Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012
18.1.2012 | 00:34
1590 - Lífið er salt(fiskur)
Gamla myndin.
Hér eru systkinin í Holti Anna og Þorgeir sitjandi á stéttinni fyrir framan búðina á Vegamótum.
Nú er iðnaðarsaltsumræðan að taka við af brjóstapúðunum. Þó það sé auðvitað ekki gott, að setja salt sem hugsanlega er illa hreinsað og jafnvel líka illa gengið um, í matinn sem við étum (því við erum auðvitað einkum það sem við étum), get ég ekki að því gert að mér finnst tal manna nokkuð öfgakennt. Þess vegna ætla ég engu við umræðuna að bæta.
Það er líka svo margt annað sem er áhugaverðara. Ef bara má ræða um stjórnmál eða fréttir dagsins er það líklega ennþá afdrifaríkara að Ömmi skuli ætla að styðja Geir Haarde. Hugsanlega er hann enn á ný á leið útúr stjórninni. (Þ.e.a.s. Ömmi en ekki Geir.) Ég á samt ekki von á að stjórnin springi í þessari lotu.
Já, það er talsvert skrítið að búa í Kópavogi. Gatnakerfið og skipulag allt það furðulegasta sem ég hef kynnst. Bæjarstjórnin virðist skrýtin líka. Held að fólkið sé samt ágætt.
Auðvitað vil ég helst hvorki ræða um nýjustu fréttir eða stjórnmálaástandið þó slík umræða sem afar vinsæl meðal bloggara. Margt er mun áhugaverðara en sú vitleysa öll sömul og þarf þá ekki að seilast í handboltann eða fótboltann þó margir fjasi spekingslega mjög um þau mál.
Man t.d. eftir því að einu sinni þegar ég var staddur í skólanum í Hveragerði (eða á skólatúninu) að við sáum rútu koma fullskipaða fólki og stefna uppað Laugaskarði. Brekkan fyrir ofan brúna var vel sýnileg þaðan sem við vorum en rútan sást aldrei komast þangað. (Athuga ber að bílar voru sárasjaldgæfir á þessum tíma.) Við fórum því að athuga með hana og sáum þá að hún hafði brunað inn í garð, rétt við steinvegginn og næstum upp að dyrum í Fagrahvammi. Bílstjórinn sagði að bremsurnar hefðu ekki virkað og í stað þess að reyna að beygja inn á brúna hafi hann tekið það ráð að halda bara beint af augum. Gott ef Emelía kom ekki út að taka á móti gestunum. Þetta held ég sé það næsta sem ég komst því að sjá umferðarslys í gamla Hveragerði. Jú, og svo þegar Unnsteinn á Reykjum og Hriflu-Jónas rákust saman á bílunum sínum rétt við hótelið. Það var eftirminnilegt.
Nú er svo komið að ég er í vandræðum með nýjar myndir. Veðrið er svo leiðinlegt um þessar mundir og hálkan svo mikil að ég nenni ekki að fara í myndaleiðangur. Þess vegna ætla ég að birta fáeinar myndir sem ég er kannski búinn að setja hér fyrr, en það verður bara að hafa það. Fyrst er það mynd utan af Álftanesi. Einhverjir kannast sjálfsagt við þennan grip.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.1.2012 | 14:53
1589 - Martin Gardner
Gamla myndin.
Hér sést verkstæðið (og íbúðarhúsið) í Holti betur og Shell-bensínskúrinn. Myndin er greinilega tekin af hlaðinu á Vegamótum eins og síðasta mynd.
Á sínum tíma tók ég þá ákvörðun að íslenskan hindraði mig í mörgu. Ég ákvað því að læra ensku sæmilega vel og fór að lesa enskar bækur. Pældi líka í gegnum Time Magazine og gerðist áskrifandi að því. Scientific American reyndi ég ennfremur að lesa en margar greinarnar þar átti ég afar erfitt með að skilja enda er ég enginn vísindamaður. Einn var þó sá maður sem var með fastan dálk í því ágæta riti og skrifaði oftast um skiljanlega hluti. Eða réttara sagt um hluti sem ég skildi. Það var Martin Gardner. Hann skrifaði um leiki og allskyns furðulega hluti í blaðið og það var undantekningalaust það fyrsta sem ég skoðaði og reyndi að lesa í hverju því hefti af Scientific American sem ég kom höndum yfir.
Martin Gardner fæddist árið 1914 og dó árið 2010. Náði því semsagt ekki alveg að verða hundrað ára en næstum því. Gardner gerði margt fleira um ævina en að skrifa í Scientific American. Hann var t.d. nokkuð þekktur sem töframaður og hafði alla ævi áhuga fyrir slíku. Hann skrifaði mikið um stærðfræðileg efni, var ágætur heimspekingur og barðist gegn gervivísindum allskonar með greinum sínum nú seinni árin í Sceptical Inquirer.
Nú er ég að lesa litla bók sem er ítarlegt og gott viðtal við Martin Gardner ásamt grein um hann. Þessi bók var gefin út árið 2004, minnir mig. Kannski var Gardner þrátt fyrir skrif sín fyrst og fremst blaðamaður og rithöfundur. Skrifaði að ég held einar 60 bækur á ævinni.
Þarna fór ég niður. En auðvelt var það ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2012 | 03:54
1588 - Jónas orðhengill (nú eða Eiður)
Næstu 16 gömlu myndir eða svo eru allar frá Vegamótum og líklega hefur Bjössi bróðir tekið þær allar. Sennilega eru þær teknar rétt eftir 1970. Þetta er hænsnahúsið í Holti hægra megin á myndinni. Ljósufjöll í baksýn, held ég.
Já, Jónas er orðhengill hinn mesti. Svo eru sumir sem skilja ekkert nema það sé sett í excel skjal. Góð kunnátta í excel-fræðum getur verið ágæt. Man ennþá hvað ég dáðist mikið að Víði þegar hann var að búa til excel-módelið fyrir útsendingarplanið uppi á Stöð-2. Orðhengilsháttur á borð við Jónasar Kristjánssonar verður líka leiðinlegur með tímanum. Sjálfur er ég eflaust ekki laus við orðhengilshátt heldur en ég kann betur við hann enda er ég svo vanur honum. Það sem hugsanlega er líkt með okkur Jónasi er að við getum ekki haldið okkur lengi við sama efnið. Auðvitað er hann samt reyndari og með miklu meiri þekkingu en ég.
Fyrir utan brjóstapúðana ber einna hæst umræðuna um Vaðlaheiðargöngin og útreikninga í því sambandi. Á sama hátt og Vegagerðin mokaði helst ekki á Hellisheiðinni á sínum tíma svo einhverjir notuðu Óseyrarbrúna óttast ég að viðhaldið á Víkurskarðinu verði í skötulíki ef nauðsylegt reynist að hækka hlutfall þeirra sem taka göngin fram yfir skarðið. Samt held ég að göngin verði byggð og það verði mest vegna kjördæmapotsins sem allir þekkja en láta oft eins og þeir viti ekki hvað er. Sennilega er það pot versti galli alþingismanna því margir þeirra eru alls ekki skyni skroppnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.1.2012 | 20:20
1587 - Eru konur húsdýr?
Gamla myndin.
Endur og svanir á Reykjavíkurtjörn.
Gæsalappagáta.
Ef menn lesa síðasta blogg frá mér mjög vandlega er ljóst að gæsalappirnar utan um keyra hratt og keyra hart eru bæði amerískar og íslenskar. Hvernig hefur það átt sér stað? Upplýst í næsta bloggi. Ef ég man. Í forbifarten má geta þess að gæsalappafræði er merkileg vísindagrein.
Ef ég miða við sjálfan mig þá er lítill gróði af því að gefa út bækur, því ég vil helst fá þær lánaðar á bókasafninu. Sumir kaupa samt bækur ómælt og láta eins og þeir viti ekki að bókasöfn séu til. Man eftir að hafa hlustað á lítinn hóp manna á einhverri ráðstefnu ræða fram og aftur um bækur, efni þeirra og verð, en það var eins og enginn hefði heyrt á bókasöfn minnst. Af hverju lét ég þá ekki ljós mitt skína. Veit það ekki en af einhverjum ástæðum þagði ég. Eru bókasöfn bara fyrir þá sem ekki hafa efni á að kaupa bækur nema í hreinum undantekningartilfellum? Ekki finnst mér það.
Mér finnst bókasöfn vera fyrir alla og að peningum sem í þau fara sé ekki vera illa varið. En hvort er þeim að hraka um þessar mundir eða ekki? Mér hefur fundist að í vaxandi mæli sé verið að gera þau krakkavæn. Sem er svosem ágætt en tilgangurinn er e.t.v. einkum sá að gera börnin að góðum bókakaupendum seinna meir!!
Var að enda við að lesa aðsenda grein á vísi.is eftir Smára McCarty um höfundarrétt og tjáningarfrelsi. Hann ræðir þar m.a. um Youtube.com, Wikipediu og ýmislegt fleira og segir m.a.
Ef hugmyndir STEF næðu fram að ganga þyrfti að ráða her af sérfræðingum til að fara yfir allar greinarnar á öllum málunum og tryggja að enginn gleymdi að geta heimilda eða notaði óvart höfundarvarið efni í leyfisleysi.
Einhverjir myndu segja þetta ofgert eða öfgakennt, en aðeins með svo róttækum aðgerðum gætu vefsetur verið örugg undir þessu fyrirkomulagi, sem nú er að dreifast um allan heim. Sjálfhverfa höfundarréttarsamtaka hefur náð nýjum hæðum að undanförnu, og nú eru þessir handhafar einokunarréttar á menningu okkar að heimta að tjáningarfrelsi allra verði fórnað í þágu þeirra sérhagsmuna. Slíkt ættum við ekki að taka í mál.
Að mínu mati er varhugavert að láta vefsetur sjá um að allt það efni sem dreift er sé samkvæmt höfundarlögum. Með því er verið að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum á þessu sviði ófært að starfa en áfram verið að færa sem mest völd til stórfyrirtækja. Erfiðara getur einnig orðið fyrir whistle-blowers að láta í sér heyra.
Eftirfandi grein skrifaði ég í janúar 1984 í Borgarblaðið:
Eru eiginkonur húsdýr?
Eitt er það ritverk íslenskt, sem út kemur árlega í mörgum og stórum bindum. Útgáfa þess frá 1984 kostar 10500 krónur. Allra Íslendinga eldri en 16 ára er getið í þessum bindum, hvorki meira né minna. Ekki er verk þetta oft til umræðu manna á meðal, þó vita vafalaust flestir að það er til. Hér á eftir verður fjallað lítillega um þessa merku bók.
Tæplega velkist nokkur í vafa um hvaða bók þetta er. Jú, auðvitað þjóðskráin, eða réttara sagt nafnnúmeraskrá þjóðskrárinnar.
Í þessu að ýmsu leyti ágæta ritverki, veður karlremban satt að segja uppi og ekki hef ég orðið þess var að kvenréttindakonur fordæmdu það sem vert væri.
Fleira er það og í sambandi við þessa bók sem athygli vekur, eins og tildæmis það að mikill meirihluti (líklega um eða yfir 70%) allra nafna í þessu riti sem þó á að heita grundvallarfræðirit eru rangt rituð, og á ég þar við að brodda vantar yfir stafi, é er skrifað je o.s.frv., en íslensku stafina þ æ ð og ö er þó þarna að finna.
Í bókinni má segja að litið sé á eiginkonur sem húsdýr, eða í besta falli sem börn. Nöfn þeirra eru (eins og nöfn barna undir 16 ára aldri) inndregin um eitt stafabil. Komið skal þannig í veg fyrir að eiginkonum og börnum sé ruglað saman við venjulegt fólk. Í sérstökum dálki aftast á hverri blaðsíðu er síðan aftan við nafn hverrar eininkonu getið um hver á viðkomandi kvenpersónu. Þ.e.a.s. þar er að finna nafnnúmer eiginmanns hennar. Hliðstæðu er ekki að finna hjá eiginmönnum.
Talnalykill er notaður til að tákna hjúskaparstétt fólks. T.d. hvort fólk er fráskilið, ekklar, ekkjur o.s.frv. Einn flokkurinn, sá nr. 8 vekur mesta athygli, en hann er yfir konur sem gifst hafa varnarliðsmönnum. Jafnvel þó verið geti að einhverjar hagkvæmnisástæður séu fyrir þessu, er þetta smekklaust og ber vott um fordóma. Það er ekki eins og allt kvenfólk sem gifst hefur útlendingum sé merkt svona, nei nei bara þær sem hafa lagst svo lágt að giftast varnarliðsmönnum. Og auðvitað eru engar hliðstæðar merkingar við nöfn karlmanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.1.2012 | 00:07
1586 - Better than botox
Gamla myndin.
Frá Ægisíðu í Reykjavík.
Better than botox hefur verið viðkvæðið í auglýsingum um langan tíma. Kannski hefur þetta orðalag ekki verið algengt á Íslandi en þeim mun algengara í Ameríku. Þar eru líka allskyns töfralyf auglýst undir drep. Mun meira en tíðkast hér á landi. Kannski eru Íslendingar því ögn meira auðtrúa en aðrir.
Nú er allt að kafna í tali um gallaða brjóstapúða. Mér finnst umræðan um þetta mál vera komin útúr öllu korti. Stjórnvöld hafa samt ekki brugðist óskynsamlega við í málinu, en margir hafa misst sig illilega. Auðvitað þekki ég ekki allar hliðar málsins en finnst að sjálfsögðu ekki að það sé þeim að kenna sem notið hafa fegrunaraðgerða að peningaplokkarar hafi platað þær. Vitanlega eiga þær að fá stuðning heilbrigðiskerfisins eins og aðrir.
Las nýlega bók um verksmiðjurekstur í Kína. Höfundurinn var einskonar milligöngumaður á milli verksmiðju einnar sem framleiddi sápur og fegrunarlyf ýmiss konar og amerísks innflytjanda. Eitt af því eftirminnilegasta úr bókinn er lýsing höfundar á því þegar amerískur heildsali hafði samband við hann og kvartaði yfir því að innihaldslýsingin væri nákvæmlega eins á sjampói, baðsápu og fljótandi handsápu frá þeim.
Verksmiðjan hafði svar við þessu á reiðum höndum: Þetta er allt það sama. Ameríski heildsalinn sagðist hafa vitað það, (eða lést hafa vitað það) en samt væri þetta óviðunandi. Innihaldslýsingunni var breytt.
Um daginn (kannski í gær) birti ég gamla mynd frá hestamannamóti og sagði að þar væri riðið hart. Við nánari umhugsun virðist mér sem notkum lýsingarorðsins hart í þessu sambandi (menn geta að sjálfsögðu einnig hlaupið eða keyrt hart) sé einkum afbökun á lýsingarorðinu hratt. Engu að síður er orðið talsvert notað í þessari merkingu í talmáli. Í mínum huga er samt nokkur munur á því að keyra hratt eða "keyra hart.
Ég er ekkert skyldugur til að ansa svona rugli. Geta ekki einu sinni ákveðið hvort ætlunin er að skrifa ensku eða íslensku. Iss.
Já, ég hef gaman af að skrifa, en skelfing er þetta sundurlaust hjá mér. Mér endist aldrei örendið til að gera þetta almennilega. Þar að auki skrifa ég alltof mikið og of oft. Kannski yrði þetta skárra hjá mér ef ég gerði það sjaldnar og betur. Það er samt ekkert víst að svo sé. Þori ekki að taka áhættuna. Held bara áfram að þrugla.
Það sem ég tek mest mark á í þessu sambandi eru vinsældatölurnar sem Moggabloggið lætur tölvu sína reikna út daglega. Samkvæmt henni fara vinsældir mínar sem bloggara fremur vaxandi en hitt. Einu sinni hafði ég það fyrir sið að senda upp blogg á hverju kvöldi um miðnættið. Nú er ég hættur þeirri vitleysu og blogga bara þegar mér sýnist og myndskreyti bloggin í bak og fyrir. (Bókstaflega)
Nú er tækifærið fyrir þá sem vilja verða það sem enskurinn kallar kingmaker. Ólafur Ragnar bíður eftir því að hafin verði undirskriftasöfnum sér til stuðnings og með ósk um að hann haldi áfram sem forseti. Það verður eflaust gert. En ekkert liggur á. Framboðsfresturinn rennur ekki út fyrr en í maí. Með þessu ruglar hann marga þeirra í ríminu sem gætu hugsað sér að taka við af honum. Þar að auki langar hann að komast í umræðuna þegar menn taka að þreytast á brjóstapúðunum. Allt er þetta útreiknað af mikilli snilld. Húsakaupin hjá honum og Dorrit eru jafnvel hluti af þeim útreikningi.
Enginn vafi er á að Teitur Atlason, Jónas Kristjánsson og Egill Helgason eru með bestu bloggurum landsins. Þeir (Teitur, Jónas og Egill) eru allir vinstri sinnaðir og það er sama hvað hægri sinnaðir bloggarar segja, þeir eru meðal þeirra bestu. Auðvitað reyna margir að gera lítið úr þeim en hafa ekki nærri alltaf erindi sem erfiði. Þeir blogga að vísu alltaf um fréttir dagsins eða stjórnmál. Kannski verður allt að fréttum sem þeir skrifa um, en góðir eru þeir og skrifa vel.
Bjartur í Sumarhúsum minnir fremur á Norður-Kóreu en Norðurlönd segir Jón Ormur Halldórsson í grein á netinu nýlega. (á visir.is minnir mig) Þetta er alveg rétt og vel að orði komist hjá honum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.1.2012 | 12:48
1585 - Miklihvellur
Gamla myndin.
Hér er riðið hart. Kannski mætti þekkja á fjöllunum í baksýn hvar þetta hestamannamót hefur verið. Ekki man ég það.
Þeir sem óskuðu með grátstafinn í kverkunum eftir nógu miklum jólasnjó (svo jólin yrðu jólaleg) hafa líklega fengið ósk sína uppfyllta. Mér finnst snjórinn og kuldinn vera farinn að valda vandræðum eins og alltaf er. Það er alveg nóg komið af snjó og ófærð hér á Reykjavíkursvæðinu og svo eru jólin þar að auki búin.
Í kyndlinum mínum er ég núna að byrja að lesa bók (eða réttara sagt pdf skrá) um Fermi´s paradox. Hann er svona á ensku: Where is everybody? Þar er Enrico Fermi, sem er þekktur m.a. fyrir þátttöku sína í Manhattan projektinu, að velta fyrir sér af hverju ekki séu geimverur útum allt. Margar skýringar eru til á því og um sumar (margar) þeirra er fjallað í bókinni. Þarna er meðal annars minnst á Drake-jöfnuna frægu og margt fleira. Mér finnst margt sem snertir kosmologiu mun eftirtekarverðara en trúmál. Hef lesið talsvert eftir Carl Sagan og fleiri og auðvitað séð sjónvarpsþættina sem hann stjórnaði. Man eftir sögu sem lesin var í útvarpið á sínum tíma (fyrir mjög löngu) og nefndist Svarta skýið og var eftir Fred Hoyle sem mig minnir að hafi einnig verið einn af forvígismönnum Big bang kenningarinnar á sínum tíma. Ætti sennilega að fara að kynna mér stjörnufræðivefinn en einhvern vegin hef ég aldrei haft tíma til þess.
Hvað mun gerast þegar bókasöfn fara að lána rafbækur. Þau lána núna hindrunarlaust hljóðbækur. Auðvitað er hæg að afrita hljóðskránar. Eða því geri ég ráð fyrir. Nenni samt ekki að prófa.
Eiríkur Örn Norðdahl skrifar um afritunarvarnir á rafbókum á bloggið sitt og fésbókina líka. Segir slíkar varnir tilgangslausar og valda einungis skaða og ruglingi auk þess að vera óhemju dýrar. Höfundarréttur er mér talsvert hugleikinn og margir hafa áhuga á honum. Það er samt ekki rétt að annar aðilinn ráði öllu þar. Það er jafnvitlaus hugmynd að listamenn ráði þar öllu eins og að hver og einn geti stolið því sem hann kærir sig um. Höfundarréttur hlýtur að vera eins konar samningur milli notenda hugverka og framleiðenda þeirra. Ýmsar aðgerðir aðila og stjórnvalda geta að sjálfsögðu haft áhrif á þróunina. Einnig tæknin sem notuð er og löggjöf í hverju landi.
Mér leiðast þessir árans mannkynsfrelsarar. Það verður varla þverfótað fyrir þeim. Allir keppast við að bjarga sem flestum börnum í Kína eða einhverju þess háttar og það má varla hafa skoðun á nokkru nema fá sér um leið áskrift að uppáhaldsbílæti mannkynsfrelsararns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.1.2012 | 09:30
1584 - Ritskoðun
Gamla myndin.
Frá flugsýningu. Fjórar herþotur í hnapp yfir Reykjavík.
Nú veit ég af hverju svona margir segjast ekki vera á fésbók eða kæra sig ekki um það. Þeir eru líklega líkir mér og vilja umfram allt vita hvað þeir eru að gera þar. Finnst of flókið að gera það samt og vilja frekar hafa hlutina einfalda. Fésbókin er fyrir þá sem vilja láta hugsa fyrir sig varðandi tölvumál og það er ekkert athugavert við það. Hugsa að þeir séu ekkert ákaflega margir sem vita nákvæmlega hvernig fésbókin virkar. Viðbætur við þetta vinsæla forrit og breytingar á því eru afar algengar og það er greinilega einhver fjöldi fólks sem vinnur við það að hugsa fyrir fésbókarnotendur. Mér leiðist samt frekjan í þessu forriti, en get samt ekki stillt mig um að fara þangað alltof oft.
Eftir því sem þeim fjölgar sem á fésbókinni eru og breytingar verða þar tíðari líkar mér verr við hana. Hún hentar samt ágætlega fyrir svona óformlegt kaffispjall og margt annað. Miklu síður fyrir svona einskonar eintal eins og ég stunda. Þegar spjall þar verður óþarflega hráslagalegt er hægt að eyða því. Allt vill hún samt vita þessi fésbók. Heimtar jafnvel af manni kort yfir það hvar maður hefur átt heima. Ég fæ alveg sérstaka ánægjutilfinningu við að neita henni um sem flest. Sé ekki betur en sumir stundi það að læka eða klikka á allt sem hægt er að klikka á.
Helsti kosturinn við farsímann er sá að þegar maður er af einhverjum ástæðum búinn að fela hann svo vel að maður getur ekki fundið hann, þá er þó hægt að finna hann aftur með því að hringja í hann úr öðrum síma. Þannig þyrfti það að vera með fleiri apparöt og jafnvel gleraugu líka. Auðvitað er farsíminn líka öryggistæki og það er sömuleiðis tillitssemi við aðra að hafa hann sem oftast í vasanum ef maður fer eitthvað. Sumir virðast samt verða dálítið háðir honum og geta alls ekki án hans verið.
Einu sinni voru allar búðir opnaðar klukkan 9 á morgnana. Sumar búðir voru opnaðar snemma. Þ.e.a.s. klukkan sjö eða átta. Núorðið er einstaka búð opnuð fyrir allar aldir eða klukkan tíu eða ellefu. Aftur á móti eru sumar búðir (matvörubúðir) núna opnar allan sólarhringinn en það þekktist ekki áður fyrr. Þá þurfti maður að fara uppað Geithálsi eða vestur á Seltjarnarnes ef maður vildi komast í búð á helgidegi eða óvenjulegum tíma. Eftir klukkan hálftólf á kvöldin var í mesta lagi hægt að hafa samband við lögreglu eða sjúkrahús ef lífshætta var á ferðum.
Það verður varla mikið mál að venja sig á hrókasamræður við tölvur. Man alltaf hvað ég varð miklu felmtri (ekki flemtri) sleginn þegar ég heyrði mann í rifrildi við sjálfan sig í verslun fyrst. Þegar betur var aðgætt var hann auðvitað með handfrjálsan símabúnað á öðru eyranu.
Ég kalla vefinn veftímarit frekar en bloggsíðu, því það eru seldar auglýsingar á síðuna (þegar þetta er ritað eru átta auglýsingaborðar á forsíðunni). Að auki kom forsprakki þeirra fram í DV föstudaginn 5. janúar og var titluð ritstjóri veftímaritsins Pjattrófur, og því má ætla að síðan sé ritstýrður fjölmiðill.
Segir Hildur Knútsdóttir í grein um ritskoðun á Knúz.is http://www.knuz.is/2012/01/af-ritskoun.html#.TwvyDSAw9nc.facebook Líklega ber að kalla knuz.is veftímarit. Það er alltaf álitamál hvort eitthvað er bloggsíða eða vefrit. Bloggurum finnst oft sem þeirra blogg séu vefrit þó þau séu það ekki. Ein aðferðin er að láta auglýsingar ráða, önnur fjölda heimsókna eða eitthvað allt annað. Er Facebook.com t.d. vefrit eða blogg? Nei, hvorugt auðvitað. Þetta er bara fésbók. Gísli Ásgeirsson skrifar oft á Knúz.is og vísaði á þessa grein eftir Hildi. Hann er alls ekki yfir ritskoðun hafinn sjálfur. Henti t.d. út einhverjum fésbókarathugasemdum sem ég gerði. Jú, jú. Þær voru ósköp ómerkilegar ef ég man rétt. Kannski má samt kalla það ritskoðun. Að langmestu leyti er ég samt sammála Hildi um það sem hún segir um ritskoðun í grein þeirri sem ég vitnaði í hér fyrir ofan.
Bekkur. Einmana og yfirgefinn í kuldanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.1.2012 | 08:01
1583 - Hafragrautur
Gamla myndin.
Gerður Garðarsdóttir.
Uppskriftir skipa yfirleitt ekki stóran sess á mínu bloggi. Minnir þó að einhverntíma hafi ég birt hafragrautaruppskrift. Þegar ég fæ mér hafragraut fer ég oftast nákvæmlega eftir þeirri uppskrift þó ónákvæm sé. Þannig eru yfirleitt hunang, kanill, döðlur og mjólk samanvið minn hafragraut. Slíkur grautur er nefnilega ekkert sérlega góður svona einn og sér, eða ekki minnir mig það. A.m.k. er ekki gott að blanda skyrafgangi samn við hann eins og gert var áður fyrr og nefndist útkoman þá hræringur. Nú hef ég komist að því að jafnvel er betra að hafa ódýrar þurrkaðar döðlur úr Bónus í grautnum en nýjar og læt ég þess getið hér því ekki er örgrannt um að hugsanlegt sé að einhver fari eftir þessari uppskrift.
Á vísi.is segir:
Vogaskóli verður fyrsti íslenski skólinn til að rafbókavæðast, en á þriðjudag fá allir nemendur við níunda bekk skólans afhenta Kindle spjaldtölvu til notkunar á vorönn í tilraunaskyni.
Kindle varð fyrir valinu þar sem spjaldtölvan er einföld, handhæg og hentar eingöngu til lestrar, svo nemendur geta ekki laumað sér á Fésbókina eða leikjasíður. Verkefnið er unnið í samvinnu við Námsgagnastofnun og Skólavefinn.
Þarna mundi ég halda að átt væri við lesvél en ekki spjaldtölvu. Kannski þekkja blaðamennirnir ekki muninn, en í mínum huga er það ekki tölva sem ekki kemst á vefinn.
Tölva, lesvél, lesbretti, rafbók o.s.frv. Svolítill ruglingur virðist vera á þessum orðum. Í mínum huga er þetta þó einfalt. Lesbretti er rugl. Rafbók er bara fæll. Hægt er að hafa a.m.k. nokkur þúsund rafbækur á einni lesvél samtímis. Annars eru afbrigðin af þessu nokkuð mörg og einkennilegt að lesvélar skuli fyrst núna vera að verða vinsælar á Íslandi.
Vafasamt er að jarðnæði eigi að erfast. Með tímanum safnast fjármagn saman og verður of valdamikið. Þegar fjármagn ræður stjórnmálum er hætta á ferðum. Mennirnir sjálfir eru mikilvægari en peningarnir. Hagsmunir peninganna og peningaaflanna sitja í fyrirrúmi í vestrænu skipulagi. Mennirnir sjálfi eru í öðru sæti. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Íslenska Hrunið stafaði af þessu. Vandræði hins vestræna heim stafa einnig að þessu. Nauðsynlegt er að koma böndum á peningana. Þeir mega ekki ráða öllu. Þá fer illa, eins og komið hefur í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.1.2012 | 09:35
1582 - DV
Gamla myndin.
Gerður Garðarsdóttir.
Mér finnst ekkert sniðugt hjá ÓRG að vilja ekki segja hvort hann ætlar að bjóða sig fram einu sinni enn. Auðvitað er hann ekkert hefðbundinn og vill ekki vera. Þetta er nú samt einum of mikið. Sjálfsagt er þó að reikna með að hann verði ekki eilífur augnakarl í þessu embætti. Veit heldur ekki hvað hann vill að margir gangi á eftir sér með þetta. Vel hugsanlegt að einhverjir verði til þess. Um leið og einhver þekkt persóna tilkynnir um framboð sitt á ég þó von á að hann hlaupi í felur.
Las um það á mbl.is í gærkvöldi að hin heilögu skráaskiptasamtök hafi verið stofnuð í Svíþjóð. Þetta eru trúarbrögð sem mér líst nokkuð vel á. Kannski er þetta skylt sjóræningjaflokknum sem bauð held ég fram í Svíþjóð í síðustu kosningum þar. Mig langar eiginlega til að kynnast þessu öllu betur. Kannski ég spyrji Gúgla um þetta eftir nokkra daga.
Ég er dálítið leiður á æsifréttamennsku vef-fjölmiðlanna. Það virðist vera um einhvern sérstakan óhugnaðarstuðul að ræða sem þýðendur þurfa að fara í gegnum. Eða eru bara einhver útlend götublöð látin ráða fréttavalinu? Tökum bara eftir röð þær fréttir sem í morgun var að finna á DV.is og hægt er að sjá hér á klippunni.
1. Dönsk kona er orðin forstjóri álverksmiðjunnar á Reyðarfirði. Fyrir allmörgum árum flakkaði hún um tíma um heiminn og var m.a. um tíma á Eskifirði.
2. A.m.k. ársgamalt mál sem líklega er búið að skrifa um áður. Að þetta hafi gerst í Noregi og þess getið í fyrirsögninni er þakkarvert.
3. Jú, kannski frétt. Páll Óskar er óánægður með að til standi að rífa Nasa Sjálfstæðishúsið. Margir geta eflaust tekið hlekkjalaust undir það.
4. Útlend æsifrétt.
5. Útlend æsifrétt.
6. Útlend æsifrétt.
7. Kannski frétt. Eru menn annars ekkert að þreytast á að skrifa um áramótaskaupið?
Veit ekki til að DV hafi minnst á hræðilegt loftbelgjarslys sem varð á Nýja Sjálandi í gær. 11 létust. Nei þýðingarnar blíva og svo þarf vissum óhugnaðarstaðli að ná. Þetta fer bara svolítið í taugarnar á mér.
Geir biður um gott veður og Bjarni Ben. og fleiri sjálfstæðisforkólfar styðja hann í því.
Í Úkraínu er fyrrverandi forsætisráðherra í fangelsi. Það er Júlía Tímósjenko með fléttuna stóru. Ekki veit ég fyrir hvað hún var sett inn en dómurinn hljóðar uppá sjö ár ef ég man rétt.
Ég er alls ekki að segja með þessu að Geir Haarde ætti að sitja inni. Get samt ekki séð að það sé nein minnkun að draga fyrrverandi forsætisráðherra fyrir dóm. Skárra væri það nú. Afbrot Júlíu þekki ég ekki. Held að hún hafi átt einhvern þátt í appelsínubyltingunni samt. Dóttir hennar er sögð óttast um líf hennar og maður hennar er flúinn til Tékklands. Enn er hún meðal vinsælustu stjórnmálamanna Úkraínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2012 | 23:33
1581 - Guðni Jónsson
Gamla myndin.
Ingibjörg Jónsdóttir frá Velli.
Guðni Jónsson fullyrðir í sögu sinni um Stokkseyri og hefur margskonar rök fyrir því að áður fyrr hafi allt svæðið milli stóránna Ölfusár og Þjórsár verið kallað Eyrar og Eyrarbakki hafi sömuleiðis náð alla leið þar á milli. Kannski er þetta leiðinlegt fyrir Eyrbekkinga dagsins í dag en það sem nú er kallað Eyrarbakki segir hann að hafi fengið það nafn á 19. öld.
Bækur Guðna um Stokkseyri eru tvær og mjög fróðlegar um þetta svæði og óhætt er að hvetja íbúa þess til að kynna sér þær. Árið 1960 voru þær gefnar út í einu bindi og það er einmitt það sem ég fékk lánað á Bókasafni Kópavogs um daginn.
Ég er sammála Jónasi Kristjánssyni um að lítils virði er að eiga stóran Gjaldeyrissjóð sem allur er í skuld. Er ansi hræddur um að erfiðlega gangi að losna við gjaldeyrishöftin. Varla verður það fyrr en við neyðumst til þess að afnema þau. Meðan þau eru við lýði verður okkur úthýst úr hópi siðaðra þjóða.
Auðvitað erum við fyrst og fremst það sem við étum. En hver ræður hvað við étum? Jón Ásgeir kannski? Eflaust er það eitthvað misjafnt en þeir sem það gera hljóta fyrst og fremst að bera ábyrgð á því hvernig við erum. Þannig má finna einhverja til að kenna um allt. Easy.
Um þetta leyti í fyrra held ég að ég hafi verið á Tenerife. Ekki var snjónum fyrir að fara þar. Samt er ágætt að vera hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)