2194 - Blogg og fésbók

Kannski er það merkilegast þegar litið er yfir blogg manna, einsog ég geri oft, að hér skuli hafa orðið „svokallað“ hrun með alla þessa gáfumenn innanborðs. Játi einhver þeirra á sig að hafa hagað sér óskynsamlega í aðdraganda hrunsins er það bara til þess að vekja athygli á sér. Líkt og ég er að gera núna. Allt sem miður fer er auðvitað þessum ösnum að kenna sem ekki geta skrifað almennileg blogg, eða þóst hafa gríðarlegt vit á fjármálum.

Önnur leið er líka til og hún er að skrifa lítið sem ekkert um hrunið en einbeita sér að því að þykjast vera fyndinn. Ekki er örgrannt um að ég falli í þessa síðari katigóríu á stundum a.m.k. Rihöfundarbakteríuna má sjá úr flugvél, og þó er ég sé alls enginn rithöfundur og hafi aldrei afrekað neitt á því sviði, el ég auðvitað með mér drauminn um að verða uppgötvaður þó seint sé. Ef blaðamenn skyldu glepjast til þess að skrifa eitthvað um mig, t.d. ef ég lenti fyrir bíl, þá yrði áreiðanlega sagt að ég væri, eða hefði verið, á áttræðisaldri. Eiginlega þyrfti ég að koma mér upp hirð sem biði málþola eftir snilldaryrðunum frá mér, en það verður víst seint.

Íslenskum bókum (bókum á íslensku) fjölgar stöðugt í Kyndlinum hjá mér. Nú eru þær komnar svolítið á annað hundraðið. Flestar eru þær heldur ómerkilegar en í gær rakst ég á bókina Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson og rafútgáfan af honum kostar 12,83 dollara. Ekki keypti ég hann en fékk mér sýnishorn og er búinn að lesa það.  Það er bara fáeinar blaðsíður og fjallar um þokuna, Kötu kórstjóra og útrásarvíkinginn gamla, sem fluttur er aftur til þorpsins.

Þegar ég er í stuði, skrifa ég næstum jafnhratt á tölvuskjáinn og ég hugsa. Tvær ástæður eru fyrir því. Í fyrsta lagi lærði ég fingrasetningu þegar ég var í Samvinnuskólanum fyrir tvítugt, svo bókstafirnir eiga sér næstum samastað í fingrunum, og svo hugsa ég alltaf því hægar sem ég eldist meir. A.m.k. finnst mér það. Og það sem mér finnst hlýtur að vera rétt. Yfirlestur og leiðréttingar verða síðan að fylgja, svo þetta verði frambærilegt.

Nú hef ég tekið upp nýjan sið, en það er að setja á hverjum morgni eitthvað inn á fésbókarræfilinn. Áðan setti ég klausuna hér á undan þar. Við hana má ýmsu bæta og kannski geri ég það einhverntíma. Af því að ég vandaði mig svolítið við hana skrifaði ég hana hér fyrst og flutti hana svo á bókarskræðuna með „copy, paste“. Það er eiginlega það eina sem ég kann af þessu nýmóðins tölvufiffi. Þegar ég vanda mig svona við skriftir finnst mér ekki hægt að láta bloggið mitt verða afskipt og njóta þess ekki. Annars er blogg að verða með öllu úrelt, þó ekki sé það nema rétt komið á fermingaraldurinn. Sjálfur er ég aðeins eldri.

Sennilega er þetta með dagleg skrif á fésbókina ekkert sérlega góð hugmynd. Ætli ég verði bara ekki á endanum eins og aðrir sem það gera. Ekki dettur mér í hug að ég verði betri. Sumir fésbókarvinir mínir virðast alltaf gera þetta. Blogga kannski þar að auki. Stundum eru innleggin þeirra bara einhver „læk eða séringar“ sem ég kann eiginlega lítið á, en held að séu bara eitt einasta klikk. Þar að auki eru það einkum hreyfimyndir sem „séraðar“ eru og ég kann lítið á. Leiðist að þær fara oftast sjálfkrafa af stað, því ég er sjaldnast með hljóðið á. Þar að auki eru þær kannski ekkert fyndnar þegar maður horfir á þær í tuttugasta skipti.

Er það virkilega svo að Bjarni Ben. vilji semja við hrægammana svokölluðu en SDG fara í stríð við þá, og um það snúist harðasta deilan milli ríkisstjórnarflokkanna þessa dagana? Ekki er annað að skilja á grein sem birtist í Kjarnanum um daginn. Á margan hátt er nefnilega Kjarninn sá netmiðill sem mest mark er takandi á.

Einu sinni bloggaði ég daglega. Rembdist þá við að skrifa allan liðlangan daginn (minnir mig). Stundum voru bloggin þá stutt eða löng eftir atvikum. Aldrei þó óralöng, því ég sendi ekki frá mér hvaða vitleysu sem var. Nú er ég hættur þessu og er að hugsa um að láta fésbókina njóta snilldarinnar. Verst að ég get ekki stillt mig um að láta klausurnar líka í bloggið. Eiginlega er bloggið bara samansafn af athugasemdum  og veggskrifum. Kannski ég hætti birtingu á báðum stöðum með tímanum. Sjáum til.

IMG 0826Baðstaður.

IMG 0851Blokk í byggingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband