2198 - Irminger

Ekki veit ég hvers vegna áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta hefur fengið þetta ömurlega nafn. Útlendingar koma að þessu og kannski hefur þeim fundist það í lagi. Þó reynt sé að milda áhrif nafnsins er það ömurlega lélegt. Barbarossa hefði líklega verið betra. Eða jafnvel bara Barbabrella.

Af hverju hefur verið dregið svona lengi að kynna þessi ósköp? Jú, sennilega er öll forsendubrestshistórían á skjön við þetta. Já, vel á minnst. Ég á víst eftir að sækja um forsendubrestsuppbótina mína. Minnir að það eigi að vera frestur til 1. september hvað það varðar. Of mikil rólegheit í því efni gætu samt verið hættuleg. Hver veit nema ég eigi einhverja hlutdeild í þessu.

Lenti í hálfgerðu rifrildi útaf viskustykkjum á fésbókinni áðan. Ég man ákaflega vel eftir því að diskaþurrkur hafi verið kallaðar viskustykki, en allsekki viskastykki í mínu ungdæmi. Auðvitað blandaðist engin vizka (hvað þá samvizka) saman við þetta fyrr en seinna og þá finnst mér sumir hafa farið að leiðrétta þetta eftirá. Vitanlega er þetta dönskusletta. Hugsanlega upprunnin í Rangárvallasýslu. Sama er að segja um kvitteringu, sem var notað þó orðið kvittun væri bæði íslenskara og styttra. Mævængja og stígstappa var líka notað.

Hvur andskotinn. Eru nú útrásarvikingarnir búnir að ræna frá okkur sumrinu líka. Ég vissi  alltaf að það var ekki hægt að treysta þeim út fyrir hússins dyr. Þegar Íslendingar fóru að geta talað fleiri tungumál en sitt eigið mátti alltaf búast við að fjandinn yrði laus. Þeir sem ekki breyttust í Jón Grunnvíking urðu eins og Jóhannes á Borg. Bitu bara í skjaldarrendurnar þegar þeir heyrðu minnst á víkinga og grettu sig og öskruðu framan í hrægammana. Eiginlega mætti alveg semja óperu um þetta. Ég vil hafa Árna Pál í hlutverki Ketils skræks, svo skal ég ekki skipta mér af þessu meira.

Já og svo lét lögreglustjórinn bara reka sig. Kannski hann hafi haft eitthvað pottþétt á Hönnu Birnu, en hafi lofað að koma því fyrir kattarnef. Þó ég sé með einskonar kattarnef treysti ég mér ekki til að vera með það niðri í miðbæ á réttum stað og stundu, en skora á öll kattarfés sem birst hafa á fésbók að sameinast nú, til að koma í veg fyrir að þetta geti ekki orðið að veruleika.

Í annað sinn lendi ég víst í því að dreifa vírusi á fésbók. Jens Guði finnst það fullmikið og ekki er hægt að lá honum það. Í þetta sinn þóttist vírusinn vera stýrikerfisskönnun sem ég þekkti og treysti. Þó ráðið sem Jens gefur sé gott held ég að enn betra sé að gera aldrei neitt sem maður er ekki nokkurn veginn alveg viss um hvaða afleiðingar hefur. Vonandi get ég nú varast þetta í framtíðinni því það er sáraeinfalt eins og Jens Guð segir. Gott er að geyma aldrei í tölvunni/á fésbókinni viðkvæmar upplýsingar (einkum ekki í bréfum því tölvupóstar eru víst vinsælir og þú veist aldrei hvar afrit af þeim kunna að liggja – Öskjuhlíðin er betri.) en ef það er óhjákvæmilegt má reyna að dulbúa þær svolítið svo ræninginn (Upphaflegi vírusþrjóturinn) hafi sem minnst gagn af þeim. Þetta ætti ekki að vera erfitt.

IMG 0971Selfie.

IMG 1085Í vitanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Sæmundur,  diskaþurrkur voru alltaf kallaðar viskustykki, eins og þú sagðir.  Það heiti er notað enn.  Þar var ekkert viska neitt í orðinu.  Þú skalt ekkert fara ofan af þessu.

Elle_, 29.7.2014 kl. 00:38

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Elle. Á mínu heimili er enn talað um viskustykki, þó sumir séu eflaust með slíkt í höfðinu.

Sæmundur Bjarnason, 29.7.2014 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband