Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

1600 - "Ég keypti þetta í Hagkaupum"

Untitled Scanned 52Gamla myndin.
Veit ekki hver þetta er, en hatturinn er flottur.

Staðarnöfn og fyrirtækjanöfn valda oft ágreiningi. Taka má sem dæmi Bolungarvík. Þar má endalaust deila um hvort réttara sé að tala um einn bolung eða fleiri. Sjálfur er ég vanari Bolungarvík; (en kannski er þó til Bolungavík á Ströndum). Hagkaup er enn eitt ágreiningsefnið. Hvort er nafnið í eintölu eða fleirtölu. Stofnandi fyrirtækisins vildi hafa það í fleirtölu að ég held. Fyrir nokkrum árum virðist markaðsdeild fyrirtækisins hafa ákveðið að orðið væri eintöluorð. Sjálfum finnst mér fleirtalan eðlilegri. Munurinn sést vel á setningunum tveimur hér á eftir: „Ég keypti þetta í Hagkaupum“ eða „ég keypti þetta í Hagkaupi“.

Forsetningarnar sem staðarnöfn og bæjanöfn taka með sér (í eða á) eru svo alveg sérkapítuli og virðist engin regla vera þar á. Mér finnst að málvenja og álit íbúanna eigi að ráða. Þannig sé rétt að segja að hlutir gerist annaðhvort á Selfossi eða í Hveragerði.

Horfði um daginn á endursýningu RUV á Silfri Egils. Allir sem við sögu komu í fyrsta kafla þáttarins (þeim pólitíska) þóttust hafa mikið vit á hagfræði og öllu sem hana snertir. Því miður hafði Egill enga stjórn á þeim og hefur líklega ekki valið réttu þátttakendurna því hver talaði upp í annan og þeir virtust keppast um að vera sem illskiljanlegastir. Það er reyndar venjan þegar talið berst að Hruninu; allir þykjast vita nákvæmlega hvað hefði átt að gera og hvenær og sömuleiðis hvað beri að gera næst og það sem allra fyrst. Sennilega er ég eini maðurinn sem er í miklum vafa um hverjum beri helst að trúa.

Á fréttasíðu RUV er sagt frá því að illa ortir dægurlagatextar geti haft áhrif á heilsuna; valdið útbrotum og vöðvabólgu. Að vísu er fréttin skrifuð þannig að fréttastofan kennir öðrum um að hafa þessa skoðun. Það er samt engin afsökun. Mér finnst þetta arfavitlaust og ábyrgðarhluti af RUV að taka að sér að dreifa annarri eins vitleysu.

IMG 7823Kringlumýrarbraut.


1599 - Palli Magg

Untitled Scanned 35Gamla myndin.
Þetta gæti verið Guðbjörg í Strympu.

Les yfirleitt aldrei Reykjavíkurbréf en hefur skilist að þar sé yfirleitt um að ræða einskonar superleiðara og oftast skrifuð af ritstjóra Morgunblaðsins. Gaman væri samt að sjá bréfið sem Palli Magg reiddist svona mikið útaf. Já það er óhætt að segja að hann hafi hjólað í Davíð og gæti átt eftir að sjá eftir því. Þó ég bloggi enn á Moggablogginu vegna þess að það er svo þægilegt er ekki þar með sagt að ég sé yfirleitt sammála Davíð; hann er óttalegur orðhákur og oft leiðinlega persónulegur. Öfgafull og yfirgangsöm framkoma hans er greinilega af líkum toga og hann virðist komast upp með næstum allt. Viðhlæjendur hans eru ótrúlega margir.

Get ekki séð að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefði flutt sína frelsunartillögu vegna Geirs Haarde nema hann hafi verði búinn að ganga úr skugga um að hún yrði samþykkt. Það skýrir líka hve uppsigað sumum stjórnarþingmönnum er við þá sem þeim finnst hafa hlaupist undan merkjum. Ögmundur hefur ákveðið að ganga fram fyrir skjöldu og tilkynna um sína pólitísku hugarfarsbreytingu. Huglaus er hann ekki. Þessi tillaga hefur ekkert með mannréttindi eða réttlæti að gera en þeim mun meira um þöggun og mútur. Fróðlegt getur orðið að vita hver endalok hennar verða.

Sagt er að allir fái sína tímalínu á fésbók hvort sem þeim líkar betur eða verr. Einhverjir eru óánægðir. Mér finnst fésbókin fyrst og fremst ruglandi. Ágætur samskiptavettvangur samt ef menn vilja nota hana þannig eða eyða tímanum í að læra á hana. Sumir eru öllum stundum þar en aðrir kíkja örsjaldan og sumir aldrei.

Það er vel skiljanleg afstaða að vera alveg sama þó aðrir geti komist að næstum öllu um mann sjálfan ef þeir kæra sig um. Sumu vill fólk þó ekki deila með hverjum sem er. Þá ætti það ekki að hlaupa með það á netið eða leyfa öðrum það. Netföngin eyðileggjast að vísu smám saman ef Internetsalinn stendur sig ekki í stykkinu. Líka er alltaf hætta á að það fari í ruslið sem í rauninni ætti ekki að fara þangað. Samt eru það margir sem þurfa á netinu að halda og á margan hátt er maður hálfhandalaus ef það klikkar. Svona líkt og rafmagnsleysið var áður fyrr.

Rafpóstur er að mestu ónýtur vegna ruslpósts og auglýsinga. Fésbókin hefur að mörgu leyti komið í staðinn hjá afar mörgum en ekki er öruggur friður þar fyrir auglýsingum. Þær eru langt komnar með að eyðileggja möguleika internetsins en halda því samt uppi í raun og veru. Mótsögn? Já, vissulega en svona er þetta.

Áhersla sú sem sumir leggja á landsbyggðina gegn höfuðborgarsvæðinu er dálítið misheppnuð. Það eru kostir og gallar við hvorttveggja. Víða hefur þróunin orðið sú að borgirnar hafa þanist út á kostnað sveitanna. Opinberir aðilar eiga ekki að hafa það að meginmarkmiði að hafa áhrif á þá þróun. Auðvitað þarf samt að skipta sér af henni. Án þess getur hún farið úr böndunum. Atvinnutækifæri ætti aldrei að þurfa að skapa. Best væri auðvitað að engir þyrftu að vinna ef þeir kæra sig ekki um það.

IMG 7820Borgarspítalinn.


1598 - Kyndilmessa

Untitled Scanned 27Gamla myndin.
Svanur Kristinsson frá Svarfhóli.

Já, skákdagurinn var í gær 26. janúar vegna þess að Friðrik Ólafsson á afmæli þann dag. Fékk boð um að mæta á Toyota-skákmótið en var annað að gera og komst ekki þó stutt væri að fara. Gott ef það var ekki einhver snjór þegar Toyotamótið var haldið í fyrra. Veit ekki hvort ennþá eru einhverjir dagar ófráteknir fyrir eitthvað sérstakt. Bóndadagurinn er víst liðinn en konudagurinn kannski ekki. Man ekki eftir þessu öllu saman. Mæðra- feðra- systkina- frænda- og frænku-dagurinn eru eflaust líka til, fyrir nú utan öll samtökin sem hafa helgað sér einhvern ákveðinn dag. Skákin er að byrja á þessu núna og ekkert nema gott um það að segja. Man þó ekki hvenær fótboltadagurinn er.

Veðurvísur eru til um Pálsmessu og Kyndilmessu og ég held að ég kunni þær báðar. Pálsmessa tel ég að sé liðin og hafi verið 25. janúar en Kyndilmessa er líklega 2. febrúar n.k. Vísurnar eru svona:

Ef heiðskírt er og himinn klár
á helgri Pálus messu.
Mun þá verða mjög gott ár
mark skal taka á þessu.

Og hin:

Ef í heiði sólin sest (eða sést)
á sjálfri Kyndilmessu.
Snjóa vænta máttu mest
maður upp frá þessu.

Ekki held ég að mikið sé að marka þetta og vel getur verið að vísurnar séu vitlausar hjá mér. Hæfileg forneskja ætti ekki að skaða. Vísur þessar þekkja margir.

Búast má við öflugum flokkadráttum um Landsdómsmál Geirs Hilmars Haarde. Afgreiðsla þess máls getur vel orðið ríkisstjórninni skeinuhættara en flest sem hingað til hefur á daga hennar drifið. Ég hef samt alltaf verið þeirrar skoðunar að hún myndi ekki sitja út kjörtímabilið. Hvort alþingiskosningar verða nú í vor (auk forsetakosninganna) veit ég auðvitað ekki frekar en aðrir. Hugsanlegt er það samt.

Sagt er frá því á mbl.is að sannað sé að Eiríkur rauði hafi getað bruggað mjöð á Grænlandi því fundist hafi leifar af korni í fjóshaug frá hans tíð; síðan segir orðrétt á mbl.is:

Ætlunin er að flytja um 300 kíló af fjóshaugnum til Danmerkur til frekari rannsókna.

Þó það nú væri. Sennilega er þetta með merkustu fjóshaugum í heimi.

IMG 7816Trjágróður.


1597 - Hugsandi.is

Untitled Scanned 26Gamla myndin.
Skemmtileg mynd. Þetta er Bjössi og ég veit ekki alveg hver.

Ekki hefur verið mikill áhugi á að ræða hér á mínu bloggi um Björn Sv. Björnsson og stríðið. Á margan hátt er stríðið samt í tísku eins og Eiríkur Jónsson segir. Las á sínum tíma bókina „Býr Íslendingur hér?“ Það var Garðar Sverrisson ef ég man rétt sem skrifaði þá bók og hún fjallar um fangabúðarvist Leifs Möller á stríðsárunum. Það var Ólafur nokkur Pétursson sem kom honum saklausum í hendur nasista. Einnig minnist ég þess að hafa lesið bók eftir mann sem þá var forsætisráðherra Noregs (kannski Trygve Bratteli) og hafði verið í fangabúðum nasista í stríðinu. Grini-fangelsið norska hefur líka verið talsvert skrifað um.

Minntist um daginn á vefritið hugsandi.is. Íris Ellenberger skrifaði grein í það blað í mars 2011 um tímaritið Sögu þar sem fjallað er um góða sagnfræði. Þar segir m.a.; (með leyfi forseta).

Hvað einkennir góða sagnfræði? Það er spurning sem 21 fræðimaður hefur reynt að svara í nýjasta hefti Sögu, tímarits Sögufélags. Þar fjallar hver fræðimaður um eitt sagnfræðirit og útlistar hvers vegna viðkomandi skrif teljist góð sagnfræði. Ef marka má þetta heftið þá er það aðallega þrennt sem einkennir góða sagnfræði: stíll, aðferð og erindi rannsóknarinnar við sagnfræðinginn.

Og ennfremur:

Hér verður sérstaklega staldrað við ummæli tveggja fræðimanna, þeirra Jóns Ólafssonar og Sigrúnar Sigurðardóttur sem, að því er virðist, ein telja það sagnfræðiriti til tekna að það hafi bein áhrif á líf fólks og hæfileika þess til að takast á við bæði fortíð og samtíð. Í því samhengi er áhugavert til þess að hugsa að hvorki Jón né Sigrún hafa sagnfræði sem aðalfræðigrein um þessar mundir. Það má nefnilega stundum greina ákveðna tregðu meðal sagnfræðinga til að láta sig málefni samtímans varða, ekki aðeins í rannsóknum sínum heldur einnig almenna tregðu til að taka þátt í samfélagsumræðu.

Þessu er ég sammála og finnst mjög skorta á að sagnfræðingar leggi sitt til almennrar umræðu. Mér dettur samt í hug að Guðni Th. Jóhannesson sést alloft í sjónvarpinu og bæði hann og aðrir fást við að skrifa bækur. Guðjón Friðriksson hefur og verið nokkuð ötull við að ræða við Egil Helgason í bókmenntaþættinum Kiljunni.

Annars virðist þetta vefrit vera á fallanda fæti eins og mörg önnur. Ég hef samt talsverðan áhuga á að lesa um sagnfræði og man ekki betur en ég hafi fengið þetta rit (tímaritið Sögu) lánað á bókasafninu á sínum tíma.

IMG 7811Snjókoma.


1596 - Glærumálið mikla o.fl.

Untitled Scanned 2611Gamla myndin.
Þetta er líklega Hanna á Eiðhúsum.

Ég verð bara að segja það. Mér finnst stóra glærumálið hálfasnalegt. Að heilt háskólasamfélag skuli geta verið undirlagt svona vitleysu svona lengi er bara einum of mikið. Hugsanlegt er að einhverjir kannist ekki við þetta mál, en það er samt ótrúlegt. Til öryggis vil ég taka fram að í sem allra einfaldastri mynd fjallar það um glærur sem notaðar voru við kennslu í Háskóla Íslands og félagsskapinn Vantrú sem kvartaði undan efni glæranna.

Harpa Hreinsdóttir hefur nú hafið skrif á greinaflokki um málið. Þessar greinar eru í lengra lagi og svarhalarnir ógnarlangir. Vissulega kemur margt athyglisvert þar fram en fyrr má nú rota en dauðrota. Að kynna sér allt sem skrifað hefur verið um þetta merkilega mál er áreiðanlega á einskis manns færi. Þó held ég að Harpa hafi farið langt með það. Greinar hennar þrjár (eða fleiri) um þetta mál sem þegar eru komnar hef ég lesið og er samt ekki sammála sjónarmiðum hennar, en það yrði alltof langt mál að fara nánar út í það hér.  

Mér varð það á fyrir nokkru að samþykkja að Óli Gneisti Sóleyjarson notaði bækur sem ég hafði ásamt börnum mínum komið fyrir á vef Netútgáfunnar og kæmi þeim fyrir á rafbókavef sínum. Þetta var áður en ég vissi nokkuð um glærumálið mikla. Já, svona illa upplýstur var ég þá. Harpa Hreinsdóttir, sem stundum eða oftast nær, les bloggið mitt, m.a. vegna þess að hún er gift systursyni mínum, spurði mig með þjósti nokkru, í athugasemd á blogginu mínu, hvað það ætti að þýða að veita manni sem honum slíkt leyfi. Mér fannst hún með þessu sýna nokkra fordóma og fara með þessu frekar í manninn en boltann eins og stundum er sagt. Um þetta hef ég ekki meira að segja og finnst ég nú þegar hafa skrifað alltof mikið um málið.

Um daginn fjallaði ég eitthvað um dægurlagið um Bjössa á mjólkurbílnum sem geysivinsælt var fyrir löngu. Auðvitað kom svo í ljós að lagið er erlent þó textinn sé íslenskur. Öðru lagi man ég líka eftir þó dægurlög séu mér yfirleitt ekki ofarlega í huga. Textinn við það lag byrjar einhvern vegin svona: „Ég er glöð og ég er góð, því Jón er kominn heim.“ Kannski er lagið líka erlent en ég man eftir því að textinn þótti mér nokkuð góður þegar ég heyrði hann fyrst. Nú orðið finnst mér hann samt frámunanlega lélegur og fordómafullur. Ekki einu sinni fyndinn. Kannski hef ég breyst og kannski hafa viðmiðin öll í þjóðfélaginu breyst. Hvað veit ég.

Eva Hauksdóttir skrifar oft ágæta pistla á netið. Hvet menn til að kynna sér það sem hún skrifar. Ekki hef ég þó í hyggju að endursegja efni einhverra þeirra, en þeir eru yfirleitt góðir.

Auðvitað er mikið rætt um Landsdómsmálið manna á meðal. Í grunninn álít ég það mál vera enn eina tilraun stjórnarandstöðunnar til að koma höggi á ríkisstjórnina. Kannski á hún það skilið og kannski er þetta besta ráðið til slíks. Með þessu móti klofnar þingflokkur VG og ríkisstjórnarsamstarfið gæti verið í hættu. Kannski hafa Guðfríður Lilja, Atli Gíslason og Ögmundur Jónasson rétt fyrir sér með það að ákæran hafi í raun verið pólitísk; en af hverju er það fyrst að koma í ljós núna? Hefði ekki verið hægt að útkljá þetta mál fyrir löngu? Ég endurtek bara það sem ég hef áður sagt um þetta mál, að mér finnst málflutningur hins óánægða VG-fólks minna á prinsessustælana í ævintýrunum; „frekar engan en þann næstbesta“!!

IMG 7805Vöruhús.


1595 - ÓRG o.fl.

Untitled Scanned 24Gamla myndin.
Lára Jóhannesdóttir frá Furubrekku.

Í gegnum Baldur Óskarsson hefur ÓRG gefið til kynna að til þess að hann taki örugglega mark á undirskriftunum til stuðnings framboði sínu þurfi þær að verða fjörutíu þúsund eða svo. Söfnunin fer hratt af stað og síðast þegar ég vissi voru undirskriftirnar komnar yfir sextán þúsund. Einhverjir hafa samt verið að gagnrýna þessa undirskriftasöfnun en það er bara orðin venja. Undirskriftasafnanir eru aldrei fullkomnar. Ekki er að efa að þeir sem skora á hann að gefa kost á sér muni kjósa hann ef kosið verður. Endanlega ákvörðun um framboð mun ÓRG þó líklega ekki taka fyrr en mjög skömmu áður en framboðsfrestur rennur út. Með því gerir hann hugsanlegum mótframbjóðendum eins erfitt fyrir og hann getur.

Einhverjir frambjóðendur munu eflaust koma fram. Mikilvægast fyrir þá er að taka afstöðu til hvernig þeir muni umgangast stjórnarskrána. Kosið verður samkvæmt þeirri gömlu og e.t.v. tekst Alþingi og öðrum sem ætla sér það að koma í veg fyrir að ný verði samþykkt. Afturhaldsöflum landsins mun að öllum líkindum takast að koma í veg fyrir aðild að ESB að þessu sinni og jafnvel að komast í stjórn að loknum næstu kosningum, sem hugsanlega verða næsta haust. Við þessu er lítið að gera nema reyna að stuðla að því að sem flestir sjái ljósið. En hvar er ljósið og hvernig er það? Það er spurningin sem allt veltur á.

Líklega er „Landinn“ eini sjónvarpsþátturinn sem gerir út á skiptinguna „Reykjavíkursvæðið gegn Landsbyggðinni“. Engu að síður er þetta ágætur þáttur þó hann henti eflaust betur þeim sem eldri eru en þeim yngri, ef útí þá skiptingu er einnig farið. Í síðasta þætti heyrðist mér minnst á Bjössa á mjólkurbilnum. Man vel eftir þegar þetta lag kom fyrst fram og vinsældum þess sem vel mátti á þeim tíma líkja við „Litlu fluguna“, eftir Sigfús Halldórsson. Hlustaði líka á textann og þótti fáránlegt að tala um að stíga bensínið í botn í fyrsta gíri. Minnir að það hafi verið umtalað að þetta orðalag (fyrsti gír í stað þriðja) væri haft svona af öryggisástæðum!!  

Eitt af þeim vefritum sem ég hef dálítið kynnt mér undanfarið er „hugsandi.is“. Þar virðast einkum sagnfræðingar ráða ríkjum og kannski fornleifafræðingar líka. Yfirlætislegt er nafnið að vísu en greinarnar ekki slæmar. Þar er nokkuð safn greina en heldur virðist vindurinn vera að fara úr seglum ritsins því svo virðist sem greinar frá síðari hluta ársins 2011 séu aðeins 2 og engin komin ennþá frá 2012. Svo er að sjá að áður (frá október 2005) hafi verið algengt að fimm greinar eða svo birtust í ritinu í hverjum mánuði og jafnvel fleiri.

IMG 7804Veðurbarinn jeppi.


1594 - Barnabarn fyrsta forsetans

Untitled Scanned 19Gamla myndin.
Veit ekki hver þetta eru. En myndin er örugglega tekin á Vegamótum.

Var að enda við að lesa grein Teits Atlasonar um ræðu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur á Alþingi. Eins og venjulega er ég sammála síðasta ræðumanni. Hef samt heyrt áður minnst á ræðu Guðfríðar Lilju. Hlustaði líka áðan á seinni hluta stjórnmálaumræðna í Silfri Egils og fannst Þráinn og Birgitta standa sig mun betur en Guðfríður Lilja og Ragnheiður Elín. Inntakið í því sem Guðfríður Lilja sagði þar fannst mér vera: „Frekar engan en þann næstbesta.“ Það grunar mig að hafi einnig verið inntakið í Alþingisræðu hennar og á vissan hátt má segja að það sé líka inntakið í gagnrýni Teits Atlasonar.

Stjórnarskrármálið verður mál málanna bráðlega. Man vel eftir kosningunum til stjórnlagaþingsins þar sem frambjóðendur til 25 sæta voru milli 4 og 5 hundruð. Mest hissa varð ég á því að Jónas Kristjánsson (með allan sinn bloggslátt og orðkyngi) skyldi ekki ná kosningu. Víst voru kosningarnar flóknar og einkennilegar. Niðurstaða fékkst þó. Forysta Sjálfstæðisflokksins var lengi á báðum áttum um hvort styðja bæri kosningarnar eða hvetja fólk frá þátttöku. Lagðist þó gegn þeim þegar á leið og hafði það áhrif á kjörsóknina.

Að hæstiréttur skyldi síðan reyna að pota í framkvæmdina var bara eðlilegt. Alþingi tók með vissum hætti fram fyrir hendurnar á honum og stjórnarskrárdrög voru smíðuð og samþykkt af öllum í stjórnlagaráðinu. Alþingi er nú búið að sitja á þessu máli alllengi og þar eru menn hræddir. Jafnvel hræddari en Geir Hilmar Haarde, sem ætti alls ekki að sætta sig við þau músarholusjónarmið sem stjórna gerðum stjórnarandstöðunnar á þingi núna. Betra væri fyrir hann að taka slaginn úr því sem komið er.

Kemst því miður ekki yfir að lesa allar þær bækur sem ég vildi. Bókin um gömlu konuna heitu sem Hallgrímur Helgason skrifaði um er kannski sú bók sem mig langar mest til að lesa af þeim bókum sem nýlega eru út komnar. Það er vegna þess að nú get ég loksins staðsett konuna sem varð kveikjan að sögunni.

Sveinn Björnsson fyrsti forseti Íslands átti son sem Björn hét. Hann var foringi í SS-sveitum Hitlers. Þegar hann kom hingað til lands eftir styrjöldina var honum illa tekið og hraktist til Argentínu. Gekk illa þar og kom aftur til Íslands. Fékkst ásamt fleiru við að selja Encyclopediu Britannicu. Seldi mér m.a. það rit. Lést 1998 og lifði síðustu árin í Borgarnesi.

Dóttir hans var Brynhildur Georgía Björnsson. Hún lést árið 2008 og á ævi hennar byggir Hallgrímur Helgason bók sína. Frá ævi Brynhildar er sagt í bókinni „Ellefu líf“ sem út kom árið 1983. Kannski er eitthvað missagt hjá mér í þessari stuttu samantekt en það verður þá vonandi leiðrétt af einhverjum.

IMG 7802Snjór í skál.


1593 - Siðferðisbrestur

Untitled Scanned 25Gamla myndin.
Þetta hlýtur að vera Bjössi.

Einhverjir segja að siðferðisbrestur hafi orðið á alþingi s.l föstudag. (Jónas). Aðrir segja að ósanngjarnt sé gagnvart Geir Haarde að halda málaferlunum áfram. Það finnst mér ekki. Sá lokaði klúbbur sem alþingismenn vilja vera er í mínum augum að skjóta sér á bakvið Geir. Ögmundur, Atli og Guðfríður Lilja valda mér vonbrigðum. Ef ekki kemur til einhvers konar sannleiksnefnd, Landsdómur eða málaferli þar sem hægt er að hreinsa andrúmsloftið eru alþingismenn endanlega búnir að missa allt traust.

Hvar væru íslenskir fjölmiðlar staddir ef ekki væru íþróttirnar? Það væri hægt að leggja þá niður. Jú, það eru þónokkrir sem horfa á fréttirnar í sjónvarpinu, ef þeir hafa ekkert annað að gera. Margir kveikja líka á útvarpinu í bílnum ef þeim leiðist. Að öðru leyti er það boltinn sem blívur. (Og fésbókin.) Ég verð ekki var við neinn verulegan áhuga fyrir því sem um er að vera nema um boltaleik sé að ræða. Hvort er mikilvægara í augum fjöldans hvort ríkisstjórnin lifir eða hvort handboltalandsliðið kemst eitthvað áfram á Evrópumeistaramótinu? Greinilega er landsliðið merkilegra en pólitíkin. Nema kannski í augum fáeinna sérvitringa.

„Egill væri martröð geðlækna. Þegar óhemju sjálfhverfur maður eins og Gunnar á Hlíðarenda og kona með alvarlega hambrigða-persónuleikaröskun, eins og Hallgerður langbrók, hittast - þá er fjandinn laus. Þetta segir Óttar Guðmundsson geðlæknir. Hann hefur rannsakað geðveiki og persónuleikaraskanir í Íslendingasögunum.“

Þessa klausu fann ég einhvers staðar á Internetinu. Man ekki hvar. Vonandi er ég ekki að brjóta einhver höfundarréttarlög með að birta hana. Skyldi Óttari hafa dottið í hug að höfundar Íslendingasagnanna væru pínulítið geðveikir sjálfir? Eða er höfundur þessarar klausu það kannski? Geðveiki er alveg geðveik og mikið tískuorð; meiningarlítið hjá flestum þó. Sko, þarna notaði ég semikommu en kann þó ekkert á slíkt fyrirbrigði. Er það einskonar hálfpunktur? Greinarmerkjafræði er mér að mestu lokuð bók en í stafsetningu þykist ég nokkuð góður.

Fésbókarfólkið (altsvo þeir sem sífellt eru að breyta henni) keppist við að gera sem flesta háða sér og tekst það nokkuð vel. Enda er fésbókin á margan hátt ágætisforrit – eða app eins og sumir mundu segja. Hugsanlega er samt hægt að misnota hana (og verður/er líklega gert) En hvað með það? Er það ekki bara í góðu lagi? Er ekki allt misnotað sem hægt er? Hef samt vissar áhyggjur af þeim sem eru svo einangraðir (af ýmsum ástæðum) að jafnvel fésbókin nær ekki til þeirra.

Óhóflegt sjálfsálit; já, flestir eru með það. Það þýðir ekki annað. Eigi að bíða eftir því að aðrir fái sama álit þurfa flestir að bíða ansi lengi. Spurningin er meira hvernig farið er með þetta óhóflega sjálfsálit. Allflestir bloggarar (svo ekki sé nú talað um alþingismenn) virðast halda að þeir viti alla hluti betur en aðrir. Þessvegna hafa þeir hátt. Þeir lágstemmdari hafa kannski alveg eins mikið sjálfsálit en fara öðruvísi með það. Sumir þegja bara oftastnær. Kannski er það best.

ÓRG er einn af þeim sem hafa óhóflegt sjálfsálit. Ef hann bíður svolítið koma einhverjir aðrir og mæla það upp í honum. Hann brýtur líka allar venjur sem skapast hafa um forsetaembættið með því að tilkynna ekki með afgerandi hætti hvort hann ætli að bjóða sig fram einu sinni enn eða ekki. Með þessu er hann einkum að gera öðrum hugsanlegum frambjóðendum erfitt fyrir. Vona bara að einhver málsmetandi bjóði sig fram á móti honum svo umræða verði um embættið.

IMG 3179Sólarlag í Kópavogi.


1592 - Gurrí og Geir

Untitled Scanned 23Gamla myndin.
Þetta er bensínskúrinn á Vegamótum. Greinilega Pési við olíudæluna.

Nú vill Jens Guð safna fyrir Gurrí á Skaganum. Gurrí er ekki eini fjölmiðlungurinn sem verður fyrir búsifjum af þessu tagi. En alveg eins og fólkið í Vesturberginu sem fór á hausinn við að elda veislumat á hverjum degi, hefði átt að gera, er nauðsynlegt að halda vel utanum þessa litlu peninga sem maður á eða hefur aðgang að.

Man vel eftir Gurrí meðan hún var moggabloggandi, en hef minna fylgst með henni eftir að hún hætti þar.

Málaferli ættu að vera að mestu óþörf  í fullkomnu þjóðfélagi. Þau aukast þó sífellt í henni Ameríku og litla Ísland langar svo að vera eins. Að því leyti miðar nokkuð í áttina.

Allir þeir peningar sem safnast með þessum hætti bæði hjá henni og öðrum fara beint í vasa óverðugra lögfræðinga sem komið hafa auga á matarkistuna þarna. Bloggarar eru líka farir að verða fyrir barðinu á þessum afbrigðileika íslenskrar dómgæslu.

Það ósanngjarna er að hvað meiðyrðalöggjöfin er gölluð. Útrásarlýður getur áhyggjulaust sótt sér peninga í formi sekta í safnanir sem þessa. Vinnuveitandi Gurríar ætti auðvitað að borga þessa upphæð. Þetta er hluti þeirrar kúgunar og þöggunar sem ríkjandi er hér í þjóðfélaginu. Annars ætti að vera nóg eftir af ormagullinu í fleti Geirs Haarde og ef hann notar það ekki væri það vel til þess fallið að borga sektina Gurríar.

Fór á Bókasafnið  í gær en tók ekki mikið af bókum þar. Það er annars svo mikið af bókum á kyndlinum mínum að ég þarf ekki mjög á því að halda að fá bækur á bókasafninu en vil ekki láta viðskipti mín við það falla alveg niður.

Annars er víst best að fara að fylgjast með Geirsmálinu í sjónvarpi allra landsmanna. Finnst rökin hjá Ögmundi fremur gloppótt. Vissulega er líklegt að fleiri séu sekir um svipað athæfi og Geir. Það finnst mér samt ekki eigi að hafa áhrif á málshöfðunina á hendur honum. Það er yfirleitt ekki talið böl bæta að benda á annað verra. (Eða jafnvont.)  

IMG 3085Lífið getur verið ánægjulegt þegar maður er af réttum lit og þ.h.


1591 - Sótt að Internetinu

Untitled Scanned 07Gamla myndin.
Hér er ég sjálfur með Pésa í fanginu, sýnist mér.

Björn Valur Gíslason boðaði mikil pólitísk tíðindi þegar hann kom fram í Silfri Egils um síðustu helgi. Misskilningur virðist það vera. Líklegt er þó að tillagan um að falla frá málssókninni á hendur Geir Haarde verði umdeild mjög. Ömmi greyið virðist ætla að fara illa útúr þessu öllu.

Þegar talið berst að trúmálum eru margir sem segja eitthvað á þessa leið: „Ég hef svosem lesið biblíuna en........“. Ég hef aftur á móti aldrei lesið biblíuna og býst ekki við að ég eigi eftir að gera það. Það sem ég hef lesið um möguleikana á viti bornu lífi í alheiminum, cosmológíu eða alheimsfræði almennt og t.d. Darwinisma eða þróunarkenninguna finnst mér mun athyglisverðara en trúmál. Mögulega er samt tenging þarna á milli þó trú á t.d. framhaldslíf þurfi enganvegin að koma þessu máli við. Astralplanið er ekki nein staðreynd fyrir mér.

Tölvutjáning er greinilega mjög vinsæl. Bloggið er það ekki lengur. Internetið gæti sem hægast verið í hættu. Ef þeir sem veita þjónustu á Internetinu verða gerðir ábyrgir fyrir því sem sagt er eða gert þar er hætt við að sneyðist um frelsi þess litla og smáa og völd peninganna aukist enn. Internetið er e.t.v. síðasta vígið í þessu sambandi og getur hæglega orðið pólitíkinni að bráð.

IMG 3057Tröppur í vita.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband