Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014
30.7.2014 | 22:12
2200 - Myndavélarsaga nr. 2 og ýmislegt fleira
Allur sá sjálfgefni andskoti sem tölvuræksnið og þau vefsetur (Including Facebook) sem maður slysast til að heimsækja á netinu er að gera mann vitlausan. Má maður engu ráða sjálfur lengur. Öllu þessu er sjálfsagt hægt að breyta, en ef maður vill nú yfirgefa tölvufræðina og einbeita sér að einhverju öðru, sem auðvitað getur tekið einhvern tíma ef maður er farinn að gamlast eins og ég. Ókey, nú týndi ég þræðinum og verð sennilega að reyna að laga þetta.
Semsagt; mér finnst fésbókin jafnvel vera að versna og ruglið þar að aukast. Annars er bloggið líklega bara fyrir gamalmenni. Fésbókin er yfirfull af einkabröndurum og ég gef fremur lítið fyrir hana.
Áfengi í matvörubúðir. Ég er svona heldur á móti því. Áfengisneysla mun aukast en hugsanlega batna þó. Það mun varla lækka í verði. Þetta er samt í grunninn dálítið happdrætti og á sama hátt og ég hefði sennilega greitt atkvæði gegn bjórnum á sínum tíma þegar sem mest var rætt um að setja svo yfirgripsmikið og afdrifaríkt mál (not) í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Auðvitað er lekamálið hápólitískt, sömuleiðis Palestínumálið. Best er að skipta sér lítið, stimpilslega séð, af slíkum málum. Ef enginn vill bera til baka að Hanna Birna hafi hringt í Stefán lögreglustjóra og kallað hann fyrir sig, útaf lekamálinu og rannsókninni, þá er það samt frétt. Kærumál út og suður breyta engu um trúverðugleika. Mest sem sagt hefur verið um þetta mál er tómt bull. Pólitískt séð virðist mér samt að vinstrimenn séu víða að vinna á.
Sigurður Hreiðar minnist á myndavélasögur (skyldi það vera sjálfstæð listgrein?) Hér er ein.
Man ekki lengur af hvaða tilefni það var sem ég fékk lánaða Pentax-myndavélina hjá Vigni bróður. Þetta var löngu fyrir daga stafrænu myndavélanna. Bíllinn sem ég átti um þetta leyti var ekki af neinum myndavélagæðum og gafst upp ofarlega í Ártúnsbrekkunni. Minnir að þetta hafi verið VW model 1959 með teinabremsum. Af honum er löng saga sem sérstakir og forfallnir bílaáhugamenn vilja hugsanlega heyra, en áreiðanlega ekki aðrir.
Eftir langa bið í strætisvagnaskýli við Miklubrautina eða Suðurlandsbrautina skammt frá rótum Ártúnsbrekku og ferð með ýmsum strætisvögnum allt vestur á Hávallagötu, því þar átti ég heima um þessar mundir, fór ég að sofa. Hrökk þó fljótlega upp við það að myndavélin góða mundi ekki hafa komið með mér á Hávallagötuna.
Eftir ýtarlega hugarútreikninga komst ég að því að hún hlyti að hafa orðið eftir á bekknum í strætisvagnaskýlinu við Ártúnsbrekkuna. Ég klæddi mig því í mikilli skyndingu og þaut út. Fljótlega náð ég sambandi við leigubil og bað hann að keyra að tilteknu strætisvagnaskýli austast í bænum. Þar beið myndavélin mín og ekkert hafði komið fyrir hana, en svipurinn á leigubílstjóranum var skrýtinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2014 | 11:07
2199 - Canary
Þó fésbókin sé kannski lítið annað þá er hún a.m.k. oft ágæt dægrastytting. Var t.d. áðan að lesa Feneyjafrásögn eftir Sigurð Hreiðar. Hún minnti mig á atvik sem henti mig á Kanaríeyjum.
Held endilega að það hafi verið á Tenerife frekar en Gran Canari. Við hjónakornin vorum á vakki niður við ströndina innanum allan mannfjöldann. Auðvitað þreyttumst við fljótlega og settumst á bekk fyrir rest. Þegar við stóðum upp hefur myndavélin mín orðið eftir og það uppgötvaði ég ekki fyrr en nokkuð löngu seinna. Sennilega svona klukkutíma seinna. Með öndina í hálsinum hljóp ég samt og gekk eins hratt og ég gat að bekknum, en auðvitað var engin myndavél þar.
Þetta varð til þess að ég þurfti að gera mér ferð á lögreglustöðina. Ágætlega gekk að finna hana en verra var að þar talaði enginn neina ensku. Íslensku prófaði ég ekki og ekki kunni ég neitt í spænsku sem mér virtist þó að lögreglumennirnir töluðu sín á milli. Ég reyndi ýmis afbrigði og önnur mál sem ég kunni eitthvert hrafl í, en ekkert dugði. Lögreglustöðin var dálítinn spöl frá annarri byggð og þó allir þjónar á veitingahúsum og afgreiðslufólk í verslunum talaði eitthvert hrafl í ensku gerðu lögregluþjónarnir það ekki. Þeir skiptu samt sem áður nokkrum tugum eða hundruðum þarna á stöðinni.
Ég vissi að tryggingafélögin á Íslandi mundu aldrei bæta mér myndavélina, ef ég hefði ekki lögregluskýrslu um málið. Þess vegna datt mér ekki í hug að gefa mig. Eftir mikið japl og jaml og fuður var mér þó fenginn í hendur einhver bréfmiði og vísað í biðröð við síma einn og eftir því sem mér skildist gæti ég þar fengið samband við enskumælandi lögregluþjón í Madrid. Sennilega hefur það bara verið gert til að losna við mig.
Þetta stóðst samt alveg og ég útlistaði allt mjög nákvæmlega fyrir manninum í símanum. Að lokum sagði hann mér að halda vel uppá miðann sem hann gerði ráð fyrir að ég hefði fengið í hendur og ég gæti sótt skýrsluna eftir einn eða tvo daga með því að framvísa honum.
Þetta stóðst allt saman eins og stafur á bók og ég geymdi skýrsluna vel og vandlega. Gott ef ég á hana ekki ennþá einhversstaðar. Og reyndar er mjög líklegt að ég hafi bloggað um þetta áður.
Svo vildi til að konan mín var einnig með myndavél. Og nokkrum dögum seinna þegar hún var að skoða vörur í búð einni vatt sér kona að henni og spurði hana hvort hún hefði ekki týnt myndavél. Hún neitaði því. Konan gaf sig ekkert og kom fljótlega aftur og spurði hvort hún væri viss um að hafa ekki týnt myndavél. Enn þverneitaði hún og sýndi ókunnu konunni meira að segja myndavélina sína. Þegar konan kom svo í þriðja sinn mundi hún eftir að ég hefði týnt myndavél fyrir nokkrum dögum og sagði henni það.
Á krá einni skammt frá búðinni var maður konunnar (þau voru bresk) og þar var myndavélin mín einnig. Fundarlaun vildu þau engin, en konan mín fékk þó að taka mynd af þeim. Undrun minni þegar ég sá myndavélina mína aftur þarf ekki að lýsa.
Ókey. Jónas Kristjánsson er gamalmenni og besservisser. Áhrifamikill og skoðanamyndandi samt. Ég er bara fyrrverandi besservisser og þar að auki ekkert þekktur, en hef samt gaman af að skrifa eins og beturviti. Getur maður verið fyrrverandi gamalmenni? Bara hugmynd. Jú, kannski þegar maður er dauður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2014 | 05:02
2198 - Irminger
Ekki veit ég hvers vegna áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta hefur fengið þetta ömurlega nafn. Útlendingar koma að þessu og kannski hefur þeim fundist það í lagi. Þó reynt sé að milda áhrif nafnsins er það ömurlega lélegt. Barbarossa hefði líklega verið betra. Eða jafnvel bara Barbabrella.
Af hverju hefur verið dregið svona lengi að kynna þessi ósköp? Jú, sennilega er öll forsendubrestshistórían á skjön við þetta. Já, vel á minnst. Ég á víst eftir að sækja um forsendubrestsuppbótina mína. Minnir að það eigi að vera frestur til 1. september hvað það varðar. Of mikil rólegheit í því efni gætu samt verið hættuleg. Hver veit nema ég eigi einhverja hlutdeild í þessu.
Lenti í hálfgerðu rifrildi útaf viskustykkjum á fésbókinni áðan. Ég man ákaflega vel eftir því að diskaþurrkur hafi verið kallaðar viskustykki, en allsekki viskastykki í mínu ungdæmi. Auðvitað blandaðist engin vizka (hvað þá samvizka) saman við þetta fyrr en seinna og þá finnst mér sumir hafa farið að leiðrétta þetta eftirá. Vitanlega er þetta dönskusletta. Hugsanlega upprunnin í Rangárvallasýslu. Sama er að segja um kvitteringu, sem var notað þó orðið kvittun væri bæði íslenskara og styttra. Mævængja og stígstappa var líka notað.
Hvur andskotinn. Eru nú útrásarvikingarnir búnir að ræna frá okkur sumrinu líka. Ég vissi alltaf að það var ekki hægt að treysta þeim út fyrir hússins dyr. Þegar Íslendingar fóru að geta talað fleiri tungumál en sitt eigið mátti alltaf búast við að fjandinn yrði laus. Þeir sem ekki breyttust í Jón Grunnvíking urðu eins og Jóhannes á Borg. Bitu bara í skjaldarrendurnar þegar þeir heyrðu minnst á víkinga og grettu sig og öskruðu framan í hrægammana. Eiginlega mætti alveg semja óperu um þetta. Ég vil hafa Árna Pál í hlutverki Ketils skræks, svo skal ég ekki skipta mér af þessu meira.
Já og svo lét lögreglustjórinn bara reka sig. Kannski hann hafi haft eitthvað pottþétt á Hönnu Birnu, en hafi lofað að koma því fyrir kattarnef. Þó ég sé með einskonar kattarnef treysti ég mér ekki til að vera með það niðri í miðbæ á réttum stað og stundu, en skora á öll kattarfés sem birst hafa á fésbók að sameinast nú, til að koma í veg fyrir að þetta geti ekki orðið að veruleika.
Í annað sinn lendi ég víst í því að dreifa vírusi á fésbók. Jens Guði finnst það fullmikið og ekki er hægt að lá honum það. Í þetta sinn þóttist vírusinn vera stýrikerfisskönnun sem ég þekkti og treysti. Þó ráðið sem Jens gefur sé gott held ég að enn betra sé að gera aldrei neitt sem maður er ekki nokkurn veginn alveg viss um hvaða afleiðingar hefur. Vonandi get ég nú varast þetta í framtíðinni því það er sáraeinfalt eins og Jens Guð segir. Gott er að geyma aldrei í tölvunni/á fésbókinni viðkvæmar upplýsingar (einkum ekki í bréfum því tölvupóstar eru víst vinsælir og þú veist aldrei hvar afrit af þeim kunna að liggja Öskjuhlíðin er betri.) en ef það er óhjákvæmilegt má reyna að dulbúa þær svolítið svo ræninginn (Upphaflegi vírusþrjóturinn) hafi sem minnst gagn af þeim. Þetta ætti ekki að vera erfitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.7.2014 | 11:15
2197 - Myndir
Nú get ég hindrunarlaust sett inn myndir, þó ég hafi ekki getað það í gær. Eini gallinn er sá að ég á erfiðara með að velja hvaða mynd fer á fésbókina. Kannski Moggabloggsguðirnir lesi bloggið mitt. Segi bara svona. Ekki veit ég hvernig á þessu stendur.
Í dag er föstudagur og á flestan hátt ætti það að vera einn besti dagur vikunnar. Samt er blautt um úti og ekkert sérlega gott veður og alls ekki sólríkt. Sennilega hefur sólin verið í felum meira og minna allan þennan mánuð. Svo dreymdi mig heldur leiðinlega í nótt, en tölum ekki meira um það. Þessi helgi sem nú er að byrja er víst sú síðasta í mánuðinum og auðvitað ætti veðrið að vera gott. Til þess höfum við nú júlí.
Get ekkert skrifað um Palestínu. Ástandið þar er þyngra en tárum taki ef marka má fjölmiðla. Frétt um það að farþegaþota með á annað hundrað manns innanborðs hafi farist í Afríku komst varla að í fréttunum. Neikvæðu fréttirnar í miðlunum (fjöl- og net-) eru orðnar svo áberandi þessa dagana að allir eru að verða vitlausir. Kannski væri fjölmiðlafrí og netfrí betra en hefðbundið sumarfrí. Veðrið ætti a.m.k. að skipta minna máli.
Einhverjir pappírssölumenn (sem seldu pappír til lögreglustjóranna í landinu) plötuðu líklega Árna Johnsen til að flytja frumvarp um einkanúmer. Held að það sé eina afreksverk Árna á þingi fyrir utan það að syngja í ræðustól. Auðvitað var þetta með einkanúmerin efni í sjónvarpsfrétt og Árni sjálfur fékk fyrsta númerið. Hvað haldið þið að það hafi verið? Ísland. Að sjálfsögðu Já, það var Árna líkt. Sá nýlega jeppa sem var með einkanúmer, sem hefði getað verið frá Árna komið. Þar stóð: ÉG
Mínum skrifum kem ég á framfæri á ýmsan hátt. Kannski ég geri svolitla grein fyrir því hér. Bloggið mitt er sá vettvangur sem ég nota langmest. Oft fer líka þangað það sem einnig fer eitthvert annað, án þess að ég biðjist afsökunar á því. Ekki er því samt að treysta. Stundum verður mér það á að gera vísur. Þær set ég gjarnan á Boðnarmjöð á fésbókinni. Sá hópur er greinilega talsvert notaður og þar virðist fátt tekið hátíðlega. Stundum ofbýður mér vitleysan í fjölmiðlunum og þá geri ég (eða gerði) athugasemd á Orðhenglinum á fésbókinni. Aðra hópa þar nota ég lítið, nema þá helst til lestrar. Önnur og persónulegri skrif stunda ég lítt, kannski alltof lítið, því skriftir er eiginlega það eina sem ég kann (fyrir utan allt hitt).
Af því að nú fer í hönd helgi, þá er ég að hugsa um að losa mig við það sem ég er búinn að skrifa og senda það út í eterinn. Lítið er það að vísu og kannski einhverjir lesi bara eitthvað annað til uppfyllingar. Ekki reiðist ég við það.Nafnleysinginn frá í gær lætur ekkert á sér kræla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2014 | 08:05
2196 - Culpepper cattle company
Nú eru þau tímamót orðin að ég get ekki lengur birt myndir á blogginu mínu. Ekki veit ég af hverju það er, en einhverja orðsendingu fæ ég um að sprettigluggi geti gert það. Veit bara ekki hvernig á að ná í hann. Best að bíða og sjá til. Kannski verða einhverjir óánægðir með að fá ekki myndir með blogginu mínu eins og þeir eru vanir, en við því er ekkert að gera. Þetta er semsagt ástæðan, en ekki myndaskortur.
Er munur á hugsunarhætti eftir trúarskoðunum? Getur það verið að uppeldi hafi mikið að segja um hugsunarhátt eftir að fullorðninsaldri er náð? Að alast upp í ríki þar sem trúarskoðanir hafa mikið að segja um daglegt líf gæti þá valdið ólíkum hugsunarhætti þegar fullorðinsaldri er náð. Hvenær hættir fólk að breytast? Er ég að nálgast rasískar hugsanir með þessu? Get ekki að því gert að ég hugsa svona. Hefur Jónas Kristjánsson þessi áhrif á mig? Mér finnst hann vera að breytast í kynþáttahatara. Talar illa um Salman Tamini. Alltaf er hægt að finna rökstuðning fyrir skoðunum sínum, hversu vitlausar sem þær eru. En Salman Tamini þyrfti að gera betur grein fyrir skoðunum sínum. Það er alls ekki þýðingarlaust hlutverk að vera talsmaður múslima á Íslandi. Sverri Agnarsson kannast ég vel við og er næsta viss um að þar fer enginn öfgamaður.
Á sínum tíma neyddi Clinton Bandaríkjaforseti þá Rabin og Arafat til að semja. Nú held ég að báðir aðilar sjái að sá samningur hefði verið gáfulegur. Á þeim tíma voru samt báðir aðilar fegnir að sleppa frá honum. Fannst hann vera mikil mistök. Áhrifamikil öfl innan og utan Palestínu og Ísrael vilja alls ekki semja um nokkurn skapaðan hlut. Álíta núverandi ástand vera sér og sínum heppilegast.
Auk mannslífanna og efnahagslega tjónsins fyrir báða aðila, sem auðvitað er tilfinnanlegra og meira fyrir veikari aðilann, er stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs, einsog öll stríð, fyrst og fremst áróðursstríð. Spurningin er aðeins um það hvort þau öfl sem vilja umfram allt spilla friðarumræðum hafi hugsanlega gengið of langt að þessu sinni.
Eitt sinn áttu Gyðingar samúð heimsins. Svo er ekki lengur. Nú eiga Palestínumenn hana og hafa vissulega unnið áróðursstríðið.
Þegar ég vann á Stöð 2 kom það fyrir að Goði henti í mann lista yfir kvikmyndir og miniseríur sem átti að sýna í einhverjum tilteknum mánuði og bað mann að finna íslensk nöfn á fyrirbærin. Þetta gat verið dálítið snúið þó þýðendurnir létu stundum fylgja nafn sem þeim hafði dottið í hug. Man eftir að hafa hugsað vel og lengi um hvað ég ætti að skíra kvikmyndina sem heitir: Culpepper cattle company og man ekkert hvað ég gerði á endanum. Pétur Hanna stakk upp á nafninu: Kemur maður ríðandi, en það var bara of seint. Þá var ég búinn að skila listanum. Annars hefði ég líklega samþykkt það.
Man ekki hvort ég hef andskotast útí sjálfspilun myndbanda á fésbókinni. Ef ég hef ekki gert það þá er það bara einhver yfirsjón, því ég er alltaf eins mikið á móti fésbókinni og ég get. Held reyndar að þau hætti að spilast ef maður skrollar yfir þau. Svo er líka afar auðvelt að afvelja sjálfspilun myndbanda. Sýnist það reyndar vera öllu flóknara í símum, en ég er nú blessunarlega laus við svo fullkomna síma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2014 | 11:06
2195 - Vandalar
Er að horfa út um gluggann á krakkana í unglingavinnunni. Vinnubrögðin hjá þeim virðast aðallega snúast um það að láta tímann líða. Ekki er haldið meira áfram en óhjákvæmilegt er. Pokar er t.d. ekki losaðir nema aðra hvora viku. Ef rignir eru þeir notaðir til að breiða ofan á sig svo fötin blotni ekki. Afleiðing þessa er að Bretavinnumórallinn er allsráðandi. Verkstjóri í unglingavinnunni sagði einum eða einni í vinnunni að hann/hún hlyti að geta tekið sér frí því það væri einn veikindadagur eftir. Og svo virðast þess blessuð börn ætlast til þess að vinna sé alltaf bráðskemmtileg. Ef hún sé það ekki þá megi alveg hætta undireins og afleiðingarnar verði engar. Nei, annars þau eru bráðdugleg krakkagreyin. Auðvitað er ekkert skemmtilegt að vinna í ausandi rigningu eins og verið hefur flesta daga undanfarið. Ég er bara að skrifa þetta til að skrifa eitthvað. Stelpurnar eru ekki nærri nógu léttklæddar vegna þess að engin sól er. Á þessu þyrfti að ráða bót.
Bara svona til að menn muni hvernig flokkaskiptingin er á þingi. Aðalatriði málsins er einfaldlega það að ef Sjálfstæðismenn vilja losa sig við Frammarana (eða öfugt) þá þurfa þeir að fá 2 flokka í staðinn. Skiptingin er þannig að D og B eru með 19 menn hvor flokkur. Samfylking er með 9, VG með 7, Björt framtíð 6, og Píratarnir eru þrír. Þetta er auðvitað líka fyrir sjálfan mig gert, til að glöggva mig á þessu. Ótrúlegt hvað maður gleymir þessu fljótt. Þar að auki fer ákaflega lítið fyrir sumum þingmönnunum, en ekki orð um það meir. Gæti trúað að Bjarna Ben. hugnaðist betur að taka Samfylkingarmenn uppí til sín en það er bara ekki nóg.
Nú þegar ég er tekinn upp á því (eða ætla að taka upp á því) að skrifa daglega á fésbókarvegginn þá þarf ég ekki að leggja eins hart að mér við bloggskrifin. Þau er nú samt ólíkt merkilegri, því eina krafan sem hægt er að gera til fésbókarskrifa er að þau séu stutt og ekki alltaf eins.
Tinna og Bjarni komu í heimsókn áðan. Stoppuðu stutt og þáðu heldur litlar veitingar. Áttum jafnvel von á þeim í kvöldmat en ekki varð úr því. Þetta er nú eiginlega að verða einsog einskonar dagbók. Ekki gerir það neitt til, en lesendum kynni þó að fækka ef ég fer mikið í þá áttina.
Fór áðan í smágönguferð. Þrjár ruslafötur höfðu verið skrúfaðar af ljósastaurum og innihaldinu ásamt fötunum sjálfum dreift á nærliggjandi göngustíga. Ýmislegt leggja vandalar á sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2014 | 07:35
2194 - Blogg og fésbók
Kannski er það merkilegast þegar litið er yfir blogg manna, einsog ég geri oft, að hér skuli hafa orðið svokallað hrun með alla þessa gáfumenn innanborðs. Játi einhver þeirra á sig að hafa hagað sér óskynsamlega í aðdraganda hrunsins er það bara til þess að vekja athygli á sér. Líkt og ég er að gera núna. Allt sem miður fer er auðvitað þessum ösnum að kenna sem ekki geta skrifað almennileg blogg, eða þóst hafa gríðarlegt vit á fjármálum.
Önnur leið er líka til og hún er að skrifa lítið sem ekkert um hrunið en einbeita sér að því að þykjast vera fyndinn. Ekki er örgrannt um að ég falli í þessa síðari katigóríu á stundum a.m.k. Rihöfundarbakteríuna má sjá úr flugvél, og þó er ég sé alls enginn rithöfundur og hafi aldrei afrekað neitt á því sviði, el ég auðvitað með mér drauminn um að verða uppgötvaður þó seint sé. Ef blaðamenn skyldu glepjast til þess að skrifa eitthvað um mig, t.d. ef ég lenti fyrir bíl, þá yrði áreiðanlega sagt að ég væri, eða hefði verið, á áttræðisaldri. Eiginlega þyrfti ég að koma mér upp hirð sem biði málþola eftir snilldaryrðunum frá mér, en það verður víst seint.
Íslenskum bókum (bókum á íslensku) fjölgar stöðugt í Kyndlinum hjá mér. Nú eru þær komnar svolítið á annað hundraðið. Flestar eru þær heldur ómerkilegar en í gær rakst ég á bókina Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson og rafútgáfan af honum kostar 12,83 dollara. Ekki keypti ég hann en fékk mér sýnishorn og er búinn að lesa það. Það er bara fáeinar blaðsíður og fjallar um þokuna, Kötu kórstjóra og útrásarvíkinginn gamla, sem fluttur er aftur til þorpsins.
Þegar ég er í stuði, skrifa ég næstum jafnhratt á tölvuskjáinn og ég hugsa. Tvær ástæður eru fyrir því. Í fyrsta lagi lærði ég fingrasetningu þegar ég var í Samvinnuskólanum fyrir tvítugt, svo bókstafirnir eiga sér næstum samastað í fingrunum, og svo hugsa ég alltaf því hægar sem ég eldist meir. A.m.k. finnst mér það. Og það sem mér finnst hlýtur að vera rétt. Yfirlestur og leiðréttingar verða síðan að fylgja, svo þetta verði frambærilegt.
Nú hef ég tekið upp nýjan sið, en það er að setja á hverjum morgni eitthvað inn á fésbókarræfilinn. Áðan setti ég klausuna hér á undan þar. Við hana má ýmsu bæta og kannski geri ég það einhverntíma. Af því að ég vandaði mig svolítið við hana skrifaði ég hana hér fyrst og flutti hana svo á bókarskræðuna með copy, paste. Það er eiginlega það eina sem ég kann af þessu nýmóðins tölvufiffi. Þegar ég vanda mig svona við skriftir finnst mér ekki hægt að láta bloggið mitt verða afskipt og njóta þess ekki. Annars er blogg að verða með öllu úrelt, þó ekki sé það nema rétt komið á fermingaraldurinn. Sjálfur er ég aðeins eldri.
Sennilega er þetta með dagleg skrif á fésbókina ekkert sérlega góð hugmynd. Ætli ég verði bara ekki á endanum eins og aðrir sem það gera. Ekki dettur mér í hug að ég verði betri. Sumir fésbókarvinir mínir virðast alltaf gera þetta. Blogga kannski þar að auki. Stundum eru innleggin þeirra bara einhver læk eða séringar sem ég kann eiginlega lítið á, en held að séu bara eitt einasta klikk. Þar að auki eru það einkum hreyfimyndir sem séraðar eru og ég kann lítið á. Leiðist að þær fara oftast sjálfkrafa af stað, því ég er sjaldnast með hljóðið á. Þar að auki eru þær kannski ekkert fyndnar þegar maður horfir á þær í tuttugasta skipti.
Er það virkilega svo að Bjarni Ben. vilji semja við hrægammana svokölluðu en SDG fara í stríð við þá, og um það snúist harðasta deilan milli ríkisstjórnarflokkanna þessa dagana? Ekki er annað að skilja á grein sem birtist í Kjarnanum um daginn. Á margan hátt er nefnilega Kjarninn sá netmiðill sem mest mark er takandi á.
Einu sinni bloggaði ég daglega. Rembdist þá við að skrifa allan liðlangan daginn (minnir mig). Stundum voru bloggin þá stutt eða löng eftir atvikum. Aldrei þó óralöng, því ég sendi ekki frá mér hvaða vitleysu sem var. Nú er ég hættur þessu og er að hugsa um að láta fésbókina njóta snilldarinnar. Verst að ég get ekki stillt mig um að láta klausurnar líka í bloggið. Eiginlega er bloggið bara samansafn af athugasemdum og veggskrifum. Kannski ég hætti birtingu á báðum stöðum með tímanum. Sjáum til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2014 | 06:56
2193 - Um landsbyggð og höfundarrétt
Auðvitað er margt hægt að segja um höfundarrétt og málefni honum tengd. Píratar svonefndir á alþingi hljóta að kannast vel við það.
Mitt álit er að þar standi hnífurinn að miklu leyti í kúnni að höfundarrétthafar hafa mjög margir framselt rétt sinn til aðila, sem bæði vilja eiga kökuna og éta hana. Þetta eru nokkuð stór orð ef þau eru skilin rétt og ég ætti kannski að útskýra þau svolítið.
Höfundarréttarvörðu efni er svo auðvelt að stela og næstum allir gera það, er algengasta röksemdin sem heyrist hjá þeim sem vilja vernda þá, sem stela efni.
Þetta er svosem rétt að vissu leyti, en þó ekki alveg. Enginn vill stela og ég er viss um að ástandið í þessu efni væri betra ef höfundarréttarmál væru tekin öðrum tökum en núna er algengast. Fjárhagsnet Vesturlanda og reyndar heimsins alls, er með þeim hætti að segja má að það sé nauðsynlegt. Höfundar þurfa með einhverjum hætti að fá umbun fyrir sína vinnu og með engum hætti er hægt að efast um rétt þeirra til sinna eigin hugverka.
Það þýðir þó ekki að það skipulag sem er á þessum hlutum núna hljóti að vera það besta. Satt að segja er það mjög gallað og flækist verulega fyrir allri framþróun tæknimála á samskiptasviði.
Tæknilega séð er ekki hægt að halda því persónufrelsi sem Internetið skapar og ætlast um leið til þess að allir séu fullkomlega heiðarlegir. Netið er einfaldlega nýr samskiptamáti og ef höfundarréttur flækist fyrir þeim samskiptamáta þarf að endurskilgreina þann höfundarrétt.
Margir verða óheiðarlegir á þessu sviði vegna framsals höfundarréttarvarins efnis til aðila sem verðleggja þjónustu sína alltof hátt.
Þær lagareglur sem um höfundarrétt gilda eru mismunandi eftir þjóðríkjum. Það er Internetið í sjálfu sér alls ekki og á ekki að vera.
Endurskilgreining höfunarréttar hræðir marga. Endurskilgreining eignarréttar í víðum skilningi, er hægt að segja að hafi mistekist. Þó kapítalisminn hafi ekki gengið endanlega frá kommúnismanum eru mjög margir þeirrar skoðunar að eins og hann var framkvæmdur hafi hann verið mikil mistök.
Þó hægt sé að segja að höfundarréttur líkist eignarrétti er vel hægt að greina þar á milli. Markaðurinn þarf oft á hjálp að halda til að breytast ekki í andhverfu sína. Meðan heimsríki er ekki við lýði þarf höfundarréttur að beygja sig fyrir persónufrelsi.
Það sem gráskeggurinn úr Hrútafirði Jón Daníelsson bloggar eða skrifar á netið læt ég helst ekki framhjá mér fara. Í nýlegum pistli í Herðubreið segir hann m.a.
Nú er auðvitað skylt að taka fram, að ekki er víst að sanngjarnt jafnræði eða jafnvægi næðist milli höfuðborgarsvæðisins og byggðanna hringinn í krinum landið, þótt allt skattfé, sem innheimtist í tilteknu byggðarlagi, skilaði sér heim aftur. Málið er að sjálfsögðu flóknara en svo. Gallinn er sá, að sáralítil rannsóknagögn liggja fyrir. Áhugi stjórnvalda á þessum málum er vægast sagt takmarkaður og meðan svo er, þarf kannski engan að undra þótt sú mýta sé lífseig að höfuðborgarsvæðið haldi landsbyggðinni uppi.
Þarna er ég ekki sammála Jóni nema að takmörkuðu leyti. Lokaorðin eru það sem ég helst rek hornin í. Sú mýta að höfuðborgarsvæðið haldi landsbyggðinni uppi er nákvæmlega sama bullið og mýtan um að landsbyggðin haldi höfuðborgarsvæðinu uppi. Fólksfjölgun hefur að vísu verið langmest á höfuðborgarsvæðinu all-lengi, en það er ekki mýtnanna vegna. Þær eru jafnvitlausar núna og þær hafa löngum verið. Stjórnarfarsvitleysan og pólitíkin ber þarna alla ábyrgð og það er illt verk að reyna að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði þegar samstöðu er svo átakanlega þörf, eins og nú er, í kjölfar þess hruns sem svo illa hefur leikið Íslendinga næstum alla.
Persónulega finnst mér það dauðahald sem landsbyggðarmenn hafa haldið í ósanngjarnt og gallað kosningakerfi í fjölmarga áratugi vera einn aðalorsakavaldur hningnunar landsbyggðarinnar á kostnað höfðuðborgarsvæðisins, en hugsanlega er það tóm vitleysa hjá mér, því ég er nú einu sinni búsettur á höfuðborgarsvæðinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2014 | 08:20
2192 - Þak
Jú, það er býsna alvarlegt þegar ritstjóri Morgunblaðsins ruglar saman mönnum á þann hátt sem Davíð Oddsson virðist hafa gert. Samt er það svo, að fylgismenn á hann enn, og hann er vissulega góður og séður pólitíkus, þó honum hafi orðið þetta á. Búast má samt við áframhaldandi vitleysum hjá honum og þeir sem standa honum næstir ættu að búa sig undir það. Að persónuleg afsökunbeiðni standi svolítið í honum er ekkert skrýtið. Það eru margir þannig gerðir að slík beiðni er eitt af því erfiðasta sem þeir gera.
Eins og fyrri daginn er þessi klausa áberandi seint á ferðinni. Ég get bara ekkert að því gert. Skrifa bara um það sem mér dettur í hug og spyr engan ráða.
Er það virkilega svo að enn sé til fólk sem vill frekar lesa af blaði en tölvuskjá? Datt þetta í hug rétt áðan þegar ég sá auglýsingu á netinu (hvar annars staðar) frá Heima er Best. Held að enn sé til tímarit sem gefið er út og heitir því nafni. Einu sinni skrifaði ég eitthvað í það blað. Sýnist það nú vera orðið mest þýðingar á erlendum greinum. Eiginlega ætti blaðið að einbeita sér að innlendum frásögnum. Héraðabækurnar og árbækur allskonar hafa reyndar farið talsvert inná þá leið. Samt held ég að þar sé pláss. Erlendu frásagnirnar eru heldur lítilfjörlegar finnst mér, en hvar ætti það fólk sem lætur einsog netið sé ekki til að fá sínar frásagnir.
Guðríður orðin eldri en Halldóra. Þetta er fyrirsögn af mbl.is. Mér finnst hún misheppnuð. Nenni samt ekki að ræða um hugsanlegan misskilning og ekki er hægt að ætlast til að allt sem sagt er á íslensku sé rökrænt. Sum orð eru það ekki og hversvegna ætti svosem að ætlast til þess með heilu setningarnar?
Margir virðast halda að því sóðalegra orðbragð sem þeir temja sér í stjórnmálaumræðum því kröftugara sé það. Ég held aftur á móti að svo sé ekki. Orðatiltæki sem mjög er í hávegum haft hjá þessum bögubósum er að skíta uppá bak. Kannski voru það mistök eða kannski ekki þegar einhver snillingurinn skrifaði þak í staðinn fyrir bak í þessu sambandi. Fyndið er það samt og bætir sennilega orðtakið og gerir það mun myndrænna að skrifa þak í staðinn fyrir bak.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2014 | 08:04
2191 - Introvert - Extrovert
Bókin Introvert: The Power of Introverts in a World that Can´t stop talking eftir Susan Cain virðist svo sannarlega vera þess virði að lesa hana. Sálfræði og heimspeki er ekki bara innantómt bull um sjálfsagða hluti, heldur getur þar hæglega verið um mikilsverðan sannleika að ræða um falda eða niðurþaggaða hluti. Verst er að Susan Cain skuli vera lögfræðingur. En hún hefur greinilega kynnt sér ýmislegt fleira. Hún ræðir mikið um innhverfuna í okkar extrovert þjóðfélagi. Allt sem ekki er hávaði og auglýsingamennska er bara bull og vitleysa virðast sumir í okkar Dale Carnegie-vædda heimi halda. Það er hressandi að heyra þó ekki sé nema eina rödd sem heldur fram því gagnstæða.
Ensku (eða alþjóðlegu) orðin extrovert og introvert finnst mér best að þýða með orðunum úthverfur og innhverfur. Þó er alls ekki hægt að segja að það sé góð þýðing. Sérstaklega er extrovert þýðingin vafasöm. Það er þó enginn vafi að úthverfu einkennin eru meira metin í samfélagi okkar. Hægt er að skipta öllum (eða næstum öllum) mönnum og fyrirbrigðum í úthverfu eða innhverfu. Auðvitað blandast þetta á ýmsan hátt öðrum einkennum en oft eru þessi einkenni einmitt mest áberandi.
Þessi bók hefur lengi verið metsölubók, en ég veit ekki betur en það sé nýlega sem Amazon Kindle fire býður uppá hana. Ég er að vísu ekki búinn að lesa nema kynningu á henni. Hún er auðvitað ókeypis eins og annað sem Amazon vill selja. Sjálf bókin kostar yfir fimm dollara og ég veit ekki hvort ég er tilbúinn í slíkan spandans. Fyrst var hún gefin út árið 2012 að ég held.
Já, það er svolítið farið að skyggja um lágnættið. Samt er ég ekki sammála Simma um þetta með lág-eitthvað. Mér finnst hann frekar vera að senda establissmentinu innan flokksins tóninn. Þjóðernisflokkur er þetta og þjóðernisflokkur skal það vera. Alþjóðahyggja er rusl. Þetta finnst mér hann vera að segja.
Hefðbundinn er eitthvert versta skammaryrði sem ég þekki. Ég vil allsekki vera hefðbundinn. Reyni allt sem ég get til að forðast það. Kannski er það einmitt hefðbundið. Þá er nú illt í efni. Jafnvel ekki hægt að varast það. Um sumt er ég afar hefðbundinn samt. T.d. er ég núna að hugsa um að hlusta á hádegisfréttirnar.
Er alveg búinn að steingleyma af hverju ég fór að nota Chrome-vafrann á sínum tíma. Undanfarið hef ég verið í stökustu vandræðum með Internetsambandið, en er ekki frá því að það hafi stórlagast eftir að ég fór að nota Explorerinn aftur.
Og þá bíðum við bara eftir bónustölunni. Hún skrapp víst á klósettið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)