Bloggfærslur mánaðarins, október 2015
30.10.2015 | 22:38
2378 - A short history of nearly everything
Ég einfaldlega trúi því ekki að gengið haggist ekki þegar einkabankarnir sem gefnir voru fara með allt sitt útúr landinu. Á miklu fremur von á verulegri gengislækkun og verðbólgu. Sé einfaldlega ekki að hægt hafi verið að gefa eins mikill afslátt og raunin er. Allt hitt eru bara skrauthvörf sem engu máli skipta þegar betur er að gáð. Sjónhverfingar eru gagnslausar í þessu efni. Heimsmetin falla ekki þeirra vegna. Bretar vilja fá rafmagn héðan hvað sem það kostar. Því fyrr sem farið verður í þetta vonlausa verkefni, sem rafstrengur þangað áreiðanlega er, þeim mun ódýrari verður orkan fyrir þá. Íslendingar eru á hraðferð í einangrunarstefnu sem gæti endað með ósköpum. Ég hef semsagt ekki skipt um skoðun varðandi ESB þrátt fyrir mikinn og markvissan áróður gegn aðild.
Og svo á að leggja RUV niður. Skýrslan sem sagt var frá í dag bendir eindregið til þess. Kannski er Simmi ekki þeirrar skoðunar samt. Áreiðanlega eru Sjálfstæðismenn það. Ekki líst mér nógu vel á þá sölu. Þrátt fyrir alla gallana held ég að RUV sé nauðsynlegt. Þegar ég vann uppá Stöð 2 þá litum við á RUV sem helsta keppinautinn og vildum gjarnan vera lausir við þá stöð. Eða a.m.k að hún hætti að keppa við okkur á auglýsingamarkaðnum. En bæði hafa skoðanir mínar breyst verulega og auk þess er Stöð 2 alls ekki eins og hún var.
Ég er enn að lesa bókina A short history of nearly everything eftir Bill Bryson. Eiginlega er þessi bók alveg einstök. Man varla eftir að hafa lesið jafn-athyglisverða bók. Hann hefur greinilega kynnt sér vísindalegar uppgötvanir afar vel og er auk þess frábær rithöfundur. Þetta er alls ekki bók til þess að hlaupa yfir á einhverju hundavaði, eins og ég hef þó upphaflega gert. Ekki veit ég hvernig hún hefur komist í Kyndilinn minn en þar er hún og hefur alls ekki hátt.
Nú er klukkan ekki nema rúmlega fjögur að nóttu og ég er andvaka einn ganginn til. Reyndar er um að gera að láta andvökuna ekki stressa sig upp. Fannst endilega að það væri kominn harðamorgunn þegar ég skreyddist á lappir en þegar ég leit á klukkuna var hún ekki nema rúmlega fjögur.
Skrifnáttúran er að ná miklum tökum á mér núna. Gott að hafa bloggið svona við hendina og losna á þann hátt við þessa gífurlegu skrifþörf. Ekki veit ég af hverju þetta stafar en ég get alveg verið án alls þessa langtímum saman en svo kemur þetta alltaf yfir mig öðru hvoru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2015 | 14:26
2377 - Allir fái kúlulán
Nú ætla ég að flýta mér og biðja bankastjórann minn (þennan í vasanum) að útvega mér kúlulán til að virðast vera fínni en Siggi með sixpensarann. Kúlulán eru það eina sem blívur. Sumir halda að það merki að hrunið nálgist, en það er bara vitleysa. Þegar engar árshátíðir verða lengur haldnar á Íslandi og gengisfellingin afstaðin, þá er líklegt að hrunið sé að nálgast. Fyrr kemur það ekki.
Þegar ég skrifa ekkert eru heimsóknir að sjálfsögðu í lágmarki á bloggsíðunni minni. Oftast svona 15 til 17, en þegar ég skrifa, hve ómerkilegt sem það kann að vera, fjölgar heimsóknunum mikið og geta sem hægast orðið svona tvö til þrjú hundruð á dag. Ekki veit ég af hverju þetta er. Sjálfum finnst mér það auðvitað afar merkilegt sem ég skrifa og skil ekkert í því að heimsóknirnar skuli ekki skipta þúsundum. Mér finnst þær gera það við ómerkilegri skrifum. Vitanlega er maður samt lélegur dómari í eigin sök. Það vita allir. Hvort þeir haga sér svo í samræmi við það er önnur saga.
Einu sinni átti ég það til að hneykslast á Guðbergi Bergssyni, en ekki lengur. Hann gerir í því að reyna að ganga framaf fólki í blaðagreinum sem eru alveg það sama og blogg. Veit lítið um sögurnar hans og er löngu hættur að lesa þær. Las í fyrndinni bókina Tómas Jónsson, metsölubók og fannst hún fjandi lipurlega skrifuð. Einu bækurnar sem ég man eftir að hafa klárað eftir Hallgrím Helgason eru Hella sem ég held endilega að sé hans fyrsta bók. Sú bók var lágstemmd og góð. Svo las ég um menntaskólakennara í Skagafirði sem fór ríðandi til Reykjavíkur og einhverja Guðspeki og geimferðavitleysu eftir hann minnir mig að ég hafi líka lesið. Tek á mig stóran krók ef ég hef á tilfinningunni að Höfundur Íslands sé í nágrenninu.
Það er erfitt að vera alltaf á tánum til að forðast næsta hrun, en svona er þetta. Ekki held ég að það séu margir sem skilja ruglið í Bjarna og Sigmundi um snjóhengjuna og heimsmetið. Best gæti ég trúað að öll þessi vitleysa springi í andlitið á þeim og Má seðlabankastjóra, sem þeir eru víst hætti við að reka. Ekki skil ég allan þennan milljarðasöng hjá þeim og gott ef hann er ekki til þess ætlaður að slá ryki í augun á sem flestum. A.m.k. eru fjölmiðlamenn flestir farnir að trúa þeim.
Með ómstríðri þögn hann alla ærir. Sennilega gæti ég sem hægast sett saman eitthvað sem flestir gætu haldið að væru nútímaleg ljóð, en það ætla ég ekki að gera. Þegar ég var tvítugur setti ég saman allskyns vitleysu og kallaði ljóð. Sem betur fer sáu þetta engir aðrir. Einhverjir hefðu getað haldið að ég væri skáld. Nóg var skeggið. Svo fór að skákin heillaði meira en boðnarmjöðurinn og ekki sé ég eftir því. Að gera sér grein fyrir hve fallegar fléttur í skákinni geta verið er miklu meira virði en lágkúrulegt ljóðahrafl. Verst að ég get ekkert lengur í skákinni. Samt puðrast ég við að tefla bréfskákir eins og hverjar aðrar hraðskákir. Nú um stundir þykir mér 15 mínútna skákir vera hraðskáir. Áður fyrr voru 5 mínútur algengastar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2015 | 17:25
2376 - Unnin kjötvara
Skemmtum okkur þangað til við dettum niður dauð. Verðum svo að unninni kjötvöru eftir dauðann. Honum (dauðanum) má fresta um nokkur ár ef maður stundar líkamsrækt (og skemmtir sér) einnig er gott að þykjast hafa lesið allar metsölubækur og séð allar tímamótamálverkasýningar (og skemmt sér við það). Sömuleiðis er ágætt að vera vantrúarhundur og elska alla flóttamenn. (Og skemmta sér ekki má gleyma því.) Veit ekki hvað ég á að telja upp fleira. Mikilvægt er samt að skemmta sér alveg undir drep og vera tækjaóður.
Orðalagið virkur í athugasemdum og t.d. góða fólkið hefur öðlast nýja merkingu nýlega. Þetta er hvorttveggja dæmi um það að nauðsynlegt er að fylgjast með öllu svona. Svo verða sum orð og setningar að klisjum vegna ofnotkunar og oft er verra að átta sig á slíku. Þó er breytingin mikil á tiltölulega stuttum tíma. Fyrir fáeinum áratugum var fjölmiðlaflóran (ofnotuð klisja) t.d. mun fábreyttari en nú. Það eru t.d. ekki nema um 50 ár síðan íslenskt sjónvarp sá dagsins ljós. Það er samt ekki fyrr en um miðjan níunda áratug síðustu aldar sem fjölmiðlun var gefin frjáls. Fram að þeim tíma höfðu flokkarnir einokað prentmiðlana og ríkið ljósvakamiðlana.
Athöfnin hefst klukkan korter í tvö. Þetta er orðalag sem við sem eldri erum viðurkennum alls ekki að sé rétt, en virðist vera orðið ráðandi. A.m.k. heyrði ég þetta annað hvort í útvarpi eða sjónvarpi allra landsmanna, en þar virðist ennþá vera rekið einhvers konar eftirlit með íslenskukunnáttu og málfari, en alls ekki á hinum miðlunum. Korter í tvö finnst mér bæði geta þýtt að klukkan sé korter gengin í tvö (sem er eðlilegra) eða að hana vanti korter í tvö (sem sennilega er meint í þessari auglýsingu.)
Engin leið er að lesa eða kynna sér allt það sem maður vildi. Þessvegna er mikilvægt að forgangsraða í lífinu sjálfu. Sumum trúum við eins og nýju neti, en öðrum miklu síður. Hverjum menn trúa er flestum í sjálfsvald sett. Sé þess ekki gætt er um skoðanakúgun að ræða. Þannig lít ég a.m.k. á málin.
Seti (search for extraterrstrial intelligence) hefur verið í gangi lengi. Ég man að í eina tíð tók ég þátt í slíkri leit. Minnir að hún væri kölluð seti at home. Þá var hugmyndin sú að allar heimsins persónulegu og sérstöku tölvur sem að stórum hluta standa ónotaðar mikinn tíma sólarhringsins væru notaðar til að hjálpa til við könnun á útvarpsmerkjum. Hægt var að fá búta úr upptökum af útvarpssendingum sem haldið var að kynnu að vera frá viti bornum verum. Þessi SETI fór hinsvegar á nokkrum árum út um þúfur. Aðrir menn en ég geta áreiðanlega gert betur grein fyrir þessu máli. Auðvitað var það talsverð einföldun að viti borgnar verur reyndu að hafa samband við okkur með útvarpsmerkjum. Mjög margar aðferðir aðrar eru hugsanlegar, en samt sem áður er það einhver athyglisverðasta kenning kosmólógíunnar í dag, að viti bornar verur reyni að hafa samband við okkur á sjónrænan hátt.
Alheimsfræðin einskorðast ekki aðeins við fjarlægar vetrarbrautir heldur beinist ekki síður að þeim ótölulega fjölda sólna sem fyrirfinnast í okkar eigin vetrarbraut. Í dag má segja að vissa hafi fengist fyrir því að margar sólir hafi dimma jarðlíka hnetti í kringum sig. Segja má að það sé eintómur hugarburður því hvernig er hægt að rannsaka svona fjarlæga heima?
Mér segir svo hugur um að Píratar, Vinstri grænir og Björt framtíð muni mynda næstu ríkisstjórn. Líklegt er að Píratar muni að mestu halda sínu og nýtt fólk sem áður hefur ekki setið á þingi komi þar inn. Vinstri grænir verði með elsta fólkið og þar verði gamlir kommúnistforingjar áberandi. Björt framtíð hlýtur síðan að geta bætt sig a.m.k. miðað við eitthvað. Hvernig þessum flokkum gengur svo að stjórna get ég ekkert sagt um, en líkur eru samt á því að sú stjórn sitji ekki út kjörtímabilið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2015 | 18:29
2375 - Fyrirlitleg kjarabarátta
Takist ráðandi öflum enn einu sinni að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá eða breytingar á henni er augljóst að búið er að drepa lýðræðið. Þetta er augljóst þegar á það er litið að gengið hefur verið gegn því af fjórflokknum og alþingi sem samþykkt og þar með ákveðið var í þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihluti í stjórnarskrárnefnd þýðir ekkert. Samstaðan er það eina sem gildir. Það að fjórflokkurinn tapi miklu fylgi í næstu kosningum er bara eðlileg afleiðing af fyrirlitningu hans á breytingum á stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðslum.
Alveg er ég undrandi á að ekki skuli fleiri fordæma lögreglumenn fyrir að ljúga sig veika. Hugsanlegt er auðvitað að eihverjir séu veikir en þó er allsekki hægt að vita það margar vikur fram í tímann. Þeir læknar sem viðurkenna slíkt eru alls ekki starfi sínu vaxnir. Ég hef starfað talsvert í verkalýðshreyfingunni og veit ósköp vel að ekki hefur alltaf verið farið eftir strangasta lagabókstaf þar. Ef svo hefði verið, hefðu framfarir alls ekki orðið eins hraðar og raun ber vitni. Ég er fyrst og fremst að tala um stóru verkföllin uppúr 1950. Sú óhlýðni sem þá og allar götum frá því um 1930 bar mikið á, tryggði verkalýð landsins sæmileg kjör. Síðan hefur mjög verið ráðist á þau og ekki geta peningamenn haldið því fram að illa hafi til tekist með það.
Hinsvegar ættu lögregluþjónar í lengstu lög, að forðast ólöglegar athafnir í kjarabaráttu sinni. Vel getur verið að kjör þeirra séu afar slæm, samanborið við aðra hópa. Svona háttalag er þó ekki hægt að líða og samstaða sú sem hingað til hefur verið um traust á þeim hlýtur að bíða mikinn hnekki við þetta.
Held að núverandi ríkisstjórn, með Sigmund og Bjarna í broddi fylkingar ætli sér að sigra á svipaðan hátt í næstu kosningum og þeim síðustu. Treysti því með öðrum orðum, að kjósendur verði búnir að gleyma flestum þeirra afglöpum og að þeir fóstbræður snúi við blaðinu og beiti fagurgala miklum síðustu mánuðina. Kannski verður nýja hrunið líka ókomið þá og flestar efnahagsstærðir tiltölulega hagstæðar, einsog var fyrir síðasta hrun.
Já, já. Ég kaus Pírata í síðustu kosningum. Fráfarandi stjórn virtist ekki vilja atkvæði þá, þótt hún hafi margt gott gert, einsog sést best núna, þegar núverandi ríkisstjórn baðar sig í afrekum þeirrar fráfarandi. Mér finnst það undarlegur málflutningur þegar Píratar eru sakaðir um að kenna sig við þjófnað á hugverkum. Vissulega reynir á mismunandi skilning á eðli höfundarréttar, en þeir eru alls ekkert á móti honum. Viðskiptamódelið sem notað hefur verið af STEFi er samt alveg galið. Markaðurinn á sviði óefnislegra gæða getur ekki óheftur verið frekar en sá efnislegi.
Það hvernig Pírötum hefur gengið í skoðanakönnunum að undarförnu er samt lítið að marka. Vel er hugsanlegt að fólk geri allt annað í kosningunum sjálfum en það segist ætla að gera í skoðanakönnunum. Svo hefur að vísu ekki verið, en skilningur fólks á áhrifum slíkra kannana er sífellt að vaxa. Alls ekki er óeðlilegt að álíta að hið frábæra gengi Pírata í nýlegum könnunum beri a.m.k. að hluta til fremur að túlka sem mótmæli við gömlu flokkana en endilega sem fylgi við Pírata. Svo á alveg eftir að sjá hvert framboðið verður í næstu kosningum.
Skelfing er malbikið illa farið þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2015 | 14:04
2374 - Sú skrýtna tík, pólitíkin
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar reynir í grein í Fréttablaðinu í dag (fimmtudag) að réttlæta svikin í stjórnarskrármálinu og ferst það ekkert sérstaklega illa. Samt er það svo að ef engar lagfæringar verða gerðar á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili og forsetinn er látinn komast upp með að neita að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða næstu forsetakosningum er samt augljóst að um svik er að ræða.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson virðist sammála forsetanum og framsóknarmenn fylgja honum áreiðanlega í því. Svik Árna Páls í stjórnarskármálinu eru sennilega frumorsök fylgishruns Samfylkingarinnar og hugsanlega Vinstri grænna einnig.
Líklega má frekar búast við stuðningi við þjóðaratkvæðagreiðslu úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarflokksins, þó svo ætti ekki að vera ef saga flokkanna er skoðuð.
Á margan hátt eru sögulegustu vendingar stjórnmálanna síðustu mánuði endurkoma Hönnu Birnu, útilokun Birgis Ármannssonar úr formennsku utanríkismálanefndar og yfirgangur ríkisstjórnarinnar gagnvart alþingi. Menn geta svo túlkað þetta á þann hátt sem þeir vilja. Bjarni Ben. gæti svosem líka ákveðið að gefa skít í Davíð Oddsson og hætt að láta hann ráða öllu sem hann vill.
Já, pólitíkin er skrýtin tík, eins og Nóbelsskáldið sagði. Hann sagði líka að líklega væri rjómatíkin (þ.e. rómantíkin) skárri. Á þetta er vel hægt að fallast og ég nenni ekki að fjölyrða meira um þetta hér.
Verkföll virðast vera að skella á. Ef dæma á eftir fjölmiðlum er lokun vínbúða helsta áhyggjuefnið varðandi þau. Þessvegna er það líklega sem nú er mikið rætt á alþingi um brennivín í búðir. Segið svo að þar séu ekki rædd þau efni sem helst brenna á þjóðinni.
Skrafl og skák eru vinsælar tómstundaiðkanir. Ekki hef ég þó heyrt minnst á skraflmót en eflaust stendur það til bóta. Íslendingar þurfa sérstakt skrafl og mér skilst að von sé á því fljótlega. Ekki þurfa þeir sérstaka skák, þó heyrst hafi sagt frá sérstakri víkingaskák, þar sem reitirnir eru sexhyrndir. Það er eftir öðru að íslendingum þyki venjuleg skák ekki nógu flókin. Viðurkennt er þó að tölvur standi mönnum framar í skák sem mörgu öðru, en það þarf ekki að þýða að allir eigi að hætta skákiðkum. Bobby Fischer heitinn hélt því fram að byrjanarannsóknir væru að ganga af skákinni dauðri og lagði til að uppröðun taflmannanna í byrjun yrði breytt, en manngangsreglum ekki. Verði tölvum beitt að marki í skrafli má alveg búast við góðum árangri þeirra fljótlega. Engum sögum fer samt af því að svo sé.
Þar sem vegurinn (gangstígurinn) endar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2015 | 14:05
2373 - Að skeina sig
Í Fréttablaði dagsins (miðv.d. 14/10) stendur meðal margs annars, eftirfarandi:
Tugir úkraínskra flugvéla höfðu verið skotnir niður yfir þessu svæði áður en malasíska farþegaþotan flaug þar yfir og var skotin niður.
Þarna finnst mér kynbeygingin vera vitlaus: voru það ekki flugvélar sem voru skotnar niður? Eða voru það kannski tugirnir, eða hvað? Nenni ekki að senda þetta til Eiðs Guðnasonar þó full ástæða væri til þess. Allskyns beygingaruglingur finnst mér vera íslenskunni miklu hættulegri en sletturnar. Það er bara mín skoðun og kannski alröng. Held að tuðið í Eiði nái ekki til þeirra sem það ætti að ná til, þó hann hafi sennilega langoftast rétt fyrir sér. Auðvitað nær tuðið í mér heldur ekki til margra.
Blogg-gáttin http://blogg.gattin.is/ er undarlegt en ómissandi vefsetur. Þar eru bloggarar og vefmiðlar flokkaðir sundur og saman og þar var ég í 15. sæti meðal vinsælusu bloggara síðast þegar ég vissi. Ekki veit ég samt eftir hverju er farið. Undanfarna daga hef ég þó bloggað óvenju oft. Kannski er orðfærið hjá mér óvenju fornaldarlegt. Man að í afmælisveislu um daginn var mikið hlegið að mér þegar ég sagði að eitthvað minnti mig á eitthvert tiltekið orðalag í Grettissögu.
Já, nú man ég hvað það var í Grettissögu sem ég vitnaði í. Þannig er niðurlag 80. kafla:
Verkurinn tók að vaxa í skeinunni svo að blés upp allan fótinn og lærið tók þá að grafa bæði uppi og niðri og snerist um allt sárið svo að Grettir gerðist banvænn. Sat Illugi yfir honum nótt og dag svo að hann gaf að engu öðru gaum. Var þá liðið af annarri viku síðan Grettir skeindi sig.
Síðustu orðin í þessari tilvitnum held ég að nútímafólk skilji allt öðrum skilningi en söguritari. Einnig minntist ég þess að í Egils-sögu (að ég held) er minnst á það að eitt hræðilegasta vopn víkinganna í ránsferðum erlendis voru öskrin. Þegar þeir nálguðust hlaupandi og öskrandi varð allt venjulegt fólk dauðskelkað.
Svei mér ef ég er ekki að komast í skrifstuð. Kannski ég setji þetta bara upp per samstundis þó ég sé nýbúinn að gera slíkt. En þetta er nú kannski ekk nógu langt til þess og þar að auki á ég ekki fleiri nýjar myndir. Kannski ég byrji bara að setja gamlar myndir aftur einsog Guðmundur Bjarnason stakk uppá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2015 | 10:35
2372 - Pólitíkin enn og aftur
Vel má fallast á það með Árna Páli, sem skrifar grein í Fréttablaðið í dag, (eða gær, ef útí það er farið) að full þörf sé á því að breyta stjórnarskránni. Ekki er þó sama hvernig það er gert. Það er ekki vegna þess að þingmenn séu öðrum vitlausari, sem þeir láta næstum alltaf eins og fífl þegar þeir komast í ræðustólinn. Traust fólks á Alþingi fer sífellt minnkandi og er það engin furða ef miðað er við umræðuhefðina og málþófið þar. Með bættri stjórnarskrá, en sú núverandi er greinilega um margt stórgölluð, mætti hugsanlega bæta margt á Alþingi og jafnvel auka tiltrú fólks á þeirri stofnun. T.d. er það óverjandi með öllu að ekki skuli vera annar möguleiki á þjóðaratkvæðagreiðslum en dyntir eins manns. Einnig er nauðsynlegt að koma inn ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Sömuleiðis er greinilega þörf á einhvers konar ákvæði um framsal valds.
Mikið er fjasað bæði á alþingi og víðar um verðtrygginguna. Auðvitað væri fáránlegt að afnema hana með öllu og banna. Þó er hún allsekki heilög og vel væri hægt að hugsa sér að hún væri allt öðruvísi. Gallarnir eru þó einkum fólgnir í vísitöluviðmiðunum. Kannski eru það bara vístölurnar sem þarf að afnema eða breyta. Líklega skilur Sigmundur Davíð þetta ekki og hefur ekkert látið sinna þessu, en satt að segja var það meðal helstu kosningaloforða framsóknarflokksins að afnema verðtrygginguna með einu pennastriki. Já, pennastrikin voru mörg sem framsóknarforkólfarnir lofuðu í síðustu kosningum.
Eins og fyrri daginn er ég í bestu stuði til að blogga þegar ég hef nýlega sett slíkt upp. Var að lesa núna rétt áðan frásögn frá Saudi-Arabiu, en 74 ára gamall breskur olíuverkamaður er búinn að sitja þar í fangelsi síðan í ágúst í fyrra (2014) og á núna von á 350 vandarhöggum opinberlega. Sökin: jú, hann var víst með eina eða tvær flöskur af heimabruggi í bílnum sínum. Svo var að ég held einhver alþjóðleg tilraun í gangi um daginn til að fá yfirvöld í landinu til að hætta við að gera ungan mann höfðinu styttri vegna þess að hann tók þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum þegar hann var 17 ára. Bandaríkjamenn eru að missa sig útaf þessu, en eru lítið betri sjálfir með sína byssumenningu, fjöldamorð og aftökur. Er ekki góða fólkið hér á Íslandi miklu betri kostur. Áhyggjur okkar snúast mest um peninga. Síður um líf og limi.
Skyldi Simma þykja það eftirsóknarvert þegar ráðherrar samstarfsflokksins lenda í klandri? Nú er Illugi kannski að bjarga sér á hundasundi, en þá er Ragnheiður Elín að sökkva í drulluna. Eini maðurinn sem mér finnst hafa vaxið með ráðherradómnum er Gunnar Bragi og einhverjir eru einmitt að gera ráð fyrir því að dagar hans í embætti séu taldir. Vonandi þó ekki til að búa til pláss fyrir Vigdísi Hauks. Sigmundur virðist raunar hafa eitthvað á móti henni. Miðað við forfrömunina innan flokksins ætti hún að vera orðin ráðherra.
Að mörgu leyti hefur mér liðið best um ævina að Vegamótum á Snæfellsnesi. Í nótt dreymdi mig einhverja vitleysu um þá veru eins og oft áður. Fáar af þeim sögum hafa verið í letur færðar. Í draumnum í nótt var búið að grafa stóra holu í hlaðið fyrir framan veitigahúsið og verslunina og illa gekk að hafa uppá þeim sem ábyrgð bar á því. Byggð hafði aukist þar til mikilla muna. Götur margar og sum húsin hrörleg mjög. Fátt er minnisstætt úr þessum draumi nema þá helst holan stóra, sem líkleg var einhvers konar grunnur og svo rammflóknir og undarlegir farsímar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2015 | 14:07
2371 - Stjórnarskrá o.fl.
Ég er vaktaður af þremur segir fésbókin mér. Ekki skil ég af hverju það er. Einn þeirra kannast ég hreint ekkert við. Hann á heima á Filippseyjum. Hin tvö eiga sameiginlega fésbókarvini með mér og eru búsett hér á Íslandi. Meira segi ég ekki. Kannski er ég að ljóstra einhverju upp sem ég ætti ekki að gera, en það verður bara að hafa það. Fésbókarfræðingur er ég enginn.
Staðfest er að einhverjar eldflaugar sem Rússar ætluðu að mundu lenda í Sýrlandi hafi lent í Íran. Sprengjukast úr lofti er hinsvegar sagt af stórveldunum, USA og Rússlandi, að hafi mjög góða hittni. Ástæðulaust er að trúa því. Þessvegna er ekki hægt að trúa að Rússar hitti með sprengjum sínum þau skotmörk sem þeir segjast miða á í Sýrlandi. Þetta sprengjukast þeirra setur Bandaríkjamenn í svolítinn vanda. Kannski byrja þeir bráðum líka að varpa sprengjum á Sýrland. Þó varla sé hægt að ímynda sér að fleiri sprengjur leysi nokkurn vanda í því landi.
Stríðsfréttir eru annars ekki minn tebolli og ég vil miklu heldur skrifa um eitthvað annað. Kannski ég minnist samt aðeins á þær innlendu fréttir sem eiga uppruna sinn hér á Akranesi. Þar er átt við morðið sem sagt er að hafi verið framið hér og uppsögn aðstoðarskólameistara FVA. Hvorugt málið þekki ég af eigin reynslu. Þó er fyrrverandi skólameistari FVA systursonur minn og Harpa Hreinsdóttir eiginkona hans. Svo eru það ólyktarmálin sem ég veit bara ekki nokkurn skapaðan hlut um.
Kannski voru það mistök hjá Jóhönnu Sigurðardóttir að ætla að troða stjórnarskránni allri ofan í kokið á öllum þeim sem voru á móti henni, svona seint á kjörtímabilinu. Kannski hefði verið betra að velja bara það mikilvægasta úr henni og einbeita sér að því. Man ekki hverning samkomulagið sem Árni Páll stóð óneitanlega fyrir ásamt fleirum, er í smáatriðum en held að nota verði það á þessu kjörtímabili en það vill Ólafur Ragnar alls ekki og einnig verði að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu þingi og að auki fái þeir sem eru á móti breytingum í raun atkvæði þeirra sem heima sitja. Í fyllingu tímast mun þetta allt koma í ljós.
Satt að segja þá finnst mér að áætluð veikindi lögreglunnar séu ekki til fyrimyndar. Að vísu er það svo að ef aldrei hefði verið farið í aðgerðir af verkalýð landsins sem vafasamat var með lögmæti á, hefði lítið áunnist. Lögreglumenn ættu að vera síðasta stéttin til að stunda löglausar eða a.m.k. vafasamar aðgerðir. Eiginlega hefði aldrei átt að veita opinberum starfsmönnum verkfallsrétt. En það er nú önnur saga.
Held að það sé fremur langt síðan ég bloggaði síðast og ég er að verða ansi latur við þetta. Nú er ég einkum að bíða eftir landsleiknum við Tyrki. Ætli hann endi ekki annað hvort með 0:0 jafntefli eða því að Tyrkjum takist að pota svona einu eða tveimur mörkum. Reikna má með þeim snælduvitlausum og áhorfendur gætu haft einhver áhrif líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2015 | 15:39
2370 - SHTF
Amríkanar hafa mikið dálæti á skammstöfunum. Sum þeirra vilja þeir helst ekki skýra út fyrir þeim fattlausu. SHTF er t.d. ein slík. Shit Hits The Fan. Mætti svosem þýða það með: Þegar allt fer til andskotans. Prepping for SHTF-situations gæti t.d. verið ágætis bókarheiti á ensku. Þeir vita nefnilega sem er, að ekki þýðir neitt að treysta á stjórnvöld ef allt fer fjandans til. Eins gott að vera viðbúinn því versta. Slíkar Vertu-viðbúinn bækur eru afar vinsælar þar vestra. Þannig hugsun er víðsfjarri hinum víkingasinnuðu Íslendingum. Góða fólkið hlýtur að koma þeim til bjargar eins og vanalega ef allt fer í SHTF.
Annars hlýtur maður víst að vera hægrisinnaður ef maður notar orðalepp eins og góða fólkið (gæsalappirnar þurfa helst að vera með) og hægt er að lesa allskonar merkingu útúr því. Já, tungumálið er vandmeðfarið. Flest fólk gerir þó alltof mikið af því að setja allskyns aukamerkingar og aukaskilning í orðanotkun. Sjálfur er ég óskaplega hallur undir ypslonvillur og rangar beygingar og fordæmi fólk sem gerir slíkt. Sjónminni mitt á stafsetningu er nokkuð gott að ég held. Áður fyrr las maður aldrei texta sem ekki var prófarkalesinn af kunnáttumanni. Samræmd réttritun forn er mér næstum í blóð borin. Réttritun er samt bara mannanna verk og í hæsta lagi getur hún borið vitni um hvenær textinn er saminn og hugsanlega um aldur textasemjarans. Ef hægt er og sæmilega auðvelt að komast að því hvað átt er við, er allt í lagi. Auðvitað eru mismunandi kröfur gerðar eftir miðlum og svo er Eiður alltaf á verðinum. Munur að hafa slíka menn. Kommusetningar og gæsalappafræði eru mér þó að mestu lokuð bók.
Er ennþá hægt að fá fólk til að deila endalaust auglýsingum á fésbókinni með því að lofa vinningi eða vinningum í einskonar happdrætti? Hefur nokkur heyrt af vinningshöfum í slíku. Efast stórlega um það. Spara mér mörg lækin og deilingarnar þar, en auðvitað er verst að ekki er hægt að breyta þeim sparnaði í peninga. Finnst sumir dreifa lækunum sínum og deilingum alltof víða. Samt er það einkum slíkt sem gerir fésbókina (og aðra samfélagsmiðla) að því máttuga fyrirbrigði sem hún óneitanlega er. Sjálfum finnst mér ég vera afar spar á lækin og deilingarnar á fésbókinni, en kannski finnst öðrum það ekki. Deili samt alltaf eigin bloggfærslum í auglýsingaskyni. Eða reyni að muna eftir því.
Svei mér ef Ragnheiður Elín Árnadóttir er ekki óvenjulega illa að sér sem ráðherra. Hún og Grímur Sæmundsson í Bláa Lóninu voru að mig minnir í Kastljósinu í gær að kynna nýja stofnun sem á að finna einhverja skárri leið en náttúrupassann til að koma böndum á vitleysuna sem viðgengst í ferðamannabransanum. Veit ekki betur en það sé til stofnun sem heitir Ferðamálastofa. Þetta sá ég á fésbókinni. Veit samt engin frekari deili á þeirri stofnun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2015 | 10:33
2369 - Viðrar vel til loftárása
Guðmundur Bjarnason segist sakna myndanna minna og kannski gera það fleiri. Þessu verð ég eiginlega að ráð bót á per samstundis. Ekki dugir að láta Guðmund verða fyrir vonbrigðum.
Byssumaðurinn í Oregon hafði víst meðferðis í drápsferð sinni einar 6 byssur og mikið af skotfærum. Heima hjá honum fundust síðan sjö byssur til viðbótar. Bandaríkjamönnum þykir þetta bara sjálfsagt og eðlilegt. Skólinn er svokallað byssulaust svæði, sem þýðir að ekki er ætlast til að nemendur og kennarar hafi byssur meðferðis í kennslustundir. Því verður þó líklega breytt og eftirspurn eftir byssum mun aukast mjög í kjölfar þessa atburðar. Mjög fáir eða engir geta án slíks þarfaþings verið. Að þessu leyti finnst mér þó ástandið hér á Íslandi mun skynsamlegra. Sagt er að morð með byssum séu þúsund sinnum algengari en hryðjuverk í USA. Kannski er sú viðmiðun ekki alveg rétt. Miklum fjármunum er samt eytt í varnir gegn hryðjuverkum þar í landi.
Loftárásir Rússa á Sýrland eru jafnvel hættulegri heimsfriðnum en yfirgangur þeirra í Ukrainu. Besta vörn Íslands í hugsanlegri heimssyrjöld er smæð þess. Ekki er víst að stórveldunum þætti taka því að eyða dýrmætum sprengjum á slíka örþjóð. Ótrúlega mikið magn skotvopna mun samt fyrirfinnast hér á landi. Ekki hefur samt ennþá komist í tísku að ganga með skammbyssur á sér. Látum svo byssuhugleiðingum lokið. Margt er skemmtilegra.
Ef Hanna Birna hefði bara viðurkennt sök sína strax og undanbragðalaust er hugsanlegt að hún hefði átt afturkvæmt í stjórnmálin. Nú er það mjög vafasamt. Og þó Árni Johnsen hafi getað komið aftur eru tímarnir breyttir núna og metorð í flokknum útilokuð. Þó er ágætisfólk innanum og samanvið í Sjálfstæðisflokknum ekki síður en í öðrum flokkum og víða annarsstaðar. Verst er með þingmannsræflana hvað þeir eru foringjahollir. Nú um stundir á ég að sjálfsögðu við ríkisstjórnarflokkana. Að breyttu breytanda á það sama auðvitað við um flesta hinna.
Ný Paradís er fundin, segir Jónas. Pabbi hennar Ilmar leikkonu (sem hlýtur að heita Kristján) segist ætla að flytja frá Akranesi til Berlínar. Gott hjá honum. Við fluttum hinsvegar frá Kópavogi til Akraness síðastliðið sumar og sjáum ekkert eftir því. Erum heldur ekki á leigumarkaðnum, sem hlýtur að vera ömurlegt fyrir ellilífeyrisþega. Eigi maður húsnæði með skaplegum afborgunum er svosem hægt að komast af á ellilaununum x 2. Mundi samt hugsanlega flytjast til Berlínar ef ég þekkti fleiri þar.
Þetta með 400 metra viðmiðunina á morgungöngunni er ágætt. Náði nokkurvegin viðmiðuninni í morgun og tók meira að segja tvær myndir á leiðinni. Ekki nógu góðar samt. Hringurinn er þó 5 kílómetrar og hann fór ég allan.
Ekki vissi ég að Jennifer Aniston væri svona.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)