2195 - Vandalar

Nú man ég allt í einu af hverju ég fór að nota Chrome en hætti við Explorerinn. Hann (explorerinn) hagaði sér ekki rétt í sambandi við Moggabloggið mitt. Kannski var það bara við athugasemdir þar. Þær eru nú reyndar orðnar svo sjaldgæfar að varla ætti það að ráða bráseranotkun. Svo getur líka verið að það hafi verið eitthvað annað í sambandi við Moggabloggið sem réði þessu. Allavega þori ég ekki annað en nota þá báða núna. Ruglast að vísu svolítið með því, einkum við bookmörkin, en það verður bara að hafa það.

Er að horfa út um gluggann á krakkana í unglingavinnunni. Vinnubrögðin hjá þeim virðast aðallega snúast um það að láta tímann líða. Ekki er haldið meira áfram en óhjákvæmilegt er. Pokar er t.d. ekki losaðir nema aðra hvora viku. Ef rignir eru þeir notaðir til að breiða ofan á sig svo fötin blotni ekki. Afleiðing þessa er að Bretavinnumórallinn er allsráðandi. Verkstjóri í unglingavinnunni sagði einum eða einni í vinnunni að hann/hún hlyti að geta tekið sér frí því það væri einn veikindadagur eftir. Og svo virðast þess blessuð börn ætlast til þess að vinna sé alltaf bráðskemmtileg. Ef hún sé það ekki þá megi alveg hætta undireins og afleiðingarnar verði engar. Nei, annars þau eru bráðdugleg krakkagreyin. Auðvitað er ekkert skemmtilegt að vinna í ausandi rigningu eins og verið hefur flesta daga undanfarið. Ég er bara að skrifa þetta til að skrifa eitthvað. Stelpurnar eru ekki nærri nógu léttklæddar vegna þess að engin sól er. Á þessu þyrfti að ráða bót.

Bara svona til að menn muni hvernig flokkaskiptingin er á þingi. Aðalatriði málsins er einfaldlega það að ef Sjálfstæðismenn vilja losa sig við Frammarana (eða öfugt) þá þurfa þeir að fá 2 flokka í staðinn. Skiptingin er þannig að D og B eru með 19 menn hvor flokkur. Samfylking er með 9, VG með 7, Björt framtíð 6, og Píratarnir eru þrír. Þetta er auðvitað líka fyrir sjálfan mig gert, til að glöggva mig á þessu. Ótrúlegt hvað maður gleymir þessu fljótt. Þar að auki fer ákaflega lítið fyrir sumum þingmönnunum, en ekki orð um það meir. Gæti trúað að Bjarna Ben. hugnaðist betur að taka Samfylkingarmenn uppí til sín en það er bara ekki nóg.

Nú þegar ég er tekinn upp á því  (eða ætla að taka upp á því) að skrifa daglega á fésbókarvegginn þá þarf ég ekki að leggja eins hart að mér við bloggskrifin. Þau er nú samt ólíkt merkilegri, því eina krafan sem hægt er að gera til fésbókarskrifa er að þau séu stutt og ekki alltaf eins.

Tinna og Bjarni komu í heimsókn áðan. Stoppuðu stutt og þáðu heldur litlar veitingar. Áttum jafnvel von á þeim í kvöldmat en ekki varð úr því. Þetta er nú eiginlega að verða einsog einskonar dagbók. Ekki gerir það neitt til, en lesendum kynni þó að fækka ef ég fer mikið í þá áttina.

Fór áðan í smágönguferð. Þrjár ruslafötur höfðu verið skrúfaðar af ljósastaurum og innihaldinu ásamt fötunum sjálfum dreift á nærliggjandi göngustíga. Ýmislegt leggja vandalar á sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband