Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

2190 - Steinvaknaður

„Afi, ertu steinvaknaður?“ og um leið er potað ofur varlega í handlegginn á mér. Er hægt að vakna á betri hátt? Mér er bara spurn. Að vísu er veðrið ekkert til að hlaupa húrra yfir, en það er ekki hægt að fara fram á allt. Í dag á að fara upp að Hagamel til pabba og mömmu og þó hann hætti ekki í vinnunni fyrr en klukkan fjögur, er vissara að undirbúa sig vel fyrir slíka langferð og gæta þess að afi og amma gleymi ekki að fara.

Í gær fórum við í heimsókn til Benna og Angelu. Helena og Díana voru nú skemmtilegastar. Svo var voða gaman í rólunum. Verst að það rigndi svo mikið að ekki var hægt að prófa trampólínið. Geri það bara seinna. Í fyrradag fórum við í heimsókn til langafa og langömmu. Þau eiga heima í kirkjugarðinum, í holu í jörðinni, því þau er dáin. Og Hardís kom og greiddi á mér allt hárið, sem er víst voða mikið. Svo fórum við á Hárgreiðslustofu og þar var hárið fléttað og gert svakalega fínt. Samt langar mig mest heim til pabba og mömmu á Hagamel.

Þetta er svona í orðastað Tinnu að mestu leyti. Þó veit ég ekkert hvernig hún hugsar. Mesti leyndardómurinn í heimi er hvað annað fólk gerir eða segir og af hverju.

Mér er enn minnisstætt þegar hún spurði pabba sinn formálalaust þegar hann hringdi í hana. „Pabbi, ertu í fangelsi?“ Ætli hún hafi ekki verið svona nýorðin þriggja ára þá. Ekki er nokkur leið að finna út hvers vegna hún spurði að þessu. En fyndið var það.

Af hverju ég er svona gangntekinn af Tinnu og orðtöku hennar? Engin leið er að vita það.  Veit það alls ekki sjálfur. Hún er fyrsta barnabarn mitt og með öllu ómótstæðileg. Öll hennar fjögur og hálft ár hafa verið mér stanslaus gleði og myndirnar af henni eru sannarlega legíó.

Nú fer þessari heimsmeistarakeppni að ljúka. Enn er ég þeirrar skoðunar að Argentínumenn vinni sigur. Kannski verður sigurvissan Þjóðverjum að falli. Suður-Amerískur fótboti er einfaldlega opnari, hraðari og skemmtilegri finnst mér, en sá þunglamalegi og varnarsinnaði Evrópski. Þess vegna held ég með Argentínumönnum í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

En nóg um það. Margt er merkilegra en blessaður fótboltinn. Af öllu því þýðingarlausa sem borið er á borð fyrir pöpulinn er hann þó sennilega það skásta. A.m.k. á fjögurra ára fresti.

Bráðum verður hægt að kaupa áfengi í Bónus og þá þýðir ekkert lengur að segja uppá dönsku: „Jeg bruger ikke paafengi under disse rundtomstæder“. Þegar frá líður verður þetta að líkindum mesta afreksverk núverandi ríkisstjórnar og sennilega verður hún við þetta kennd.

Púðurtunnan fyrir botni Miðjarðarhafs (afleitt orðalag) virðist einu sinni enn að því komin að springa. Ef ekki væri vegna allra þeirra mannlegu harmleikja sem þetta ástand skapar, væri það ekki einu sinni fyndið. Ísraelsmenn virðast á margan hátt þræða samviskusamlega fótspor fyrrverandi andskota sinna og ekki orð um það meir. Allt er þetta þyngra en tárum taki og kannski er afstöðuleysið skásta ráðið.

Gróðurhúsaáhrifin eru samt mál málanna og munu halda áfram að vera það. Smástríð hér og þar skipta afar litlu máli í heildarsamhengi hlutanna. Verst er að allskyns hagsmunir eru orðnir svo samfléttaðir öllu sem sagt er um þessi áhrif að illmögulegt er að greina rétt frá röngu.

Þá er búið að kalla á Buckheit, eða hvað hann heitir, og það á víst að semja. Ríkisstjórnin er semsagt búin að komast að því á rúmu ári að það þurfi að semja um skuldirnar. Hvort farið verður eftir því sem lagt verður til, er svo alltannað mál. Hald mitt er að búið sé að leggja grunninn að samningum og við verðum fram til um 2020 að borga þetta, Þetta er sá skilningur sem ég legg í það sem Simmi segir. Þá verðum við kannski komin á þann stað að þjóðin verður búin að borga það sem útrásarbesefarnir stálu frá henni.

IMG 0686Ódælt vatn. (Altsvo, það á eftir að dæla því í burtu.)

IMG 0689Eldur í mikilli fjarlægð. (Sólin)


2189 - Himstrakeppnin

Núorðið á tímum farsímanna með innbyggðar myndavélar taka fæstir myndir nema fyrir sjálfa sig og í mesta lagi fésbókina. Ég er í þeirri öfundsverðu aðstöðu að geta sett skástu myndirnar sem ég tek á bloggið mitt. Kannski er það samt ekkert betra en að fésbókast með þær, eða flickrast.

Hvernig stendur á því að sumum finnst veðurfar vera hið eðlasta umræðuefni. Ég veit það ekki, en ein skýringin gæti verið sú að það snertir alla með svipuðum hætti. Eða gerir það það ekki? Finnst sumum kannski gott veður vont og öfugt? Samt er hægt að lýsa því á sæmilega skiljanlegan hátt. Allir virðast hafa samþykkt að veðurfarsleg orð þýði ávallt það sama. Því er ekki að heilsa með nærri allt. Sum orð er næstum alltaf misskilin.

Í upphafi var orðið. Og orðið var hjá Guði. Hvurslags píp er þetta? Eru orð merkilegri en hlutir? Að sumu leyti, já. Meðal annars vegna þess að þau geta táknað margt annað en hluti. Er það að vera orðlaus þá það sama og að vera blankur? Já, ætli það ekki.   

„The tricle down effect“, er eitthver misskildasti og mest notaði frasinn hjá markaðssinnum. Samt er ekkert að marka hann. Staðreyndin er sú að það er andskotann ekkert sem triklar niður samanborið við það, sem til yfirborðsins (ríka fólksins) leitar. Ástandið versnar sífellt að þessu leyti og jafnan er fundin upp ný lýgi til að útskýra hlutina. Ómótmælanlegt er að markaðssinnar (kapítalistar) hafa blekkt marga kjósendur til fylgis við sig. Þess vegna hafa völd þeirra víða orðið meiri en efni standa til. Bestur árangur hefur náðst þar sem kapítalisma og sósíalisma er blandað hæfilega saman. En hvað er hæfilegt? Um það má rífast endalaust og stjórnmál heimsins snúast mikið um það. Vald peninganna og frelsi þeirra er alltof mikið. Kreppur þær sem skekið hafa heiminn á undanförnum árum eru til marks um það.

Var að enda við að horfa á niðurlægingu Brasilíumanna gegn Þjóðverjum í fótboltanum. Leikurinn endaði 7:1 eins og flestir hljóta að vita. Andlega hliðin var alveg ómöguleg hjá Brössunum og á margan hátt vannst leikurinn þess vegna. Fyrirsögn í einhverju brasilísku blaði held ég að verði á þá leið að brasilíska liðið hafi með þessum ósigri orðið knattspyrnunni til minnkunnar. Sóknin hjá þeim fyrstu mínúturnar var samt ekkert vonlaus en þegar mörkin fóru að koma hljóp allt í baklás. Fyrsta markið kom vegna hræðilegra varnarmistaka, en mögulegt átti að vera að hrista það af sér. Þjóðverjar léku samt vel, það verður ekki af þeim skafið. Hræddur er ég þó um að Argentínumenn vinni mótið.

IMG 0684Grjót.

IMG 0685Grafa og slanga.


2188 - Innst inni reikna Hollendingar með að tapa fyrir Argentínumönnum

Oftast finnst mér að það séu landsbyggðarmenn sem ala á óánægju vegna skiptingarinnar í  höfðuðborgarsvæði og landsbyggð. Eiginlega erum við svo örsmá að það tekur því ekki að láta svona.

Kannski er hollt að líta svolítið á það sem sagt hefur verið um flutning fiskistofu til Akureyrar. Landsbyggðarmenn segja flestir að þetta sé alveg sjálfsagt og eðlilegt. Hingað til hafi Reykjavíkursvæðið togað landsbyggðarmenn til sín. Ekki síst opinbera starfsmenn. Höfuðborgarbúar margir segja einfaldlega að hyggilegt hefði verið að athuga málið svolítið betur áður en anað væri útí fenið.

Mér sýnist nefnilega að líklegast sé að hætt verði við þetta alltsaman. Þá er á margan hátt verr af stað farið en heima setið.

Sú breyting að borgir dragi til sín fólk úr sveitum er ekki séríslensk. Þetta tíðkast um allt. Allskyns reglur er hægt að setja og hefur verið gert. Ótilhlýðileg eru svona fiff eins og að flytja heilu stofnanirnar hreppaflutningum í aðra landshluta. Hvers á annars Akureyri að gjalda í þessu sambandi? Væri ekki alveg eins hægt að flytja stofnunina á Reyðarfjörð? Mér hefur skilist að þar sé húsnæði á lausu. Það virðist vera aðalatriðið hjá þeim sem á annað borð hugsa um þessi mál. Afar fáum kemur þetta samt við.

Nenni ekki að skrifa meira um þetta. Finnst þetta ekki mjög merkilegt mál. Óneitanlega snertir það samt nokkuð marga.

Allir eru sérfræðingar þegar að Himstrakeppninni í fótbolta kemur. Jafnvel ég get ekki látið hjá líða að spá um úrslitin. Auðvitað taka fáir mark á því, vegna þess að ég er vanur að hafa rangt fyrir mér. Nú þegar ekki eru nema fjögur lið eftir í keppninni treysti ég mér vel til að spá um úrslitin.

Í undanúrslitunum held ég að Brasilíumenn vinni Þjóðverja þó Neymarlausir séu. Argentínumenn sigri síðan Hollendinga og í úrslitaleiknum, sem líklega verður sögulegur, sigri þeir Brasilíumenn og verði heimsmeistarar.

Markvarðaskiptingin fræga hjá Hollendingum er að því leyti veikleiki, að ekki er hægt að álíta annað en þeir búist við að tapa fyrir Argentínumönnum. Ekki er líklegt að þeir beiti þessu ráði aftur því aðalkostur þess var sálfræðilegur. Fleiri orðum en þetta finnst mér ekki eyðandi á keppni þessa, enda hefur þegar verið alltof mikið um hana talað.

IMG 0672Og snúa bökum saman.

IMG 0676Sjóræningjaskip?


2187 - Bjarna-Dísa

Frásögnin um Bjarna-Dísu er ein ógurlegasta draugasaga allra tíma. Einhver áhrifamesta og átakanlegasta draugasaga sem ég hef lesið er frásögnin af Bjarna-Dísu og örlögum hennar. Í rauninni er þetta sennilega engin draugasaga heldur aðeins frásögn af ógnvekjandi og hrikalegum atburðum sem urðu á Austurlandi undir lok átjándu aldar. Frásögnin af þessu máli er þó oft flokkuð með draugasögum og sem slík í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Á vef Netútgáfunnar http://www.snerpa.is/net/thjod/bjarnadi.htm  má lesa þessa frásögn orðrétta. Bjarna-Dísa hét Þórdís og var Þorsteinsdóttir. (Á vefsíðu draugaseturins á Stokkseyri er hún sögð Þorgeirsdóttir). Hún varð úti á Fjarðarheiði þegar hún var um tvítugt. Bjarni bróðir hennar dó einhverntíma laust eftir 1840.

 

Eins og fyrr segir er hægt að lesa þessa frásögn alla á vef Netútgáfunnar. Þar er ekki annað að sjá en þetta sé talin draugasaga og ekkert annað. Þó er í miðri frásögninni  eftirfarandi klausa með breyttu letri og er hún örugglega frá öðrum komin en upprunalegum skrásetjara frásagnarinnar. Málsgreinin er þannig:

Aðrar sögur segja, að Þorvaldur hafi brotið Dísu á bak aftur, til þess að hún væri kyrr, og hætti hún þá að orga. Margar eru fleiri ljótar sagnir um viðureign þeirra. Þorvaldur var maður vandaður, en með hjátrú eins og margir á 18. öld, og mun það réttast, sem hann sagði frá sjálfur. Sögur segja, að þau Bjarni hafi haft brennivínskút. Mun Dísa hafa verið drukkin og lifað, en Þorvaldur gert út af við hana í hjátrúaræði.

Þau systkin Bjarni og Þórdís voru á ferð frá Eskifirði, þar sem Þórdís var í vist, yfir til Seyðisfjarðar en þar átti Bjarni heima. Þórdís var fremur illa klædd og veður fór versnandi með snjó og fjúki. Loks villtust þau og Bjarni reyndi að grafa þau í fönn en skyndilega sá hann lítið eitt út úr kafaldinu og vildi athuga hvort hann kannaðist við sig. Urðu þau systkin viðskila við þetta og Bjarni fann hana ekki aftur en komst við illan leik til byggða.

Ýmissa orsaka vegna var það síðan ekki fyrr en að fimm dægrum liðnum sem hægt var að fara og vitja um Þórdísi. Allir töldu að hún hlyti að vera dáin en líklega hefur hún ekki verið það, því þegar til átti að taka sýndi hún merki um líf. Það var reyndar talið tákn þess að hún mundi í fyllingu tímans ganga aftur og er í þjóðsögunni greint frá því í alllöngu máli hvernig tókst á endanum að ráða niðurlögum hennar. Það hrikalega við þessa sögu er að Þórdís hefur næstum áreiðanlega verið lifandi þegar komið var til að ná í líkið af henni en sú draugatrú sem tröllreið öllu á þessum tíma varð þess valdandi að í stað þess að reynt væri að bjarga henni var hún drepin.

Auðvitað er mér frásögnin af Bjarna-Dísu hugleikin. Þó er ég ekki Austfirðingur. Ég hef áður skrifað um þetta mál og er sú frásögn sem hér birtist að mestu endursögn af því og ég biðst alls engrar afsökunar á því að endurtaka þessa sögu eða auglýsa Netúgáfuna blygðunarlaust.

Þetta með eitraða kjötið hennar Sigrúnar Magg finnst mér ekki sannfærandi. Ef það er virkilega satt að engir nema framsóknar og sjálfstæðisbændur geti framleitt óeitrað kjöt þá finnst mér það saga til næsta bæjar. Hefði jafnvel haldið að stórfyrirtæki hefðu menn á sínum snærum sem kynnu að verka kjöt. Ef atbeina Costco þarf til að afnema íslenska landbúnaðareinokun þá verður svo að vera finnst mér. Hvað sem bændaleppar segja.

IMG 0662Útsýnispallur.

IMG 0666Byggingarsvæði.


2186 - Hugdetta

Það er nú endanlega komið í ljós að flutningur fiskistofu til Akureyrar var bara hugdetta. Reyndar þarf það ekkert að vera verra fyrir það. Hugdettur geta verið góðar. Andstæðingar forsætisráðherra (sem fékk hugdettuna) hafa samt alveg rétt fyrir sér í því að vel hefði mátt athuga málið svolítið áður en hlaupið var í fjölmiðla. Þeir skilja hvort eð er ekki framsókn. Altsvo fjölmiðlarnir. Enginn Tími og heldur ekki Tíma-Tóti. En sleppum því. Við því er ekkert að gera. Nú er helst ekki hægt að hætta við málið þó í ljós hafi komið að ýmislegt er við það að athuga. Þetta hefði allt saman mátt athuga fyrirfram. Jafnvel í kyrrþey. Framsóknarmenn þekkja víst ekkert þessháttar. Þær hugdettur sem þeir fá (sem eru fáar) koma sér flestar vel atkvæðalega séð, en í praxis er ekki víst að þær séu eins sniðugar.

Það virðist koma einhverjum á óvart að sumarið var að þessu sinni fyrstu dagana í júní. Það getur samt komið hvenær sem er á tímabilinu júní, júlí og ágúst. Sjaldnast þó í ágúst. Yfirleitt er það bara þrír eða fjórir sólardagar í röð og að þessu sinni voru þeir í júníbyrjun. Vonum bara að haustið verði langt og ekki kaldara en venjulega. Óþarfi er að láta tíðarfarið trufla sig. Nú er hægt að fara að hlakka til jólanna. Eitt af því fáa sem hægt er að treysta varðandi veðurfar er að rigning verður á þjóðhátíðinni í Eyjum. Sama er að segja um hestamannamót.

Nú er það orðið ólöglegt westur í Bandaríkjunum, móðurlandi einstaklingsfrelsisins, að sanka að sér rigningarvatni. Ríkið á allt svoleiðis. Hugsið ykkur hve gaman hefði verið að handtaka alla Eyjamenn á einu bretti ef slík lög hefðu verið hér, þegar vatnsveitan var ekki komin þar.

Var að uppgötva það áðan að ég er orðinn svakalega svikull með þetta blogg mitt. Það er barasta orðið mjög óreglulegt. Já, þetta er ekki forsvaranlegt. Kannski ég biðji afsökunar á þessu. Þ.e.a.s. ef þetta hefur valdið einhverjum óþægindum. Líklega hef ég ekkert bloggað í þessum mánuði. Þetta gengur alls ekki. Má eiginlega til með að blogga per samstundis.

Fréttagúrkan er allsráðandi. Fjölbreyttar og nýstárlegar björgunaraðgerðir við Bleiksárgljúfur eru helsta fréttaefnið. Svo eru náttúrulega stríð og allskonar óáran í uppsiglingu í útlandinu, en það eru nú ekki fréttir. Svoleiðis er það alltaf. Fréttamenn eru lagnir við að magna allskyns ósætti, enda er það þeim í hag að mönnum komi illa saman. Ekkert er eins ófréttnæmt og ef allir eru vinir. Svoleiðis er það samt víða. Ef allt annað bregst má segja fréttir af veðrinu. Hrikaleg rigning hér og þrumur og eldingar þar. Ef einhver vill endilega komast í fréttirnar væri hægurinn á að hlaupa hringinn í kringum landið. Slá Íslandsmetið. Ætli Reynir Pétur eigi það ekki ennþá.

Mér finnst merkilegasta fréttin þessa dagana að Costco skuli líta á litla Ísland sem mögulegt útibú. Er ekki hægt að fá Walmart til að koma hingað? Þeir eru víst með um tvær milljónir manna í vinnu, en Costco greyið ekki nema um tvö hundruð þúsund. Gott ef þeir eru svo ekki með alltof stórar pakkningar fyrir venjulegt fólk. Íslendingum tókst að standa saman og koma í veg fyrir að alvöru bensíndreifingarfyrirtæki kæmi hingað. Kannski tekst það líka með Costco.

IMG 0658Tröppur.

IMG 0661Leikið lausum hala.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband