öðrum nöfnum en núna. Jafnvel Peking hefur fengið nýtt nafn held ég. Getur ekki verið að þetta séu einskonar Smókíbei-nöfn. Eini framburðurinn og nöfnin sem ættu að gilda, er innfæddra.

Nú fer bloggið mitt á tvo staði. Fésbókina og Moggann. Fésbókin er þó dálítið vangæf því hún tekur ekki mark á línubilsmerkjum frá Wordinu. Þegar hún hættir líka að birta orðabilin þá veit ég ekki hvað ég á að gera. Sennilega verð ég þá að gefast upp á Wordinu.

Stundum er talað um það hérlendis að skýrslur og ýmsar upplýsingar séu ekki aðgengilegar öllum. Líka er stundum rætt um svonefnt fangaflug sem farið hafi um Reykjavíkurflugvöll. Bandaríska þingið tók umræðurnar um fangaflugið og hin leynilegu fangelsi og hugsanlegar pyndingar þar svo alvarlega að gerð var svolítil (eða ekki svo lítil) skýrsla um málið. Hún er víst einar 6700 blaðsíður. (Segi og skrifa sex þúsund og sjö hundruð blaðsíður) og var fullgerð í desember síðastliðnum. Að sjálfsögðu var hún stimpluð „TOP SECRET“ og það má eiginlega enginn kíkja í hana. Málaferli eru í uppsiglingu um eignarhald á skýrslunni góðu og á meðan þau standa yfir getur að sjálfsögðu enginn fengið að sjá hana. Eignarhaldið getur skipt miklu máli því ef þingið á hana er hægt að halda henni leynilegri endalaust.

Bandarísk stjórnmál geta oft verið sérlega athyglisverð. Sjálfur man ég vel eftir því að þegar Obama var í kosningabaráttunni árið 2008 lofaði hann því hátíðlega að ef hann yrði kosinn forseti yrði örugglega búið að loka fangabúðunum í Guantanamo innan árs. Mér vitanlega er ekki enn búið að loka þessum fangabúðum sem ég held að hafi verið starfræktar síðan 2002.

Auðvitað er ekki allt neikvætt sem um USA má segja. Engir taka lagafyrirmæli og mannréttindi jafn alvarlega og þeir. Margt gott má um Bandarísku þjóðina segja (raunar er um margar þjóðir að ræða), en sú gangrýni sem oftast heyrist er einkum um stjórnarfar þar, sem á Evrópskan mælikvarða er ákaflega hægrisinnað.

Egyptaland hefur verið talsvert í fréttum undanfarið. Þar eru líka píramídarnir frægu sem eru mörg þúsund ára gamlir. Leit hefur staðið yfir að undanförnu að hugsanlegum leyniherbergjum þar og nú nýlega voru gerðar opinberar myndir sem teknar hafa verið með sérstökum hitamyndavélum og benda þær til að píramídarnir hafi ennþá ekki verið rannsakaðir til fulls.

IMG 2348Varða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Eru pýramídarnir með hita?

FORNLEIFUR, 10.11.2015 kl. 19:29

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, en kælingin er víst misjöfn og tækin sérsmíðuð.

Sæmundur Bjarnason, 11.11.2015 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband